Prentað þann 22. nóv. 2024
569/2019
Reglugerð um breytingu á reglugerð um þvingunaraðgerðir varðandi Suður-Súdan nr. 900/2015, ásamt síðari breytingum.
1. gr. Þvingunaraðgerðir.
Eftirfarandi töluliðir skulu bætast við 2. gr. reglugerðar um þvingunaraðgerðir varðandi Suður-Súdan nr. 900/2015:
1.2 | Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2018/1125 frá 10. ágúst 2018 um breytingu á ákvörðun (SSUÖ) 2015/740 um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Suður-Súdan, fylgiskjal 1.2. | |
2.2 | Framkvæmdarreglugerð ráðsins (ESB) 2018/1115 frá 10. ágúst 2018 um framkvæmd 1. mgr. 20. gr. reglugerðar (ESB) 2015/735 um þvingunaraðgerðir að því er varðar Suður-Súdan, fylgiskjal 2.2. | |
2.3 | Reglugerð ráðsins (ESB) 2018/1116 frá 10. ágúst 2018 um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/735 um þvingunaraðgerðir að því er varðar Suður-Súdan, fylgiskjal 2.3. |
2. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 4. og 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008, öðlast þegar gildi.
Utanríkisráðuneytinu, 30. apríl 2019.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Sturla Sigurjónsson.
ÁKVÖRÐUN RÁÐSINS (SSUÖ) 2018/1125
frá 10. ágúst 2018
um breytingu á ákvörðun (SSUÖ) 2015/740 um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Suður-Súdan
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um Evrópusambandið, einkum 29. gr.,
með hliðsjón af tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Hinn 7. maí 2015 samþykkti ráðið ákvörðun (SSUÖ) 2015/740 (1) um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Suður-Súdan.
2) Hinn 13. júlí 2018 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 2428 (2018) sem leggur á vopnasölubann og þar sem tveimur aðilum er bætt á skrána yfir aðila og rekstrareiningar sem þvingunaraðgerðir taka til.
3) Því ætti að breyta ákvörðun (SSUÖ) 2015/740 til samræmis við það.
SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:
1. gr.
Ákvörðun (SSUÖ) 2015/740 er breytt sem hér segir:
1) Í stað 2. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:
„2. Enn fremur er lagt bann við því:
a) að veita, með beinum eða óbeinum hætti, tækniaðstoð, miðlunarþjónustu eða aðra þjónustu, þ.m.t. að útvega vopnaða málaliða, sem tengist herstarfsemi eða sem tengist þeim hlutum er um getur í 1. mgr. eða því að útvega, framleiða, viðhalda og nota slíka hluti, til handa einstaklingi, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun í Suður-Súdan eða til notkunar þar í landi,
b) að veita, með beinum eða óbeinum hætti, fjármagn eða fjárhagsaðstoð sem tengist herstarfsemi eða sem tengist þeim hlutum er um getur í 1. mgr., þ.m.t. einkum og sér í lagi styrki, lán og greiðsluvátryggingar vegna útflutnings, auk trygginga eða endurtrygginga vegna sölu, afhendingar, tilfærslu eða útflutnings slíkra hluta eða sem tengist því að veita tengda tækniaðstoð, miðlunarþjónustu eða aðra þjónustu til einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar í Suður-Súdan eða til notkunar þar í landi,
c) að taka þátt, vitandi vits og af ásetningi, í starfsemi sem miðar að því, eða hefur þau áhrif, að þær aðgerðir sem um getur í a- eða b-lið séu sniðgengnar.“
2) Í stað 2. gr. komi eftirfarandi:
„2. gr.
