Prentað þann 22. des. 2024
598/2009
Reglugerð um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til útreiknings, endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta skv. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Þá tekur reglugerðin einnig til útreiknings, endurreiknings og uppgjörs vistunarframlags skv. 26. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum, eftir því sem við á.
Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd reglugerðarinnar.
2. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
Tekjutengdar bætur: Bætur þar sem tekjur hafa áhrif á fjárhæð bóta.
Bótagreiðsluár: Almanaksár.
Tekjur: Til tekna samkvæmt reglugerð þessari teljast tekjur eins og þær eru skilgreindar í 16. gr. laga um almannatryggingar. Tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, skulu sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.
3. gr. Upplýsingar til Tryggingastofnunar ríkisins skv. 52. gr. almannatryggingalaga.
Umsækjanda og bótaþega er skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum, greiðslur til umsækjanda og bótaþega hjá lífeyrissjóðum, hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er á þennan hátt skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Telji umsækjandi eða bótaþegi upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar. Umsækjanda og bótaþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um breytingar á tekjum sem verða á yfirstandandi tekjuári.
Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda eða bótaþega er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur og skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar.
Ef umsækjandi eða bótaþegi gefa Tryggingastofnun ríkisins rangar upplýsingar getur stofnunin endurkrafið bætur, dregið ofgreiðslu frá öðrum bótum, fellt vexti niður af vangreiðslum eða innheimt dráttarvexti af ofgreiðslum í samræmi við 55. gr. almannatryggingalaga.
II. KAFLI Útreikningur bóta.
4. gr. Grundvöllur bótaútreiknings.
Um almenn skilyrði og útreikning bótagreiðslna fer samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í þeim.
Tryggingastofnun ríkisins skal áætla væntanlegar tekjur umsækjanda eða bótaþega á bótagreiðsluári. Tekjuáætlun skal byggjast á nýjustu upplýsingum um tekjur sem fengnar eru frá þeim aðilum sem greinir í 1. mgr. 3. gr. Til grundvallar útreikningi á tekjutengdum bótum hvers mánaðar skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins samkvæmt tekjuáætlun. Þó er heimilt að telja atvinnutekjur til tekna greiðsluþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað.
Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 1. mgr. 3. gr.
Tryggingastofnun ríkisins er þó heimilt, þegar einstaklingur leggur inn nýja umsókn um bætur frá stofnuninni, að miða útreikning bóta eingöngu við þær tekjur sem áætlað er að aflað verði eftir að bótaréttur stofnast. Unnt er að beita heimild þessari bæði um nýja umsókn um örorkubætur/endurhæfingarlífeyri og um nýja umsókn um ellilífeyri hjá sama einstaklingi, enda sé ekki um samfellt bótatímabil að ræða. Heimildinni verður þó eingöngu beitt einu sinni um útreikning ellilífeyris. Þegar um endurhæfingar- eða örorkulífeyrisþega er að ræða telst umsókn vera ný ef liðin eru meira en tvö ár frá því að síðasta örorkumat rann út eða viðkomandi einstaklingur var í virkri endurhæfingu og/eða fékk greiðslur frá Tryggingastofnun.
Fjármagnstekjum skal ávallt skipt til helminga milli hjóna við útreikning bóta. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
5. gr. Breytingar innan bótagreiðsluársins.
Komi fram upplýsingar frá þeim aðilum sem getið er um í 1. mgr. 3. gr. eða við eftirlit Tryggingastofnunar sem leiða til breytinga á tekjuáætlun innan ársins og breytingin hefur áhrif á rétt til bóta eða fjárhæð greiðslna skal stofnunin breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við þær upplýsingar og upplýsa bótaþega samstundis um breytinguna. Telji bótaþegi upplýsingarnar ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar.
Þegar nýr útreikningur bóta, sbr. 1. mgr., liggur fyrir skal jafna áætluðum heildargreiðslum ársins á alla mánuði bótagreiðsluársins og greiða bætur samkvæmt því þá mánuði sem eftir eru af árinu. Ef í ljós kemur að bætur hafi verið ofgreiddar kemur ofgreiðslan til innheimtu við næsta árlegt uppgjör, nema bótaþegi semji um annað. Hafi bætur verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem upp á vantar.
