Prentað þann 4. des. 2024
630/2020
Reglugerð um stuðning við garðyrkju.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Almenn ákvæði.
- II. KAFLI Beingreiðslur A.
- 8. gr. Umsókn og réttur til beingreiðslna A.
- 9. gr. Heildarfjárhæð og framkvæmd beingreiðslna.
- 10. gr. Skipting beingreiðslna A milli afurða.
- 11. gr. Útreikningur beingreiðslna á afurðaeiningar.
- 12. gr. Endurskoðun á einingaverði beingreiðslna.
- 13. gr. Gjalddagar beingreiðslna.
- 14. gr. Umboðssala og réttur til beingreiðslna.
- III. KAFLI Beingreiðslur B.
- IV. KAFLI Upplýsingar og gögn um sölu afurða, skýrsluhald o.fl.
- V. KAFLI Niðurgreiðsla á raforku.
- VI. KAFLI Jarðræktarstyrkur.
- VII. KAFLI Ýmis ákvæði.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um stuðningsgreiðslur til framleiðenda garðyrkjuafurða, svo sem beingreiðslur til framleiðenda og niðurgreiðslu á raforku samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, dagsettum 19. febrúar 2016.
2. gr. Orðskýringar.
Jörð: Tölvukerfi og gagnagrunnur sem heldur utan um skýrsluhaldskerfi og skýrsluhaldsgögn í jarðrækt. Tölvukerfið sækir upplýsingar um stafræn túnkort úr túnkortagrunni Bændasamtaka Íslands.
Lífræn framleiðsla: Landbúnaður sem stundaður er í samræmi við gildandi reglugerð um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara, með síðari breytingum.
Rótarafurðir: Allar afurðir til manneldis sem vaxa neðanjarðar eins og kartöflur, rófur, gulrætur, næpur og aðrar sambærilegar afurðir.
Afurðir ræktaðar ofanjarðar: Hér er átt við afurðir eins og blómkál, hvítkál, kínakál, rauðkál og aðrar sambærilegar afurðir.
Garðávextir: Grænmeti og önnur ræktun til manneldis, úr matjurtagörðum og ræktunarlandi.
Ylrækt: Ræktun í gróðurhúsum þar sem jarðhiti er nýttur til upphitunar, auk svepparæktunar.
Tengdur aðili: Við afmörkun tengdra aðila í reglugerð þessari skal líta til II. kafla laga um stjórn fiskveiða.
Túnkort: Rafrænt, hnitsett myndasafn af túnum og ræktarlandi.
3. gr. Handhafar greiðslna.
Greiðslur samkvæmt reglugerð þessari fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
- eru skráðir eigendur eða leigjendur garðyrkjubýlis með lögheimili á Íslandi og
- stunda framleiðslu garðyrkjuafurða á garðyrkjubýlinu með virkt virðisaukaskattsnúmer og starfsemi þeirra fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT2008, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64, 01.70 og 02.40.
Hjón og einstaklingar í óvígðri sambúð, samkvæmt skráningu í þjóðskrá, sem standa saman að búrekstri geta óskað eftir því að greiðslum samkvæmt reglugerð þessari sé skipt jafnt á milli aðila. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna.
4. gr. Röskun framleiðsluskilyrða.
Heimilt er að ákveða að greiðslur samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðanda garðyrkjuafurða, dagsettum 19. febrúar 2016, verði greiddar til framleiðanda óháð framleiðslu á lögbýli eða garðyrkjubýli ef framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna áfalla, sbr. 32. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Framleiðandi sem telur sig hafa orðið fyrir slíkum áföllum skal sækja um greiðslur samkvæmt greininni eins fljótt og unnt er til ráðuneytisins.
5. gr. Opinbert eftirlit.
Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari.
6. gr. Framkvæmdanefnd búvörusamninga.
Framkvæmdanefnd búvörusamninga er samráðsvettvangur samningsaðila samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða.
Framkvæmdanefnd búvörusamninga aflar upplýsinga um þróun framleiðslu og sölu á garðyrkjuafurðum, afurðaverð, inn- og útflutning afurða, afkomuþróun í garðyrkju, auk annarra upplýsinga sem hafa þýðingu fyrir framkvæmd samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða.
