Fara beint í efnið

Prentað þann 4. des. 2024

Stofnreglugerð

590/2017

Reglugerð um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið og markmið.

Reglugerðinni er ætlað að kveða á um framkvæmd áhættustýringar hjá lífeyrissjóðum sem starfa á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og á grundvelli sérlaga, í því skyni að sjóðsfélagar geti haft vissu fyrir því að lífeyrissjóður hafi yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við starfsemi sína.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Ábyrgðaraðili áhættustýringar: Starfsmaður lífeyrissjóðs sem ber ábyrgð á starfssviði áhættustýringar.

Áhætta: Hætta á fjárhagslegu tapi sem leiðir af atburði og fellur undir einn eða fleiri af þeim áhættuþáttum sem lífeyrissjóður skilgreinir.

Áhættustefna: Skjalfest stefna stjórnar um áhættu í starfsemi lífeyrissjóðsins sem hún er reiðubúin að taka í samræmi við markmið og framtíðarsýn sjóðsins.

Áhættustýringarstefna: Skjalfest stefna um hvernig lífeyrissjóðurinn hyggst hafa eftirlit með einstökum tegundum áhættu og fylgni milli áhættuþátta.

Áhættuvilji: Sú áhætta sem stjórn er reiðubúin að taka.

Áhættuþol: Sú áhætta sem lífeyrissjóður þolir án þess að grípa þurfi til sérstakra aðgerða.

Eftirlitskerfi: Fjölþátta kerfi sem tekur til mannauðs, verklagsreglna, tölvukerfa og annarra aðfanga sem nauðsynleg eru til að hægt sé að sinna áhættustýringu og stjórnun áhættuþátta á fullnægjandi hátt. Skilvirkt eftirlitskerfi samanstendur af stefnumörkun, aðferðum og skýrslugerð sem nauðsynleg eru til að greina, meta, vakta og stýra áhættu með reglubundnum hætti og í einstökum tilfellum. Það á að ná yfir alla efnislega áhættu og einstaka áhættuþætti.

Lausafjáráhætta: Hættan á að lífeyrissjóður hafi ekki yfir nægu lausu fé að ráða til að standa undir skuldbindingum sínum eða þurfi að selja eignir á óviðunandi verði.

Lífeyristryggingaáhætta: Hættan á að lífeyrissjóður vanmeti lífeyrisskuldbindingar sínar vegna vanmats eða óvissu tengdum lýðfræðilegum þáttum, svo sem forsendum um dánar- og örorkutíðni auk forsendna um vexti og verðbólgu.

Markaðsáhætta: Hættan á fjárhagslegu tapi eða óhagstæðum breytingum á fjárhagslegri stöðu sem stafa beint eða óbeint af sveiflum á virði eigna.

Rekstraráhætta: Hættan á fjárhagslegu tapi vegna ófullnægjandi innri kerfa, stefnu eða verkferla, háttsemi starfsmanna eða ytri þátta.

Starfssvið áhættustýringar: Framkvæmd eftirlitsverkefna með áhættu með hliðsjón af starfsemi lífeyrissjóðs.

Mótaðilaáhætta: Hættan á fjárhagslegu tapi sökum þess að mótaðili uppfyllir ekki skuldbindingar sínar.

Samþjöppunaráhætta: Hættan á auknu fjárhagslegu tapi vegna of mikillar samþjöppunar eigna.

Áhætta tengd eigna- og skuldbindingajöfnuði: Hættan á að eignir mæti ekki skuldbindingum til lengri tíma, sem má til að mynda rekja til óhagstæðra markaðsbreytinga sem hafa önnur áhrif á eignir en skuldbindingar.

Stjórnarhættir: Stjórnarhættir snúa að samskiptum, hlutverkum og ábyrgð stjórnar, stjórnenda og starfsmanna sín á milli og gagnvart öðrum hagsmunaaðilum og hvernig þessir aðilar vinna sameiginlega að því að ná fram markmiðum lífeyrissjóðsins. Stjórnarhættir fela í sér fylgni við góðar venjur og viðmið sem varða markmið og stefnur lífeyrissjóðs, hvernig rekstur hans er skipulagður, skilgreiningu á hlutverkum og ábyrgð, virkni innra eftirlits og hvernig upplýsingaflæði er háttað innan sjóðsins.

II. KAFLI Uppbygging eftirlitskerfis og framkvæmd eftirlitsaðgerða.

3. gr. Hlutverk stjórnar, framkvæmdastjóra og ábyrgðaraðila áhættustýringar.