III. KAFLI Endurreikningur bóta.
6. gr. Grundvöllur endurreiknings.
Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal endurreikna bótafjárhæðir ársins á grundvelli þeirra upplýsinga.
Ef um atvinnutekjur er að ræða skal Tryggingastofnun við endurreikning bótafjárhæða gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.
Við endurreikning skulu lagðar til grundvallar þær aðstæður bótaþega á hverjum tíma innan bótagreiðsluársins sem lögum samkvæmt hafa áhrif á greiðslurétt. Í þessu sambandi skal m.a. litið til hjúskaparstöðu, heimilisaðstöðu og búsetu viðkomandi samkvæmt opinberum upplýsingum, s.s. þjóðskrá Hagstofu Íslands. Hafi heimild í 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar verið beitt, skal endurreikningur bótafjárhæða ársins taka mið af sömu forsendum og þar eru lagðar til grundvallar.
Við endurreikning bóta er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.
7. gr. Endurreikningur bóta við breyttar aðstæður innan bótagreiðsluárs.
Við endurreikning bóta til þeirra sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðsluári gildir eftirfarandi:
- Byggja skal á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eingöngu ber að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í.
- Aðrar tekjur en þær sem greinir í a-lið skulu hafa áhrif á endurreikning bótafjárhæða í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur til bóta var fyrir hendi í.
Við endurreikning bóta til þeirra sem bótaréttur breytist hjá í kjölfar breyttra aðstæðna, sbr. 2. mgr. 6. gr., gildir eftirfarandi:
- Byggja skal á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ef bótagreiðsluár skiptist í tvö eða fleiri útreikningstímabil skal endurreikningur bóta taka mið af því á hvaða tímabili þessar tekjur eru skráðar í staðgreiðsluskrá.
- Aðrar tekjur en þær sem greinir í a-lið 2. mgr. skulu hafa áhrif á endurreikning bóta í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem tilheyra hverju tímabili. Þegar hjúskap eða sambúð er slitið á bótagreiðsluári er þó heimilt að undanskilja þessar tekjur að hluta eða öllu leyti við endurreikning tímabilsins eftir að hjúskaparstaða breyttist.
Við endurreikning bóta til þeirra sem fá atvinnutekjur, sbr. 3. mgr. 6. gr., gildir eftirfarandi:
- Byggja skal á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða atvinnutekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
- Aðrar atvinnutekjur en þær sem greinir í a-lið skulu hafa áhrif á endurreikning bóta í samræmi við 2. og 4. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar. Þó er heimilt að telja þær atvinnutekjur til tekna í þeim mánuðum sem þeirra er aflað komi fram ósk greiðsluþega um það og að því tilskildu að greiðsluþegi leggi fram fullnægjandi gögn til staðfestingar á því hvenær teknanna var aflað.
IV. KAFLI Uppgjör bóta.
8. gr. Vangreiddar bætur.
Komi í ljós við endurreikning samkvæmt III. kafla að bætur hafi verið vangreiddar skal bótaþega eða dánarbúi hans greitt það sem upp á vantar.
Greiða skal 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var enda stafi vangreiðslan ekki af skorti á upplýsingum, sbr. 3. gr.
Hafi bæði myndast vangreiðsla og ofgreiðsla bóta vegna mismunandi tímabila innan bótagreiðsluárs skal draga fjárhæð ofgreiðslu frá vangreiðslunni áður en vextir skv. 2. mgr. eru reiknaðir.
9. gr. Ofgreiddar bætur.
Komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skal það sem ofgreitt er dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur þær sem lagðar eru til grundvallar bótaútreikningi reynast hærri en tekjuáætlun skv. 4. gr. gerði ráð fyrir og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.
10. gr. Tilhögun frádráttar af bótum.
Ofgreiðslur sem nema lægri fjárhæð en 1.000 kr. á bótagreiðsluári, samkvæmt árlegu uppgjöri Tryggingastofnunar skulu ekki innheimtar af bótaþega.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að halda að hámarki eftir 20% af þeim tekjutengdu bótum sem bótaþegi á rétt á í hverjum mánuði upp í ofgreiðsluþó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu nema samið sé um annað.
