Fara beint í efnið

Prentað þann 23. nóv. 2024

Stofnreglugerð

650/2024

Reglugerð um greiðslu sérstaks vaxtastuðnings.

1. gr. Sérstakur vaxtastuðningur.

Ríkissjóður skal á árinu 2024 greiða sérstakan vaxtastuðning til einstaklinga sem bera vaxtagjöld af lánum ársins 2023 samkvæmt skattframtali 2024 sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota eftir því sem nánar er kveðið á um í þessari reglugerð.

2. gr. Ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings.

Ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings er bundin við árið 2024, þ.e. frumákvörðun við álagningu 2024 skv. 98. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, breytingar vegna kæru á þeirri álagningu skv. 99. gr. laganna og eftir atvikum leiðréttingar skv. 2. mgr. 101. gr. sömu laga, allt innan ársins 2024. Komi í ljós, sbr. ákvæði 96. gr. laga um tekjuskatt, að sérstakur vaxtastuðningur hafi á sínum tíma verið ákvarðaður of hár miðað við leiðréttan grundvöll skattlagningar þess árs, þá stofnast krafa vegna þess mismunar en ekki verður gerð breyting á framkvæmdri ráðstöfun inn á lán.

Sérstakur vaxtastuðningur skal tilkynntur með niðurstöðu álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2024. Um rétt til sérstaks vaxtastuðnings gilda að öðru leyti ákvæði B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, sbr. og ákvæði til bráðabirgða XLI, eftir því sem við á.

3. gr. Stofn til útreiknings sérstaks vaxtastuðnings.

Stofn til útreiknings sérstaks vaxtastuðnings skal vera 23% af vaxtagjöldum ársins 2023, samkvæmt skattframtali 2024, vegna lána sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þ.m.t. eru kaup á búseturétti samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Stofn skv. 1. mgr. skerðist hlutfallslega fari eignir skv. 72. gr. laga um tekjuskatt, að frádregnum skuldum skv. 1. mgr. 75. gr. laganna, fram úr 18.000.000 kr. hjá einstaklingi eða einstæðu foreldri og 28.000.000 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Skerðingarhlutfallið skal vera 0,5% af hreinni eign skv. 1. málsl.

Stofn skv. 1. mgr. skerðist í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 6.000.000 kr. hjá einstaklingi eða einstæðu foreldri og 9.600.000 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Með tekjuskattsstofni samkvæmt þessari grein er átt við sama stofn og vaxtabætur eru ákvarðaðar út frá, sbr. B-lið 68. gr. laga um tekjuskatt, sbr. og ákvæði til bráðabirgða XLI, eftir því sem við á. Skerðingarhlutfallið skal vera 4% af tekjuskattsstofni umfram skerðingarmörk.

Sérstakur vaxtastuðningur skal ákvarðaður sem nemur stofni skv. 1. mgr. að teknu tilliti til skerðinga skv. 2. og 3. mgr.

4. gr. Fjárhæð sérstaks vaxtastuðnings.

Sérstakur vaxtastuðningur getur að hámarki numið 150.000 kr. á ári fyrir einstakling, 200.000 kr. á ári fyrir einstætt foreldri og sameiginlega 250.000 kr. fyrir hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt, í lok tekjuárs. Hámark sérstaks vaxtastuðnings hjá þeim sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga um tekjuskatt hluta úr ári ákvarðast í hlutfalli við dvalartíma á árinu. Sérstakur vaxtastuðningur kemur ekki til útgreiðslu og sé hann lægri en 5.000 kr. í hverju tilviki, sbr. lokamálsgrein 3. gr. fellur hann niður.

5. gr. Val lántakanda.

Á tímabilinu 1.-30. júní 2024 er þeim heimilt sem hafa fengið ákvarðaðan sérstakan vaxtastuðning að velja á þjónustusíðu sinni á skattur.is inn á höfuðstól hvaða láns, sbr. 3. gr., skuli greiða þá fjárhæð, eða eftir atvikum dreifa henni til jafnrar lækkunar á afborgunum, þ.m.t. verðbætur og vextir, tiltekins láns út árið 2024, eða eftir atvikum á árinu 2025 þegar um er að ræða útreikning sem fram fer í lok árs 2024, sbr. 6. gr., þar til fjárhæðinni er allri ráðstafað. Dreifing greiðslna samkvæmt framangreindum hætti getur aldrei orðið lengri en sem nemur að hámarki fjórum mánuðum. Ákvörðun um ráðstöfun er bindandi en ef ekkert er valið skal greiða inn á höfuðstól þess láns sem er með hæstu eftirstöðvar samkvæmt skattframtali 2024. Komi til uppgreiðslu eða endurfjármögnunar láns þar sem valin hefur verið jöfn lækkun á afborgunum skal sú fjárhæð sérstaks vaxtastuðnings sem þá stendur eftir greiðast inn á höfuðstól þess láns sem sætir uppgreiðslu eða endurfjármögnun og ef við á til greiðslu uppgreiðslugjalds.

