Prentað þann 23. nóv. 2024
540/2011
Reglugerð um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma.
I. KAFLI Gildissvið og orðskýringar.
1. gr. Gildissvið og markmið.
Reglugerð þessi gildir um skyldu atvinnurekenda til að skrá atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma sem og skyldu lækna til að tilkynna um slíka sjúkdóma til Vinnueftirlits ríkisins. Þær skráningar sem og tilkynningar eru óháðar því hvort atvinnusjúkdómar eða atvinnutengdir sjúkdómar teljast leiða til bótaskyldu atvinnurekanda eða annarra aðila samkvæmt almennum reglum þar um.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að atvinnurekendur haldi skrá um atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma og að læknar tilkynni um atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma til Vinnueftirlits ríkisins sem skráir þá í heilsuverndar- og forvarnarskyni.
2. gr. Orðskýringar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
- Atvinnusjúkdómur: Sjúkdómur sem orsakast af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi.
- Atvinnutengdur sjúkdómur: Sjúkdómur eða sjúkdómsástand sem kemur fram, versnar eða ágerist vegna vinnu eða aðstæðna í starfsumhverfi en telst þó ekki orsakast beint af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi.
II. KAFLI Skyldur lækna.
3. gr. Tilkynningarskylda lækna.
Læknir sem kemst að því eða fær grun um að starfsmaður eða hópur starfsmanna hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna, skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Vinnueftirlits ríkisins.
Tilkynningarskyldan tekur til allra lækna, þ.m.t. tannlækna, án tillits til þess hvort þeir starfa innan heilsugæslu, á sjúkrahúsi eða eru sjálfstætt starfandi.
Tilkynninguna skal læknir senda rafrænt eða í pósti til Vinnueftirlits ríkisins.
4. gr. Efni tilkynninga frá læknum.
Eftirfarandi skal koma fram í tilkynningu læknis til Vinnueftirlits ríkisins:
- Nafn sjúklings og kennitala.
- Sjúkdómsgreining.
- Hve lengi starfsmaður hefur unnið á viðkomandi vinnustað.
- Starfsheiti og stutt starfslýsing.
- Nafn vinnustaðar.
- Hvort læknir viti um fleiri tilvik á vinnustaðnum og mat hans á því hvort grípa þurfi til aðgerða á vinnustað.
- Hvort læknir telji að um sé að ræða atvinnusjúkdóm eða atvinnutengdan sjúkdóm.
- Tengsl sjúkdóms og vinnu eða aðstæðna í starfsumhverfi, sbr. 5. gr.
5. gr. Tengsl sjúkdóms við vinnu eða aðstæður í starfsumhverfi.
Læknir skal geta þess sérstaklega í tilkynningu sinni hvenær einkenni komu fram, hvaða tengsl geti verið milli einkenna og vinnu eða aðstæðna í starfsumhverfi og hvort einkenni geti tengst notkun á efnum, búnaði eða öðrum aðstæðum sem ætlað er að hafi verið til staðar á viðkomandi vinnustað. Áhrif þess sem ætlað er að starfsmaður hafi orðið fyrir við vinnu sína eða frá aðstæðum í starfsumhverfi þurfa að hafa verið í nægjanlegu magni eða eftir atvikum umfangi sem og að vara svo lengi að það teljist læknisfræðilega líklegt til að orsaka sjúkdóm. Þá þarf sjúkdómslýsing læknis samkvæmt bestu fáanlegu þekkingu að samrýmast samspili þeirra áhrifa sem ætlað er að starfsmaður hafi orðið fyrir við vinnu sína eða frá aðstæðum í starfsumhverfi og veikinda hans.
Við greiningu sína skv. 1. mgr. skal læknir hafa til hliðsjónar atvinnusjúkdómalista Evrópusambandsins, sbr. tilmæli framkvæmdastjórnarinnar frá 19. september 2003, sem Vinnueftirlit ríkisins birtir.
III. KAFLI Skyldur atvinnurekenda.
6. gr. Skráningarskylda atvinnurekenda.
Atvinnurekandi skal halda skrá yfir þá sjúkdóma sem hann hefur rökstuddan grun eða vitneskju um að eigi rætur sínar að rekja til tiltekins starfs eða annarra aðstæðna á vinnustað, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Þá ber honum að skrá óhöpp sem eru til þess fallin að valda slysum á fólki, svo sem mengun vegna efna sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu fólks.
Vinnueftirlit ríkisins og þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækisins, sbr. 4.-6. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem og þjónustuaðili, sbr. 66. gr. a sömu laga, skulu hafa aðgang að skránni.
Atvinnurekandi og þeir aðilar sem taldir eru upp í 2. mgr. skulu fara með persónuupplýsingar úr skránni sem trúnaðarmál.
IV. KAFLI Ýmis ákvæði.
7. gr. Kæruheimild.
Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til velferðarráðuneytis innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
8. gr. Viðurlög.
Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
9. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 78. gr. og 5. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, öðlast þegar gildi.
Velferðarráðuneytinu, 11. maí 2011.
Guðbjartur Hannesson.
Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.