Fara beint í efnið

Prentað þann 24. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 13. feb. 1991 – 1. jan. 1993 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 13. feb. 1991 af rg.nr. 70/1991

591/1987

Reglugerð um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu

1. gr.

Til staðgreiðsluskyldra launa, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, teljast, auk hvers konar endurgjalds fyrir vinnu, ökutækjastyrkir, hlunnindi, flutningspeningar, ferðapeningar, dagpeningar og aðrar starfstengdar greiðslur, aðrar en þær sem samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að halda utan staðgreiðslu.

2. gr. Greiðslur utan staðgreiðslu.

Eftirtaldar greiðslur falla ekki undir staðgreiðslu:

1. Ökutækjastyrkir sem greiddir eru samkvæmt sundurliðuðum gögnum, sbr. 3. gr. reglugerðar þessarar.

2. Dagpeningar, ferðapeningar og hliðstæður ferða- og dvalarkostnaður sem greiddur er í samræmi við 6. gr. reglugerðar þessarar.

3. Atvinnuleysistryggingabætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

4. Sjúkradagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins og vátryggingafélögum.

5. Slysadagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins og vátryggingafélögum.

6. Framfærslustyrkir frá sveitarfélögum.

7. Sjúkrabætur frá verkalýðsfélögum.

8. Útfararstyrkir frá verkalýðsfélögum.

9. Uppbót á elli- og örorkulífeyri og örorkustyrk vegna reksturs bifreiðar, sbr. lokamálslið 4. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971, með síðari breytingum.

10. Greiðslur til vistmanna á elliheimilum og stofnunum skv. 6. tölul. 51. gr. laga nr. 67/ 1971, með síðari breytingum, og 3. tölul. 26. gr. laga nr. 91/1982, um málefni aldraðra.

11. Einkennisfatnaður sem launagreiðandi lætur launamanni í té.

12. Dreifbýlisstyrkir námsmanna greiddir samkvæmt lögum nr. 69/1971, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.

13. Verkfallsstyrkir frá verkalýðsfélögum.

14. Vinningar í happdrætti, veðmál og keppni.

15. Risnufé sem greitt er launamanni samkvæmt reikningi frá þriðja aðila sem endurgreiðsla á risnukostnaði launamanns í þágu launagreiðanda. Séu framangreind skilyrði eigi uppfyllt skal reikna staðgreiðslu af greiddu risnufé.

16. Ýmsar launagreiðslur sem eigi tengjast atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi launagreiðanda. Sem dæmi um slíkar greiðslur í einkaþágu greiðanda má nefna greiðslur fyrir hús- og heimilishjálp og svipuð persónubundin störf sem ekki fara fram úr 60.000 kr. samtals á ári. Sama gildir um svipaðar greiðslur óskattskyldra aðila, t.d. húsfélaga, sem ekki fara fram úr 120.000 kr. samtals á ári.

17. Endurgjald sem maður skal reikna sér vegna starfs við sjálfstæða starfsemi sína ef starfsemin er svo óveruleg að reiknuð laun manns vegna slíkrar starfsemi verði eigi hærri, miðað við heilt ár, en 100.000 kr.

18. Reiknuð laun barna, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

19. Greiðslur höfundarlauna til Íslendinga búsettra hérlendis er fram fara samkvæmt lögum nr. 73/1972, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1987 með síðari breytingum, er ekki fari fram úr 120 000 kr. á ári.

20. Greiðslur launa til vistmanna elliheimila fyrir störf sem unnin eru í endurhæfingarskyni, enda sé um að ræða greiðslur er viðkomandi elliheimili innir of hendi eða hefur milligöngu um og heildarfjárhæð, er hver vistmaður nýtur, fari ekki fram úr 120.000 kr. á ári.

21. Greiðslur, samkv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.

22. Styrkir til fræðimanna, listamanna og vísindamanna sem veittir eru úr ríkissjóði, opinberum sjóðum eða opinberum stofnunum.

23. Verðlaun sem vent eru í viðurkenningarskyni.

 24. Starfsmenntunar- og vísindasjóðsstyrkir stéttarfélaga og annarra félagasamtaka til rannsókna, þróunarstarfa, endurmenntunar og sambærilegra verkefna.

