Fara beint í efnið

Prentað þann 23. nóv. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 10. júní 2023

564/2011

Reglugerð um bókhald og kostnaðargreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja.

I. KAFLI Gildissvið og tilgangur.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fjarskiptafyrirtæki sem hér segir:

  1. Ákvæði 2. kafla gilda um fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk sem á hafa verið lagðar kvaðir um bókhaldslegan aðskilnað, skv. 31. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.
  2. Ákvæði 2. og 3. kafla gilda um fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu og njóta einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum, sbr. 36. gr. laga um fjarskipti.
  3. Ákvæði 4. kafla gilda um fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk sem á hafa verið lagðar kvaðir um eftirlit með gjaldskrá og kostnaðarbókhaldi skv. 32. gr. eða 2. mgr. 27. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.
  4. Ákvæði 1. og 5. kafla gilda um öll fjarskiptafyrirtæki sem nefnd eru í tölul. 1-3.

2. gr. Tilgangur.

Tilgangur bókhaldslegs og fjárhagslegs aðskilnaðar er að gera aðgengilegar upplýsingar sem eru betur sundurliðaðar en upplýsingar í almennum ársreikningum, að sýna afkomu einstakra rekstrareininga eins og þær væru reknar sem sérstök fyrirtæki, að koma í veg fyrir að fyrirtæki mismuni samkeppnisaðilum og að koma í veg fyrir óréttmætar niðurgreiðslur á milli rekstrareininga.

Tilgangur með kostnaðarbókhaldi er að tryggja að sanngjörnum, hlutlægum og gagnsæum viðmiðum sé fylgt við útdeilingu kostnaðar á einstakar þjónustutegundir þegar kvaðir um eftirlit með gjaldskrá hafa verið lagðar á fyrirtæki.

3. gr. Skilgreiningar.

  1. Fjarskiptafyrirtæki: Einstaklingur eða lögaðili sem hefur tilkynnt Póst- og fjarskiptastofnun um fyrirhugaðan rekstur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanets.
  2. Fjarskiptanet: Sendikerfi og þar sem það á við skiptistöðvar, beinar og önnur úrræði sem gera mögulegt að miðla merkjum eftir þræði, þráðlaust, með ljósbylgjum, rafdreifikerfi, háspennulínum eða með öðrum rafsegulaðferðum, þ.m.t. net fyrir hljóð- og sjónvarp og kapalsjónvarp.
  3. Hrakvirði: Virði rekstrarfjármunar að loknum endingartíma hans hjá eiganda.
  4. Langtíma viðbótarkostnaður (LRIC): Kostnaður sem bætist við eða sparast við það að tiltekin starfsemi bætist við eða leggst af á þeim forsendum að allur kostnaður er breytilegur. Önnur útfærsla af LRIC er langtíma meðaltals viðbótarkostnaður (LRAIC) en þá er stuðst við meðaltals einingarkostnað.
  5. Sviptivirði rekstrarfjármuna: Sú upphæð sem nægir til að bæta fyrirtæki það tjón sem hlytist ef fyrirtækið væri svipt rekstrarfjármununum. Sviptivirði er í flestum tilvikum jafnt endurkaupsverði.
  6. Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk: Fjarskiptafyrirtæki sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk skv. 2. mgr. 17. gr., sbr. 18. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003. Fyrirtæki telst hafa umtalsverðan markaðsstyrk ef það eitt sér eða með öðrum hefur þann efnahagslega styrkleika á ákveðnum markaði að geta hindrað virka samkeppni og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.
  7. Verkgrundaður kostnaðarreikningur: Sundurgreining rekstrarkostnaðar sem byggir á þeirri aðferð að greina kostnað eftir aðgerðum sem framkvæmdar eru í viðkomandi rekstrareiningu. Magnstærðir eru því ekki skiptigrundvöllur rekstrarkostnaðar heldur einstök verkefni. Verkefni taka til sín kostnað og afurðir taka til sín verkefni.

II. KAFLI Bókhaldslegur aðskilnaður.

4. gr. Framkvæmd aðskilnaðar.

Fjarskiptafyrirtæki sem falla undir 1. og 2. tölul. 1. gr. skulu færa sérstakt og aðgreint rekstrarbókhald fyrir fyrir hvern þann hluta starfsemi sinnar sem þeim er skylt að aðskilja eins og um sérstakt fyrirtæki væri að ræða.

