Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 4. jan. 2025

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 4. sept. 2001 – 2. sept. 2004 Sjá núgildandi

651/2001

Reglugerð um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerðin fjallar um riðuveiki í sauðfé en ákvæði hennar taka einnig til riðuveiki í geitum og öðrum dýrategundum. Ákvæði reglugerðarinnar taka auk þess, eftir því sem við á, til tannloss og kýlapestar í sauðfé og geitfé.

2. gr.

Í reglugerð þessari merkja skilgreind orð eftirfarandi:
Fjárskipti: Þegar sauðfjárstofn jarðarinnar eða staðarins er felldur og nýr tekinn í staðinn.

Misjafnlega sýkt svæði: Svæði innan sama sóttvarnarsvæðis þar sem fyrir er sýkt svæði, eitt eða fleiri.

Riðujörð: Bújörð, jörð með aðra stöðu, eða staður þar sem riða hefur greinst sl. 20 ár.

Sóttvarnarsvæði (varnarhólf): Landsvæði sem afmarkast af varnarlínum, ám, vötnum, sjó eða öræfum sem ásamt fyrirskipaðri vörslu og öðrum varúðarráðstöfunum mynda farartálma eða fullkomna hindrun á samgangi dýra.

Sýkt svæði: Svæði þar sem riðuveiki hefur greinst sl. 20 ár. Svæðið getur verið allt sóttvarnarsvæðið eða hluti þess þar sem skemmra er síðan riða hefur greinst, skv. nánari skilgreiningu yfirdýralæknis hverju sinni.

Umráðamaður sauðfjár: Eigandi búfjár eða aðili sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði og vörslu þess í samræmi við gildandi reglur í viðkomandi sveitarfélagi og skv. samningi milli aðila.

Varnarlínur: Mörk sóttvarnarsvæða, þar með taldar girðingarlínur sem skiptast í aðalvarnarlínur og aukavarnarlínur.

II. KAFLI Almenn ákvæði.

3. gr.

Eigendum og umráðamönnum sauðfjár er skylt að tilkynna héraðsdýralækni eða yfirdýralækni án tafar ef riðuveiki gerir vart við sig í fjárstofni þeirra eða ef grunur vaknar um að sjúkdómurinn leynist í sauðfénu. Berist tilkynning beint til héraðsdýralæknis skal hann tilkynna yfirdýralækni um sjúkdóminn svo fljóttsem verða má. Fylgja skal fyrirmælum yfirdýralæknis um töku og meðferð á sýnum eða lifandi sauðfé sem senda skal til rannsóknar. Nákvæm skýrsla um sjúkdómsástand hjarðar og upplýsingar um vanhöld skal fylgja. Héraðsdýralæknir ákveður að höfðu samráði við yfirdýralækni, hvort farga skuli í rannsóknarskyni kind eða kindum sem grunur leikur á að séu með riðu, gegn bótum skv. IV. kafla.

Ef riðuveiki er staðfest leggur yfirdýralæknir til við landbúnaðarráðherra að viðkomandi hjörð verði lógað hið fyrsta.

4. gr.

Óheimilt er að flytja sauðfé til lífs milli sóttvarnarsvæða (varnarhólfa). Yfirdýralæknir getur heimilað flutning á sauðfé yfir varnarlínur vegna fjárskipta, til rannsókna og fyrir sæðingastöðvar til kynbóta. Einnig getur yfirdýralæknir veitt undanþágu til flutnings lambhrúta frá ósýktum svæðum til kynbóta á einstökum bæjum eða svæðum þar sem sauðfjársæðingastöðvar koma ekki að gagni eða aðrar brýnar ástæður eru fyrir hendi, svo sem arfgengir sjúkdómar eða verndarsjónarmið.

