Prentað þann 22. des. 2024
616/2020
Reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2020.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk.
- 2. gr. Framlög.
- 3. gr. Almenn framlög vegna þjónustu við fatlað fólk.
- I. hluti: Skipting ráðstöfunarfjármagns.
- II. hluti: Mæling á útgjaldaþörf.
- III. hluti: Útreikningur framlaga.
- 4. gr. Önnur framlög.
- 5. gr. Framlög vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).
- 6. gr. Mat á stuðningsþörf.
- 7. gr. Staðfesting.
- 8. gr. Gildistaka og endurskoðun.
1. gr. Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk.
Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2020 eru eftirfarandi og skulu þær renna í sérstaka deild innan sjóðsins:
- Hlutdeild í útsvarstekjum sveitarfélaga af álagningarstofni útsvars er nemur 0,99%.
- Framlag úr ríkissjóði er nemur 0,235% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs.
- Sérstakt framlag úr ríkissjóði vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).
Við skil á staðgreiðslu útsvars samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda skulu Jöfnunarsjóði gerð skil á sínum hluta skv. a-lið 1. mgr. Fjársýsla ríkisins skal sjá um útreikning á tekjum þessum og skipta innheimtri staðgreiðslu hvers mánaðar milli ríkis, sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs. Tekjur sjóðsins skulu reiknaðar af þeim stofni sem staðgreiðsla hvers mánaðar er greidd af.
Enn fremur skal Fjársýsla ríkisins við álagningu sjá um útreikning á hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvari af þeim tekjum sem skattlagðar eru eftir á. Fjársýsla ríkisins skal í uppgjöri staðgreiðslu sveitarfélaga við álagningu útsvars, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, taka tillit til hlutdeildar Jöfnunarsjóðs og gera sjóðnum skil á henni.
Til viðbótar þeim tekjum Jöfnunarsjóðs á árinu 2020, sem tilgreindar eru í 1. mgr., eru til ráðstöfunar á árinu óráðstöfuð framlög frá fyrra ári vegna NPA.
2. gr. Framlög.
Jöfnunarframlög vegna þjónustu við fatlað fólk skiptast á árinu 2020 í:
- Almenn framlög til þjónustusvæða og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk, sbr. 3. gr.
- Önnur framlög, sbr. 4. gr.
- Framlög vegna NPA, sbr. 5. gr.
- Framlög í Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Til viðbótar framlögum skv. 1. mgr. er heimilt að veita sérstök viðbótarframlög til svæða ef um verulega íþyngjandi kostnað umfram tekjur er að ræða. Ráðgjafarnefnd setur sérstakar verklagsreglur um úthlutun viðbótarframlaga.
Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk eru óháð öðrum framlögum sjóðsins.
Jöfnunarsjóður sendir þjónustusvæðum/sveitarfélögum upplýsingar um áætluð framlög ársins 2020 og greiðsludreifingu þeirra eftir því sem við verður komið. Framlög skulu greidd mánaðarlega. Framlög skulu endurskoðuð innan ársins í samræmi við breytingar á áætluðum tekjum sjóðsins, sbr. 1. gr. og á grundvelli nýrra upplýsinga frá þjónustusvæðum/sveitarfélögum.
3. gr. Almenn framlög vegna þjónustu við fatlað fólk.
I. hluti: Skipting ráðstöfunarfjármagns.
Áætluðum ráðstöfunartekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2020, að frádregnu framlagi í Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, framlögum vegna NPA, sérstökum viðbótarframlögum og öðrum framlögum, sbr. b-d-lið 1. mgr. og 2. mgr. 2. gr., skal skipta milli sveitarfélaga sem mynda þjónustusvæði með eftirfarandi hætti:
- 88% skiptast hlutfallslega miðað við niðurstöðu mælinga á útgjaldaþörf, sbr. II. hluta þessarar greinar.
- 10,75% skiptast hlutfallslega miðað við áætlaðan útsvarsstofn sveitarfélaga 2020.
- 1,25% skiptist hlutfallslega miðað við fjarlægðir innan þjónustusvæða og að teknu tilliti til fjölda sveitarfélaga innan svæða.
Áætluð framlög ársins 2020 eru reiknuð út á grundvelli framlaga ársins 2019 að teknu tilliti til endanlegs álagningarstofns útsvars á árinu 2018 og endurskoðaðrar áætlunar um útsvarstekjur sveitarfélaga á árinu 2020. Framlögin skulu síðan endurreiknuð sem hér segir:
- Í maí 2020 á grundvelli viðbótarupplýsinga frá þjónustusvæðum/sveitarfélögum, sbr. 1. tölul. 6. mgr. II. hluta.
