Prentað þann 22. des. 2024
536/2001
Reglugerð um neysluvatn.
I. KAFLI Gildissvið, markmið og skilgreiningar.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um neysluvatn þ.m.t. átappað vatn sem sérreglur gilda ekki um.
Ákvæði reglugerðarinnar gilda ekki um vatn úr náttúrulegum ölkeldum með köldu, kolsýru- og steinefnaríku vatni og um vatn sem notað er til lækninga og er viðurkennt sem slíkt. Reglugerð þessi gildir ekki um hitaveituvatn.
2. gr. Markmið.
Markmið þessarar reglugerðar er að vernda heilsu manna með því að tryggja að neysluvatn sé heilnæmt og hreint.
3. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er:
1. Brunnsvæði sá hluti vatnsverndarsvæðis sem er í næsta nágrenni vatnsbólsins.
2. Dreifikerfi lagnakerfi sem dreifir vatninu til notenda að vatnsinntaki húss.
3. Grunnvatn vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar.
4. Lindarvatn vatn sem berst sjálfrennandi upp á yfirborð jarðar.
5. Matvælafyrirtæki hvert það fyrirtæki og hver sá aðili sem annast framleiðslu og dreifingu matvæla.
6. Neysluvatn vatn í upphaflegu ástandi eða eftir meðhöndlun, án tillits til uppruna þess og hvort sem það kemur úr dreifikerfi, tönkum, flöskum eða öðrum ílátum og ætlað er til neyslu, eða matargerðar. Einnig allt vatn sem notað er í matvælafyrirtækjum, nema unnt sé að sýna fram á að gæði þess vatns sem notað er hafi ekki áhrif á heilnæmi framleiðslunnar.
7. Neysluvatnskerfi húss lagnir og tilheyrandi búnaður milli vatnsinntaks húss og krana.
8. Vatnsból náttúruleg uppspretta eða mannvirki, þar sem vatn er tekið.
9. Vatnsveita fyrirtæki og mannvirki þess sem veitir vatni frá vatnsbóli til vatnsinntaksloka notenda.
10. Vatnsverndun ákvörðun um varðveislu vatnsgæða og viðhald þeirra svo og aðgerðir sem hindra spillingu vatns.
11. Vatnsverndarsvæði afmarkað svæði á vatnasviði vatnsbóla þar sem vatnsvernd hefur verið komið á.
12. Yfirborðsvatn vatn af yfirborði jarðar, sem nota má til neyslu ef það uppfyllir ákveðnar gæðakröfur.
II. KAFLI Leyfisveitingar og kröfur.
4. gr. Starfsleyfi.
Afla skal starfsleyfis heilbrigðisnefndar áður en eftirlitsskyld vatnsból eða vatnsveitur, sbr. 12. gr., og tilheyrandi búnaður er tekinn í notkun og við eigendaskipti, samanber ákvæði reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Skal það gert að undangenginni ákvörðun um vatnsvernd í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns og rannsókn á gæðum vatnsins í samræmi við ákvæði 13. greinar þessarar reglugerðar. Kostnaður við rannsóknir greiðist af þeim sem sækir um starfsleyfi. Samráð skal haft við heilbrigðisnefnd um breytingar á eldri vatnsbólum eða vatnsveitum, eða ef breytingar verða á starfsemi þeirra, sem gætu haft áhrif á gæði neysluvatnsins.
Leyfi heilbrigðisnefndar þarf fyrir íblöndun efna sem ætluð eru til meðhöndlunar á neysluvatni. Einnig þarf leyfi heilbrigðisnefndar fyrir aðferðir sem notaðar eru við meðhöndlun á neysluvatni.
5. gr. Heilbrigði starfsfólks.
Enginn sem ætla má að haldinn sé sjúkdómi, sem borist getur með vatni, má gegna störfum við vatnsveitu ef það er talið geta valdið sýkingarhættu. Ef ástæða er til að ætla að um slíka sýkingarhættu geti verið að ræða skal viðkomandi starfsmaður gangast undir læknisrannsókn á kostnað vatnsveitunnar.
