Fara beint í efnið

Prentað þann 21. nóv. 2024

Stofnreglugerð

618/2017

Reglugerð um notkun þjóðfána Íslendinga við markaðssetningu á vöru og þjónustu.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til notkunar þjóðfána Íslendinga samkvæmt lögum nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, við markaðssetningu á vöru og þjónustu.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og hugtaka sem hér segir:

  1. Aðvinnsla: Framleiðsla eða vinnsla vöru.
  2. Eðlislíkt hráefni: Hráefni telst vera eðlislíkt ef það, eftir því sem við á og samkvæmt eðli, einkennum, eiginleikum og einstöku notagildi sínu, er eins eða svipar til hráefnis sem því er ætlað að koma í stað/viðkomandi vöru.
  3. Framleiðsluland: Það land þar sem nægileg aðvinnsla vöru fer fram til þess að hún verði talin upprunnin þaðan.
  4. Hönnunarvara: Vara í skilningi 2. tölul. 2. gr. laga nr. 46/2001, um hönnun, sem notið getur hönnunarréttar samkvæmt ákvæðum þeirra laga.
  5. Nægileg aðvinnsla: Framleiðsla eða vinnsla vöru sem skapar næga virðisaukningu til þess að unnt sé að meta vöruna íslenska.

3. gr. Notkun þjóðfána Íslendinga við markaðssetningu.

Óheimilt er að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða öðru þess háttar. Óheimilt er að nota fánann í firmamerki.

Heimilt er að nota hinn almenna þjóðfána Íslendinga í merki, sbr. þó 1. mgr., eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk og fánanum ekki óvirðing gerð.

Vara telst íslensk ef hún er:

  1. framleidd hér á landi úr innlendu hráefni,
  2. framleidd hér á landi úr innfluttu hráefni að hluta eða öllu leyti, enda hafi hún hlotið nægilega aðvinnslu hérlendis.

Þrátt fyrir b-lið 3. mgr. telst vara ekki íslensk ef hún er framleidd úr innfluttu hráefni sem telst vera einkennandi hluti vörunnar og er eðlislíkt:

  1. búvöru, þ.m.t. afurðum eldisfiska, sem er ræktuð hér á landi,
  2. vöru sem er framleidd hér á landi á garðyrkjubýli, gróðrarstöð eða garðyrkjustöð,
  3. nytjastofnum sjávar sem veiddir eru af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

4. gr. Nægileg aðvinnsla.

Við mat á því hvort vara hafi hlotið nægilega aðvinnslu til þess að hún teljist íslensk, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 34/1944, þrátt fyrir að vera unnin að hluta eða öllu leyti úr innfluttu hráefni skal meðal annars taka mið af ákvæðum 5. gr. bókunar 4 við EES-samninginn að teknu tilliti til 6. gr. bókunar 4 við EES-samninginn, sbr. og aðvinnsluskrár II. viðbætis við bókun 4 við EES-samninginn.

5. gr. Tilgreining framleiðslulands.

Tilgreina skal framleiðsluland hönnunarvöru sem telst íslensk í skilningi 6. mgr. 12. gr. laga nr. 34/1944 en framleidd er erlendis.

Við ákvörðun um hvert teljist framleiðsluland vöru skal meðal annars taka mið af ákvæðum 5. gr. bókunar 4 við EES-samninginn að teknu tilliti til 6. gr. bókunar 4 við EES-samninginn.

Þess skal gæta að framleiðsluland vöru sé tilgreint með skýrum og greinilegum hætti og að tilgreiningin sé sett fram í samhengi við notkun þjóðfánans þannig að neytendum séu ekki veittar rangar eða villandi upplýsingar um framleiðsluland vöru.

6. gr. Eftirlit Neytendastofu.

Neytendastofa annast eftirlit með reglugerð þessari. Aðgerðir Neytendastofu geta falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði, sbr. 2. mgr. 21. gr. b. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn reglugerð þessari. Sektir geta numið allt að 10 millj. kr.

Ef ekki er farið að ákvörðun sem tekin hefur verið á grundvelli reglugerðar þessarar getur Neytendastofa ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðun beinist að greiði dagsektir þar til farið verður að henni, sbr. 23. og 24. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu um eftirlit, viðurlög og réttarúrræði Neytendastofu.

7. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 11. mgr. 12. gr. laga nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 26. júní 2017.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Brynhildur Pálmarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.