Framkvæmdanefnd búvörusamninga er heimilt að taka ákvörðun um að færa framlög milli einstakra verkefna sem falla undir samning um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, sbr. töflu í viðauka I við samninginn. Heimild þessi getur m.a. átt við, ef til þess kemur, innan viðkomandi rekstrarárs, að áætluðum fjármunum til einstaka þátta verður ekki ráðstafað að fullu vegna þeirra takmarkana sem gilda um hámarksstuðning skv. 7. gr.
Ef í ljós kemur að framleiðsluáætlun skv. 11. gr. gefur til kynna umtalsverðar breytingar á framleiðslumagni milli tegunda er framkvæmdanefnd búvörusamninga heimilt að endurskoða hlutfallslega skiptingu milli tegunda skv. 10. gr.
7. gr. Hámarksstuðningur við hvern framleiðanda.
Hlutdeild framleiðanda eða framleiðenda sem eru í eigu einstakra aðila, einstaklinga, lögaðila eða tengdra aðila má ekki vera hærri en:
- Vegna beingreiðslna A, mest 10% af heildarbeingreiðslum sem til ráðstöfunar eru á viðkomandi rekstrarári samkvæmt fjárlögum.
- Vegna niðurgreiðslu á flutnings- og dreifingarkostnaði raforku, mest 15% af þeirri heildarfjárhæð sem til ráðstöfunar er á viðkomandi rekstrarári samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða samkvæmt fjárlögum.
- Vegna beingreiðslna B, mest 10% af heildarbeingreiðslum sem til ráðstöfunar eru á viðkomandi rekstrarári samkvæmt fjárlögum.
II. KAFLI Beingreiðslur A.
8. gr. Umsókn og réttur til beingreiðslna A.
Halda skal skrá yfir handhafa beingreiðslna.
Framleiðendur, sem tóku við beingreiðslum á árinu á undan þurfa ekki að sækja sérstaklega um fyrir næsta ár, en þeir skulu skila áætlun fyrir 15. febrúar ár hvert, þar sem fram kemur flatarmál gróðurhúsa, sem ætlað er til framleiðslu fyrir hverja tegund svo og áætluð framleiðsla af hverri tegund á komandi ári og upplýsingar um hvort ræktun sé með raflýsingu eða öðrum hætti, ásamt upplýsingum um hámarks orkuþörf. Feli áætlun í sér meira en 10% frávik frá framleiðslu síðasta árs skal gera sérstaka grein fyrir henni. Einnig skal liggja fyrir fullnaðaruppgjör vegna ársins á undan áður en beingreiðslur fást greiddar vegna næsta árs.
Þeir aðilar sem ekki tóku við beingreiðslum á árinu á undan en vilja öðlast rétt til þeirra að uppfylltum skilyrðum, sbr. 3. gr., skulu senda umsókn til ráðuneytisins fyrir 15. febrúar ár hvert. Þá skulu umsækjendur skila áætlunum skv. 11. gr.
Ef fullnægjandi gögnum skv. 2. mgr. er ekki skilað á réttum tíma verða beingreiðslur ekki greiddar fyrr en framleiðendur hafa gert úrbætur.
Tilkynna skal ráðuneytinu án tafar um breytingar á skrá yfir handhafa beingreiðslna.
Réttur til beingreiðslna er bundinn við handhafa. Framsal þeirra er óheimilt.
9. gr. Heildarfjárhæð og framkvæmd beingreiðslna.
Beingreiðslur A skulu greiddar til framleiðenda út á eigin framleiðslu á tómötum, gúrkum og papriku. Framlög samkvæmt fjárlögum hvers árs skiptast upp eftir áðurnefndum tegundum og greiðast til framleiðenda miðað við selt magn af þessum afurðum.
10. gr. Skipting beingreiðslna A milli afurða.
Heildarbeingreiðslur skiptast á afurðir sem hér segir:
- Tómatar 49%.
- Gúrkur 37%.
- Paprika 14%.
Ef í ljós kemur að framleiðsluáætlanir gefa til kynna umtalsverða breytingu á framleiðslumagni milli tegunda er heimilt að endurskoða ofangreinda skiptingu, sbr. 2. mgr. 6. gr.
11. gr. Útreikningur beingreiðslna á afurðaeiningar.
Heildarfjárhæð beingreiðslna sem er til ráðstöfunar fyrir hverja afurð skal deilt á selt magn innan ársins, frá og með 1. janúar ár hvert. Flokka skal tómata, gúrkur og papriku eftir flokkunarreglum Sambands garðyrkjubænda um gæðaflokkun þessara afurða og skulu beingreiðslur einungis greiddar út á selt magn afurða sem fara í fyrsta flokk.