Á sýktum svæðum er óheimilt að flytja sauðfé til lífs úr hjörðum, í hjarðir eða á milli bæja. Skylt er að afla leyfis sveitarstjórnar og héraðsdýralæknis um fyrirhugaðar breytingar á upprekstri innan sveitar. Á sýktum svæðum skal ekki hýsa aðkomufé né fóðra eða brynna því með heimafé, hvorki við fjárrag haust og vor né á öðrum tímum. Ef hýsingin er óumflýjanleg af dýraverndarástæðum skal ekki nota til þess fjárhús, hlöður eða fjós. Hús eða svæði þar sem fé var hýst eða geymt skal sótthreinsa eftir notkun, telji héraðsdýralæknir það nauðsynlegt. Farga skal aðkomufé sem komið hefur fyrir á riðusýktum eða grunuðum bæ, nema yfirdýralæknir leyfi heimtöku þess. Þá er óheimilt að flytja milli bæja innan sýktra svæða, hvaðeina, sem getur borið smitefni milli staða, svo sem hey, heyköggla og hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold. Notkun sláturúrgangs og hrámetis til fóðrunar loðdýra er háð leyfi yfirdýralæknis. Heimilt er yfirdýralækni að láta stöðva flutninga og notkun flutningstækja til varasamra flutninga á dýrum og öðru sem smithætta getur stafað af og leita fulltingis lögreglu til þess.

Ull má aðeins flytja beint á söfnunar- eða vinnslustað. Óheimilt er að flytja ull á milli bæja nema með leyfi yfirdýralæknis. Endurnotkun ullarumbúða er óheimil.

Kostnað sem leiðir af ákvæðum greinarinnar bera aðilar sjálfir.

5. gr.

Landbúnaðarráðherra getur að fengnum tillögum yfirdýralæknis fyrirskipað að sauðfé sé haft í einangrun í lengri eða skemmri tíma þar sem grunur vaknar um riðuveiki. Yfirdýralæknir getur bannað flutning sauðfjár innan sóttvarnarsvæðis, milli sveitarfélaga og/eða einstakra bæja, sé það talið hafa þýðingu til að hindra útbreiðslu riðuveiki. Þá getur yfirdýralæknir fyrirskipað sérstakar litarmerkingar á sauðfé á svæðum, þar sem sýking hefur fundist eða grunur leikur á sýkingu. Merkin greiða ríkissjóður og viðkomandi sveitarfélag að jöfnu. Ennfremur er yfirdýralækni heimilt að fyrirskipa varnaraðgerðir, svo sem sótthreinsun, lyfjameðferð, ónæmisaðgerðir o.fl., eftir því sem þörf krefur og við á hverju sinni, á kostnað viðkomandi aðila.

6. gr.

Leitast skal við að samræma lögboðnar smalanir innan sveitar og milli sveita. Við allar lögréttir og skilaréttir (aukaréttir) skal vera tiltæk aðstaða til að einangra sjúkt eða grunað sauðfé. Línubrjóta og annað fé, sem vekur grunsemdir í göngum, rekstrum og fjársafni, skal einangra án tafar og senda beint í sláturhús eða lóga á staðnum, ef ekki er annars kostur. Héraðsdýralæknir getur ákveðið, að fengnu samþykki yfirdýralæknis og eftir tillögum sveitarstjórnar, að slátra skuli fé sem kemur fyrir að hausti fjarri eiginlegum sumarhögum og öðru fé, sem smithætta kann að stafa af. Skylt er að taka hausa til rannsóknar og önnur sýni samkvæmt fengnum leiðbeiningum héraðsdýralæknis. Eiganda og héraðsdýralækni skal tilkynnt um slíka lógun við fyrsta tækifæri. Hræið skal grafa djúpt eða urða rækilega og merkja staðinn svo hann finnist aftur. Við ákvörðun urðunarstaðar skal leita umsagnar viðkomandi heilbrigðiseftirlits, sbr. 13. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum.

Sauðfé af riðujörðum og sérmerkt sauðfé skal draga í sérstakan dilk.

Sveitarstjórn, fjallkóngar, réttarstjórar og hreppstjórar annast framkvæmd 1. og 2. mgr. og bændur almennt við smölun heimalanda sinna.

7. gr.

Yfirdýralækni er heimilt að láta fara fram skoðun og sýnatöku á sauðfé til þess að kanna útbreiðslu riðuveiki og fyrirskipa að fargað verði sjúkum eða grunsamlegum kindum á hvaða tíma árs sem er. Fjáreigendum er skylt að aðstoða við slíkar skoðanir og rannsóknir án sérstakrar þóknunar. Lógun skal framkvæmd í samráði við héraðsdýralækni gegn bótum skv. IV. kafla. Hlíta skal fyrirmælum hans og yfirdýralæknis um allt er lýtur að þessu.

