Prentað þann 26. des. 2024
588/2020
Reglugerð um útboð eldissvæða.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Úthlutun eldissvæða.
- 2. gr. Skilgreining.
- 3. gr. Auglýsing útboðs.
- 4. gr. Útboðsskilmálar.
- 5. gr. Útilokunarástæður og hæfi bjóðenda.
- 6. gr. Valforsendur.
- 7. gr. Opnun tilboða.
- 8. gr. Val á tilboði.
- 9. gr. Tilkynning til bjóðenda og samningsgerð.
- 10. gr. Samþykki tilboðs/samningsgerð eða höfnun allra tilboða.
- 11. gr. Forsendubrestur.
- 12. gr. Gildistaka.
1. gr. Úthlutun eldissvæða.
Ráðherra ákveður hvenær eldissvæðum er úthlutað og hversu mörgum er úthlutað hverju sinni. Ráðherra er heimilt að framselja þetta vald til undirstofnunar. Úthlutun fer fram að undangengnu útboði á hverju eldissvæði fyrir sig.
Um framkvæmd útboðs eldissvæða fer samkvæmt reglugerð þessari.
2. gr. Skilgreining.
Merking hugtaka í reglugerð þessari er sem hér segir:
Almennt útboð: Útboð þar sem ótilteknum fjölda er með auglýsingu gefinn kostur á að gera tilboð.
Bjóðandi: Sá aðili sem býður í tiltekið eldissvæði.
Lokað útboð: Útboð þar sem tilteknum aðilum er einum gefinn kostur á að gera tilboð.
Rétthafi: Sá aðili sem ráðherra hefur úthlutað eldissvæði.
Útboð: Þar sem leitað er skriflegra, bindandi tilboða í eldissvæði sem verið er að bjóða út. Tilboðanna er aflað frá fleiri en einum aðila, samkvæmt sömu upplýsingum og innan sama frests.
3. gr. Auglýsing útboðs.
Útboð eldissvæða skal auglýsa opinberlega. Útboð skal auglýst á heimasíðu ráðuneytisins og á útboðsvef hins opinbera (utbodsvefur.is).
Í auglýsingu skal að lágmarki eftirfarandi koma fram:
- Staðsetning eldissvæðis og úthlutunartími.
- Hvar hægt er að nálgast útboðsskilmála.
- Fyrirspurna- og athugasemdafrestur.
- Svarfrestur vegna fyrirspurna og athugasemda.
- Gildistími tilboða.
- Opnunartími og opnunarstaður tilboða eða rafrænt fyrirkomulag opnunar tilboða.
Við lokað útboð er ráðherra heimilt að senda sérstaka orðsendingu um útboðið til þeirra sem gefinn er kostur á að gera tilboð. Í orðsendingunni skal, auk þess sem tilgreint er í 4. gr., koma fram hvaða öðrum aðilum er gefinn kostur á að gera tilboð.
4. gr. Útboðsskilmálar.
Í útboðsskilmálum skal að lágmarki eftirfarandi koma fram:
- Eldissvæði í útboði og afmörkun þess.
- Ástand eldissvæðis og takmarkanir sem um það gilda þ.m.t. eldistegundir og leyfilegur hámarkslífmassi.
- Hæfiskröfur um reynslu af fiskeldisstarfsemi.
- Skilyrði sem bjóðandi þarf að uppfylla varðandi fyrirhugaða starfsemi m.a. út frá umhverfissjónarmiðum og verndun sjávar og lífríkis sjávar.
- Kröfur um fjárhagslegan styrk bjóðenda.
- Forsendur við mat á tilboðum.
- Ákvæði um uppsögn samnings vegna úthlutunar eldissvæðis og heimilar ástæður uppsagnar.
- Ákvæði um riftun samnings vegna úthlutunar eldissvæðis vegna vanefnda og vanefndaúrræði.
- Fyrirkomulag greiðslna.
- Hversu lengi bjóðandi skal bundinn af tilboði sínu.
- Fyrirkomulag opnunar tilboða sem getur verið á opnunarfundi eða rafræn opnun í útboðskerfi.
5. gr. Útilokunarástæður og hæfi bjóðenda.
Við ákvörðun á útilokunarástæðum skal höfð hliðsjón af ákvæði 68. gr. laga nr. 120/2016, um opinber innkaup. Sé um valkvæðar útilokunarástæður að ræða, skal greint frá því í útboðsskilmálum.
Bjóðendur skulu leggja fram öll tilskilin sönnunargögn fyrir hæfi sínu áður en gengið er frá samningi. Með því að undirrita tilboð, staðfestir bjóðandi að útilokunarástæður eiga ekki við um hann (fyrirtækið), eigendur, einstaklinga í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækisins og heldur ekki um einstaklinga sem hafa heimild til fyrirsvars, ákvarðanatöku eða yfirráða í því.
Bjóðandi skal uppfylla hæfiskröfur, bæði tæknilegar og fjárhagslegar á opnunardegi útboðs. Ef bjóðandi uppfyllir ekki allar hæfiskröfur útboðsins, telst tilboð hans ógilt og verður vísað frá. Ef fyrirtæki byggir á getu annars fyrirtækis að hluta til (fyrirtæki bjóða saman eða bjóðandi hefur undirverktaka) skal það fyrirtæki einnig uppfylla hæfiskröfur eftir því sem við á. Bjóðandi skal jafnframt sanna að hann hafi tryggt sér tilgreinda aðstoð, t.d. með því að leggja fram skuldbindandi yfirlýsingu samstarfsaðila eða undirverktaka um að hann muni annast þann hluta útboðs sem kveðið er á um í tilboði.
