Fara beint í efnið

Prentað þann 26. des. 2024

Stofnreglugerð

571/2004

Reglugerð um landsnefnd og sérfræðiráð Lýðheilsustöðvar.

1. gr. Landsnefnd um lýðheilsu.

Nefndin er skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar formann án tilnefningar, einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu Félags um lýðheilsu og einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu Landsamtaka heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana. Þá eiga formenn sérfræðiráða Lýðheilsustöðvar og landlæknir eða fulltrúi tilnefndur af honum sæti í nefndinni. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

Landsnefnd um lýðheilsu er ráðgjafarnefnd Lýðheilsustöðvar um fagleg málefni og stefnumótun á sviði lýðheilsu.

Forstjóri Lýðheilsustöðvar undirbýr fundi landsnefndar og situr fundi hennar með málfrelsi og tillögurétt.

2. gr. Hlutverk sérfræðiráða.

Sérfræðiráð skulu vera Lýðheilsustöð og öðrum sem starfa að forvörnum og lýðheilsu til ráðgjafar. Þau skulu jafnframt, í samráði við stjórnendur Lýðheilsustöðvar, veita stjórnvöldum og öðrum sem þess óska umsagnir um stjórnvaldsreglur og önnur málefni sem tengjast verkefnum þeirra. Um hlutverk þeirra vísast að öðru leyti til ákvæða 3. - 7. greinar reglugerðar þessarar.

3. gr. Áfengis- og vímuvarnaráð.

Heilbrigðisráðherra skipar fimm menn og jafnmarga til vara til setu í áfengis- og vímuvarnaráði til fjögurra ára í senn. Leitast skal við að velja einstaklinga sem eru sérfróðir um áfengis- og vímuvarnir. Einn fulltrúi skal tilnefndur af landlækni og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra skipar þrjá fulltrúa án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti.

Hlutverk áfengis- og vímuvarnaráðs er að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir, sérstaklega meðal barna og ungmenna, og hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt.

Ráðið skal móta tillögur um aðgerðir á sviði áfengis- og vímuvarna í samvinnu við Lýðheilsustöð.

Ráðið skal stuðla að samvinnu og samræmingu milli þeirra sem starfa að áfengis- og vímuvörnum, svo sem heilsugæslu og annarra heilbrigðisstofnana, sveitarstjórna, löggæslu, menntakerfis, refsivörslukerfis og félagssamtaka.

Áfengis- og vímuvarnaráð skal gera tillögur til Lýðheilsustöðvar um ráðstöfun fjár úr Forvarnasjóði, skv. 7. gr. laga nr. 96/1995 um gjald af áfengi og tóbaki, til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna. Að öðru leyti vísast til reglugerðar nr. 361/1999 um Forvarnasjóð.

4. gr. Manneldisráð.

Heilbrigðisráðherra skipar fimm menn og jafnmarga til vara til setu í manneldisráði til fjögurra ára í senn. Leitast skal við að velja einstaklinga sem eru sérfróðir um manneldismál. Landlæknir skal tilnefna einn fulltrúa og einn til vara. Ráðherra skipar fjóra fulltrúa án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti.

Hlutverk manneldisráðs er að stuðla að heilsusamlegu mataræði þjóðarinnar í samræmi við manneldismarkmið. Ráðið skal vinna að samræmingu rannsókna og fræðslu á sviði manneldisfræði í samráði við skóla, heilsugæslu og stofnanir á sviði matvælaeftirlits.

Manneldisráð mótar ráðleggingar um mataræði í samvinnu við Lýðheilsustöð og er faglegur ráðgjafi stöðvarinnar í manneldismálum.

5. gr. Slysavarnaráð.

Heilbrigðisráðherra skipar sjömenn og jafnmarga til vara til setu í slysavarnaráði til fjögurra ára í senn. Sex fulltrúar skulu tilnefndir af eftirtöldum aðilum; Landlækni, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Umferðarráði, Vinnueftirliti ríkisins, Samtökum tryggingafélaga og Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Ráðherra skipar formann án tilnefningar. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti.

Hlutverk slysavarnaráðs er að stuðla að fækkun slysa.

Ráðið skal sjá til þess að slys séu skráð með samræmdum hætti. Jafnframt skal ráðið hlutast til um úrvinnslu skráðra upplýsinga og birtingu þeirra. Ráðið mótar reglur um framkvæmd skráningar og aðgang að upplýsingum úr skránni. Samræmd slysaskrá skal varðveitt hjá landlækni.

Slysavarnaráð mótar tillögur um slysavarnir í samvinnu við Lýðheilsustöð og skulu þær m.a. byggðar á gögnum slysaskrár.

6. gr. Tóbaksvarnaráð.

Heilbrigðisráðherra skipar fimm menn og jafnmarga til vara til setu í tóbaksvarnaráði til fjögurra ára í senn. Leitast skal við að velja einstaklinga sem eru sérfróðir um tóbaksvarnir. Einn fulltrúi skal tilnefndur af landlækni og einn af Krabbameinsfélaginu. Ráðherra skipar þrjá fulltrúa án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti.

Hlutverk tóbaksvarnaráðs er að stuðla að tóbaksvörnum. Ráðið skal móta tillögur um aðgerðir á sviði tóbaksvarna í samvinnu við Lýðheilsustöð.

Tóbaksvarnaráð skal gera tillögur til Lýðheilsustöðvar um ráðstöfun þess fjár sem stöðin fær til tóbaksvarnastarfs skv. 4. mgr. 9. gr. laga um Lýðheilsustöð nr. 18/2003.

7. gr. Tannverndarráð.

Heilbrigðisráðherra skipar fimm menn og jafnmarga til vara til setu í tannverndarráði til fjögurra ára í senn. Leitast skal við að velja einstaklinga sem eru sérfróðir um tannvernd. Einn fulltrúi skal tilnefndur af landlækni og einn aftannlæknadeild Háskóla Íslands. Ráðherra skipar þrjá fulltrúa án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti.

Hlutverk tannverndarráðs er að stuðla að tannvernd. Ráðið skal móta tillögur um tannvernd í samvinnu við Lýðheilsustöð og vera faglegur ráðgjafi stöðvarinnar á sviði tannverndar.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í lögum nr. 18/2003 um Lýðheilsustöð og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla reglugerð nr. 434/2003 um sérfræðiráð Lýðheilsustöðvar og reglugerð um tannverndarsjóð nr. 273/1991 með síðari breytingu úr gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 1. júlí 2004.

Jón Kristjánsson.

Ragnheiður Haraldsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.