6. gr. Kröfur til neysluvatns.
Vatnsveitur og aðrir sem dreifa neysluvatni skulu sjá til þess að neysluvatn uppfylli kröfur í viðauka I við reglugerð þessa. Neysluvatn skal vera laust við örverur, sníkjudýr og efni í því magni sem getur haft áhrif á heilsu manna. Fyrir þá efnisþætti, sem ekki er fjallað um í viðauka I, skal stuðst við leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um gæði neysluvatns.
Neysluvatn skal jafnframt uppfylla ákvæði reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla og annarra sértækari reglna sem til þess ná.
Þegar nýta á yfirborðsvatn til neyslu skal það uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð þessari og leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins um gæði yfirborðsvatns.
Átappað lindarvatn skal uppfylla þau skilyrði um örverufræðilega þætti, merkingar umbúða og búnað sem notaður er, sem tilgreind eru í reglugerð um ölkelduvatn.
7. gr. Neysluvatn til átöppunar.
Neysluvatn, sem ætlað er til sölu í neytendaumbúðum, skal leitt í leiðslu frá vatnsbóli til átöppunarhúsnæðis eða tekið til átöppunar úr veitukerfi. Ef átappað vatn er merkt sem lindarvatn, skal það leitt í sérleiðslu frá uppsprettustað til átöppunarhúsnæðis.
8. gr. Undanþágur.
Hollustuvernd ríkisins er heimilt að veita undanþágu frá hámarksgildum að því tilskildu að heilsu manna stafi ekki hætta af og að því tilskildu að ekki sé hægt með neinu öðru eðlilegu móti að dreifa neysluvatni á viðkomandi svæði. Slíkri undanþágu skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar um:
a) ástæður fyrir undanþágunni;
b) viðkomandi rannsóknarþætti, fyrri niðurstöður úr eftirliti og leyfilegt hámarksgildi;
c) landsvæði, vatnsmagn, íbúa og matvælafyrirtæki sem verða fyrir áhrifum;
d) eftirlitsáætlun;
e) samantekt úr áætlun um nauðsynlegar aðgerðir til úrbóta;
f) gildistíma undanþágunnar.
Undanþága skal gilda í eins skamman tíma og unnt er og aldrei lengur en í þrjú ár.
Áður en undanþága er veitt skal Hollustuvernd ríkisins auglýsa fyrirhugaða undanþágu með tryggilegum hætti þar sem íbúum viðkomandi svæðis er gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við stofnunina innan tilskilins frests.
Hollustuvernd ríkisins skal veita íbúum viðkomandi landsvæðis tafarlaust upplýsingar um veitta undanþágu og skilyrði fyrir henni og ráðgjöf.
Telji Hollustuvernd ríkisins að frávik frá hámarksgildi sé óverulegt og hægt sé að ráða bót á vandanum innan 30 daga þarf ekki að beita ákvæðum liða a-f. Í slíkum tilvikum skal heilbrigðisnefnd setja leyfilegt hámarksgildi og tilgreina frest til úrbóta. Ekki er heimilt að beita undanþágu samkvæmt þessari grein ef frávik frá hámarksgildi hefur verið viðvarandi hjá sömu vatnsveitu í meira en 30 daga á undanfarandi 12 mánuðum.
Grein þessi gildir ekki um átappað vatn.
III. KAFLI Vatnsvernd.
9. gr. Varnir gegn mengun vatnsbóla.
Umhverfis hvert vatnsból skal heilbrigðisnefnd ákvarða vatnsverndarsvæði sem skiptist í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði, sbr. reglugerð um varnir gegn mengun vatns. Brunnsvæði skal vera algjörlega friðað fyrir óviðkomandi umferð og framkvæmdum öðrum en þeim sem nauðsynlegar eru vegna vatnsveitunnar. Heilbrigðisnefnd skal, þar sem þörf krefur, krefjast þess að svæðið skuli girt gripa- og mannheldri girðingu, sem sé minnst 5 metra frá vatnsbóli.
