Fara beint í efnið

Prentað þann 19. jan. 2022

Stofnreglugerð

614/2009

Reglugerð um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til gjaldtökuheimilda opinberra framhaldsskóla, fyrirkomulags þeirra og málsmeðferðar.

2. gr. Innritunargjald.

Skólameistari ákveður upphæð innritunargjalds. Upphæð innritunargjalds skal taka mið af kostnaði við nemendaskráningu. Innritunargjald skal þó aldrei vera hærra en 12.000 kr. á skólaári eða 6.000 kr. á önn. Heimilt er að taka 25% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til innritunar utan auglýsts innritunartíma og er heimilt að láta gjaldið renna í skólasjóð, enda sé tekjum hans samkvæmt skipulagsskrá ráðstafað í þágu nemenda.

Innritunargjald má innheimta við skráningu við upphaf annar. Sama gjald er tekið fyrir nemanda hvort sem hann er í fullu námi eða í hlutanámi í dagskóla, kvöldskóla eða fjarnámi. Litið er á innritunargjald sem staðfestingu á skólavist. Skólum er ekki skylt að endurgreiða gjaldið þó að nemandi þiggi ekki veitta skólavist.

3. gr. Gjald vegna náms utan reglubundins starfstíma framhaldsskóla að sumri til.

Nú býður framhaldsskóli nám utan reglubundins starfstíma framhaldsskóla að sumri til og er þá heimilt að taka gjald af nemendum til að mæta þeim sérgreinda launakostnaði sem til fellur vegna kennslunnar.

4. gr. Gjald vegna náms utan reglubundins daglegs starfstíma framhaldsskóla og í fjarnámi.

Nú býður framhaldsskóli nám utan reglubundins daglegs starfstíma framhaldsskóla og í fjarnámi og er þá heimilt að taka sérstakt gjald af nemendum sem er 2.500 kr. á námseiningu.

5. gr. Þjónusta sem boðin er án endurgjalds.

Þjónusta sem nemendum í framhaldsskólum stendur til boða, auk kennslu án sérstaks endurgjalds, er eftirfarandi: Aðgangur að bókasafni og þjónusta bókasafns- og upplýsingafræðinga; þjónusta náms- og starfsráðgjafa; aðstoð og þjónusta umsjónarkennara; skólanámskrá og kennsluáætlanir; stundatafla, fjarvistayfirlit, námsferill og brautskráningarskírteini; aðgangur að lesstofu og nettengdum tölvum.

6. gr. Gjald fyrir valkvæða starfsemi.

Heimilt er framhaldsskólum að innheimta gjald af nemendum fyrir valkvæða starfsemi sem í boði er, svo sem námsferðir, safnferðir eða leikhúsferðir. Gjaldið skal að hámarki nema kostnaði þeirrar starfsemi sem í boði er hverju sinni.

7. gr. Gjald fyrir aðra þjónustu.

Heimilt er framhaldsskólum að innheimta gjald fyrir aðra þjónustu sem í boði er og telst ekki vera hluti af eða leiða af lögbundnu hlutverki skóla. Gjaldið tekur til þátta eins og útgáfu skírteina, aðgangs að þráðlausu neti, tölvuforritum, útgáfu netfangs, gagnapláss, skápaleigu, prentunar, fjölföldunar og bílastæðis. Skólameistari auglýsir gjaldskrá að höfðu samráði við skólanefnd. Gjaldskrá skal að hámarki miðast við kostnað og skal birta á vef skóla fyrir upphaf innritunartímabils.

8. gr. Kæruheimild.

Ákvarðanir um gjaldtöku samkvæmt reglugerð þessari eru kæranlegar til menntamálaráðherra. Um meðferð kærumála fer að ákvæðum stjórnsýslulaga.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 45. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 333/1997 um endurinnritunargjald.

Menntamálaráðuneytinu, 7. júlí 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Baldur Guðlaugsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.