- Í nóvember 2020, sbr. 2., 3. og 4. tölul. 6. mgr. II. hluta.
- Við greiðslu framlaga á árinu 2020 fer jafnframt fram leiðrétting framlaga ársins 2018 á grundvelli endanlegs álagningarstofns útsvars 2018.
Útreiknuð framlög ársins 2020 skal leiðrétta þegar endanlegur álagningarstofn útsvars ársins 2020 liggur fyrir. Upplýsingar um leiðréttingu skulu liggja fyrir eigi síðar en 31. desember 2021 og skal leiðrétting framlaga til hvers þjónustusvæðis eða sveitarfélags koma til frádráttar/viðbótar almennum framlögum Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2022. Reynist áætlun ársins 2022 lægri en frádráttur vegna ársins 2020 er heimilt að innheimta mismuninn af öðrum framlögum Jöfnunarsjóðs.
II. hluti: Mæling á útgjaldaþörf.
Við mælingu á útgjaldaþörf vegna þjónustu við fatlað fólk, sbr. a-lið 1. mgr. I. hluta, skal byggt á þeim upplýsingum um kostnað og stuðningsþörf einstaklinga í sérhæfðri þjónustu sem lagðar voru til grundvallar við útreikning framlaga á árinu 2019.
Útgjaldaþörf þjónustusvæðis er fundin út frá samanlagðri þjónustuþörf íbúa þess. Þjónustuþörf einstaklings er ákvöruð út frá stuðningsflokki viðkomandi, sbr. 6. gr., með álagi á grundvelli sérstakrar stuðningsþarfar vegna hegðunar og/eða heilsu þar sem það á við. Allir einstaklingar sem falla í 5. flokk samræmds mats á þjónustuþörf eða ofar telja til útgjaldaþarfar þjónustusvæða. Enn fremur er heimilt að reikna álag vegna einstaklinga með óvenjulega samsetningu stuðningsþarfar. Ef ekki liggur fyrir mat á stuðningsþörf er heimilt að ákvarða útgjaldaþörf einstaklings út frá raunkostnaði. Heildarframlög vegna einstaklinga á grunni raunkostnaðar geta þó aldrei numið stærri hluta framlaga en fjöldi þeirra segir til um.
Heimilt er að reikna framlag vegna einstaklinga sem falla í 4. flokk samræmds mats á þjónustuþörf og dvelja innan stórra rekstrareininga sem starfandi voru fyrir tilfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga.
Reikna skal framlög í þrjá heila mánuði frá dánardegi einstaklinga sem eru í þjónustu á árinu 2020.
Við mat á útgjaldaþörf sveitarfélaga/þjónustusvæða skal taka tillit til fjarlægða innan svæðisins þar sem fleiri en eitt sveitarfélag mynda þjónustusvæðið og fjölda þeirra sveitarfélaga sem svæðið mynda. Einvörðungu er tekið tillit til sveitarfélaga þar sem um umtalsverða þjónustu er að ræða í málaflokknum og veitt eru framlög úr Jöfnunarsjóði.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skal senda þjónustusvæðum/sveitarfélögum gögn sem sýna framlög skv. hverjum flokki matsins sem og upplýsingar um niðurstöður útreikninga einstakra þátta framlagsins.
Við mælingu á útgjaldaþörf skv. framangreindu vegna úthlutunar framlaga árið 2020 skal jafnframt taka tillit til eftirfarandi þátta á grundvelli viðbótarupplýsinga frá þjónustusvæðum/sveitarfélögum:
- Uppfæra skal upplýsingar um lögheimili einstaklinga í þjónustu með tilliti til flutnings þeirra milli þjónustusvæða/sveitarfélaga. Við útreikning framlaga 2020 skal miðað við lögheimili einstaklings 1. janúar 2020.
- Framkvæma skal samræmt mat á þjónustuþörf einstaklinga sem ekki höfðu náð 18 ára aldri við útreikning framlaganna árið 2019 en hafa náð 18 ára aldri 1. janúar 2020.
- Enn fremur skal safna upplýsingum um einstaklinga í þjónustu með viðbótarkostnaði á árinu 2020 sem samsvarar kostnaði að fjárhæð 5 m.kr.
- Framkvæma skal á árinu samræmt mat á stuðningsþörf fatlaðra barna á aldrinum 6-18 ára ásamt mati á stuðningsþörf fullorðinna vegna nýliðunar, sbr. 6. gr.
