Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 19. ágúst 2022

590/2022

Reglugerð um innflutning hunda og katta frá Úkraínu.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Tilgangur og markmið.

Tilgangur reglugerðar þessarar er að veita neyðaraðstoð með því að veita leyfi til innflutnings hunda og katta í eigu umsækjanda um alþjóðlega vernd eða flóttamanna frá Úkraínu, skv. lögum nr. 80/2016 um útlendinga, að uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar.

Auk þess er markmið reglugerð þessarar að tryggja heilbrigði dýra og manna með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins við innflutning á hundum og köttum í eigu umsækjanda um alþjóðlega vernd/flóttamanna frá Úkraínu, skv. lögum nr. 80/2016.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð og orðasambönd merkingu sem hér segir:

  1. Einangrunarstöð: Aðstaða þar sem hundar og kettir eru vistaðir meðan fylgst er með hvort dýrin sýni merki um smitsjúkdóm. Um skilyrði sem einangrunarstöðvar þurfa að uppfylla vísast til reglugerðar nr. 201/2020, um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr með undanþágum skv. viðauka I.
  2. Framhaldseinangrunarstöð: Aðstaða sem er viðurkennd af Matvælastofnun þar sem vista má dýr sem hafa uppfyllt öll skilyrði 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020 að undanskildum i-lið a-liðar 8. töluliðar. Um skilyrði sem framhaldseinangrunarstöðvar þurfa að uppfylla vísast til reglugerðar nr. 201/2020, um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr með undanþágum skv. viðaukum I við reglugerð þessa.
  3. Umsækjandi um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun: Útlendingur sem óskar eftir viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur hér á landi.
  4. Flóttamaður: Útlendingur sem er utan heimalands síns eða ríkisfangslaus einstaklingur sem er utan þess lands þar sem hann hafði reglulegt aðsetur vegna þess að hann hefur ástæðuríkan ótta um að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands.
  5. Gild bólusetning: Bólusetning þar sem hundar og kettir hafa hlotið viðeigandi grunnbólusetningu og henni viðhaldið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda bóluefnisins.
  6. Innflutningsleyfi fyrir hund eða kött frá Úkraínu: Leyfi til innflutnings fyrir hund eða kött í eigu hælisleitanda/flóttamenn frá Úkraínu útgefið af Matvælastofnun.
  7. Innflutningsstaður: Flugvöllur sem hefur á að skipa aðstöðu sem uppfyllir skilyrði 6. gr. þessarar reglugerðar.
  8. Móttökustöð hunda og katta: Aðstaða á innflutningsstað á vegum Matvælastofnunar fyrir hunda og ketti þar sem innflutningseftirlit fer fram.
  9. Opinber dýralæknir: Dýralæknir sem er starfsmaður dýralæknayfirvalda í hverju landi eða starfar með fulltingi dýralæknayfirvalda.

3. gr. Innflutningsleyfi fyrir hunda eða ketti frá Úkraínu.

Innflutningur á hundum og köttum í eigu umsækjanda um alþjóðlega vernd eða flóttamanna frá Úkraínu er óheimill nema að fengnu leyfi Matvælastofnunar og uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar. Innflutningsleyfi skal liggja fyrir áður en dýrið er flutt til landsins.

Með umsókn um innflutningsleyfi staðfestir umsækjandi að hann muni hlíta í hvívetna þeim reglum sem um slíkan innflutning gilda. Jafnframt staðfestir umsækjandi að hann hyggist eða hafi þegar sótti um alþjóðlega vernd fyrir flóttamenn hér á landi eða hafi þegar hlotið vernd sem flóttamenn, sbr. lög nr. 80/2016.

Umsókn um innflutningsleyfi skal skila til Matvælastofnunar með því að fylla inn þar til gert eyðublað á vef Matvælastofnunar. Með umsókn skal leggja fram öll tiltæk gögn um auðkenni og heilsufar dýrsins svo sem auðkennisnúmer, sé það fyrir hendi, gögn um bólusetningar, sníkjudýrameðhöndlun o.fl.

Matvælastofnun metur umsókn og fylgigögn og tekur ákvörðun um heilbrigðisskilyrði sem dýrið skal undirgangast í einangrun og lengd dvalar í einangrun, sbr. 7. gr. reglugerðar þessarar.

Fjöldi innflutningsleyfa miðast við fjölda rýma á einangrunarstöð og eru innflutningsleyfi gefin út í samræmi við laus rými hverju sinni. Umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þau berast Matvælastofnun. Við útgáfu innflutningsleyfa er heimilt að taka mið af fyrirhugaðri lengd dvalar í einangrun, sbr. 4. mgr., með þeim hætti að dýr sem fyrirhugað er að dvelji fjórar vikur eða skemur getur fengið forgang fram fyrir önnur dýr sem fyrirhugað er að dvelji lengur en 8 vikur í einangrun, enda hafi umsækjandi lagt fram tiltæk gögn, sbr. 4. mgr. og þau metin trúverðug.

Innflutningsleyfi skal vera umsækjanda að kostnaðarlausu.

4. gr. Innflutningsstaður.

Einungis er heimilt að flytja inn hunda og ketti til Íslands um innflutningsstað eins og hann er skilgreindur í reglugerð nr. 200/2020.

Um aðbúnað dýranna í flutningi gilda ákvæði 7. liðar í viðauka II við reglugerð nr. 80/2016, um velferð gæludýra.

5. gr. Eftirlit á innflutningsstað.

Opinber dýralæknir skoðar alla hunda og ketti við komu til landsins í móttökustöð hunda og katta, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 200/2020 og sannreynir að þeir hafi innflutningsleyfi og að þeir sýni ekki einkenni hundaæðis eða annarra alvarlegra smitsjúkdóma.