Hæfi bjóðenda verður metið á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir senda inn með tilboðum sínum, eða gögnum sem áskilinn er réttur til að óska eftir.
6. gr. Valforsendur.
Val tilboðs skal vera í samræmi við fyrirfram ákveðnar valforsendur sem birtar eru í útboðsskilmálum. Heimilar valforsendur eru m.a. upphæð tilboðs, reynsla af fiskeldisstarfsemi, fjárhagslegur styrkur, mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað rekstur sinn og upplýsingar um hvernig tilboðsgjafi hyggst stunda reksturinn m.a. út frá umhverfissjónarmiðum. Í útboðsgögnum skulu framangreindar valforsendur nánar útlistaðar og er heimilt að tiltaka fleiri en eina forsendu þannig að hver og ein þeirra hafi hlutfallslegt gildi.
7. gr. Opnun tilboða.
Sé haldinn opnunarfundur skulu öll tilboð opnuð á þeim stað og tíma sem kveðið var á um í auglýsingu. Bjóðendum eða fulltrúum þeirra skal heimilt að vera viðstaddir opnunarfund. Á fundinum skulu lesin upp nöfn bjóðenda og heildarupphæð tilboða þeirra. Sú framsetning er með fyrirvara um að mat á gildi tilboða og val í samræmi við auglýstar valforsendur á eftir að fara fram.
Séu tilboð lögð fram inni í rafrænu útboðskerfi, fer opnun fram inni í kerfinu sem skráir opnunartíma og er þá ekki haldinn formlegur opnunarfundur. Þá er nægilegt að senda upplýsingar um bjóðendur og heildarfjárhæðir innan útboðskerfisins.
Berist tilboð eftir að útboðsfrestur er liðinn er einungis heimilt að opna tilboð ef afsakanlegar ástæður liggja að baki því að tilboð barst of seint, ekki sé búið að opna önnur tilboð og að jafnræði aðila sé tryggt.
8. gr. Val á tilboði.
Tilboði sem uppfyllir ekki kröfur útboðsskilmála verður hafnað sem ógildu.
Sé um almennt útboð að ræða er heimilt að taka hagstæðasta gilda tilboði eða hafna þeim öllum á grundvelli málefnalegra ástæðna. Berist aðeins eitt tilboð er heimilt að hafna því sökum skorts á samkeppni. Sama á við ef aðeins berast tilboð sem eru undir ákveðinni lágmarksfjárhæð.
Sé um lokað útboð að ræða er einungis heimilt að taka hagstæðasta gilda tilboði frá þeim sem boðið var að gera tilboð eða hafna öllum tilboðum á grundvelli málefnalegra ástæðna.
Samanburður á tilboðum og ákvörðun um hvaða tilboði skuli tekið skulu gerð í samræmi við forsendur útboðsskilmála.
9. gr. Tilkynning til bjóðenda og samningsgerð.
Að loknu mati á tilboðum skal öllum bjóðendum send tilkynning um val á tilboði og rökstuðningur í ljósi valforsendna og annarra skilmála útboðs.
Tilkynning um val tilboðs og rökstuðningur fyrir vali eru sett fram með þeim fyrirvara að ef nýjar upplýsingar berast innan 15 daga frá tilkynningu um val tilboðs, sem leiða til þess að valið fyrirtæki hefði ekki átt að fá úthlutun skv. útboðsskilmálum og ákvæðum reglugerðar þessarar, þá er heimilt að hætta við samningsgerð og tilkynna um nýtt val eða hætta við útboð.
10. gr. Samþykki tilboðs/samningsgerð eða höfnun allra tilboða.
Að loknum 15 dögum frá tilkynningu um val tilboðs er heimilt að gera skriflegan bindandi samning við þann bjóðanda sem átti hagstæðasta gilda tilboðið. Einnig er hægt að gera samning með því að senda bjóðanda formlega tilkynningu um að tilboð hans sé samþykkt. Samningur skal vera í samræmi við skilmála útboðs og tilboð bjóðanda.
Heimilt er að hafna öllum tilboðum á grundvelli málefnalegra ástæðna. Óheimilt er að efna til úthlutunar að nýju fyrr en öllum þátttakendum hefur skriflega verið tilkynnt um ástæður þess að öllum tilboðum var hafnað.
11. gr. Forsendubrestur.
Komi í ljós á samningstíma að bjóðandi uppfyllir ekki skilmála úthlutunar, umsókn hans um rekstrarleyfi er hafnað af Matvælastofnun eða forsendur fyrir henni bresta af öðrum ástæðum er heimilt að segja upp samningi og úthluta eldissvæði að nýju. Sé skammt liðið frá útboði þegar forsendubrestur kemur í ljós, má ganga að næsthagkvæmasta gilda tilboði að því gefnu að sá bjóðandi samþykki að endurvekja tilboð sitt.
Missi rétthafi rekstrarleyfi er heimilt að endurúthluta svæði án greiðslu bóta til fyrri rétthafa.
12. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, og öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 29. maí 2020.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jóhann Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.