6. gr. Ráðstöfun inn á höfuðstól eða afborgun láns.

Ríkisskattstjóri skal á tímabilinu 1.-31. júlí 2024 afhenda Fjársýslunni upplýsingar um ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings ásamt upplýsingum um ráðstöfun hans til lækkunar höfuðstóls eða til greiðslu afborgana tilgreinds láns, sbr. 5. gr. Að lokinni kærumeðferð skv. 1. mgr. 99. gr. laga um tekjuskatt og leiðréttingum skv. 2. mgr. 101. gr. sömu laga skal ríkisskattstjóri jafnframt á tímabilinu 1.-31. desember 2024 afhenda Fjársýslunni upplýsingar skv. 1. málsl. vegna sérstaks vaxtastuðnings sem ákvarðaður hefur verið eftir fyrri afhendingu. Fjársýslan greiðir sérstakan vaxtastuðning og miðlar upplýsingum á tímabilinu 1.-15. ágúst til lánveitenda, þ.e. lánastofnana, lífeyrissjóða og annarra aðila sem veita lán til íbúðakaupa gegn veði í fasteign, sem ráðstafa greiðslunum beint inn á lán, og ef við á til greiðslu uppgreiðslugjalds, eða afborganir á tímabilinu 16.-31. ágúst í samræmi við 5. gr. Séu lán í vanskilum fer um greiðsluna eftir hefðbundinni greiðsluröð samkvæmt lánaskilmálum. Hafi lántakandi notið greiðslujöfnunar á grundvelli laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga skal fyrst greiða inn á skuld á jöfnunarreikningi. Vaxtagjöld vegna uppgreiddra húsnæðislána sem ekki hafa verið endurfjármögnuð veita ekki rétt til sérstaks vaxtastuðnings.

7. gr. Kaupleiguíbúðir.

Þeir sem keypt hafa búseturétt samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins eiga rétt á sérstökum vaxtastuðningi vegna vaxtagjalda sem veita rétt til vaxtabóta og innheimt eru með búsetugjaldi eða leigugjöldum, sbr. 1. gr.

Hver sá sem keypt hefur búseturétt skv. 1. mgr. og ákvarðaður hefur verið sérstakur vaxtastuðningur getur valið á þjónustusíðu sinni á skattur.is inn á hvaða lán, sbr. 1. mgr. 3. gr., skuli greiða greinda fjárhæð. Einungis þeir sem keypt hafa búseturétt og tekið hafa húsnæðislán til þeirra kaupa sem skráð er í kafla 5.2 í skattframtali geta valið hvort ráðstafa skuli sérstökum vaxtastuðningi inn á höfuðstól eða afborganir þess láns, sbr. 6. gr. Ákvörðun um lán er bindandi en ef ekkert er valið skal greiða inn á afborganir þess láns sem er með hæstu eftirstöðvar samkvæmt skattframtali. Heimilt er að velja að ráðstafa sérstökum vaxtastuðningi til jafnrar lækkunar á þeim hluta greidds búsetugjalds sem stafar af láni sem tekið var til fjármögnunar húsnæðisins, út árið 2024, eða eftir atvikum á árinu 2025 þegar um er að ræða útreikning sem fram fer í lok árs 2024, sbr. 6. gr., þar til fjárhæðinni er allri ráðstafað. Búseturéttarfélag ráðstafar þá greiðslum inn á búsetugjald búseturéttarhafa eins og hver önnur lánastofnun sem veitir lán til íbúðakaupa gegn veði í fasteign í samræmi við reglugerð þessa.

8. gr. Ýmis ákvæði.

Ráðstafi lánveitandi ekki greiðslu inn á afborganir í samræmi við reglugerð þessa skal hann ráðstafa greiðslu inn á lán sem uppfyllir skilyrði reglugerðar þessarar en sé honum það ekki unnt skal hann endurgreiða Fjársýslunni þá fjárhæð sem ekki var ráðstafað. Greiðsla sérstaks vaxtastuðnings, sem ekki ber vexti, telst eign ríkissjóðs þar til ráðstöfun hennar hefur farið fram og verður ekki nýtt í öðrum tilgangi en leiðir af reglugerð þessari.

Sérstökum vaxtastuðningi verður ekki skuldajafnað eins og mælt er fyrir um í 14. mgr. B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt.

Sérstakur vaxtastuðningur samkvæmt ákvæði þessu telst ekki til skattskyldra tekna og kemur til viðbótar vaxtabótum skv. B-lið 68. gr., sbr. ákvæði til bráðabirgða XLI í lögum um tekjuskatt.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða LXXXI í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, tekur þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 29. maí 2024.

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Ingibjörg Helga Helgadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.