Ef bótaþegi sýnir Tryggingastofnun fram á að innheimta ofgreiðslna skv. 2. mgr. verði til þess að hann hafi heildartekjur sem nema lægri fjárhæð en fram kemur í leiðbeiningum félags- og tryggingamálaráðuneytisins um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, skal Tryggingastofnun ríkisins, að ósk bótaþega, lækka fjárhæð mánaðarlegrar innheimtu þannig að heildartekjur bótaþegans nái þeirri fjárhæð.
Tryggingastofnun ríkisins er ávallt heimilt að semja við bótaþega eða dánarbú hans um tilhögun endurgreiðslu, þar á meðal um dreifingu greiðslna.
11. gr. Undanþága frá endurkröfu.
Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.
12. gr. Innheimta ofgreiðslna.
Að jafnaði skal Tryggingastofnun ríkisins draga ofgreiðslur frá greiðslum stofnunarinnar til bótaþega á næstu 12 mánuðum eftir árlegt uppgjör. Ef ljóst er eftir endurreikning skv. 9. gr. að bótaþegi muni ekki geta endurgreitt ofgreiðslu á 12 mánuðum skal Tryggingastofnun ríkisins meta hvernig staðið verður að innheimtu, þar á meðal hvort lengja skuli endurgreiðslutímann, innheimta samkvæmt almennum reglum eða bjóða bótaþega upp á sérstakan samning um endurgreiðslu. Hið sama á við ef bótaþegi nær ekki að endurgreiða ofgreiðslu á 12 mánuðum sbr. ákvæði 10. gr. Við mat á því hvernig staðið verði að innheimtu ofgreiddra bóta skal Tryggingastofnun ríkisins hafa hliðsjón af heildartekjum bótaþega, eignastöðu og upplýsingum um aðrar aðstæður bótaþega eða dánarbús hans sem Tryggingastofnun hefur aðgang að.
Hafi endurkrafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið endurgreidd á 12 mánuðum frá því krafa stofnaðist skal greiða 5,5% ársvexti á eftirstöðvar kröfunnar. Heimilt er að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu ofgreiddra bóta liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum.
13. gr. Málsmeðferðarreglur.
Ef í ljós kemur við endurreikning samkvæmt 9. gr. að bótaþegi hefur fengið ofgreiddar bætur skal Tryggingastofnun ríkisins þegar tilkynna honum um það skriflega og gefa honum kost á að koma að mótmælum og leiðréttingum við kröfu stofnunarinnar og leita samninga við stofnunina um fyrirkomulag endurgreiðslunnar. Þá skal Tryggingastofnun ríkisins jafnframt skora á bótaþega að endurgreiða ofgreiðsluna og gera tillögu til hans að tilhögun endurgreiðslu í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.
14. gr. Reglur Tryggingastofnunar ríkisins um innheimtu.
Tryggingastofnun ríkisins skal setja starfsreglur um innheimtu ofgreiðslna skv. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, þar á meðal um heimildir til samninga við bótaþega, hvenær skuli draga ofgreiðslur af bótum sem bótaþegi kann síðar að öðlast rétt til, aðrar innheimtuaðgerðir og tilhögun þeirra.
V. KAFLI Sérreglur um vistunarframlag.
15. gr. Greiðsla og útreikningur vistunarframlags.
Lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar og bætur honum tengdar falla niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar lífeyrisþega á dvalarheimili sem ekki er á föstum fjárlögum. Greiðsla lífeyris og tengdra bóta skal hefjast að nýju fyrsta dag næsta mánaðar eftir að dvöl vistmanns lýkur.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða dvalarheimili fyrir aldraða, sem ekki er á föstum fjárlögum, vistunarframlag allt að því sem á vantar dvalarkostnað í samræmi við lög um málefni aldraðra og ákvæði reglugerðar nr. 1112/2006 um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, með síðari breytingum. Vistunarframlag skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur dvalarkostnaði vistmanns á dvalarheimili aldraðra eins og hann er ákveðinn af félags- og tryggingamálaráðherra hverju sinni.
Vistunarframlag er heimilt að greiða frá því að lífeyrisgreiðslur falla niður eða frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar.
Við andlát vistmanns eða þegar vistmaður flytur af dvalarheimili falla greiðslur vistunarframlags niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir lok dvalar. Nú flyst vistmaður af dvalarrými yfir á hjúkrunarrými og skal þá vistunarframlag sem þegar hefur verið greitt til dvalarheimilis fyrir sama tíma dragast frá daggjaldi sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt fyrir hjúkrunarrýmið samkvæmt reglugerð um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum.