Þegar um tímabundna búferlaflutninga einstaklinga í þjónustu er að ræða, er þjónustusvæðum heimilt að semja sín á milli um að framlög Jöfnunarsjóðs vegna þeirra einstaklinga, skv. III. hluta, flytjist milli þjónustusvæða enda þótt lögheimili viðkomandi haldist óbreytt. Slíkir samningar hafa ekki áhrif á jöfnunarframlög samkvæmt þessari reglugerð. Samband íslenskra sveitarfélaga getur gefið út leiðbeinandi viðmið um samninga sem þjónustusvæði gera sín á milli.
III. hluti: Útreikningur framlaga.
Framlög til einstakra þjónustusvæða eða sveitarfélaga skulu reiknuð út sem hér segir:
- Þegar niðurstaða liggur fyrir skv. a-, b- og c-liðum í 1. mgr. I. hluta, skal á grunni áætlaðs útsvarsstofns ársins 2020 reikna út útsvarstekjur sem samsvara 0,25% af útsvarsstofni og sem renna skulu beint til þjónustu við fatlað fólk innan viðkomandi þjónustusvæðis.
- Finna skal mismun mældrar heildarútgjaldaþarfar hvers þjónustusvæðis eða sveitarfélags skv. II. hluta og áætlaðra útsvarstekna skv. 1. tölulið.
- Sé mæld útgjaldaþörf sveitarfélaga, sem mynda þjónustusvæði, hærri en sem nemur útsvarstekjum af 0,25% hlutdeild þeirra í útsvarsstofni er mismunurinn greiddur sem almenn framlög vegna þjónustu við fatlað fólk.
4. gr. Önnur framlög.
Á árinu 2020 greiðir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga framlag til Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nemur 0,14% af tekjum sjóðsins skv. a-lið 1. mgr. 1. gr. vegna kostnaðar Sambandsins við verkefni er tengjast þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk á árinu.
Jöfnunarsjóði er jafnframt heimilt að ráðstafa fjármagni á árinu 2020 á eftirfarandi hátt:
- Til einstakra verkefna, nýsköpunar eða þróunarvinnu sem nýtist þjónustusvæðum/sveitarfélögum og þjónustusvæðum til framþróunar í málaflokknum.
-
Til greiðslu kostnaðar vegna eftirfarandi þátta:
- Upplýsingasöfnunar, greiningar og ráðgjafar.
- Samræmds mats á stuðningsþörf á landsvísu.
- Útfærslu jöfnunaraðgerða og fasteignamála.
Ráðgjafarnefnd setur nánari verklagsreglur um úthlutun slíkra framlaga og gerir tillögu til ráðherra um úthlutun framlaga á grundvelli 1. gr.
5. gr. Framlög vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).
Við úthlutun framlaga vegna NPA, sbr. c-lið 1. mgr. 2. gr. skal byggt á 11. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem og áætlun skv. ákvæði til bráðabirgða I með þeim lögum, sbr. einnig reglugerð um notendastýrða persónulega aðstoð, nr. 1250/2018.
Sú 1% viðbótargreiðsla sem Jöfnunarsjóður tekur við skv. 20. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 til að standa straum af kostnaði vegna langtímaforfalla aðstoðarfólks skal sérgreind í rekstraráætlun sjóðsins og skulu framlög veitt af uppsöfnun hennar til sveitarfélaga á grundvelli umsókna. Ráðgjafarnefnd gerir tillögu til ráðherra um úthlutun framlaga skv. þessari málsgrein.
6. gr. Mat á stuðningsþörf.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur forgöngu um samræmt mat á stuðningsþörf á landsvísu, semur við matsaðila um framkvæmd matsins og ber kostnað af því. Heimilt er að ákveða að greiðsla kostnaðar takmarkist við mat á tilteknum fjölda einstaklinga.
Þjónustusvæði og sveitarfélög fela matsaðila skv. 1. mgr. framkvæmd matsins á grundvelli ákvæða laga um málefni fatlaðs fólks og er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimilt að krefja matsaðila, þjónustusvæði og sveitarfélög um niðurstöður slíks mats.
Jöfnunarsjóður setur verklagsreglur um mat á stuðningsþörf, sem m.a. kveða á um hlutverk og verkefni einstakra aðila sem koma að matsferlinu. Heimilt er að skipa sérstaka ráðgefandi vinnuhópa til að fjalla um álitaefni varðandi niðurstöður matsins. Álit slíkra hópa fela ekki í sér stjórnvaldsákvarðanir.
7. gr. Staðfesting.
Tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um úthlutanir framlaga á grundvelli þessarar reglugerðar skulu hljóta staðfestingu ráðherra. Við setningu verklagsreglna skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga.
8. gr. Gildistaka og endurskoðun.
Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 13. gr. a. og 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, tekur gildi 1. júní 2020. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2019, nr. 145/2019.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 3. júní 2020.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.