Fjarskiptafyrirtæki sem falla undir 1. tölul. 1. gr. skulu aðskilja í bókhaldi sínu þá hluta starfsemi sinnar, tengda samtengingu eða aðgangi, sem kveðið er á um í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um bókhaldslegan aðskilnað hjá viðkomandi fyrirtæki.

Fjarskiptafyrirtæki sem falla undir 2. tölul. 1. gr. skulu aðskilja í bókhaldi sínu rekstur fjarskiptaþjónustu og fjarskiptaneta frá annarri starfsemi sinni.

5. gr. Innihald rekstrarreikninga.

Árlega skal gera rekstrarreikning fyrir hverja einingu í starfsemi fjarskiptafyrirtækja sem aðskilin er skv. 4. gr.

Rekstrarreikningar skv. 1. mgr. skulu innihalda rekstraruppgjör sem sýnir sundurliðaðar tekjur og gjöld starfseminnar, upplýsingar um bundið fjármagn og upplýsingar um sölu milli einstakra aðskilinna rekstrarþátta.

Rekstrarreikningar skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við lög um ársreikninga nr. 3/2006 að því leyti sem ekki er öðruvísi kveðið á um í reglugerð þessari.

Rekstrarreikningar fyrir aðskilda þætti í starfsemi fjarskiptafyrirtækis skal stemma af gagnvart heildarrekstrarreikningi fyrirtækisins eins og hann kemur fram í ársreikningi.

Ef fjarskiptafyrirtæki fær framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu skal gera sérstaklega grein fyrir framlaginu og ráðstöfun þess.

6. gr. Uppgjörsreglur.

Við gerð aðskildra rekstrarreikninga skal fylgja eftirtöldum meginreglum:

  1. Öll viðskipti milli aðgreindrar rekstrareiningar og annarra eininga viðkomandi fyrirtækis þar með talin sameiginleg afnot af aðstöðu skulu bókfærð á markaðsverði.
  2. Ef ekki er hægt að finna markaðsverð skulu innri viðskipti færð á verði sem miðast við kostnað ásamt hæfilegum hagnaði.
  3. Sala milli aðgreindra rekstrareininga innan fyrirtækis á þjónustu eða aðgangi sem lýtur kvöðum um jafnræði skal færð á samsvarandi verði og sala til annarra fyrirtækja.
  4. Ef þjónusta eða aðgangur lýtur kvöð um eftirlit með gjaldskrá skal verð í viðskiptum milli aðgreindra rekstrareininga vera í samræmi við þá kvöð.
  5. Færsla efnislegra eða óefnislegra eigna milli aðskilinna rekstrareininga skal vera á bókfærðu verði.

Rekstrarreikningar aðskilinna rekstrareininga skulu sýna með greinilegum hætti að innri viðskipti viðkomandi fyrirtækis fari fram í samræmi við 1. mgr.

7. gr. Kostnaðarskipting.

Við gerð aðskilinna rekstrarreikninga skal nota verkgrundaðan kostnaðarreikning. Skipting kostnaðar niður á aðskildar rekstrareiningar skal vera samkvæmt eftirfarandi meginreglum:

  1. Beinan kostnað af því að koma upp, starfrækja og viðhalda viðkomandi rekstrareiningu skal heimfæra alfarið á hana.
  2. Sameiginlegum kostnaði, þ.e. kostnaði sem ekki er hægt að heimfæra á einstaka rekstrareiningu, skal deila að svo miklu leyti sem unnt er milli rekstrareininga með því að greina tilurð kostnaðarins.
  3. Þegar kostnaðarskipting samkvæmt 1. og 2. tölul. er ekki möguleg, skal sameiginlegum kostnaði skipt á grundvelli óbeinna tengsla við aðra kostnaðarliði eða hóp kostnaðarliða. Hin óbeinu tengsl skulu byggjast á sambærilegri uppsetningu kostnaðar.
  4. Þegar hvorki er hægt að finna beina né óbeina aðferð til heimfærslu, skal heimfærsla kostnaðar eiga sér stað á grundvelli skiptireglu sem reiknast sem hlutfall alls beins og óbeins kostnaðar heimfærðs annars vegar til viðkomandi rekstrareiningar og hins vegar til annarra rekstrareininga sem eiga hlutdeild í kostnaðinum.

Tekjur sem ekki stafa frá aðskilinni rekstrareiningu má ekki heimfæra til hennar. Tekjum skal skipta milli viðkomandi rekstrareininga eftir sömu reglum og um getur í 1. mgr.

