Fara beint í efnið

Prentað þann 24. nóv. 2024

Breytingareglugerð

628/2015

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 830/2011 um ökuskírteini.

1. gr.

a. liður 4. tl. 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

útgáfu fullnaðarskírteinis í stað bráðabirgðaskírteinis,

2. gr.

8. gr. reglugerðarinnar breytist svo:

  1. 1. tl. 5. mgr. A. liðar 8. gr. breytist svo:
    Í lok töluliðarins bætist við: sem fengið er á grundvelli ökuprófs þar sem próf í aksturshæfni hefur verið tekið á ökutæki með beinskiptingu.
  2. 2. tl. 5. mgr. A. liðar 8. gr. breytist svo:
    Á milli D-, og D1- bætist við: DE.

3. gr.

14. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Endurmenntun bílstjóra.

Nám fyrir þann, sem uppfylla þarf skilyrði 3. mgr. 19. gr. um endurmenntun, skal fara fram hjá viðurkenndum námskeiðshaldara, þ.e. ökuskóla sem hefur starfsleyfi eða hjá öðrum aðila með sérstöku leyfi Samgöngustofu. Viðurkenndur námskeiðshaldari getur boðið upp á fjarnám uppfylli það kröfur þessa ákvæðis.

Fjöldi kennslustunda skal vera samtals 35 stundir í 7 stunda lotum á síðustu fimm árum fyrir endurnýjun. Hverri lotu er heimilt að skipta niður á tvo samliggjandi daga innan 24 klukkustunda.

Námið skal fara fram í samræmi við námskrá sem Samgöngustofa setur og ráðherra staðfestir.

4. gr.

3. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Sá skal hafa sótt endurmenntunarnámskeið sem sækir um endurnýjun ökuskírteinis fyrir D1- og D-flokk til farþegaflutninga í atvinnuskyni og fyrir C1- og C-flokk til vöruflutninga í atvinnuskyni. Hafi umsækjandi ekki sótt endurmenntunarnámskeið, má endurnýja ökuskírteini hans án réttinda til aksturs í atvinnuskyni.

5. gr.

22. gr. reglugerðarinnar breytist svo:

  1. Nýr 1. tl. 3. mgr., orðast svo:
    65 ára, en ekki orðinn 70 ára, fimm ár,
  2. Eldri 1. tl. verður 2. tl. o.s.frv.

6. gr.

52. gr. reglugerðarinnar breytist svo:

  1. Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, e-liður, sem orðast svo:
    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/85/ESB um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/126/EB um ökuskírteini sem tekin var upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 284/2014. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 23. apríl 2015, bls. 125.
  2. 5. mgr. orðast svo:
    Með reglugerð þessari er innleidd ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2014/209/ESB um jafngildi milli flokka ökuskírteina sem tekin var upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 231/2014. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16 frá 19. mars 2015, bls. 672.

7. gr.

F-liður III. viðauka við reglugerðina orðast svo:

F) Taugasjúkdómar og kæfisvefn.
Taugasjúkdómar.
11.1. Ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjanda sem er haldinn alvarlegum taugasjúkdómi, nema umsóknin sé studd áliti þar til bærs læknis. Í þessu sambandi skal taka tillit til truflana í taugakerfi sem stafa af sjúkdómi eða uppskurði og hafa áhrif á miðtaugakerfið eða úttaugakerfið og koma fram í slakri skynjun eða hreyfigetu og hafa áhrif á jafnvægi og samhæfingu, vegna áhrifa þeirra á starfshæfni og hættu á að einkennin aukist. Í þeim tilvikum getur útgáfa eða endurnýjun ökuskírteinis verið háð reglulegu endurmati þegar hætta er á að ástand versni.
Kæfisvefn.
11.2. Í eftirfarandi liðum samsvarar kæfisvefn á meðalháu stigi 15 til 29 tilvikum öndunarhléa og/eða öndunarþrenginga á klukkustund ((vísitala fyrir öndunarhlé og öndunarþrengingar (AHI-vísitalan)) e. Apnoea-Hypopnoea Index (AHI)) og kæfisvefn á háu stigi samsvarar 30 eða fleiri tilvikum öndunarhléa og / eða öndunarþrenginga á klukkustund, báðar gerðirnar tengjast mikilli dagsyfju.
11.3. Ef grunur leikur á að umsækjendur eða ökumenn séu haldnir kæfisvefni á meðalháu eða háu stigi skal þeim vísað til frekari, viðurkenndrar læknisfræðilegrar ráðgjafar áður en ökuskírteini er gefið út eða endurnýjað. Heimilt er að ráðleggja þeim að aka ekki þar til greining hefur verið staðfest.
11.4. Gefa má út ökuskírteini til umsækjenda og ökumanna sem haldnir eru kæfisvefni á meðalháu eða háu stigi ef þeir geta sýnt fram á með viðurkenndu læknisfræðilegu áliti að þeir hafi fullnægjandi stjórn á heilsufarsástandi sínu, fylgi viðeigandi meðferð og að dregið hafi úr syfju, ef hún var til staðar.
11.5. Umsækjendur eða ökumenn sem eru í meðferð við kæfisvefni á meðalháu eða háu stigi skulu fara reglulega í læknisskoðun, á a.m.k. þriggja ára fresti ef þeir eru ökumenn í hópi 1 og eins árs fresti ef þeir eru ökumenn í hópi 2, til að staðfesta að hvaða marki meðferðinni er fylgt, þörfina fyrir áframhaldandi meðferð og áframhaldandi árvekni.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 52. gr. umferðarlaga, nr. 50 frá 30. mars 1987, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 25. júní 2015.

Ólöf Nordal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.