Prentað þann 23. nóv. 2024
545/2020
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.
1. gr.
Ákvæði til bráðabirgða orðast svo:
Heimilt er að greiða framfærendum barna sem voru með gilt umönnunarmat á tímabilinu 16. mars - 4. maí 2020 eingreiðslu sem nemur 25% af fullum umönnunargreiðslum fyrir einn mánuð vegna aukinnar umönnunar. Skilyrði er að aðstæður sem hafa skapast vegna COVID-19 faraldurs sem hófst hér á landi í febrúar 2020 hafi valdið því að þjónusta, t.d. skóli eða dagvistun, hafi legið niðri eða að barn hafi ekki getað sótt skóla eða dagvistun vegna faraldursins. Sama gildir ef framfærandi hefur verið heima með barni vegna undirliggjandi vanda barns sem embætti landlæknis hefur skilgreint sem áhættuþætti fyrir alvarlegri sýkingu vegna COVID-19 faraldursins. Jafnframt er það skilyrði eingreiðslunnar að slíkar aðstæður hafi varað í a.m.k. 15 virka daga á framangreindu tímabili.
Sækja skal um eingreiðslu fyrir 1. janúar 2021. Umsækjendur skulu veita Tryggingastofnun ríkisins þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt samkvæmt ákvæði þessu.
2. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 4. mgr. 4. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Félagsmálaráðuneytinu, 29. maí 2020.
Ásmundur Einar Daðason.
Gunnhildur Gunnarsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.