Stjórn lífeyrissjóðs skal gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem fylgir starfsemi sjóðsins og ber ábyrgð á að móta tryggt eftirlitskerfi með starfseminni. Stjórn og framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs skulu stuðla að góðum stjórnarháttum og leggja áherslu á mikilvægi áhættustýringar og innra eftirlits innan lífeyrissjóðs. Ábyrgðaraðili áhættustýringar ber ábyrgð á greiningu, mælingu og skýrslugjöf um áhættu.

Stjórn lífeyrissjóðs skal setja áhættustefnu. Í áhættustefnu skal að lágmarki koma fram áhættuvilji stjórnar, áhættuþol sjóðsins og hvernig skuli greina, meta, vakta og stýra áhættu. Áhættustefna skal endurskoðuð að lágmarki árlega og þegar markverðar breytingar verða á áhættusniði lífeyrissjóðsins. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs skal kynna áhættustefnu fyrir starfsfólki sjóðsins og ber ábyrgð á að stjórnun áhættuþátta sé í samræmi við áhættustefnuna.

Ábyrgðaraðili áhættustýringar ber ábyrgð á starfssviði áhættustýringar. Starfssvið áhættustýringar skal heyra undir framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs, vera sjálfstætt og óháð öðrum starfseiningum. Tryggja skal aðgreiningu þeirra er greina, mæla og gefa skýrslu um áhættu í starfsemi sjóðsins annars vegar og hins vegar þeirra sem taka áhættu með ákvörðunum sínum. Sé ekki unnt að tryggja aðskilnað starfa, sökum smæðar lífeyrissjóðs, skal lífeyrissjóður setja sér verklagsreglur vegna mögulegra hagsmunaárekstra og hvernig bregðast skuli við þeim hagsmunaárekstrum sem kunna að koma upp.

4. gr. Útvistun verkefna.

Velji lífeyrissjóður að útvista áhættustýringu skal ábyrgðaraðili innan sjóðsins hafa þekkingu á áhættustýringu og bera ábyrgð á eftirliti með útvistunaraðila. Útvistun skal tilkynnt fyrirfram til Fjármálaeftirlitsins. Í tilkynningu um útvistun skal tilgreina hvert útvistað er, hvaða verkefnum er útvistað, hvort útvistunaraðili hafi að mati lífeyrissjóðsins hæfni, getu og viðeigandi þekkingu til að inna af hendi útvistuð verkefni af áreiðanleika og fagmennsku, hvort útvistunin fari saman við hagsmuni lífeyrissjóðsins og sjóðfélaga, hvort útvistunin samrýmist útvistunar- og áhættustýringarstefnu lífeyrissjóðsins og hvaða öðrum verkefnum starfssviðs áhættustýringar hafi verið útvistað.

5. gr. Áhættustýringarstefna.

Lífeyrissjóður skal setja sér áhættustýringarstefnu að fengnum tillögum ábyrgðaraðila áhættustýringar. Stefnan skal lýsa þeim aðferðum sem lífeyrissjóðurinn styðst við til að meta þá áhættuþætti sem áhættustefnan tekur til. Áhættustýringarstefna skal jafnframt innihalda skilgreiningu á hlutverkum og ábyrgð stjórnar, framkvæmdastjórnar og annarra aðila er koma að framkvæmd stefnunnar.

Áhættustýringarstefnu skal endurskoða að lágmarki árlega og í hvert sinn sem markverðar breytingar verða á áhættusniði lífeyrissjóðs.

Áhættustýringarstefna skal að minnsta kosti ná yfir:

  1. Lýsingu á helstu áhættuþáttum sem felast í rekstri lífeyrissjóðsins, aðferðafræði sem lífeyrissjóðurinn styðst við til að meta hana og hvenær áætlað er að endurskoða áhættustýringarstefnuna.
  2. Hlutverk og ábyrgð starfssviðs áhættustýringar, þ.m.t. ábyrgðaraðila áhættustýringar.
  3. Hlutverk stjórnar og framkvæmdastjóra með hliðsjón af áhættustýringu.
  4. Upplýsingar um þá aðila sem sinna stjórnun einstakra áhættuþátta eftir því sem við á og hlutverk þeirra.
  5. Hvernig lífeyrissjóðurinn tryggir að allir starfsmenn séu meðvitaðir um mikilvægi eftirlitskerfis og hvernig lífeyrissjóðurinn áætlar að innleiða viðeigandi áhættumenningu meðal starfsmanna sjóðsins.

6. gr. Helstu áhættuþættir í rekstri lífeyrissjóðs.

Lífeyrissjóður skal tryggja að eftirlitskerfi sjóðsins nái til allra helstu áhættuþátta í rekstri sjóðsins með hliðsjón af eðli og umfangi sjóðsins. Lífeyrissjóður skal meta mikilvægi hvers áhættuþáttar með hliðsjón af rekstri sjóðsins í heild og mögulegum áhrifum áhættuþáttarins á skuldbindingar sjóðsins.