Vatnsveitur skulu gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að vatnsból spillist. Sama gildir um aðra staði s.s. ár eða læki þar sem vatn er tekið til neyslu. Skylt er að tilkynna heilbrigðisnefnd tafarlaust ef vitað er um mengun á vatni í vatnsbólum eða dreifikerfi.
Um varnir gegn mengun vatnsbóla gildir að öðru leyti ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns.
10. gr. Efnisval og viðhald.
Leiðslur, dælur, geymar og annað sem notað er við vatnsveitu skal þannig gert og viðhaldið að neysluvatn spillist ekki. Eftirlitsaðila er heimilt að banna notkun slíks búnaðar ef ætla má að notkun hans geti valdið heilsutjóni.
11. gr. Vernd ónýttra vatnsbóla.
Heilbrigðisnefnd og vatnsveitum er heimilt að gera tillögur til viðkomandi sveitarstjórnar að reglum til verndar ónýttum vatnsbólum.
Slíkar reglur skal setja sem heilbrigðissamþykktir, sbr. ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
IV. KAFLI Eftirlit og rannsóknir.
12. gr. Eftirlit.
Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, fara með eftirlit með ákvæðum þessarar reglugerðar, sbr. reglugerð um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.
Heilbrigðisnefndum er heimilt með sérstökum samningum að fela tiltekna þætti eftirlitsins lögbundnum eftirlitsaðilum með matvælum og faggiltum skoðunaraðilum í samræmi við 24. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ábyrgð á eftirlitinu og framkvæmd þvingunarúrræða hvílir eftir sem áður á viðkomandi heilbrigðisnefnd.
Heilbrigðisnefndir hafa ekki reglubundið eftirlit eða framkvæma heildarúttekt hjá vatnsveitum sem þjóna færri en 50 manns eða 20 heimilum/sumarbústöðum, nema þær þjóni matvælafyrirtækjum. Þá skal hafa reglubundið eftirlit með þeim í samræmi við töflur 4 og 5 í viðauka I a.m.k. einu sinni á ári. Einnig skal fara fram heildarúttekt a.m.k. einu sinni á ári ef vatnsnotkun fer yfir 100 m3 á dag miðað við ársmeðaltal.
Eftirlit skal haft með ástandi neysluvatns, þ.m.t. vatnsbólum og brunnsvæði þeirra, vatnsveitum, hreinsi- og dælustöðvum, dreifikerfum og öðru sem áhrif kann að hafa á neysluvatn. Eftirlit með yfirborðsvatni sem nota á í framleiðslu á neysluvatni skal vera í samræmi við leiðbeiningar Hollustuverndar ríkisins um gæði yfirborðsvatns, mæliaðferðir, tíðni sýnatöku og greiningar á yfirborðsvatni. Eftirlit skal felast í:
a) reglubundnu eftirliti með rannsóknaþáttum sem tilgreindir eru í töflu 4 í viðauka I og samkvæmt lágmarkstíðni sem tilgreind er í töflu 6 í viðauka I eða töflu 6 ef um átappað vatn er að ræða. Hollustuvernd ríkisins getur heimilað allt að 50% frávik frá lágmarkstíðni greininga sem tilgreind eru í töflu 6 fyrir mismunandi rannsóknaþætti í töflu 4 ef:
1. mæligildi úr sýnum sem tekin eru a.m.k. í 2 ár í röð eru stöðug og verulega lægri en hámarksgildin og
2. ekkert hefur komið í ljós sem bendir til að spilli gæðum neysluvatnsins
og
b) heildarúttekt á rannsóknaþáttum sem tilgreindir eru í töflum 1, 2, 3 í viðauka I og samkvæmt lágmarkstíðni sem tilgreind er í töflum 6 og 7 í viðauka I nema vatnsveita geti sýnt fram á með niðurstöðum mælinga yfir a.m.k. þriggja ára tímabil eða með öðrum gögnum að ólíklegt sé að tiltekinn rannsóknaþáttur mælist yfir hámarksgildi.