Nú fer vistmaður á sjúkrahús til skammtímainnlagnar og er þá heimilt að greiða áframhaldandi vistunarframlag út næsta mánuð eftir að innlögnin á sér stað.
16. gr. Endurreikningur og uppgjör vistunarframlags.
Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur vistmanns á bótagreiðsluári liggja fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal endurreikna kostnaðarþátttöku hans á árinu á grundvelli þeirra upplýsinga.
Í kjölfar endurreiknings á kostnaðarþátttöku vistmanns fer fram uppgjör vistunarframlags á milli Tryggingastofnunar og viðkomandi dvalarheimilis. Hafi vistunarframlag verið vangreitt greiðir Tryggingastofnun dvalarheimili það sem á vantar. Hafi vistunarframlag verið ofgreitt skal Tryggingastofnun draga það sem ofgreitt var frá greiðslum til dvalarheimilis. Of- og vangreiðslur skulu gerðar upp í næsta mánuði eftir að uppvíst verður um þær.
Um útreikning, endurreikning og uppgjör vistunarframlags gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar þessarar, m.a. um áætlun tekna vistmanna, breytingar á aðstæðum þeirra og endurreikning við álagningu opinberra gjalda og dvöl hluta úr mánuði.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ekki greiddir vextir á vangreitt vistunarframlag til stofnana.
17. gr. Innheimta dvalarkostnaðar á dvalarheimilum fyrir aldraða.
Dvalarheimili fyrir aldraða skal innheimta hjá vistmanni sjálfum í byrjun hvers mánaðar daglegan hlut hans í dvalarkostnaði nýliðins mánaðar þegar hann tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar. Þess skal ætíð gætt að vistmaður haldi eftir mánaðarlegu ráðstöfunarfé. Dvalarheimili skal gera Tryggingastofnun ríkisins grein fyrir innheimtu vegna nýliðins mánaðar fyrir 15. dag næsta mánaðar.
VI. KAFLI Sérregla um eigin tekjur lífeyrisþega sem stafa af fjármagnstekjum.
18. gr. Dreifing fjármagnstekna.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ósk elli- eða örorkulífeyrisþega að dreifa eigin tekjum lífeyrisþegans sem stafa af fjármagnstekjum á allt að 10 ár. Skilyrði er að tekjurnar hafi verið leystar út í einu lagi.
Heimilt er að dreifa tekjum skv. 1. mgr. einu sinni á hverju tímabili og skal dreifing teknanna vera jöfn fyrir öll þau ár sem dreift er á. Þó getur lífeyrisþegi ákveðið að einungis hluta teknanna verði dreift, t.d. að helmingur verði á því ári sem tekjurnar tilheyra og afgangi síðan dreift á tiltekinn árafjölda, allt að níu ár.
Lífeyrisþega er heimilt að breyta árafjölda sem dreift er á eftir að dreifing er hafin. Þá er heimilt að láta allar eftirstöðvar tekna sem dreift hefur verið falla á yfirstandandi ár og ljúka þar með dreifingunni á því ári. Ekki er heimilt að ákveða afturvirkt að ljúka dreifingu á síðasta ári svo hægt verði að hefja nýja dreifingu vegna yfirstandandi árs.
Ef um hjón er að ræða sem bæði eru lífeyrisþegar verða bæði að óska eftir dreifingu fjármagnstekna og dreifast tekjurnar eins hjá báðum. Ef um örorkulífeyrisþega er að ræða er einungis heimilt að dreifa tekjum á það tímabil sem örorkumat hans varir.
Þegar lífeyrisgreiðslur falla niður vegna dvalar á sjúkrahúsi eða vistunar á dvalar- eða hjúkrunarheimili fellur dreifingin niður og jafnframt myndast ekki heimild hjá Tryggingastofnun ríkisins til endurkröfu. Hið sama gildir ef lífeyrisþegi andast.
Tekjur sem dreift er samkvæmt grein þessari skulu taka breytingum árlega samkvæmt vísitölu neysluverðs.
VII. KAFLI Gildistaka.
19. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 12. mgr. 16. gr., sbr. 6. mgr. 55. gr., sbr. 70. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, 2. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, og 29. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.