Eftirlitskerfi lífeyrissjóðs skal ná yfir:

  1. lífeyristryggingaráhættu,
  2. markaðsáhættu,
  3. eigna- og skuldbindingajöfnuð,
  4. rekstraráhættu,
  5. stjórnarhætti,
  6. mótaðilaáhættu,
  7. lausafjáráhættu,
  8. samþjöppunaráhættu, og
  9. aðra áhættuþætti sem lífeyrissjóðurinn telur geta haft áhrif á eignir og skuldbindingar sjóðsins.

7. gr. Eftirlitskerfi.

Eftirlitskerfi lífeyrissjóðs skal skipulagt þannig að lífeyrissjóður meti áhættu með áreiðanlegum hætti og að sjóðurinn þoli þá áhættu sem hann er reiðubúinn að taka. Jafnframt skal eftirlitsaðilum gert kleift að meta hvort fullnægjandi eftirlitskerfi sé til staðar.

Eftirlitskerfið skal vera órjúfanlegur hluti af rekstri lífeyrissjóðsins og tengjast ákvörðunarferlum hans. Það skal vera í samræmi við eðli og umfang lífeyrissjóðsins, en skal þó að lágmarki innihalda:

  1. áhættustefnu,
  2. áhættustýringarstefnu,
  3. starfssvið áhættustýringar,
  4. fullnægjandi og skjalfesta innri ferla sem gera lífeyrissjóðnum kleift að greina, meta, vakta og stýra áhættu í starfsemi sjóðsins,
  5. skýrt skilgreind hlutverk starfsmanna, skjalfest í starfslýsingum, þar sem fram kemur hlutverk starfsmanns og samskiptaleiðir vegna skýrslugjafar í tengslum við stjórnun áhættuþátta í starfsemi lífeyrissjóðsins, og
  6. endurskoðun á innri ferlum eftirlitskerfis lífeyrissjóðsins til að tryggja að áhættustýring sé ávallt virk.

Lífeyrissjóður skal tryggja að nægilegu fjármagni og mannafla sé veitt til eftirlitskerfis, svo það sé fullnægjandi með hliðsjón af eðli og umfangi lífeyrissjóðsins.

8. gr. Starfssvið áhættustýringar.

Starfssvið áhættustýringar skal fylgjast daglega með fylgni lífeyrissjóðsins við fjárfestingarstefnu og fjárfestingarheimildir. Verði frávik frá fjárfestingarstefnu eða fjárfestingarheimildum skal starfssvið áhættustýringar tilkynna eignastýringu og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins án tafar um frávikið.

Starfssvið áhættustýringar lífeyrissjóðs skal jafnframt að lágmarki:

  1. aðstoða stjórn og stjórnendur að þróa og viðhalda skilvirku eftirlitskerfi fyrir áhættu í rekstri lífeyrissjóðsins,
  2. vera hæfilegt að stærð miðað við eðli og umfang lífeyrissjóðsins,
  3. vera mannað starfsfólki sem hefur skýrt skilgreind hlutverk og hefur yfir að ráða viðeigandi reynslu og hæfni til að sinna störfum sínum á fullnægjandi hátt,
  4. hafa óheftan aðgang að stjórn, undirnefndum stjórnar, gögnum, tölvukerfum og starfsfólki sem þörf er á til að sinna eftirliti og skýrslugjöf á fullnægjandi hátt, og
  5. tilkynna stjórn um öll frávik sem hafa áhrif á rekstur lífeyrissjóðsins.

III. KAFLI Eigið áhættumat.

9. gr. Eigið áhættumat lífeyrissjóðs.

Stjórn lífeyrissjóðs ber ábyrgð á að eigið áhættumat sé framkvæmt a.m.k. árlega og hvenær sem verulegar breytingar verða á áhættusniði sjóðsins, sem tekur mið af eðli og umfangi sjóðsins. Lífeyrissjóður skal þróa verkferla og verklag við áhættumatið, þar sem m.a. eru skilgreind hlutverk þeirra sem koma að matinu. Eigið áhættumat skal taka tillit til allra viðeigandi áhættuþátta, vera framsýnt og í samræmi við rekstur og stefnur lífeyrissjóðsins.

Þegar eigið áhættumat hefur verið kynnt stjórn lífeyrissjóðs skal kynna niðurstöður fyrir viðeigandi starfsmönnum ásamt þeim ályktunum sem draga má af ferlinu. Stjórn lífeyrissjóðs skal móta framkvæmd áhættumats, ræða niðurstöður á gagnrýninn hátt og rýna hvort áhættustefna og fjárfestingarstefna séu viðeigandi.