Ráðuneytið gerir áætlun að fengnum upplýsingum frá framleiðendum um sölumagn framangreindra afurða fyrir árið. Áætla skal beingreiðslur pr. kg miðað við áætlað sölumagn og greiða 80% af áætluðum beingreiðslum pr. kg sem fyrstu greiðslu eftir sölu hvers mánaðar.
Við lokauppgjör skv. 21. gr. skal finna út beingreiðslur á hvert kg afurðar miðað við heildarfjárhæð beingreiðslna skv. 10. gr. með því að deila þeim á það magn, sem staðfest er að selt hafi verið á árinu og skulu þær greiddar framleiðendum að frádregnum þeim greiðslum sem fram hafa farið. Ef upp kemur ágreiningur um rétt til beingreiðslna skulu þeir fjármunir sem um er deilt ekki koma til greiðslu við lokauppgjör fyrr en leyst hefur verið úr ágreiningnum.
12. gr. Endurskoðun á einingaverði beingreiðslna.
Ráðuneytið skal tvisvar á ári hverju, fyrir 1. júlí og fyrir 1. október, endurskoða spár um framleiðslumagn ársins um breytingar á fyrirframgreiðslu á selda einingu, sbr. 14. gr. Ef til lækkunar kemur á beingreiðslum á einingu afurðar til hvers handhafa, skulu þær endurreiknaðar frá upphafi árs í samræmi við breytingar á einingaverðum, á þann hátt að til útborgunar á árinu komi að hámarki 88% af áætluðum beingreiðslum á einingu við endurskoðun 1. júlí. Við endurskoðun 1. október skal breyta fyrirframgreiðslum í 93% af áætluðum beingreiðslum á einingu.
13. gr. Gjalddagar beingreiðslna.
Fyrsti gjalddagi er 1. apríl ár hvert og síðan 1. hvers mánaðar vegna sölu næstsíðasta mánaðar að því tilskildu að gögnum vegna sölu sé skilað á réttum tíma, sbr. 20. gr. Berist gögn síðar frestast afgreiðsla beingreiðslna til næsta gjalddaga.
14. gr. Umboðssala og réttur til beingreiðslna.
Framleiðandi getur einungis öðlast rétt til beingreiðslna með sölu eigin framleiðsluafurða en ekki með sölu á afurðum sem hann hefur keypt af öðrum. Sala afurða veitir aðeins rétt til beingreiðslna sé kaupandi bókhaldsskyldur hvort sem um er að ræða kaup til eigin rekstrar eða til endursölu. Sömu reglur gilda um umboðssölu.
III. KAFLI Beingreiðslur B.
15. gr. Umsókn og réttur til beingreiðslna B.
Ylræktendum skulu tryggðar beingreiðslur vegna annarrar ylræktar ætlaðri til manneldis auk svepparæktar, en greitt er fyrir með beingreiðslum A samkvæmt II. kafla reglugerðarinnar.
Halda skal skrá yfir rétthafa og handhafa beingreiðslna B. Tilkynna skal án tafar um breytingar á skrá yfir handhafa beingreiðslna.
Réttur til beingreiðslna er bundinn við handhafa. Framsal þeirra er óheimilt.
Skilyrði fyrir veitingu stuðnings skv. III. kafla eru fullnægjandi skil á skýrsluhaldi skv. 22. gr.
Framleiðendur sem vilja öðlast rétt til beingreiðslna B að uppfylltum skilyrðum, sbr. 3. gr., skulu senda rafræna umsókn vegna ársins 2020 eigi síðar en 18. ágúst 2020. Umsókn skal innihalda a.m.k.:
- Heildarstærð gróðurhúsa eða ræktunarrýmis í svepparækt að grunnfleti í m² ásamt heildarstærð þess hluta sem ætlaður er undir ræktun eftir tegundum og heildarstærð þess hluta sem á að raflýsa á hverjum ræktunarstað fyrir sig. Upplýsingarnar skulu vera eftir mánuðum.
- Áætlaða ræktun, heildarframleiðslu og sölu eigin framleiðslu í kg eða einingum af hverri tegund á árinu eftir mánuðum.