Upplýsingaskráning skal vera nægilega nákvæm og sundurgreind til þess að reikningskerfi sem notar fjárhagslegar og ófjárhagslegar upplýsingar til deilingar á kostnaði gefi rétta mynd af tekjum og gjöldum sem tilheyra hverri rekstrareiningu.

8. gr. Kostnaðargrundvöllur.

Aðgreindir rekstrarreikningar skulu byggjast á sögulegum kostnaði (kostnaðarverðsreikningsskilum). Byggt skal á raunverulegum skráðum kostnaði og tekjum á viðkomandi reikningsári. Efnislegar eignir skulu bókfærðar á upphaflegu stofnverði leiðréttu með uppsöfnuðum afskriftum og framreiknaðar í samræmi við verðlagsbreytingar.

Fjarskiptafyrirtæki sem bera kvöð um að gjaldskrá skuli byggjast á langtíma viðbótarkostnaði LRIC skulu, auk rekstrarreikninga skv. 1. mgr., færa sérstaka LRIC rekstrarreikninga, í samræmi við ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar.

III. KAFLI Fjárhagslegur aðskilnaður.

9. gr. Fjárhagslegur aðskilnaður vegna einka- eða sérréttinda.

Fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu og njóta einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum skulu halda fjarskiptastarfsemi sinni fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi eins og um óskyld fyrirtæki væri að ræða. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi. Ákvæði þetta gildir án tillits til markaðsstyrks fyrirtækis.

10. gr. Lágmarkskröfur til fjárhagslegs aðskilnaðar.

Að lágmarki skal fjárhagsleg aðgreining felast í eftirfarandi þáttum:

  1. Stofnuð skal sérstök eining um fjarskiptarekstur viðkomandi fyrirtækis og skulu reikningsskil einingarinnar vera sjálfstæð, í samræmi við ársreikningalög og í samræmi við 2. kafla reglugerðar þessarar eftir því sem við á.
  2. Gera skal stofnefnahagsreikning fyrir fjarskiptarekstur og tilheyrandi eignir skulu færðar á markaðsverði eða endurkaupsverði ef markaðsverð liggur ekki fyrir.
  3. Með skuldum einingar í fjarskiptarekstri skulu teljast skuldbindingar sem tengjast starfsemi hennar og skulu skuldir fjarskiptarekstrareiningar við önnur svið fyrirtækis bera markaðsvexti.
  4. Öll viðskipti milli fjarskiptarekstrar og annarra sviða skulu verðlögð á markaðsverði eins og um viðskipti milli óskyldra aðila væri að ræða.

IV. KAFLI Kostnaðarbókhald.

11. gr. Kostnaðarbókhaldsaðferðir.

Þegar Póst- og fjarskiptastofnun hefur lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár og kvaðir um kostnaðarbókhald á ákveðnum tegundum samtengingar, aðgangs eða annarrar þjónustu, skv. 2. mgr. 27. gr. eða 32. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 skulu viðkomandi fyrirtæki fara eftir ákvæðum þessa kafla.

Póst- og fjarskiptastofnun ákveður hvaða aðferð skuli nota við kostnaðarbókhald. Við val á aðferð skal hafa hliðsjón af EES-tilmælum og sameiginlegri afstöðu evrópskra eftirlitsstofnana, en taka skal tillit til aðstæðna á innanlandsmarkaði.

Að jafnaði skal kostnaðarviðmiðun gjaldskrár vera langtíma viðbótarkostnaður LRIC. Póst- og fjarskiptastofnun getur þó ákveðið aðrar aðferðir ef framkvæmd LRIC kostnaðargreiningar er talin fram úr hófi íþyngjandi fyrir viðkomandi fjarskiptafyrirtæki eða eftirlit með beitingu hennar er sérstaklega erfitt eða kostnaðarsamt.

12. gr. Kostnaðargreining.

Kostnaðargreining skal fara fram á þeim þjónustuþáttum sem lúta kvöð um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár. Póst- og fjarskiptastofnun ákveður hvort stofnunin framkvæmir greininguna eða viðkomandi fyrirtæki framkvæmir hana undir eftirliti stofnunarinnar. Kostnaðargreiningu skal haga í samræmi við ákvæði þessa kafla.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að gjöld skuli ákveðin með samanburði við gjaldskrár á sambærilegum samkeppnismörkuðum eða að heildsölugjaldskrá skuli miðuð við smásölugjaldskrá með tilteknum afslætti. Þessari málsgrein skal einkum beitt til að ákvarða gjöld til bráðabirgða ef fyrirsjáanlegt er að kostnaðargreining muni taka langan tíma.