Vegna eftirlits með riðuveiki er fjáreigendum skylt að senda árlega eðlilegan fjölda fullorðins fjár til sláturhúss en að öðrum kosti að afhenda héraðsdýralækni hausa af öllu fullorðnu fé sínu, sem lógað hefur verið eða eytt.

8. gr.

Komi upp rökstuddur grunur um riðuveiki eða riðuveiki er staðfest á einni jörð eða fleirum er yfirdýralækni heimilt að leita samkomulags um niðurskurð alls fjár á viðkomandi jörð/jörðum og eftir atvikum á stærra svæði, ef það þykir nauðsynlegt til að tryggja árangur af aðgerðum. Þegar sauðfé er lógað vegna riðuveiki skal gera skriflegan samning um allt er lýtur að lógun sauðfjárins, tímabundið fjárleysi á viðkomandi jörð og greiðslu bóta.

Náist ekki samkomulag skv. 1. mgr., getur landbúnaðarráðherra, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, fyrirskipað niðurskurð alls sauðfjár á riðujörð eða á tilteknu svæði og tímabundið fjárleysi í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu veikinnar.

9. gr.

Á jörðum þar sem riða hefur greinst sl. 10 ár er skylt að gera þeim sem erindi eiga í fjárhús viðvart um smithættu. Skylt er að gera nauðsynlegar ráðstafanir gegn því að menn geti borið veikina með sér. Yfirdýralæknir lætur í té merki til viðvörunar í þessu skyni. Héraðsdýralæknir skal hafa eftirlit með uppsetningu þeirra. Óheimilt er að flytja fjárklippur, markatengur, lyfjadælur og annan tækjabúnað, sem óhreinkast hefur af fé eða hugsanlega smitmengast á annan hátt á sýktu svæði, til nota í landbúnaði á ósýktu svæði, án vottorðs frá héraðsdýralækni um að fullnægjandi sótthreinsun hafi átt sér stað. Aðilar sem fara milli sóttvarnarsvæða eða misjafnlega sýktra svæða með tækjabúnað til landbúnaðarstarfa skulu fá starfsleyfi héraðsdýralæknis og vottorð um að fullnægjandi sótthreinsun hafi átt sér stað. Þessi tæki og önnur sem óhreinkast af sauðfé á sýktum svæðum skulu sótthreinsuð samkvæmt fyrirmælum héraðsdýralæknis að lokinni notkun á hverjum stað/jörð.

Sauðfé sem lógað er vegna riðu eða gruns um hana skal eyða með því að brenna það eða grafa. Eyða skal hræjum á þann hátt að ekki valdi hættu á útbreiðslu smitefna eða annarra skaðlegra efna. Við urðun skal leita umsagnar viðkomandi heilbrigðiseftirlits. Á sama hátt getur yfirdýralæknir fyrirskipað að eytt sé við slátrun hausum og innyflum og öðrum hættulegum vefjum úr sauðfé og öðrum dýrategundum á jörðum þar sem grunur er um sjúkdóminn.

III. KAFLI Eftirlit.

10. gr.

Héraðsdýralæknir skal hlutast til um að fylgst sé með hvort grunsamlegt sauðfé kemur fyrir í göngum, rekstrum og réttum og að fé sé skoðað á húsi a.m.k. einu sinni á ári þar sem riðuhætta er og að fjáreigendur fái leiðbeiningu um hvernig fylgja skuli reglum um riðuvarnir.

Héraðsdýralæknir skal hafa eftirlit með að allt sauðfé á jörð, þar sem yfirdýralæknir hefur fyrirskipað sérstakar litamerkingar, sé merkt.

Héraðsdýralæknir getur haft eftirlit með því að frá öllum bæjum á sýktum svæðum sé sendur eðlilegur fjöldi fullorðins sláturfjár til slátrunar eða hausar af fullorðnu fé til rannsókna.

11. gr.

Sveitarstjórn skal fylgjast með riðuvörnum innan marka sveitarfélagsins en getur einnig skipað sérstaka riðunefnd að fengnum tillögum héraðsdýralæknis eða falið starfandi landbúnaðarnefnd að annast þann málaflokk. Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr sveitarsjóði.

