Prentað þann 20. des. 2024
630/2021
Reglugerð um úthlutun sjónglerja eða snertilinsa.
1. gr. Úthlutun sjónglerja eða snertilinsa.
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu úthlutar nauðsynlegum sjónglerjum eða snertilinsum með greiðsluþátttöku stofnunarinnar í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar til einstaklinga sem ekki eiga rétt á sérhæfðum hjálpartækjum sem er úthlutað á vegum Tryggingastofnunar eða Heyrnar- og talmeinastöðvar eða ef slík hjálpartæki eru ekki fullnægjandi.
2. gr. Réttur til sjónglerja eða snertilinsa.
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu úthlutar nauðsynlegum sjónglerjum eða snertilinsum með greiðsluþátttöku stofnunarinnar, til:
- Barna yngri en 18 ára.
-
Fullorðinna einstaklinga sem:
- Eru augnsteinslausir (aphaki).
- Eru með tvísýni og þurfa á prismagleraugum að halda.
- Eru hánærsýnir (myopia gravis) > -12,00.
- Eru háfjarsýnir (microphathalmia) > +10,00.
- Eru með lausa augasteina (luxatio lentis).
- Þurfa að breyta gleraugnastyrk umtalsvert, að mati sérgreinalæknis í augnlækningum, vegna augnsjúkdóma eða skurðaðgerða, svo sem keiluglæru (keratoconus), eftir hornhimnuígræðslu eða nethimnulossaðgerð.
3. gr. Greiðsluþátttaka vegna sjónglerja eða snertilinsa.
Einstaklingar skulu greiða að fullu kostnað við sjóngler eða snertilinsur, sbr. 2. gr.
Þrátt fyrir 1. mgr. skal Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu taka þátt í kostnaði einstaklinga, sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, við sjóngler eða snertilinsur. Þátttaka stofnunarinnar getur aldrei verið hærri fjárhæð en sem nemur kaupverði glerja eða linsa samkvæmt framlögðum reikningi.
Hámark greiðsluþátttöku Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu samkvæmt 2. mgr. er tilgreind í fylgiskjali við reglugerð þessa, sbr. þó 4. gr. Börn á aldrinum 0 - 6 ára eiga rétt á hámarksgreiðsluþátttöku sem er tilgreint í fylgiskjali við reglugerð þessa. Fyrir börn 7 ára og eldri og fullorðna getur greiðsluþátttaka stofnunarinnar aldrei orðið hærri en 50% af hámarki greiðsluþátttöku.
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu tekur ekki þátt í kostnaði við sjóngler eða snertilinsur fyrir einstaklinga sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, nema í gildi sé samningur um þjónustuna við það ríki sem þeir koma frá. Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvort einstaklingur telst sjúkratryggður hér á landi samkvæmt lögunum.
4. gr. Tíðni úthlutunar sjónglerja eða snertilinsa.
Einstaklingur getur mest fengið úthlutað sjónglerjum eða snertilinsum með greiðsluþátttöku Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðing skv. 3. gr. sem hér segir:
- barn á aldrinum 0 - 6 ára, tvisvar á ári.
- barn á aldrinum 7 - 12 ára, árlega.
- barn á aldrinum 13 - 17 ára, annað hvert ár.
- fullorðnir einstaklingar, þriðja hvert ár.
Breytist sjónlag sem nemur ≥ +/- 0,75 eða meira hjá einstaklingi skv. c-lið skal greiðsluþátttaka ríkisins vera skv. b-lið. Breytist sjónlag umtalsvert að mati sérgreinalæknis í augnlækningum áður en ofangreindum tímabilum lýkur er Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu heimilt að ákveða tíðari úhlutun en mælt er fyrir um í 1. mgr.
Greiðsluþátttaka fer ekki fram fyrir bæði sjóngler og snertilinsur til sama einstaklings innan sama tímabils.
5. gr. Málsmeðferð.
Einstaklingar skulu leggja fram umsókn um úthlutun sjónglerja eða snertilinsa með greiðsluþátttöku Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu til stofnunarinnar. Umsókn skal leggja fram á sérstöku rafrænu umsóknareyðublaði, þar sem koma fram ástæður gleraugnanotkunar (sjúkdómsgreining), styrkleiki og verð glerja eða snertilinsa. Með umsókn skal leggja fram staðfestingu frá augnlækni eða sjóntækjafræðingi á þörf fyrir sjóngler eða snertilinsur. Um meðferð umsókna fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Einstaklingar sjá sjálfir um val á sjónglerjum og snertilinsum og hafa með höndum alla umsýslu í tengslum við að útvega gler og linsur, þ.m.t. að leggja út fyrir kostnaði sem nemur greiðsluþátttöku Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
6. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 4., 9. og 11. gr. laga nr. 160/2008 um lög um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og öðlast gildi þann 1. júní 2021.
Félagsmálaráðuneytinu, 18. maí 2021.
Ásmundur Einar Daðason.
Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.