Ákvæði 1. gr. gilda ekki um sölu, afhendingu, tilfærslu eða útflutning á:
a) vopnum og tengdum hergögnum, sem og þjálfun og aðstoð, sem eingöngu eru ætluð til stuðnings eða notkunar fyrir starfsfólk SÞ, þ.m.t. verkefni Sameinuðu þjóðanna í Lýðveldinu Suður-Súdan (UNMISS) og bráðabirgðaöryggissveit Sameinuðu þjóðanna fyrir Abeyi (UNISFA),
b) óbanvænum herbúnaði, sem einungis er ætlaður til nota í mannúðar- eða verndarskyni og tengdri tækniaðstoð eða þjálfun, sem tilkynnt er um fyrir fram til nefndar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem komið var á fót samkvæmt ályktun 2206 (2015) („nefndin“),
c) hlífðarfatnaði, þ.m.t. skotheldum vestum og herhjálmum, sem starfsfólk SÞ, fulltrúar fjölmiðla og starfsmenn hjálpar- og þróunarstofnana og tengt starfsfólk hefur tímabundið flutt út til Suður-Súdan, eingöngu til eigin nota,
d) vopnum og tengdum hergögnum sem flutt eru út tímabundið til Suður-Súdan af liðsafla ríkis sem grípur til aðgerða í samræmi við reglur þjóðarréttar, eingöngu og beinlínis til þess að greiða fyrir vernd eða brottflutningi eigin ríkisborgara og þeirra sem það ber ábyrgð gagnvart í krafti ræðissambands í Suður-Súdan, og sem nefndinni hefur verið tilkynnt um,
e) vopnum og tengdum hergögnum, sem og tækniþjálfun og -aðstoð, til eða til stuðnings við svæðisbundna aðgerðasveit Afríkusambandsins (e. African Union Regional Task Force), sem einungis eru ætluð til svæðisbundinna aðgerða gegn Andspyrnuher drottins (e. Lord's Resistance Army) og sem nefndinni hefur verið tilkynnt um fyrir fram,
f) vopnum og tengdum hergögnum, sem og tækniþjálfun og -aðstoð, sem eingöngu eru ætluð til stuðnings við framkvæmd skilmála friðarsamningsins og sem nefndin hefur samþykkt fyrir fram,
g) aðra sölu eða afhendingu á vopnum og tengdum hergögnum, eða að látin sé í té aðstoð eða starfsfólk, sem nefndin hefur samþykkt fyrir fram.“
3) Eftirfarandi grein bætist við:
„2. gr. a
1. Aðildarríki skulu skoða, í samstöðu við landsyfirvöld og í samræmi við landslöggjöf sína og reglur þjóðaréttar, allar farmsendingar til Suður-Súdan á yfirráðasvæðum sínum, m.a. í höfnum og á flugvöllum, búi þau yfir upplýsingum sem gefa gilda ástæðu til að ætla að farmurinn innihaldi hluti sem bannað er að afhenda, selja, færa til eða flytja út samkvæmt 1. gr.
2. Finnist hlutir, sem bannað er samkvæmt 1. gr., að afhenda, selja, færa til eða flytja út, skulu aðildarríki leggja hald á þá og farga þeim (t.d. með því að eyðileggja þá, gera þá ónothæfa, geyma eða flytja til ríkis, annars en uppruna- eða ákvörðunarríkis, til förgunar).“
4) Í stað a-liðar 1. mgr. 3. gr. komi eftirfarandi:
„a) sem öryggisráðið eða nefndin hefur tilgreint í samræmi við 6., 7., 8. og 9. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2206 (2015) og 14. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2428 (2018), sbr. skrána í I. viðauka við ákvörðun þessa,“
5) Í stað a-liðar 1. mgr. 6. gr. komi eftirfarandi:
„a) aðila eða rekstrareininga sem öryggisráðið eða nefndin hefur tilgreint í samræmi við 6., 7., 8. og 12. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2206 (2015) og 14. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2428 (2018), sbr. skrána í I. viðauka við ákvörðun þessa“.
2. gr.
Ákvæðum I. viðauka við ákvörðun (SSUÖ) 2015/740 er hér með breytt eins og fram kemur í I. viðauka við ákvörðun þessa.
3. gr.
Ákvæðum II. viðauka við ákvörðun (SSUÖ) 2015/740 er hér með breytt eins og fram kemur í II. viðauka við ákvörðun þessa.
4. gr.
Ákvörðun þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Gjört í Brussel 10. ágúst 2018.
Fyrir hönd ráðsins,
forseti.
G. BLÜMEL
(1) Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2015/740 frá 7. maí 2015 um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Suður-Súdan og niðurfellingu ákvörðunar 2014/449/SSUÖ (Stjtíð. ESB L 117, 8.5.2015, bls. 52).
FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ RÁÐSINS (ESB) 2018/1115
frá 10. ágúst 2018
um framkvæmd 1. mgr. 20. gr. reglugerðar (ESB) 2015/735 um þvingunaraðgerðir að því er varðar Suður-Súdan
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af reglugerð ráðsins (ESB) 2015/735 frá 7. maí 2015 um þvingunaraðgerðir að því er varðar Suður-Súdan og um niðurfellingu reglugerðar (ESB) nr. 748/2014 (1), einkum 1. mgr. 20. gr.,
með hliðsjón af tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Hinn 7. maí 2015 samþykkti ráðið reglugerð (ESB) 2015/735.
2) Hinn 13. júlí 2018 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 2428 (2018) þar sem tveimur aðilum er bætt á skrána yfir aðila og rekstrareiningar sem þvingunaraðgerðir taka til. Því ætti að bæta þessum aðilum við í I. viðauka við reglugerð (ESB) 2015/735. Þar sem þessir aðilar voru þegar tilgreindir í II. viðauka við reglugerð (ESB) 2015/735 ætti að fjarlægja þá úr II. viðauka við reglugerð (ESB) 2015/735 svo þá megi tilgreina í I. viðauka.
