Prentað þann 22. des. 2024
540/2008
Reglugerð um breytingu á reglugerð um skotvopn og skotfæri, nr. 787/1998 (evrópskt skotvopnaleyfi).
1. gr.
Á eftir 28. gr. koma eftirfarandi ákvæði er verða 28. gr. a og b og orðast svo:
Evrópskt skotvopnaleyfi.
Handhafi skotvopnaleyfis skv. 25. gr. getur sótt um evrópskt skotvopnaleyfi til lögreglustjóra í hverju umdæmi. Í umsókn skal koma fram fullt nafn, kennitala, heimilisfang, fæðingarstaður og ríkisfang umsækjanda og lýsing á þeim skotvopnum sem umsókn tekur til. Þá skal fylgja ljósrit af skotvopnaleyfi og 2 passamyndir.
Evrópska skotvopnaleyfið gildir í 5 ár hið mesta frá útgáfudegi þó eigi lengur en skotvopnaleyfi umsækjanda. Heimilt er að framlengja gildistíma evrópsks skotvopnaleyfis.
Í evrópskt skotvopnaleyfi skulu skráð þau vopn er handhafi íslensks skotvopnaleyfis tilgreinir sérstaklega til skráningar. Vopn skráð á söfnunarleyfi verða ekki skráð í evrópskt skotvopnaleyfi. Framsal leyfisins er óheimilt og skal handhafi þess ávallt bera það á sér við notkun tilgreinds vopns erlendis. Allar breytingar á eignarhaldi vopnsins eða aðrar breytingar sem verða á vopninu sjálfu skulu skráðar í leyfið. Sama gildir ef vopnið tapast eða því er stolið.
Evrópskt skotvopnaleyfi fellur sjálfkrafa úr gildi við afturköllun skotvopnaleyfis. Leyfishafa ber að afhenda lögreglustjóra skotvopnaleyfi sem eru útrunnin eða hafa verið afturkölluð.
Ríkislögreglustjóri setur starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um efni og útgáfu evrópska skotvopnaleyfisins.
Réttaráhrif evrópsks skotvopnaleyfis.
Handhafi evrópsks skotvopnaleyfis, sem gefið er út á Íslandi, getur, án sérstaks leyfis lögreglustjóra skv. 48. gr., flutt út og síðar inn til landsins aftur þau vopn er tilgreind eru í leyfinu ef dvölin er ekki lengri en þrír mánuðir.
Útlendur handhafi evrópsks skotvopnaleyfis, sem hyggst stunda veiði eða iðka íþróttaskotfimi hér á landi getur án sérstaks leyfis lögreglustjóra skv. 46. gr., flutt með sér til landsins þau skotvopn sem leyfið tilgreinir, enda séu þau leyfð hér á landi á grundvelli 3. gr. reglugerðarinnar, handhafi framvísi staðfestingu á tilgangi fararinnar, og dvölinni sé ekki ætlað að vara lengur en þrjá mánuði.
Handhafi evrópsks skotvopnaleyfis getur flutt inn og út með sér skotfæri í hæfilegu magni með þeim skotvopnum sem hann flytur með sér skv. 2. og 3. gr.
Útlendur handhafi evrópsks skotvopnaleyfis skal ávallt bera það á sér við notkun þar tilgreindra skotvopna. Jafnframt skal hann framvísa vopnum og skotvopnaleyfinu hvenær sem þess er krafist af lögreglu, tollayfirvöldum eða öðrum þeim sem hafa eftirlit með skotvopnum eða veiði, s.s. veiðistjóra. Þá er viðkomandi jafnframt skylt að framvísa samtímis öðrum viðurkenndum persónuskilríkjum, s.s. vegabréfi.
2. gr.
3. tölul. 54. gr. orðast svo: útgáfudag og dagsetningu endurútgáfu hvers skotvopnaleyfis og annarra réttinda s.s. evrópsks skotvopnaleyfis.
3. gr.
Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 39. gr. vopnalaga nr. 16 frá 25. mars 1998 með síðari breytingum og með hliðsjón af 3. mgr. viðauka B við samning sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd beitingu og þróun Schengen-gerðanna (tilskipun ráðsins 91/477/EBE frá 18. júní 1991), öðlast þegar gildi.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 4. júní 2008.
Björn Bjarnason.
Dís Sigurgeirsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.