IV. KAFLI Kostnaður og bætur.

12. gr.

Bætur vegna niðurskurðar greiðast úr ríkissjóði. Bætur fyrir fullorðið fé vegna niðurskurðar skulu fara eftir fjártölu samkvæmt síðasta skattframtali, þó ekki umfram þann fjölda sem framvísað er til lógunar. Fullnaðargreiðsla fyrir felldan fjárstofn skal innt af hendi eigi síðar en 45 dögum eftir að förgun lauk, þó eigi fyrr en 21 degi eftir að samkomulag um bætur liggur fyrir.

Bætur skal miða við að fyrir hverja kind greiðist andvirði 16 kg dilks í gæðaflokki DR2, öðrum verðflokki, auk gæru og sláturs samkvæmt auglýstu viðmiðunarverði Landssamtaka sauðfjárbænda á hverjum tíma, að viðbættu 60% álagi, sem greiðist vegna minni afurðasemi gemlinga á fyrsta ári eftir fjártöku. Sé allur fjárstofninn 3ja vetra eða yngri við niðurskurð, skal álagið vera 70% fyrir 3ja vetra kindur, 85% fyrir 2ja vetra kindur og 100% fyrir veturgamlar kindur. Aldurinn þarf að staðfesta með fjárræktarskýrslum eða á annan fullnægjandi hátt að mati landbúnaðarráðherra.

Fari niðurskurður fram að hausti og sé lömbum eytt samkvæmt ákvörðun yfirdýralæknis, skulu þau bætt að fullu sem sláturlömb. Frálag þeirra skal metið út frá meðalfallþunga og flokkun á viðmiðunarárum afurðatjónsbóta, sbr. 13. gr., að viðbættu 3% álagi. Þó getur fjáreigandi vigtað lömbin undir eftirliti fulltrúa yfirdýralæknis og reiknast þá fallþungi sem 40% af þunga þeirra á fæti og gæruþungi í hlutfalli við fallþungann samkvæmt gildandi reglum sláturleyfishafa.

13. gr.

Afurðatjónsbætur skulu miðast við meðalafurðir sauðfjár á lögbýlinu síðustu þrjú ár fyrir niðurskurð samkvæmt skattframtölum og innleggsseðlum. Leggja skal til grundvallar framleitt dilkakjöt og kjöt af fullorðnu fé, gærur og slátur af dilkum og fullorðnu fé svo og ullarinnlegg og reikna meðalafurðir áranna eftir vetrarfóðraða kind, að teknu tilliti til bústofnsbreytinga. Þannig skal við bústofnsaukningu miða við 16 kg fallþunga og gæðaflokk DR2, annan verðflokk og við bústofnsskerðingu skal miða við 24 kg fallþunga í FR III.

Afurðatjónsbætur reiknast á eftirfarandi hátt:

1. Beingreiðslur greiðast samkvæmt gildandi samningi um framleiðslu sauðfjárafurða milli Bændasamtaka Íslands og ríkisstjórnar Íslands. Beingreiðslur miðast við greiðslumark lögbýlisins og jöfnunargreiðslur greiðast að fullu eins og þær voru ákvarðaðar á grundvelli framleiðsluáranna 1997-1999. Þó skulu jöfnunargreiðslur falla niður, ef framleiðsla búsins hefur ekki á viðmiðunarárum skv. 2. lið uppfyllt kröfur skv. reglugerð nr. 19/2001 um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum, beingreiðslur, uppkaupaálag og jöfnunargreiðslur 2001-2007. Álagsgreiðslur (uppkaupaálag og álag vegna gæðastýringar) skulu miðast við sömu framleiðsluforsendur og afurðatjónsbætur skv. 2. lið þessarar greinar. Ef niðurskurður fer fram haustið 2003 eða síðar skulu álagsgreiðslur vegna gæðastýringar þó því aðeins greiddar að uppfyllt hafi verið skilyrði til slíkra greiðslna samkvæmt gildandi reglum þar um. Um fyrirkomulag greiðslna og gjalddaga skulu gilda ákvæði reglugerðar nr. 19/2001 um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum, beingreiðslur, uppkaupaálag og jöfnunargreiðslur 2001-2007.
2. Meðalafurðir síðustu þriggja ára eftir hverja kind sem fargað er, sbr. 2. mgr., skulu reiknaðar til verðs samkvæmt auglýstu viðmiðunarverði Landssamtaka sauðfjárbænda á hverju fjárleysisári að teknu tilliti til útflutningsverðs og hlutfalls á fjárleysisárinu. Frá bótaupphæð sem þannig er fundin skal draga tiltekið hlutfall af breytilegum kostnaði við framleiðslu sauðfjárafurða í kostnaðargrundvelli á hverjum tíma, reiknaðan á hverja vetrarfóðraða kind eins og hér greinir:
a) 75% á fyrsta/fyrra fjárleysisári, ef niðurskurður fer fram að hausti og unnt er að afsetja heyfeng eða heyöflun hefur ekki farið fram. Þetta hlutfall gildir einnig á síðari fjárleysisárum.
b) 35% á fyrsta/fyrra fjárleysisári, ef niðurskurður fer fram fyrir árslok og ekki er unnt að afsetja heyfeng.
c) 25% á fyrsta/fyrra fjárleysisári, ef niðurskurður fer fram á tímabilinu frá 1. janúar til 31. mars.
d) 5% á fyrsta/fyrra fjárleysisári, ef niðurskurður fer fram á tímabilinu frá 1. apríl og þar til sauðfé er sleppt í sumarhaga.