13. gr. Endurskoðun kostnaðargreiningar.

Póst- og fjarskiptastofnun metur eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti hvort þörf sé á að gera umtalsverðar breytingar á fyrirliggjandi kostnaðargreiningu. Póst- og fjarskiptastofnun getur einnig í tengslum við árlega ákvörðun hámarksverðs uppfært einstaka þætti sem hafa áhrif á niðurstöðu kostnaðargreiningar s.s. magn umferðar, fjölda notenda, almennt verðlag og ávöxtunarkröfu.

Fjarskiptafyrirtæki sem ákvörðun um hámarksverð beinist að getur í tengslum við árlega ákvörðun hámarksverðs farið fram á að metin verði þörf á endurskoðun kostnaðargreiningar. Gera skal grein fyrir því hvaða þætti kostnaðargreiningar fyrirtækið telur þörf á að endurskoða og leggja skal fram gögn því til stuðnings. Beiðni um endurskoðun kostnaðargreiningar skal berast Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar en 1. mars það ár sem taka á ákvörðun um hámarksverð. Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að fresta endurskoðun skv. þessari málsgrein til næsta árs á eftir ef sérstakar ástæður mæla með því s.s. ef framkvæma þarf mjög umfangsmikla athugun til þess að sannreyna þörf fyrir breytingar.

14. gr. Eignamat.

Með hliðsjón af mati á afskriftum og ávöxtunarkröfu þeirra rekstrarfjármuna sem þarf til þess að veita fjarskiptaþjónustu skal í kostnaðargreiningu leggja mat á virði þeirra fjárfestinga sem krafist er til að inna af hendi viðkomandi þjónustu. Í þeim tilgangi að líkja sem mest eftir aðstæðum á samkeppnismarkaði skal við þessa ákvörðun miða við sviptivirði rekstrarfjármuna sem aðferð.

Að jafnaði skal ekki reikna viðskiptavild til eigna sem þarf til að veita fjarskiptaþjónustu.

Í undantekningatilfellum getur Póst- og fjarskiptastofnun samþykkt til bráðabirgða að stuðst verði við sögulegan kostnað. Í slíkum tilfellum skal Póst- og fjarskiptastofnun hafa til samanburðar áætlað verð sem mundi leiða af hagkvæmum rekstri fjarskiptafyrirtækis á viðkomandi sviði.

15. gr. Afskriftir.

Beita skal línulegri afskrift við mat á árlegum afskriftum eigna sem tengjast framboði þjónustunnar, þ.e. afskrift er fundin með því að deila í sviptivirði eignarinnar með áætluðum endingartíma. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt þegar sérstakar aðstæður krefjast þess að samþykkja notkun annarra afskriftaraðferða og að taka tillit til hugsanlegs hrakvirðis eignar.

16. gr. Ávöxtunarkrafa.

Reikna skal kostnað af stofnfjármagni sem bundið er í eignum sem notaðar eru í sambandi við framboð þjónustu eða þjónustuvöru. Ávöxtun fjármagnsins skal byggjast á vegnu meðaltali fjármagnskostnaðar (WACC) sem reiknast út frá ávöxtunarkröfu eiginfjár og ávöxtunarkröfu skulda í samræmi við viðauka með reglugerð þessari. CAPM líkanið skal notað við útreikning á ávöxtunarkröfu eiginfjár og skal krafan endurspegla tímavirði peninga og áhættu tengda rekstri á viðeigandi markaði. Ávöxtunarkrafa skulda skal reiknuð sem summa áhættulausra vaxta og vaxtaálags, sem endurspeglar eðlilegt álag félaga á markaði.

Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar eigi sjaldnar en árlega ávöxtunarkröfu á eigið fé og skuldir (WACC) fyrir einstaka fjarskiptamarkaði út frá markaðsálagi, hagkvæmri skuldsetningu og stöðu veltufjár og -skulda.

Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að gera megi mismunandi ávöxtunarkröfur fyrir einstakar rekstrareiningar fjarskiptafyrirtækis þegar reiknað er vegið meðaltal fjármagnskostnaðar.

17. gr. Kostnaðargrunnur.

Þegar LRIC aðferðin er notuð við kostnaðargreiningu skal miða við kostnað sem í framtíð mun stafa af því að reka viðkomandi þjónustuþátt.