3) Því ætti að breyta I. og II. viðauka við reglugerð (ESB) 2015/735 til samræmis við það.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Ákvæðum I. viðauka við reglugerð (ESB) 2015/735 er hér með breytt eins og fram kemur í I. viðauka við reglugerð þessa.
2. gr.
Ákvæðum II. viðauka við reglugerð (ESB) 2015/735 er hér með breytt eins og fram kemur í II. viðauka við reglugerð þessa.
3. gr.
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 10. ágúst 2018.
Fyrir hönd ráðsins,
forseti.
G. BLÜMEL
REGLUGERÐ RÁÐSINS (ESB) 2018/1116
frá 10. ágúst 2018
um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/735 um þvingunaraðgerðir að því er varðar Suður-Súdan
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 215. gr.,
með hliðsjón af ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2015/740 frá 7. maí 2015 um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Suður-Súdan og niðurfellingu ákvörðunar 2014/449/SSUÖ (1),
með hliðsjón af sameiginlegri tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Með reglugerð ráðsins (ESB) 2015/735 (2) koma til framkvæmda aðgerðir sem kveðið er á um í ákvörðun (SSUÖ) 2015/740.
2) Hinn 13. júlí 2018 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 2428 (2018) þar sem það lýsti þungum áhyggjum af því að leiðtogum Suður-Súdan hafi mistekist að binda enda á hernaðarátök í landinu, fordæmdi viðvarandi og svívirðileg brot á samningnum um lausn á átökunum í Lýðveldinu Suður-Súdan frá 17. ágúst 2015, samningnum um lok hernaðarátaka, vernd almennra borgara og mannúðaraðstoð frá 21. desember 2017 og Kartúm-yfirlýsingunni frá 27. júní 2018, og efldi frekar þær þvingunaraðgerðir gegn Suður-Súdan sem settar eru fram í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2206 (2015).
3) Öryggisráð SÞ breytir m.a. undanþágum frá vopnasölubanninu og tengdri tækni- og fjárhagsaðstoð og breytir viðmiðunum um tilgreiningu aðila og rekstrareininga sem sæta frystingu eigna.
4) Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2018/1125 (3) breytti ákvörðun (SSUÖ) 2015/740 til að koma til framkvæmda aðgerðunum sem settar eru fram í ályktun öryggisráðs SÞ nr. 2428 (2018).
5) Þessar aðgerðir falla undir gildissvið sáttmálans og því er lagasetning á vettvangi Evrópusambandsins nauðsynleg, einkum til að tryggt sé að þeim sé beitt með sama hætti í öllum aðildarríkjunum.
6) Því ætti að breyta reglugerð (ESB) 2015/735 til samræmis við það.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Reglugerð (ESB) 2015/735 er breytt sem hér segir:
1) Í stað 2. gr. komi eftirfarandi:
„2. gr.
Lagt er bann við því að veita:
1) tækniaðstoð, miðlunarþjónustu eða aðra þjónustu, sem tengist herstarfsemi eða því að útvega, framleiða, viðhalda og nota hvers kyns vopn og tengd hergögn, þ.m.t. vopn og skotfæri, herfarartæki og -búnað, búnað sem ekki er ætlaður ríkisher og varahluti í þau, með beinum eða óbeinum hætti, til handa einstaklingi eða lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun í Suður-Súdan eða til notkunar þar í landi,
2) fjármagn eða fjárhagsaðstoð sem tengist herstarfsemi, þ.m.t., einkum styrkir, lán og greiðsluvátryggingar vegna útflutnings, svo og tryggingar og endurtryggingar, vegna sölu, afhendingar, tilfærslu eða útflutnings vopna og tengdra hergagna eða sem tengist því að veita tengda tækniaðstoð, miðlunarþjónustu eða aðra þjónustu með beinum eða óbeinum hætti til einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga eða stofnana í Suður-Súdan eða til notkunar þar í landi,
3) tækniaðstoð, fjármagn eða fjárhagsaðstoð eða miðlunarþjónustu, sem tengist því að útvega vopnaða málaliða í Suður-Súdan eða til notkunar þar í landi.“
2) Í stað 3. gr. komi eftirfarandi:
„3. gr.