14. gr.

Ef unnt er að nýta afurðir sauðfjár sem fargað er að hluta eða í heild, kemur verðmæti þeirra afurða til frádráttar bótagreiðslum.

Réttur til bóta glatast að öllu leyti eða að hluta ef eigandi sauðfjár fer ekki eftir ákvæðum um varúðarráðstafanir, fjárleysi á jörðinni, lagfæringu á girðingum, sótthreinsun húsa og kaup á líflömbum. Sama gildir ef eigandi sauðfjár verður sér úti um fé sem hann vissi eða mátti vita, með tilliti til aðstæðna, að haldið var sjúkdómi eða hefur valdið því með ásetningi eða vanrækslu að sauðfé hans smitaðist.

15. gr.

Aðili sem fargað hefur sauðfé vegna riðuveiki skal hreinsa útihús og nánasta umhverfi þeirra á eigin kostnað eftir fyrirmælum og undir eftirliti héraðsdýralæknis á svæðinu. Ákveða skal í samningi hvernig hreinsun húsa og umhverfis skuli hagað og hvenær lokið. Heimilt er að halda eftir allt að 30% bótafjár þar til sótthreinsun er lokið.

Yfirdýralæknir leggur til sérstök sótthreinsiefni og vinnu við þá sótthreinsun. Auk þess greiðir yfirdýralæknir fyrir hreinsiefni, svo sem fúavarnarefni og málningu. Heimilt er að leggja andvirði sótthreinsunarkostnaðar til endurnýjunarefna sé það talið hagkvæmara. Þá er heimilt að taka þátt í kostnaði við jarðvegsskipti, ef sækja þarf efni um langan veg.

Yfirdýralækni er heimilt að bæta að hluta annað sannanlegt tjón sem hlýst af ákvæðum reglugerðar þessarar.

16. gr.

Yfirdýralæknir ákveður hvar heimilt sé að taka fjárskiptalömb. Yfirdýralæknir getur fyrirskipað sérstakar varúðarráðstafanir í heimahéraði áður en til flutninga kemur. Ef flytja þarf líflömb vegna fjárskipta samkvæmt ákvörðun yfirdýralæknis úr fjarlægum héruðum, skal ríkissjóður greiða 90% flutningskostnaðar, enda sé hagkvæmni gætt hvað varðar fjarlægðir. Kaup á fjárskiptafé og vörslu í flutningum annast kaupendur líflamba.

V. KAFLI Refsiákvæði og gildistaka.

17. gr.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum 30. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

18. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 25 7. apríl 1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum, lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, ásamt síðari breytingum og lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru, ásamt síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 583/1996 um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar og reglugerð nr. 4/1942um varnir gegn útbreiðslu nokkurra næmra sauðfjársjúkdóma og stuðning til bænda er líða tjón af þeim.

Landbúnaðarráðuneytinu, 4. september 2001.

Guðni Ágústsson.

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.