- Upplýsingar um hvort ræktun sé með raflýsingu eða öðrum hætti, ásamt upplýsingum um orkuþörf og tegund lýsingar.
Ef fullnægjandi gögnum er ekki skilað á réttum tíma verða beingreiðslur ekki greiddar fyrr en framleiðendur hafa gert úrbætur.
16. gr. Heildarfjárhæð og framkvæmd beingreiðslna B.
Beingreiðslur B skulu greiddar til framleiðenda út á eigin framleiðslu ylræktartegunda, sbr. 1 mgr. 15. gr. Framlög samkvæmt fjárlögum hvers árs skiptast jafnt milli tegunda eftir fermetrafjölda gróðurhúsa að grunnfleti og greiðast til framleiðenda miðað við fjölda fermetra að grunnfleti sem nýttur er til ræktunar á afurðum sem eru ætlaðar til sölu.
Forsenda greiðslna eru að ræktunin fari fram í a.m.k. níu mánuði á almanaksári. Ræktun skal að lágmarki stunduð á 250 fermetrum á ársgrundvelli. Framleiðandi skal gera grein fyrir framleiðslu og sölu þeirra afurða sem ræktaðar eru í því húsnæði sem beingreiðslur B eru greiddar út á. Ef framleiðsla/sala er óeðlilega lág miðað við ræktunarrými skal framleiðandi gera sérstaklega grein fyrir ástæðum þess.
17. gr. Útreikningur beingreiðslna B.
Heildarfjárhæð beingreiðslna sem er til ráðstöfunar skal deilt á flatarmál að grunnfleti, sem nýtt er til ræktunar innan ársins, frá og með 1. janúar ár hvert.
Ráðuneytið gerir áætlun að fengnum upplýsingum frá framleiðendum um magn ræktarflatar fyrir árið. Áætla skal beingreiðslur pr. fermetra miðað við áætlaðan ræktunarflöt og greiða 80% af áætluðum beingreiðslum pr. fermetra sem fyrstu greiðslu eftir ræktun hvers mánaðar.
Við lokauppgjör skv. 21. gr. skal finna út beingreiðslur á hvern ha ræktunarflatar miðað við heildarfjárhæð beingreiðslna með því að deila þeim á það magn, sem staðfest er að ræktað hafi verið á árinu og skulu þær greiddar framleiðendum að frádregnum þeim greiðslum sem fram hafa farið. Ef upp kemur ágreiningur um rétt til beingreiðslna skulu þeir fjármunir sem um er deilt ekki koma til greiðslu við lokauppgjör fyrr en leyst hefur verið úr ágreiningnum.
18. gr. Endurskoðun á einingaverði beingreiðslna B.
Ráðuneytið skal fyrir 1. desember 2020, endurskoða spár um framleiðslumagn ársins um breytingar á fyrirframgreiðslu á selda einingu, sbr. 14. gr. Ef til lækkunar kemur á beingreiðslum á einingu afurðar til hvers handhafa, skulu þær endurreiknaðar frá upphafi árs í samræmi við breytingar á einingaverðum, á þann hátt að til útborgunar á árinu komi að hámarki 85% af áætluðum beingreiðslum á einingu við endurskoðun 1. desember 2020.
19. gr. Gjalddagar beingreiðslna B.
Fyrsta stuðningsgreiðsla í beingreiðslum B er eigi síðar en 30. september 2020 og síðan 1. hvers mánaðar vegna sölu næstsíðasta mánaðar að því tilskildu að gögnum vegna sölu sé skilað á réttum tíma, sbr. 20. gr. Berist gögn síðar frestast afgreiðsla beingreiðslna til næsta gjalddaga.
IV. KAFLI Upplýsingar og gögn um sölu afurða, skýrsluhald o.fl.
20. gr. Upplýsingar og gögn sem skila ber mánaðarlega.
Handhafar beingreiðslna skulu senda mánaðarlega eftirfarandi upplýsingar og gögn eigi síðar en 12. næsta mánaðar eftir að sala fer fram:
- Nafn, heimilisfang og kennitölu handhafa beingreiðslna ásamt virðisaukaskattsnúmeri og búsnúmeri garðyrkjubýlis.
- Nafn, heimilisfang og kennitölu kaupanda ásamt virðisaukaskattsnúmeri.
- Upplýsingar um framleiðslu eða afreikninga. Ef um beingreiðslur B er að ræða skal jafnframt skila inn upplýsingum um mánaðarlegan fjölda fermetra að grunnfleti í framleiðslu hverrar tegundar.