Eftirlitsaðili getur gert kröfur um allar ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til að tryggja að neysluvatn uppfylli skilyrði sem tilgreind eru í viðauka I.
13. gr. Sýnataka.
Taka skal sýni á þann hátt að þau endurspegli ástand vatns á mismunandi árstímum og skal heilbrigðisnefnd ákveða sýnatökustaði í samráði við vatnsveitur.
Um sýnatöku og meðferð vatnssýna skal fara eftir leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins um töku vatnssýna. Tíðni sýnatöku og greiningaraðferðir fer eftir ákvæðum viðauka I og II og tíðni reglubundins eftirlits og heildarúttektar í matvælafyrirtækjum skal ákvarðast af vatnsnotkun í samræmi við leiðbeiningar Hollustuverndar ríkisins um eftirlit með neysluvatni í matvælafyrirtækjum. Heilbrigðisnefnd skal meta þörf á aukinni sýnatöku ef vatn á litlum vatnsveitusvæðum er notað á sjúkrastofnunum, í skólum eða annarri starfsemi svo og ef vatnsgæði eru óstöðug.
Ef aðrar greiningaraðferðir eru notaðar skal leita samþykkis Hollustuverndar ríkisins. Rannsóknir sýna skulu gerðar á faggiltum rannsóknarstofum með faggiltum rannsóknaraðferðum.
Til þess að meta hvort neysluvatn stenst kröfur samkvæmt viðauka I skulu sýni til rannsókna tekin á eftirfarandi hátt:
a) vegna vatns úr dreifikerfi skal taka sýni úr vatnsbólum og þar úr dreifikerfinu sem það er tiltækt notendum;
b) vegna átappaðs vatns til dreifingar skal taka sýni þar sem vatnið fer í flöskur eða önnur ílát;
c) vegna vatns sem notað er í matvælafyrirtæki skal taka sýni þar sem vatnið er tekið til notkunar inn í húsið;
d) vegna vatns úr tankbílum, tankvögnum eða tankskipum skal taka sýni þar sem vatnið er tekið úr tanknum.
Taka skal sýni og framkvæma mælingar ef rökstuddur grunur er um mengun neysluvatns vegna efna eða örvera sem ekki koma fram í viðauka I en geta valdið tjóni á heilsu fólks. Áður en nýtt vatnsból er tekið í notkun skal fara fram heildarúttekt samkvæmt viðauka I.
Í sérstökum tilvikum og þegar alvarlegt ástand getur skapast er Hollustuvernd ríkisins heimilt án fyrirvara að setja tímabundið strangari ákvæði en þau sem birt eru í viðaukum við reglugerð þessa og leiðbeiningum um yfirborðsvatn.
14. gr. Viðbrögð við menguðu neysluvatni.
Ef niðurstöður greininga vegna sýnatöku eftirlitsaðila, vegna heildarúttektar eða vegna reglubundins eftirlits, sbr. viðauka I, fara yfir hámarksgildi skal heilbrigðisnefnd þegar rannsaka þau tilvik í því skyni að greina orsök þeirra og meta hvort líkur eru á að heilsu manna stafi hætta af.
Ef niðurstöður greininga vegna sýnatöku dreifingaraðila fara yfir hámarksgildi skal hann tilkynna það til heilbrigðisnefndar án tafar.