Lífeyrissjóður skal taka tillit til niðurstöðu eigin áhættumats í störfum sínum svo sem við ákvarðanatöku og við gerð áhættustefnu og fjárfestingarstefnu.

10. gr. Umfang eigin áhættumats.

Eigið áhættumat lífeyrissjóðs skal að minnsta kosti ná til eftirfarandi atriða:

  1. Greina skal helstu áhættuþætti í rekstri sjóðsins, meta fylgni þeirra og hvernig áhættutaka fellur að skuldbindingum sjóðsins. Að lokinni greiningu áhættuþátta skal lífeyrissjóður meta áhrif hvers áhættuþáttar út frá líkindum þess að áhættan raungerist og áhrifum á eignir og skuldbindingar lífeyrissjóðsins.
  2. Þar sem lífeyrissjóður reiðir sig á aðgerðir stjórnenda og starfsmanna við mildun áhættu skal framkvæma sviðsmyndagreiningu á áhrifum slíkra aðgerða.
  3. Framkvæma skal álagspróf, næmigreiningar og athuganir á viðnámsþrótti eftir því sem við á.
  4. Greina skal forsendur tryggingafræðilegrar stöðu og þætti sem hafa áhrif á breytingar á henni á milli ára.
  5. Skipuleggja skal þær aðgerðir sem lífeyrissjóður hyggst grípa til ef áhætta raungerist.

11. gr. Skjalfesting.

Eigið áhættumat lífeyrissjóðs, framkvæmd og verklag, skal vera skjalfest á viðunandi hátt, m.a. svo unnt sé að leggja mat á alla þætti ferlisins. Stjórn skal rýna ferlið og endurskoða forsendur og niðurstöður. Slík rýni skal vera skjalfest sem hluti af áhættumatinu.

12. gr. Skýrsla um eigið áhættumat.

Eigi síðar en 30. júní ár hvert sendir lífeyrissjóður Fjármálaeftirlitinu eintak af skýrslu um eigið áhættumat. Skýrslan skal að lágmarki innihalda eftirfarandi upplýsingar:

  1. greiningu á helstu áhættuþáttum í starfsemi lífeyrissjóðsins,
  2. lýsingu á aðferðum og forsendum sem notaðar voru við matið,
  3. sviðsmyndir og álagspróf sem sjóðurinn framkvæmdi,
  4. aðgerðir sem lífeyrissjóðurinn hyggst grípa til ef áhætta raungerist,
  5. hvernig niðurstöður eru notaðar í daglegri starfsemi lífeyrissjóðsins, svo sem ákvarðanatöku og endurskoðun á áhættustefnu og fjárfestingarstefnu.

Telji lífeyrissjóður að frávik kalli ekki á aðgerðir skal greina sérstaklega frá því.

IV. KAFLI Upplýsingagjöf.

13. gr. Upplýsingar, skýrslur og samskipti.

Lífeyrissjóður skal koma á fullnægjandi ferlum fyrir upplýsinga- og skýrslugjöf. Allar upplýsingar skulu vera áreiðanlegar, tímanlegar og aðgengilegar hlutaðeigandi starfsfólki.

Starfssvið áhættustýringar skal, að lágmarki ársfjórðungslega, framkvæma nauðsynlega útreikninga á áhættu í tengslum við rekstur lífeyrissjóðsins og skila skýrslu um niðurstöður sínar til stjórnar og framkvæmdastjóra sjóðsins. Í skýrslunni skal sérstaklega tiltekið hvort frávik hafi komið fram á tímabilinu og hvort viðeigandi ráðstafanir hafi verið gerðar.

14. gr. Skýrslugjöf til Fjármálaeftirlitsins.

Lífeyrissjóður skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu hið fyrsta, þó eigi síðar en innan 10 virkra daga ef:

  1. upp koma tilvik um alvarleg frávik eða brot á skilgreindum mörkum áhættu, eða
  2. upp koma tilvik þar sem eftirlitskerfið tekur ekki með fullnægjandi hætti á skilgreindri áhættu sem lífeyrissjóðurinn telur geta haft áhrif á rekstur sjóðsins.

Auk upplýsinga um frávik skal tilkynningin einnig innihalda upplýsingar um viðbrögð lífeyrissjóðsins við tilgreindum frávikum.

V. KAFLI Lagastoð og gildistaka.

15. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 39. gr. a laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, tekur gildi 1. júlí 2017.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 23. júní 2017.

F. h. r.

Haraldur Steinþórsson.

Anna V. Ólafsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.