Prentað þann 21. des. 2024
597/2005
Reglugerð um framtal og skil á olíugjaldi.
1. gr. Uppgjörstímabil og gjalddagi.
Uppgjörstímabil olíugjalds er einn mánuður. Gjalddagi er fimmtándi dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.
2. gr. Olíugjaldsskýrslur.
Gjaldskyldir aðilar sem hlotið hafa skráningu skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skulu ótilkvaddir gera grein fyrir því olíugjaldi sem þeim ber að standa skil á, ásamt upplýsingum um magn gjaldskyldrar og gjaldfrjálsrar olíu á uppgjörstímabilinu, á sérstökum olíugjaldsskýrslum sem ríkisskattstjóri lætur gera. Ríkisskattstjóri ákveður nánar efni og form olíugjaldsskýrslunnar.
Sé um að ræða leiðréttingu á áður ákvörðuðu olíugjaldi skal gerð grein fyrir því á sérstökum leiðréttingarskýrslum í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
Olíugjaldsskýrslu ber einnig að skila innheimtumanni eða ríkisskattstjóra fyrir hvert uppgjörstímabil þótt ekki hafi verið um olíugjaldsskylda veltu að ræða.
3. gr. Aðrar upplýsingar gjaldskylds aðila.
Til viðbótar því sem olíugjaldsskýrslur skv. 2. gr. gefa tilefni til skal gjaldskyldur aðili sem hlotið hefur skráningu skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skýra frá öðrum atriðum sem kunna að skipta máli um skil hans á olíugjaldi. Einnig er gjaldskyldum aðila skylt að láta ríkisskattstjóra í té, í því formi sem óskað er, nánari sundurliðun á þeim fjárhæðum sem hann færir á olíugjaldsskýrslu, svo og styðja þær gögnum sé þess óskað.
4. gr. Fullnægjandi skil á olíugjaldi.
Það teljast fullnægjandi skil á olíugjaldi ef:
- Greitt er í banka eða sparisjóði í síðasta lagi á gjalddaga. Greiðsla á grundvelli rafrænna greiðslufyrirmæla telst því aðeins innt af hendi á gjalddaga, að greiðslufyrirmælin berist banka eða sparisjóði innan þeirra tímamarka sem viðkomandi banki eða sparisjóður setur fyrir því að greiðsla teljist hafa farið fram á þeim degi.
- Greitt er hjá innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga. Innheimtumenn olíugjalds eru tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn utan Reykjavíkur.
Skil eru ekki fullnægjandi nema allar tilskildar upplýsingar komi fram á olíugjaldsskýrslu og hún sé undirrituð af skattaðila eða ábyrgum starfsmanni hans.
5. gr. Viðurlagaákvæði.
Brot gegn ákvæðum 2. gr. reglugerðar þessarar varða við 20. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.
6. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., og öðlast gildi 1. júlí 2005.
Fjármálaráðuneytinu, 14. júní 2005.
F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.
Vala R. Þorsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.