Kostnaðargreiningu skal byggja á því hvað myndi kosta að reka viðkomandi þjónustu á fjarskiptaneti sem byggt er upp þannig að hagkvæmni sé hámörkuð og að fyrirtækið sé rekið á hagkvæman hátt. Kostnaður sem stafar af óhagkvæmni og úreltri tækni má ekki taka með við ákvörðun verðs. Kostnaðargreiningu skal miða við nýjustu og hagkvæmustu tegundir búnaðar og neta.

18. gr. LRIC kostnaðarlíkan.

Þegar LRIC aðferðin er notuð við kostnaðargreiningu skal gera kostnaðarlíkan til útreiknings á verði þjónustu á grundvelli þess kostnaðar sem verður til í fyrirtæki sem telst rekið á hagkvæman hátt. Gerð LRIC líkans felur í sér að greina skal kostnað við að auka magn þjónustu eða fjölga þjónustutegundum. Í hverju tilfelli fyrir sig þarf að ákveða hversu mikil aukningin sem mæld er skal vera.

Póst- og fjarskiptastofnun ákveður hvort stofnunin gerir sjálf kostnaðarlíkan eða viðkomandi fjarskiptafyrirtæki undir eftirliti stofnunarinnar. Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að byggja á meðaltalskostnaði (LRAIC).

Þegar Póst- og fjarskiptastofnun gerir kostnaðarlíkan í samræmi við LRIC aðferðina skal útbúa kostnaðarlíkan til útreiknings á verði þjónustu á grundvelli þess kostnaðar sem verður til í hagkvæmt hönnuðu fjarskiptaneti á viðkomandi fjarskiptamarkaði (bottom-up líkan).

Þegar fjarskiptafyrirtæki gerir kostnaðarlíkan í samræmi við LRIC aðferðina skal byggja á gögnum úr bókhaldi og eignaskrá viðkomandi fjarskiptafyrirtækis. Notast er við sögulegan kostnað og sviptivirði rekstrarfjármuna í þeim tilgangi að setja gildi inn í líkanið (top-down líkan). Póst- og fjarskiptastofnun getur gert breytingar á líkani fjarskiptafyrirtækis sem unnið er á þennan hátt ef líkanið samrýmist ekki öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar t.d. ef til staðar er óhagkvæmni sem koma mætti í veg fyrir.

Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að samtímis verði gerð tvö mismunandi kostnaðarlíkön í samræmi við 3. og 4. mgr. og ákvörðun um gjaldskrá verði byggð á samanburði á þeim tveimur.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um beitingu LRIC aðferðarinnar, þ.m.t. um kostnaðargrunn og byggingu líkana.

19. gr. Netgrundvöllur.

Við færslu og útreikninga á kostnaði við almenn fjarskiptanet til notkunar í LRIC aðferðinni skal almennt gengið út frá staðsetningu skiptistöðva, þ.m.t. útstöðva, og hnútstöðva eins og þær eru í netinu hverju sinni. Póst- og fjarskiptastofnun getur þó ákveðið við útreikninga á LRIC að breyta forsendum um staðsetningu einstakra stöðva ef ljóst þykir að gildandi staðsetning hafi í för með sér verulegan aukakostnað umfram það sem önnur staðsetning hefði leitt til.

20. gr. Ákvörðun um hámarksverð.

Þegar kostnaðarbókhald er notað til viðmiðunar fyrir gjaldskrá fyrir aðgang, samtengingu eða aðra þjónustu, má samanlögð gjaldtaka fyrir hvern þjónustuþátt ekki vera hærri en sá kostnaður sem færður er á þann þátt í samræmi við ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar.

Póst og fjarskiptastofnun ákveður eigi síðar en 31. október hvert ár hámarksverð fyrir samtengingu, aðgang eða aðra þjónustu sem lýtur kvöðum um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár. Hámarksverð gildir frá 1. janúar til 31. desember næsta ár á eftir. Heimilt er að víkja frá þessum dagsetningum í fyrsta sinn sem hámarksverð er ákveðið eftir að birt er ákvörðun um að leggja á, viðhalda eða breyta kvöðum um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár.

Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar skv. 1. gr. skal byggja á kostnaðargreiningu eða öðrum aðferðum sem tilteknar eru í 12. gr.

Ákvörðun um hámarksverð skv. 2. mgr. gildir fyrir öll fyrirtæki sem bera kvöð um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár á viðkomandi markaði, nema annað sé ákveðið.

