Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Stofnreglugerð

595/2020

Reglugerð um próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa.

1. gr.

Prófnefnd sem endurskoðendaráð skipar til fjögurra ára í senn, annast próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa.

2. gr.

Próf skulu að jafnaði haldin einu sinni ár hvert.

Prófnefnd skal auglýsa fyrirhuguð próf með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara. Skulu þeir sem hyggjast þreyta próf tilkynna það prófnefnd eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir upphaf prófa. Tilkynningu skal fylgja staðfesting um að fullnægt sé skilyrðum 5. og 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019. Prófnefnd skal meta hvort framangreindum skilyrðum er fullnægt. Mati prófnefndar um þetta má skjóta til endurskoðendaráðs.

Prófnefnd getur fellt niður próf í heild eða einstaka prófhluta ef færri en 10 manns skrá sig í prófið eða prófhlutann.

3. gr.

Próf skulu vera skrifleg, rafræn eða munnleg. Prófhlutar skulu vera tveir. Prófnefnd tekur hverju sinni ákvörðun um fjölda sjálfstæðra úrlausnarefna innan hvers prófhluta, efnissvið þeirra og lengd próftíma.

Í prófunum skal látið reyna á verklega kunnáttu til þess að nýta fræðilega þekkingu sem varðar endurskoðun og endurskoðendur. Meðal þess sem fellur undir fræðilega þekkingu er:

  1. alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar og aðrar staðfestingar (IFAC International Assurance Pronouncements),
  2. lög um endurskoðendur og endurskoðun og siðareglur endurskoðenda,
  3. tölvuendurskoðun og gagnagreiningar við endurskoðun,
  4. staðlar um innri endurskoðun og grundvallaratriði innri endurskoðunar,
  5. alþjóðlegir reikningsskilastaðlar,
  6. lagakröfur, staðlar og reglugerðir sem tengjast gerð ársreikninga og samstæðureikninga,
  7. greining fjárhagsupplýsinga,
  8. kostnaðarbókhald og stjórnendareikningsskil,
  9. áhættustýring og innra eftirlit,
  10. félagarétt og stjórnarhætti fyrirtækja,
  11. lög um gjaldþrotaskipti og sambærilega málsmeðferð,
  12. skattalög,
  13. upplýsingatækni og tölvukerfi,
  14. grundvallarreglur í fjármálastjórn fyrirtækja.

Prófverkefni skulu samin af einstökum prófnefndarmönnum eða þeim, sem prófnefndin felur það starf. Verkefnin og vægi úrlausnarefna innan þeirra, skulu lögð fyrir prófnefnd til samþykktar.

4. gr.

Prófúrlausnir skulu merktar prófnúmerum.

Við mat á úrlausnum skal gefin ein einkunn fyrir hvern prófhluta.

Einkunnir skulu gefnar í heilum, eða heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Lágmarkseinkunn til að standast próf er 7,5 í hverjum prófhluta.

Tveir aðilar skulu meta sjálfstætt úrlausnir prófmanna, annars vegar sá sem samdi viðkomandi verkefni og hins vegar aðili sem prófnefnd tilnefnir. Þeir ráða í sameiningu úrlausnarefni í hverjum prófhluta og dæma úrlausnir í sameiningu. Mat þeirra er endanlegt.

5. gr.

Einkunnir skulu að jafnaði birtar prófmönnum innan tveggja mánaða frá því að prófum lýkur. Er prófnefnd heimilt að framlengja þann frest um allt að einn mánuð ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Prófnefnd skal afhenda þeim prófmönnum sem standast próf eða prófhluta staðfestingu á því.

6. gr.

Prófnefnd skal gefa próftaka kost á að sjá niðurstöður úr sínu eigin prófi eða prófhluta og einstökum þáttum prófsins eða prófhlutanna, ef prófmaður óskar þess innan eins mánaðar frá því að niðurstöður prófa liggja fyrir. Sé próftaki ósáttur við niðurstöðu nefndarinnar getur hann óskað eftir skýringum á þeim og skal veita slíkar skýringar innan mánaðar frá því að þeirra er óskað.

7. gr.

Ef prófmaður nær ekki tilskilinni lágmarkseinkunn, sbr. 4. gr., er honum heimilt að þreyta próf eða viðkomandi prófhluta að nýju þegar próf eru haldin skv. 2. gr.

Frá því að prófmaður nær fullnægjandi árangri í fyrsta prófhluta og þar til hann hefur lokið síðasta prófhluta mega líða þrjú ár hið mesta.

8. gr.

Prófmaður sem skráir sig í próf skal greiða próftökugjald sem endurskoðendaráð ákveður ár hvert.

Skal próftökugjald vera tvíþætt. Annars vegar gjald sem greitt er við skráningu í prófhluta (skráningargjald) og hins vegar gjald sem greitt er áður en próftaka hefst (prófgjald). Skráningargjald sem greitt hefur verið er óendurkræft, nema prófhluti verði felldur niður.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 7. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019, öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 589/2009, með síðari breytingum, um próf til löggildingar endurskoðunarstarfa.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 15. júní 2020.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Harpa Theodórsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.