Rannsóknaþættir í viðauka I eru flokkaðir í flokka A, B og C eftir því til hvaða aðgerða ber að grípa ef gildi mælist hærra en hámarksgildi viðkomandi þátta. Mælist gildi yfir hámarksgildi fyrir framangreinda flokka skal gripið til eftirfarandi aðgerða:
Flokkur A:
Gripið skal til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta til að endurheimta vatnsgæðin. Heilbrigðisnefnd skal í samráði við Hollustuvernd ríkisins banna dreifingu eða notkun neysluvatnsins, nema eftir nauðsynlegar aðgerðir til verndar heilsu manna. Heilbrigðisnefnd skal tafarlaust veita neytendum upplýsingar og ráðgjöf.
Flokkur B
:
Gripið skal til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta til að endurheimta vatnsgæðin. Skulu aðgerðir ráðast af því hve mikið greining er yfir hámarksgildi og þeirri hættu sem heilsu manna er búin. Taki heilbrigðisnefnd í samráði við Hollustuvernd ríkisins þá ákvörðun að banna dreifingu neysluvatnsins eða takmarka notkun skal það gert með hliðsjón af þeirri hættu sem það kann að skapa. Í slíkum tilvikum skulu neytendum tafarlaust veittar upplýsingar og nauðsynleg ráðgjöf.
Flokkur C:
Heilbrigðisnefnd skal í samráði við Hollustuvernd ríkisins meta hvort heilsu manna er hætta búin. Heilbrigðisnefnd ber að grípa til aðgerða til að endurheimta vatnsgæðin. Neytendum skal tilkynnt um aðgerðir nema um óverulegt frávik sé að ræða.
Heilbrigðisnefnd skal tilkynna viðkomandi héraðslækni eða sóttvarnalækni jafnskjótt og hún hefur orðið vör við hugsanlega smithættu, sbr. ákvæði 11. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.
15. gr. Ábyrgð húseigenda og aðgerðir.
Ef niðurstaða greiningar vatnssýnis skv. a-lið 13. gr., er yfir hámarksgildi og rekja má orsakir þess til neysluvatnskerfis húss er það á ábyrgð húseigenda að grípa til nauðsynlegra aðgerða.
Ef um er að ræða byggingar eða fyrirtæki sem veita vatni til almennings, s.s. í skólum, heilbrigðisstofnunum eða matvælafyrirtækjum, ber heilbrigðisnefnd að gera kröfu um úrbætur og leiðbeina húseigendum um mögulegar aðgerðir sem þeir geta gripið til eftir því sem við á.
Heilbrigðisnefnd skal sjá til þess að hlutaðeigandi neytendur fái upplýsingar um ástand vatnsins og aðgerðir sem þeir geta gripið til.
16. gr. Skýrslugerð.
Heilbrigðisnefndir skulu árlega skila skýrslu til Hollustuverndar ríkisins um niðurstöður úr sýnatökum á neysluvatni. Hollustuvernd ríkisins skal taka saman og birta skýrslu árlega um ástand neysluvatns í þeim tilgangi að koma upplýsingum á framfæri við neytendur.
V. KAFLI Viðurlög og gildistaka.
17. gr.
Til að knýja á um framkvæmd ráðstafana samkvæmt reglugerð þessari getur heilbrigðisnefnd beitt þvingunarúrræðum samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 93/1995 um matvæli.
18. gr. Viðurlög.
Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 93/1995 um matvæli, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
19. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í XX. viðauka II. kafla (tilskipun 98/83/EB). Einnig með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af XX. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 319/1995 um neysluvatn, með síðari breytingum. Reglugerðin skal endurskoðuð eigi síðar en í júní 2006.
Ákvæði til bráðabirgða.
1. Gæði neysluvatns skulu uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar fyrir 5. desember 2003.
2. Fyrsta skýrslan sem Hollustuvernd ríkisins skal taka saman samkvæmt 16. gr. skal birta árið 2004.
Umhverfisráðuneytinu, 28. júní 2001.
F. h. r.
Ingimar Sigurðsson.
Sigurbjörg Sæmundsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.