6. gr. Brottfall innflutningsleyfis.

Vakni grunur við innflutningseftirlit um að dýrið sé haldið alvarlegum smitsjúkdómi eða að um sé að ræða dýr sem óheimilt er að flytja inn, sbr. 11. gr. reglugerðar þessarar, mun Matvælastofnun meta hvort innflutningsleyfi falli brott. Dýrið skal þá annaðhvort sent úr landi eða aflífað.

Ef Matvælastofnun metur það sem svo að önnur skilyrði innflutnings séu ekki uppfyllt getur Matvælastofnun fellt innflutningsleyfið úr gildi.

II. KAFLI Innflutningur hunda og katta.

7. gr. Einangrun.

Dýrin skal við komuna til landsins flytja úr móttökustöð hunda og katta í einangrunarstöð þar sem þau skulu dvelja þar til heilbrigðisskilyrði, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020 eru uppfyllt og sbr. 2. mgr. 10. gr. reglugerðar þessarar. Dvalartími í einangrun skal vera að lágmarki 14 dagar, en þó aldrei skemmri en svo að hundar eða kettir sem heimilað hefur verið að flytja til landsins uppfylli skilyrði reglugerðar þessarar. Sé dýrið ekki örmerkt, né hafi gilda bólusetningu gegn hundaæði getur heildar einangrunartími numið 120 dögum, með fyrirvara um framlengingu, sbr. 12. gr. reglugerðar þessarar.

Við dvalartíma hunda og katta í einangrun skal uppfylla skilyrði 15.-26. gr. reglugerðar nr. 201/2020.

Eftir a.m.k. þriggja vikna einangrun er innflytjanda dýrsins heimilt að heimsækja dýrið einu sinni í viku. Ráðstafanir vegna heimsókna skal gera tímanlega í samráði við starfsfólk stöðvarinnar.

8. gr. Heilbrigðisskilyrði vegna innflutnings hunda og katta.

Þau heilbrigðisskilyrði sem tilgreind eru í 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020 skulu öll uppfyllt og staðfest í heilbrigðisvottorði vegna innflutnings hunda og katta samkvæmt reglugerð þessari þegar dvöl á einangrunarstöð lýkur.

Hafi hundur eða köttur ekki gilt bólusetningarvottorð gegn hundaæði fyrir komu til landsins, skv. i-lið a-liðar 8. töluliðar 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020, getur Matvælastofnun heimilað að dýrið dvelji í framhaldseinangrun í allt að 90 daga eftir að fullnægjandi niðurstaða mótefnamælinga liggur fyrir.

9. gr. Óheimill innflutningur.

Óheimilt er að flytja til landsins eftirtalin dýr:

  1. Hunda af eftirfarandi tegundum, svo og blendinga af þeim í a.m.k. fimm ættliði:

    1. Pit Bull Terrier/Staffordshire Bull Terrier.
    2. Fila Brasileiro.
    3. Toso Inu.
    4. Dogo Argentino.
    5. Aðrar hundategundir eða blendinga, samkvæmt rökstuddri ákvörðun Matvælastofnunar í hverju tilfelli.
  2. Blendinga af úlfum og hundum í a.m.k. 10 ættliði.

Komi í ljós við komu dýrs til landsins að ákvæði a-liðar eigi við um dýr sem komið er á innflutningsstað skal fara eftir ákvæðum 8. gr. þessarar reglugerðar um brottfall leyfis.

Ef ástæða er til að ætla að hundur tilheyri tegund eða blendingi, sbr. liði a eða b, getur Matvælastofnun farið fram á DNA-greiningu, ættbók eða önnur gögn til staðfestingar á hundategund.

III. KAFLI Ýmis ákvæði.

10. gr. Framlenging einangrunar.

Ef upp koma grunsemdir um að dýr sem dvelur í einangrun sé haldið smitsjúkdómi, er Matvælastofnun heimilt að ákveða að dýr verði vistað lengur í einangrunarstöð, eða þar til dýrið hefur uppfyllt öll skilyrði reglugerðar nr. 200/2020. Taka skal mið af eðli smitefnis hverju sinni og meta hvort framlenging einangrunar skuli eiga eingöngu við um dýr sem sýna einkenni eða öll dýr sem dvelja í einangrunarstöðinni á sama tíma.

Matvælastofnun er heimilt að ákveða að dýr skuli vera í áframhaldandi einangrun ef stofnunin telur að dýrið hafi getað smitast.

11. gr. Frávik.

Matvælastofnun er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020 undir sérstökum kringumstæðum, ef fagleg rök mæla ekki á móti því.

12. gr. Gjaldtaka.

Matvælastofnun innheimtir gjald vegna útgáfu leyfa og eftirlits á innflutningsstað og í einangrunarstöð. Gjaldtaka fer eftir gjaldskrá Matvælastofnunar hverju sinni. Ríkið ber kostnað af allri gjaldtöku Matvælastofnunar.

13. gr. Refsingar.

Brot á ákvæðum reglugerðarinnar varða sektum nema þyngri refsing liggi við eftir ákvæðum laga. Hinn brotlegi ber allan kostnað vegna brots og honum gert að þola bótalaust að dýri sé fargað á hans kostnað.

Með mál sem rísa út af brotum á reglugerðinni skal farið að hætti laga um meðferð sakamála.

14. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 19. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, ásamt síðari breytingum, 17. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, ásamt síðari breytingum og í 46. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, með síðari breytingum.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Matvælaráðuneytinu, 19. maí 2022.

Svandís Svavarsdóttir.

Kolbeinn Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.