- Sölunótur skulu bera með sér tegund afurðar, selt magn í kg/einingu, skiptingu magns eftir gæðaflokkum, verð á kg fyrir hverja afurðaeiningu og verðmæti alls. Séu þessar upplýsingar sendar á rafrænu formi er ekki skylt að afreikningar eða sölunótur fylgi, aðeins að þessi gögn séu til staðar og aðgengileg sé eftir þeim leitað og að viðeigandi fylgiskjalsnúmer sé skráð og komi fram.
Þau gögn sem þannig eru frágengin skulu staðfest með undirritun eða öðrum fullnægjandi hætti, af eða fyrir hönd viðkomandi handhafa beingreiðslna eftir umboði. Ráðuneytið getur hvenær sem er óskað eftir aðgangi að frumgögnum til staðfestingar. Handhafa beingreiðslna er skylt að halda eftir afriti af gögnum til að vinna lokauppgjör ársins, sbr. 4. mgr. 11. gr. og 20. gr.
21. gr. Staðfesting lokauppgjörs fyrir árið.
Fyrir 1. mars ár hvert skal ljúka uppgjöri fyrir árið á undan. Hver framleiðandi, sem hlotið hefur beingreiðslur á árinu, skal senda ráðuneytinu fyrir 10. febrúar ár hvert heildaruppgjör fyrir árið, staðfest af löggiltum endurskoðanda. Uppgjörið skal sýna selt magn eftir tegundum, afbrigðum og gæðaflokkum eigin framleiðslu skv. 7. gr. ásamt fermetrafjölda að grunnfleti ef um beingreiðslur B er að ræða. Komi fram misræmi frá áður innsendum gögnum, þ.e. afreikningum og sölunótum skal leggja fram afrit af þeim bókhaldsgögnum sem standa þar að baki og gera grein fyrir leiðréttingum. Við lokauppgjör eru beingreiðslur A greiddar á kg af tómötum, gúrkum og papriku, eftir seldu magni árið áður. Beingreiðslur B eru greiddar á fermetrafjölda gróðurhúsa að grunnfleti.
Ráðuneytinu er heimilt að láta sannreyna niðurstöður uppgjörs með vettvangsheimsókn.
22. gr. Fullnægjandi skil á skýrsluhaldi.
Til þess að uppfylla skilyrði um fullnægjandi skýrsluhald þarf að skrá eftirfarandi upplýsingar í gagnagrunnskerfið Jörð:
- Nafn, kennitölu og heimilisfang framleiðanda, búsnúmer og landnúmer jarðar sem ræktað er á. ÍSAT-númer búrekstrar samkvæmt skráningu hjá RSK.
- Virkt virðisaukaskattsnúmer búrekstrar.
-
Eftirfarandi upplýsingar um hvert ræktunarrými/spildu:
- Nafn og/eða einkvæmt númer ræktunarrýmis/spildu.
- Ræktun til manneldis, þ.e. útiræktað grænmeti, garðávextir, ylræktartegundir og sveppir.
- Tegund, yrki ræktunar og skiptingu garðávaxta í rótarafurðir eða afurðir ræktaðar ofanjarðar.
- Stærð ræktunarýmis/spildu í fermetrum eða hekturum, eftir því sem við á.
- Ræktunartímabil/ræktunarár.
- Dagsetningu sáningar eða útplöntunar, eftir því sem við á.
- Uppskerutímabil.
- Notkun alls áburðar (áburðargjöf).
- Notkun á öllum plöntuverndarvörum, ef við á.
- Heildaruppskeru í kg eða einingum, eftir því sem við á.
-
Ef um beingreiðslur B skv. III. kafla er að ræða:
- Fasteignanúmer gróðurhúss.
-
Ef um ræktunarstyrk skv. IV. kafla er að ræða:
- Hnitsetningu ræktunarspildu byggða á landupplýsingakerfi (LUK) sem byggir á stafrænu túnkorti. Kortið á að sýna nákvæmlega þær ræktunarspildur sem eru grundvöllur að styrkjum.
Við mat á hvort túnkort er fullnægjandi skal athugað hvort fagaðili hafi teiknað og mælt viðkomandi ræktun með viðurkenndum aðferðum.
