Prentað þann 22. des. 2024
555/2001
Reglugerð um breyting á reglugerð um vörugjald af ökutækjum, nr. 331/2000, með síðari breytingum.
1. gr.
Í stað fjárhæðarinnar "1.164.000 kr." í 3. tl 2. mgr 15. gr. kemur "1.680.000 kr."
2. gr.
Á eftir 15. gr. koma 3 nýjar greinar sem verða 15. gr. a., 15. gr. b. og 15. gr. c. svohljóðandi:
Bifreiðar til ökukennslu.
15. gr. a.
Vörugjald af bifreiðum til ökukennsku skal lækka í 10% ef bifreið flokkast í gjaldflokk I, en í 13% ef bifreið flokkast í gjaldflokk II.
Lækkun vörugjalds skv. 1. mgr. er háð því skilyrði að næstu þrjú ár eftir nýskráningu bifreiðar verði eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
1. Rétthafi skal hafa hlotið löggildingu sem ökukennari, samkvæmt reglugerð um löggildingu ökukennara og starfsleyfi ökuskóla. Skal hann leggja fram vottorð því til staðfestingar í tengslum við umsókn um lækkun vörugjalds.
2. Rétthafi má ekki njóta eftirgjafar vegna annarrar bifreiðar til ökukennslu á sama tíma.
3. Rétthafi skal hafa að lágmarki 1.680.000 kr. í reiknað endurgjald af ökukennslu, sbr. 2. mgr. 1. tölul. a-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, annað af næstu tveimur heilu almanaksárum eftir að eftirgjöf er veitt. Að loknum þremur árum frá eftirgjöf ber rétthafa að senda viðkomandi tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslum næstu tveggja heilu almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt, til sönnunar á tekjum. Berist tollstjóra ekki framangreind skattframtöl skal hann innheimta eftirgefið vörugjald að fullu.
4. Að bifreið verði skráð sem bifreið til ökukennslu í ökutækjaskrá og nýtt sem slík.
Ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum gilda ákvæði 20. gr. um greiðslu fulls vörugjalds og lögveð. Um framkvæmd lækkunar, þ.m.t. yfirlýsingu rétthafa vegna uppgjörs vörugjalds, gilda ákvæði 21. gr. Um greiðslu mismunar á lækkuðu vörugjaldi og fullu vörugjaldi vegna sölu eða breyttrar nýtingar gilda ákvæði 22. gr.
15. gr. b.
Vörugjald af bifreiðum til ökukennslu í eigu ökuskóla skal lækka í 10% ef bifreið flokkast í gjaldflokk I, en í 13% ef bifreið flokkast í gjaldflokk II.
Lækkun vörugjalds skv. 1. mgr. er háð því skilyrði að næstu þrjú ár eftir nýskráningu bifreiðar verði nýting bifreiðar og starfsemi ökuskóla hagað sem hér segir:
1. Bifreið skal skráð á ökuskóla sem hefur starfsleyfi frá umferðarráði. Ökuskólar skulu haga starfsemi sinni að öllu leyti í samræmi við reglugerð um löggildingu ökukennara og starfsleyfi ökuskóla.
2. Bifreið skal skráð sem bifreið til ökukennslu og tryggð sem slík.
3. Bifreiðin skal eingöngu nýtt til ökukennslu hjá viðkomandi skóla. Við mat á því skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 80% af akstri hennar með framlagningu akstursdagbókar eða með öðrum hætti sem tollstjóri metur fullnægjandi.
4. Ökuskóli skal haga bókhaldi sínu með þeim hætti að hann geti á hverjum tíma gert grein fyrir akstri bifreiðar. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um.
Ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum gilda ákvæði 20. gr. um greiðslu fulls vörugjalds, lögveð og beitingu álags. Um framkvæmd lækkunar, þ.m.t. yfirlýsingu ökuskóla vegna uppgjörs vörugjalds gilda ákvæði 21. gr. Um greiðslu mismunar á lækkuðu vörugjaldi og fullu vörugjaldi vegna sölu eða breyttrar nýtingar gilda ákvæði 22. gr.
Bifreiðar til ökukennslu og leigubifreiðaaksturs.
15. gr. c.
Vörugjald af bifreiðum sem notaðar eru til ökukennslu og leigubifreiðaaksturs skal lækka í 10% ef bifreið flokkast í gjaldflokk I, en í 13% ef bifreið flokkast í gjaldflokk II.
Lækkun vörugjalds skv. 1. mgr. er háð því skilyrði að næstu þrjú ár eftir nýskráningu bifreiðar verði eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
1. Rétthafi skal hafa hlotið löggildingu sem ökukennari, samkvæmt reglugerð um löggildingu ökukennara og starfsleyfi ökuskóla. Rétthafi skal jafnframt hafa atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs samkvæmt lögum um leigubifreiðar. Skal hann leggja fram vottorð þessu til staðfestingar í tengslum við umsókn um lækkun vörugjalds.
2. Rétthafi má ekki njóta eftirgjafar vegna annarrar bifreiðar hvort sem er til ökukennslu eða vegna annarrar leigubifreiðar á sama tíma.
3. Rétthafi skal hafa að lágmarki 1.680.000 kr. í reiknað endurgjald af ökukennslu og leiguakstri samanlagt, sbr. 2. mgr. 1. tölul. a-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, annað af næstu tveimur heilu almanaksárum eftir að eftirgjöf er veitt. Að loknum þremur árum frá eftirgjöf ber rétthafa að senda viðkomandi tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslum næstu tveggja heilu almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt, til sönnunar á tekjum. Berist tollstjóra ekki framangreind skattframtöl skal hann innheimta eftirgefið vörugjald að fullu.
4. Að bifreið verði skráð sem bifreið til ökukennslu og leigubifreið í ökutækjaskrá og nýtt sem slík.
Ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum gilda ákvæði 20. gr. um greiðslu fulls vörugjalds og lögveð. Um framkvæmd lækkunar, þ.m.t. yfirlýsingu rétthafa vegna uppgjörs vörugjalds, gilda ákvæði 21. gr. Um greiðslu mismunar á lækkuðu vörugjaldi og fullu vörugjaldi vegna sölu eða breyttrar nýtingar gilda ákvæði 22. gr.
3. gr.
2. mgr. 20. gr. orðist svo:
Ef um er að ræða lækkun til bílaleigu, sbr. 14. gr., eða lækkun til ökuskóla, sbr. 15. gr. b, skal tollstjóri, hafi rétthafi brotið gróflega eða ítrekað gegn skilyrðum þeim sem sett eru fyrir lækkun, innheimta ógreitt vörugjald ásamt 50% álagi og jafnframt svipta hina brotlegu bílaleigu skv. 14. gr., eða hinn brotlega ökuskóla skv. 15. gr. b, rétti til lækkunar vörugjalds í þrjú ár. Lögveð tekur ekki til álags samkvæmt þessari málsgrein.
4. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 28. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti ofl. nr. 29/1993 13. apríl 1993, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Fjármálaráðneytinu, 29. júní 2001.
F. h. r
Baldur Guðlaugsson.
Telma Halldórsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.