Bönnin sem um getur í 2. gr. skulu ekki gilda um veitingu fjármagns og fjárhagsaðstoðar, tækniaðstoðar og miðlunarþjónustu í tengslum við:
a) vopn og tengd hergögn sem eingöngu eru ætluð til stuðnings eða notkunar fyrir starfsfólk SÞ, þ.m.t. verkefni Sameinuðu þjóðanna í Lýðveldinu Suður-Súdan (UNMISS) og bráðabirgðaöryggissveit Sameinuðu þjóðanna fyrir Abeyi (UNISFA),
b) hlífðarfatnað, þ.m.t. skotheld vesti og herhjálma, sem starfsfólk SÞ, fulltrúar fjölmiðla og starfsmenn hjálpar- og þróunarstofnana og tengt starfsfólk hefur tímabundið flutt út til Suður-Súdan, eingöngu til eigin nota.“
3) Í stað 4. gr. komi eftirfarandi:
„4. gr.
1. Þrátt fyrir 2. gr. geta lögbær stjórnvöld heimilað að veitt sé fjármagn og fjárhagsaðstoð, tækniaðstoð og miðlunarþjónusta í tengslum við:
a) óbanvænan herbúnað sem einungis er ætlaður í mannúðar- eða verndarskyni, að því tilskildu að aðildarríkið hafi tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir fyrir fram um það í samræmi við þær kröfur sem mælt er fyrir um í 6. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2428 (2018),
b) vopn og tengd hergögn sem flutt eru út tímabundið til Suður-Súdan af liðsafla ríkis sem grípur til aðgerða í samræmi við reglur þjóðarréttar, eingöngu og beinlínis til þess að greiða fyrir vernd eða brottflutningi eigin ríkisborgara og þeirra sem það ber ábyrgð gagnvart í krafti ræðissambands í Suður-Súdan, að því tilskildu að aðildarríkið tilkynni slíkt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir í samræmi við þær kröfur sem mælt er fyrir um í 6. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2428 (2018),
c) vopn og tengd hergögn til eða til stuðnings við svæðisbundna aðgerðasveit Afríkusambandsins (e. African Union Regional Task Force), sem einungis eru ætluð til svæðisbundinna aðgerða gegn Andspyrnuher drottins (e. the Lord's Resistance Army), að því tilskildu að aðildarríkið hafi tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir fyrir fram um það, í samræmi við þær kröfur sem mælt er fyrir um í 6. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2428 (2018),
d) vopn og tengd hergögn sem eingöngu eru ætluð til stuðnings við framkvæmd skilmála friðarsamningsins, að því tilskildu að aðildarríkið hafi fengið samþykki framkvæmdanefndarinnar um þvingunaraðgerðir fyrir fram í samræmi við þær kröfur sem mælt er fyrir um í 6. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2428 (2018),
e) aðra sölu eða afhendingu á vopnum eða hergögnum eða að látin sé í té aðstoð eða starfsfólk, að því tilskildu að aðildarríkið hafi fengið samþykki framkvæmdanefndarinnar um þvingunaraðgerðir fyrir fram í samræmi við þær kröfur sem mælt er fyrir um í 6. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2428 (2018).
2. Hlutaðeigandi aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um sérhverja heimild sem veitt er skv. 1. mgr.“
4) Í stað 1. mgr. 5. gr. komi eftirfarandi:
„1. Frysta skal alla fjármuni og efnahagslegan auð sem tilheyra, eru í eigu, í vörslu eða undir stjórn einstaklings eða lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar er um getur í I. viðauka. Í I. viðauka skulu koma fram einstaklingar, lögaðilar, rekstrareiningar og stofnanir, sem nefnd öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem komið var á fót skv. 16. mgr. ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2206 (2015) (hér á eftir nefnd „framkvæmdanefnd um þvingunaraðgerðir“), tilgreinir að séu ábyrgir fyrir eða eigi hlutdeild í eða hafi tekið þátt, beint eða óbeint, í aðgerðum eða stefnum sem ógna friði, öryggi eða stöðugleika í Suður-Súdan í samræmi við 6., 7., 8. og 12. mgr. ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2206 (2015) og 14. mgr. ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2428 (2018).“
2. gr.
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 10. ágúst 2018.
Fyrir hönd ráðsins,
forseti.
G. BLÜMEL
(1) Stjtíð. ESB L 117, 8.5.2015, bls. 52.
(2) Reglugerð ráðsins (ESB) 2015/735 frá 7. maí 2015 um þvingunaraðgerðir að því er varðar Suður-Súdan og um niðurfellingu reglugerðar (ESB) nr. 748/2014 (Stjtíð. ESB L 117, 8.5.2015, bls. 13).
(3) Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2018/1125 frá 10. ágúst 2018 um breytingu á ákvörðun (SSUÖ) 2015/740 um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Suður-Súdan (Stjtíð. ESB L 204, 13.8.2018, bls. 48).
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.