V. KAFLI Niðurgreiðsla á raforku.
23. gr. Upplýsingar og gögn sem skila ber árlega.
Handhafar niðurgreiðslna skulu senda árlega eftirfarandi upplýsingar og gögn eigi síðar en 1. desember ár hvert:
- Nafn og kennitölu viðkomandi orkugreiðanda. Ef orkugreiðandi er fyrirtæki þarf að tilgreina að lágmarki einn tengilið.
- Upplýsingar um framleiðslumagn hverrar ræktunartegundar eftir framleiðslustað.
- Upplýsingar um á hve mörgum fermetrum hver ræktunartegund var ræktuð og hve stór hluti þess svæðis notaðist við lýsingu.
- Tegund lýsingar.
Á hverju ári fá framleiðendur garðyrkjuafurða, sem fá niðurgreiðslu, rafrænt skjal sem þeir nota til að skila, á rafrænan hátt, umbeðnum upplýsingum.
24. gr. Umsókn.
Framleiðendur garðyrkjuafurða sem uppfylla skilyrði 3. gr. skulu eiga þess kost að sækja um niðurgreiðslu á kostnaði við flutning og dreifingu raforku. Á umsókn skal koma fram:
- nafn og kennitala orkukaupanda,
- ræktunarstaður og landnúmer. Skrá skal alla viðeigandi ræktunarstaði séu þeir fleiri en einn,
- heildarstærð gróðurhúsa í fermetrum ásamt heildarstærð þess hluta sem ætlaður er undir ræktun og heildarstærð þess hluta sem á að lýsa á hverjum ræktunarstað fyrir sig,
- framleiðsluafurðir, áætlað afl og
- áætluð árleg orkunotkun á hverjum ræktunarstað fyrir sig.
Ef umsókn uppfyllir skilyrði skv. 25. gr. er dreifiveitu formlega tilkynnt um að raforkudreifing verði greidd niður til viðkomandi aðila.
25. gr. Skilyrði fyrir niðurgreiðslu.
Framleiðandi garðyrkjuafurða skal uppfylla eftirfarandi skilyrði til að fá niðurgreiðslu:
- Að orkukaupin séu vegna atvinnustarfsemi.
- Að niðurgreidd raforka sé sérmæld og fari einungis til lýsingar plantna í gróðurhúsi til að örva vöxt þeirra.
- Að framleiðslan sé ætluð til sölu.
- Að ársnotkun til lýsingar sé meiri en 100 MWst. á ári.
26. gr. Niðurgreiðsla.
Magnliðir og fastagjald í gjaldskrá dreifiveitu fyrir flutning og dreifingu skulu greiddir niður um allt að 95%, en framleiðendur garðyrkjuafurða skulu greiða að lágmarki 5%. Ráðuneytið yfirfer reikninga dreifiveitna og ber saman við greiðslur til framleiðanda garðyrkjuafurða.
Hlutfall skv. 1. mgr. skal endurskoðað eigi síðar en 1. mars ár hvert út frá fjárveitingum sem ætlaðar eru til niðurgreiðslu samkvæmt fjárlögum. Verði gerð breyting á hlutfalli skal það taka gildi frá næstu mánaðamótum á eftir. Niðurgreiðslur til dreifiveitu eru greiddar mánaðarlega samkvæmt framlögðum reikningi.
27. gr. Niðurfelling greiðslna.
Fyrir 10. nóvember ár hvert skal dreifiveita kanna hvort framleiðandi uppfylli skilyrði b-liðar 1. mgr. 25. gr. og tilkynna ráðuneytinu ef svo er ekki. Séu skilyrði 25. gr. ekki uppfyllt skal tilkynna viðkomandi aðila um það og falla niðurgreiðslur til framleiðanda þá niður um næstu áramót. Á sama tíma skal tilkynna dreifiveitu um að niðurgreiðslur hafi verið felldar niður.
Standi framleiðandi garðyrkjuafurða ekki skil á sínum hluta kostnaðar skv. 26. gr. vegna flutnings og dreifingar skal dreifiveita og orkusali tilkynna um það. Dreifiveita og orkusali skulu þá fylgja sömu reglum og gagnvart öðrum viðskiptavinum vegna vanskila. Ef lokað er fyrir viðskipti vegna vanskila skal dreifiveita og orkusali tilkynna ráðuneytinu um það.
VI. KAFLI Jarðræktarstyrkur.
28. gr. Umsókn.
