Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 23. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. jan. 2015
Sýnir breytingar gerðar 1. jan. 2007 – 1. jan. 2015 af rg.nr. 1121/2006 og 1152/2014

623/2005

Reglugerð um útgáfu Lögbirtingablaðs.

1. gr. Almennt.

Lögbirtingablað skal gefið út rafrænt og það birt á veffanginu www.logbirtingablad.is.

Réttaráhrif auglýsinga í Lögbirtingablaði skulu bundin við rafræna útgáfu á vef Lögbirtingablaðsins. Ráðherra getur, ef brýna nauðsyn ber til, ákveðið að réttaráhrifin miðist við prentaða útgáfu blaðsins.

 Sýslumaðurinn á Suðurlandi skal frá og með 1. janúar 2015 annast útgáfu Lögbirtingablaðs.

2. gr. Áskrift.

Rafrænn aðgangur að Lögbirtingablaði skal bundinn við áskrift, og skal áskriftargjald ákvarðað í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þó er heimilt að gefa almenningi kost á að nálgast einstök tölublöð, á PDF-sniði eða öðru sambærilegu sniði, ókeypis á netinu.

Auglýsingar í Lögbirtingablaði skulu vera aðgengilegar áskrifendum á netinu í þrjú ár frá birtingu þeirra. Tölublöð á netinu, á PDF-sniði eða öðru sambærilegu sniði, verða aðgengileg frá upphafi rafrænnar útgáfu þeirra.

Þeir sem þess óska geta keypt Lögbirtingablað í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu gjalds vegna kostnaðar af prentun þeirra og sendingu, sbr. gjaldskrá fyrir Lögbirtingablað. Útgáfudagur hvers tölublaðs skal ávallt tilgreindur.

Áskrifendur að rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðs skulu hafa aðgang að flokkuðum auglýsingum. Heimilt er að takmarka aðgang að leit í auglýsingum ef það er nauðsynlegt vegna sjónarmiða um persónuvernd.

3. gr. Útgáfa.

Rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðs skal, eftir því sem kostur er, hagað þannig að:

  1. birtar auglýsingar séu frá réttum og þar til bærum aðilum og að þær séu einungis aðgengilegar áskrifendum,
  2. útgefnu efni verði ekki breytt,
  3. komið verði í veg fyrir óheimila úrvinnslu og samtengingu persónuupplýsinga,
  4. upplýsingar séu varðar gegn skemmdum, þjófnaði, eldi, náttúruhamförum og þess háttar atburðum,
  5. upplýsingar séu varðar gegn rafrænum árásum,
  6. alltaf séu til áreiðanleg og örugglega varðveitt afrit af birtum upplýsingum og hugbúnaðarkerfum.

Kerfisbundnar öryggisráðstafanir skulu gerðar reglulega til að tryggja áreiðanleika birtra upplýsinga, til að koma meðal annars í veg fyrir aðgang, breytingu, samtengingu eða miðlun upplýsinga án heimildar og að tryggja að skilyrðum 1. mgr. verði að öðru leyti fullnægt eftir því sem kostur er.

4. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 6. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15 10. mars 2005, öðlast gildi 1. júlí 2005.

 Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 30. júní 2005. 

 Björn Bjarnason. 

 Ragna Árnadóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.