Fjárhæðir skv. 16., 17., 19. og 20. tölulið 1. mgr. þessarar greinar eru grunnfjárhæðir miðaðar við 1. desember 1987 og skulu þær breytast í samræmi við lánskjaravísitölu, sbr. 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

3. gr. Ökutækjastyrkir.

Heimilt er að halda utan staðgreiðslu greiðslu launagreiðanda fyrir afnot af eigin bifreið launamanns þegar sannanlega er um að ræða endurgreiðslu á kostnaði við rekstur hennar sem til er kominn vegna aksturs tiltekinnar vegalengdar í þágu launagreiðanda, að svo miklu leyti sem slík greiðsla er undir þeim mörkum sem ríkisskattstjóri setur hverju sinni.

Heimild þessi er að öðru leyti bundin þeim skilyrðum að færð sé akstursdagbók eða akstursskýrsla þar sem skráð er hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi, kílómetragjald greitt launamanni, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis. Gögn þessi skulu færð reglulega og vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess, hvort sem er í bókhaldi launagreiðanda eða hjá launamanni.

Akstur launamanns á milli heimilis hans og venjulegs vinnustaðar fellur ekki undir skilgreiningu hér að framan. Aki launamaður hins vegar beint frá heimili sínu til annars vinnustaðar en hins venjulega að beiðni launagreiðanda getur greiðsla fyrir slík afnot ökutækis fallið undir endurgreiddan bifreiðakostnað, enda séu slík afnot af ökutæki launamanns beinlínis tengd starfi hans en ekki fólgin í því einu að komast á vinnustað.

4. gr.

Fái launamaður greiddan reksturskostnað bifreiðar fyrir akstur í þágu launagreiðanda samkvæmt framlögðum reikningum, frá launamanni sjálfum eða frá þriðja aðila, skal fara með slíkar greiðslur eins og ökutækjastyrki og telja þær til tekna við ákvörðun staðgreiðslu.

5. gr.

Af ökutækjastyrkjum, öðrum en þeim er greinir í 3. gr., ber að reikna staðgreiðslu. Hins vegar getur launamaður lagt fram með skattframtali sínu gögn um sannanlegan akstur í þágu launagreiðanda, sbr. 1. tölul. A-liðs 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og kemur þá sá kostnaður sem sannað er að sé í þágu launagreiðanda til frádráttar við álagningu.

6. gr. Dagpeningar, ferðapeningar og ferðakostnaður.

Heimilt er að halda utan staðgreiðslu greiðslum launagreiðanda á ferðakostnaði launamanns á vegum hans, þ.m.t. fargjöldum, sem greiddur er samkvæmt reikningi frá þriðja aðila.

Ennfremur er heimilt að halda utan staðgreiðslu dagpeningum og hliðstæðum endurgreiðslum á ferða- og dvalarkostnaði vegna launagreiðanda, enda sé fjárhæðin innan þeirra marka sem leyfist til frádráttar samkvæmt reglum ríkisskattstjóra, sbr. l . tölul. 30. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Framangreindar heimildir eru bundnar þeim skilyrðum að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launamanni, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga eða eftir atvikum reikningar frá þriðja aðila, svo og nafn og kennitala launamanns.

7. gr.

Af öðrum greiðslum launagreiðanda vegna ferðalaga launamanns en þeim er að framan greinir ber að reikna staðgreiðslu. Hins vegar getur launamaður lagt fram með skattframtali sínu gögn um kostnað sem hann hefur sannanlega borið vegna ferða á vegum launagreiðanda, sbr. 1. tölulið A.-liðs 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og kemur þá slíkur kostnaður til frádráttar við álagningu.

8. gr. Almenn ákvæði.

Ákvæði reglugerðar þessarar breyta í engu framtals- og skattskyldu þeirra greiðslna sem reglugerðin fjallar um.

9. gr.

Ríkisskattstjóri úrskurðar um ágreining vegna framkvæmdar reglugerðar þessarar.

10. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 8. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, öðlast gildi 1. janúar 1988.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.