Framlögum skal varið til jarðræktar, þ.e. vegna útiræktunar á grænmeti, kartöflum og garðávöxtum til manneldis. Uppskera er forsenda fyrir jarðræktarstyrk.
Rafrænni umsókn skal skila eigi síðar en 23. október ár hvert vegna framkvæmda á yfirstandandi ári.
Styrkhæf ræktun er útiræktun grænmetis, kartaflna og garðávaxta til manneldis.
Skilyrði fyrir veitingu stuðnings skv. VI. kafla eru fullnægjandi skil á skýrsluhaldi skv. 22. gr.
Í umsókn bús um framlög skulu koma upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda, búsnúmer og landnúmer jarðar sem ræktað er og framleiðanda er heimilt að nýta. Þá skal vera tenging við spildur í gagnagrunninum Jörð, þar sem liggur til grundvallar fullnægjandi túnkort af ræktunarspildu sem sótt er um styrk fyrir. Þegar ræktað er aðeins í hluta af spildu, sem sækja á um styrk út á, skal hnita þann hluta og skrá sérstaklega í túnkortagrunn sem nýja spildu. Framlag á hvern hektara (ha) fyrir hvert bú tekur mið af heildarfjölda ha sem sótt er um. Ekki er greitt framlag fyrir ræktun undir einum hektara. Fjöldi ha sem sótt er um reiknast í samræmi við eftirfarandi stuðla:
Fjöldi ha sem sótt er um | Stuðull umsóttra ha |
1-30 ha | 1,0 fyrir rótarafurðir |
1-30 ha | 4,0 fyrir afurðir ræktaðar ofanjarðar |
> 30 ha | 0,7 fyrir rótararfurðir |
> 30 ha | 3,0 fyrir afurðir ræktaðar ofanjarðar |
Hver framleiðandi getur ekki fengið hærri greiðslur samtals en 10% af því fjármagni sem til ráðstöfunar er árlega.
29. gr. Úttektir.
Skilyrði þess að verkefni njóti framlags er að fram hafi farið úttekt.
Til að standast úttekt vegna jarðræktar þarf að liggja fyrir fullnægjandi stafrænt og hnitsett túnkort af ræktarlandinu í gagnagrunninum Jörð.
Úttektaraðili sannreynir stærð ræktunar og hvort skilyrði til styrkveitinga eru að öðru leyti uppfyllt.
Heimilt er að vettvangsúttekt fari einungis fram með tilviljunarkenndu úrtaki, óháð umfangi ræktunar. Ef til staðar eru fullnægjandi gervihnattamyndir af umsóttum spildum, sem nægja til úttektar á umsókn, telst það fullgild vettvangsúttekt.
Úttektaraðili skal vera starfsmaður búnaðarsambands eða leiðbeiningarmiðstöðvar sem hefur almenna þekkingu á viðkomandi sviði og ráðuneytið viðurkennir. Um fyrirkomulag úttekta og kostnað við þær skal kveðið á í samningi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við úttektaraðila.
Úttektir á framkvæmdum skulu berast 1. nóvember á sama ári eftir að umsókn berst og skulu styrkir greiddir fyrir árslok.
Úttektir skulu skráðar með hnitsetningu í rafrænt umsóknarkerfi.
VII. KAFLI Ýmis ákvæði.
30. gr. Endurgreiðsla ofgreiddra greiðslna.
Ef greiðslur samkvæmt reglugerð þessari hafa verið ofgreiddar ber handhafa greiðslna að endurgreiða hið ofgreidda fé til ríkssjóðs. Skal handhafi þá endurgreiða með vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim tíma er greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram. Auk almennra vaxta skal handhafi greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Vextir skulu þó ekki greiddir ef endurgreiðslan fer fram innan 30 daga frá því að greiðsla til handhafa fór fram.
31. gr. Skerðing og niðurfelling greiðslna.
Heimilt er að skerða, fella niður eða krefjast endurgreiðslu á stuðningsgreiðslum samkvæmt reglugerð þessari ef framleiðandi gefur vísvitandi rangar upplýsingar eða brýtur á annan hátt skilyrði reglugerðarinnar.
32. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í búvörulögum nr. 99/1993, með síðari breytingum og öðlast gildi 1. júlí 2020. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 1263/2018 um stuðning við garðyrkju.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 24. júní 2020.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Ása Þórhildur Þórðardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.