Fara beint í efnið

Prentað þann 13. nóv. 2024

Stofnreglugerð

618/2018

Reglugerð um meðferð og flutning líka.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma, eiturefna og geislavirkra efna við flutning líka milli landa og innan lands.

2. gr. Umbúnaður við flutning.

Þegar lík er flutt til eða frá landinu eða innan lands skal því komið fyrir í loft- og vatnsheldum umbúnaði, en þar utan yfir sé traust kista, og svo búið um líkið að það haggist ekki innan kistunnar.

3. gr. Vottorð.

Líki sem flutt er til eða frá landinu skal fylgja vottorð um umbúnað þess og vottorð læknis þar sem tekið er fram hvort um sé að ræða næman sjúkdóm eða annað sem sótthætta geti stafað af.

Ef vottorð fylgir ekki líki sem flutt er til landsins skal fylgja verklagsreglum sóttvarnalæknis varðandi flutning þess og vörslu í samvinnu við yfirlækna heilsugæslustöðva (umdæmislækna sóttvarna), sbr. reglugerð um tilnefningu yfirlækna heilsugæslustöðva til að sinna sóttvörnum, nr. 387/2015.

4. gr. Tilkynningarskyldur sjúkdómur.

Sé um að ræða lík sem gæti borið með sér tilkynningarskyldan sjúkdóm, sbr. reglugerð um skýrslugerð vegna sóttvarna nr. 221/2012, fer um flutning þess og vörslu í samræmi við verklagsreglur sóttvarnalæknis.

5. gr. Flutningur milli prestakalla.

Þegar lík er flutt milli prestakalla hér á landi skal búið um líkið skv. 2. gr.

Sóttvarnalækni eða yfirlækni heilsugæslu (umdæmislækni sóttvarna), sbr. 4. gr. laga nr. 19/1997, er heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 1. mgr. þegar um skammar vegalengdir er að ræða, lík aðeins fárra daga gamalt og sótthætta kemur ekki til greina.

Líkinu skal fylgja vottorð um umbúnað þess.

6. gr. Tilfærsla líka og flutningur líka.

Óski einstaklingur eftir að grafa upp lík í þeim tilgangi að flytja það á annan stað, innan lands eða utan, skal hann afla leyfis hjá sóttvarnalækni sem tilgreinir hvaða varúðarráðstafanir skuli viðhafðar. Að öðru leyti fer um tilfærslu og flutning líka eftir XIV. kafla laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, sbr. 1. gr. laganna, og öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um flutning líka nr. 115/1971.

Velferðarráðuneytinu, 30. maí 2018.

Svandís Svavarsdóttir
heilbrigðisráðherra.

Áslaug Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.