Fara beint í efnið

Prentað þann 4. des. 2024

Stofnreglugerð

571/2002

Reglugerð um menntun og skyldur heilbrigðisfulltrúa.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Rétt til þess að starfa sem heilbrigðisfulltrúi hér á landi og kalla sig heilbrigðisfulltrúa hefur sá einn, sem til þess hefur fengið leyfi umhverfisráðherra.

2. gr.

Leyfi samkvæmt 1. gr. má aðeins veita þeim sem uppfylla eftirfarandi skilyrði.

  1. Viðkomandi skal hafa háskólamenntun á sviði heilbrigðisvísinda, raunvísinda, verkfræði eða sambærilega menntun.
  2. Viðkomandi skal hafa 6 mánaða starfsreynslu sem nær til allra sviða heilbrigðiseftirlits. Starfsþjálfun fer fram á heilbrigðiseftirlitssvæðum. Þá er heimilt að meta að hluta starfsþjálfunartímabil sem unnið er hjá Hollustuvernd ríkisins, Embætti yfirdýralæknis, Fiskistofu, sjálfstæðri skoðunarstofu, heilbrigðiseftirliti á Norðurlöndum eða annarri stofnun sem Hollustuvernd ríkisins viðurkennir.
  3. Viðkomandi skal hafa sótt námskeið um stjórnsýslu, lög og reglugerðir sem heilbrigðisfulltrúum ber að sjá um að sé framfylgt. Hollustuvernd ríkisins sér um að námskeið séu haldin.
    Leita skal álits Hollustuverndar ríkisins um hæfni umsækjenda.
    Hollustuvernd ríkisins getur metið sérstaka starfsþjálfun á sviði heilbrigðiseftirlits sem starfsreynslu.

3. gr.

Óheimilt er að ráða til starfa sem heilbrigðisfulltrúa aðra en þá sem hafa leyfi samkvæmt reglugerð þessari.

4. gr.

Heilbrigðisfulltrúi starfar í umboði heilbrigðisnefndar.

Heilbrigðisfulltrúa ber að viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar varðandi starfið.

5. gr.

Heilbrigðisfulltrúar skulu sinna upplýsingaskyldu er varðar almannaheill og starfa fyrir almenning og umhverfið í góðu samstarfi við eftirlitsskylda aðila.

Heilbrigðisfulltrúar eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

6. gr.

Umhverfisráðherra er heimilt, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, að svipta heilbrigðisfulltrúa, sem brýtur gegn starfsskyldum sínum, leyfi, samkvæmt 1. gr., að undangenginni skriflegri og rökstuddri áminningu. Heilbrigðisfulltrúi skal þó áður eiga þess kost að tjá sig um tilefni áminningar eða leyfissviptingar.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 2.mgr. 15. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 öðlast gildi við birtingu. Frá og með sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 294/1995 um menntun, réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa.

Umhverfisráðuneytinu, 11. júlí 2002.

Siv Friðleifsdóttir.

Ingimar Sigurðsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.