Póst- og fjarskiptastofnun getur samþykkt frávik frá hámarksverði ef um er að ræða hlutlægan kostnaðarmismun sem viðkomandi fyrirtæki getur ekki komið í veg fyrir.

Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að fyrirtæki fái aðlögunartíma til þess að færa gjaldskrá sína niður að hámarksverði skv. 2. mgr.

21. gr. Málsmeðferð.

Póst- og fjarskiptastofnun ákveður nánar hvernig málsmeðferð er háttað varðandi uppbyggingu, uppfærslu og breytingar á kostnaðargreiningum, þ. á m. hvernig samráð við hagsmunaaðila fer fram og hversu langa fresti fyrirtæki fá til að gera kostnaðargreiningar og til að að afhenda upplýsingar.

V. KAFLI Eftirlit, viðurlög og gildistaka.

22. gr. Eftirlit.

Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa eftirlit með að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fylgt, sbr. 4. og 5. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003.

23. gr. Upplýsingaskylda.

Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að veita Póst- og fjarskiptastofnun allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að framkvæma kostnaðargreiningu og til að hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðar þessarar.

24. gr. Greinargerð um bókhaldsaðferðir.

Fjarskiptafyrirtæki sem bera kvaðir um bókhaldslegan eða fjárhagslegan aðskilnað og/eða kostnaðarbókhald skulu útbúa greinargerð um tilhögun bókhalds. Greinargerðin skal m.a. innihalda upplýsingar um:

  1. Reikningsskilareglur.
  2. Reglur um deilingu kostnaðar og tekna.
  3. Reglur um innri viðskipti.
  4. Lýsing á reikniaðferðum.
  5. Upplýsingar um stærðir, aðrar en fjárhagslegar.
  6. Listi yfir vörur, þjónustu, viðfangsefni og nethluta.
  7. Reglur um eignamat og afskriftir.
  8. Reglur sem notaðar eru við gerð reikninga skv. 2. mgr. 8. gr. ef við á.

25. gr. Skil rekstrarreikninga.

Fjarskiptafyrirtæki sem bera kvaðir um bókhaldslegan eða fjárhagslegan aðskilnað og/eða kostnaðarbókhald skulu senda Póst- og fjarskiptastofnun sérgreinda rekstrarreikninga ásamt heildarársreikningi fyrir fyrirtækið og samstæðureikningi ef við á eigi síðar en fimm mánuðum eftir lok reikningsárs.

Reikningar samkvæmt 1. mgr. skulu innihalda:

  1. Skýrslu stjórnar.
  2. Aðskilda rekstrarreikninga.
  3. Uppgjör og afstemmingar innri sölu.
  4. Afstemmingar gagnvart ársreikningi fyrirtækisins.

Reikningar skv. 1. mgr. skulu áritaðir af löggiltum endurskoðanda, sem samþykktur er af Póst- og fjarskiptastofnun. Reikningum skal fylgja yfirlýsing frá endurskoðanda um að þeir séu unnir í samræmi við reglugerð þessa og í samræmi við greinargerð sem gerð er samkvæmt 24. gr. Í yfirlýsingu endurskoðanda skal getið um öll frávik frá reglum, ábendingar um atriði sem betur mættu fara, aðferðir við endurskoðun reikninga og nánari upplýsingar eftir því sem þörf er á.

Póst- og fjarskiptastofnun ákveður hvenær reikningum skv. 1. mgr. skal skilað í fyrsta sinn, en að jafnaði skal það vera eftir fyrsta heila rekstrarár eftir að ákvörðun um bókhaldslegan aðskilnað er birt.

26. gr. Birting upplýsinga.

Fjarskiptafyrirtæki skulu birta opinberlega greinargerð skv. 24. gr. og yfirlýsingu frá endurskoðanda skv. 3. mgr. 25. gr. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist birtingar á öðrum gögnum skv. 25. gr. í þeim tilgangi að auka gagnsæi og stuðla að trausti á verðákvörðunum. Heimilt er að veita undanþágu frá birtingu upplýsinga ef fjarskiptafyrirtæki getur sýnt fram á að þær varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt og eðlilegt er að fari leynt.

27. gr. Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 73. og 74. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.

28. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 5. mgr. 32. gr. og 75. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja nr. 960/2001.

Innanríkisráðuneytinu, 18. maí 2011.

Ögmundur Jónasson.

Sigurbergur Björnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.