Prentað þann 15. jan. 2025
535/2003
Reglugerð um verðjöfnun við útflutning á fullunnum vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni.
1. gr.
Við útflutning á fullunnum vörum sem innihalda að einhverjum hluta þau innlendu hráefni sem talin eru upp í 3. gr., er heimilt að greiða mismun á verði viðkomandi hráefna á heimsmarkaði og innanlands til verðjöfnunar. Með útflutningi er í reglugerð þessari átt við sölu vöru til útlanda, í tollfrjálsa verslun, í tollfrjálsa forðageymslu fyrir för í millilandaferðum eða á varnarsvæði samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna.
2. gr.
Til að verðjöfnun nái til vörunnar skal hún falla undir eftirfarandi vöruliði og tollskrárnúmer, sbr. viðauka I við lög nr. 55/1987 með síðari breytingum:
0403.1011 | 1517.1001 | 1806.9011 | 1902.3021 | 2105.0011 |
0403.1012 | 1517.9002 | 1806.9023 | 1902.3031 | 2105.0019 |
0403.1013 | 1601.0022 | 1806.9025 | 1902.3041 | 2106.9041 |
0403.1019 | 1601.0023 | 1806.9026 | 1902.4021 | 2106.9048 |
0403.1021 | 1602.xxxx | 1806.9028 | 1905.9011 | 2106.9059 |
0403.1022 | 1604.xxxx | 1806.9029 | 1905.9051 | 2106.9064 |
0403.1029 | 1806.2003 | 1806.9039 | 1905.9090 | 2202.9011 |
0403.9011 | 1806.2004 | 1901.2017 | 2103.9051 | 2202.9012 |
0403.9012 | 1806.2005 | 1901.2023 | 2103.9052 | 2202.9013 |
0403.9013 | 1806.2006 | 1901.2024 | 2104.1011 | 2202.9014 |
0403.9014 | 1806.3101 | 1902.2021 | 2104.1012 | 2202.9015 |
0403.9019 | 1806.3109 | 1902.2022 | 2104.1021 | 2202.9016 |
0403.9021 | 1806.3202 | 1902.2031 | 2104.1022 | 2202.9017 |
0403.9022 | 1806.3203 | 1902.2041 | 2104.2001 | 2202.9019 |
0403.9029 | 1806.3209 | 1902.2042 | 2104.2002 |
Greiðsla verðjöfnunar fyrir ofangreindar vörur fer eftir því magni landbúnaðarhráefnis sem notað er við framleiðslu viðkomandi vöru og verðjafnað er fyrir, sbr. 3. gr. Þó er ekki heimilt að verðjafna ef magn sérhverrar hráefnistegundar er umfram 60% af heildarþunga.
3. gr.
Upphæð verðjöfnunar á hvert kíló hverrar tegundar hráefnis er mismunur á innlendu og erlendu viðmiðunarverði í samræmi við neðangreinda töflu:
Landbúnaðarhráefni | Innlent viðmiðunarverð | Erlent viðmiðunarverð | Verðjöfnun |
kr./kg/l | kr./kg/l | kr./kg/l | |
Mjólk | 60 | 26 | 34 |
Undanrenna | 60 | 7 | 53 |
Rjómi 36% | 529 | 250 | 279 |
Nýmjólkurduft | 350 | 99 | 251 |
Undanrennuduft | 339 | 66 | 273 |
Smjör | 259 | 115 | 144 |
Ostur | 717 | 266 | 451 |
Egg, skurnlaus | 298 | 131 | 167 |
Nautgripakjöt, beinlaust | 576 | 279 | 297 |
Kindakjöt, beinlaust | 609 | 413 | 196 |
Svínakjöt, beinlaust | 455 | 111 | 344 |
Kjúklingakjöt, beinlaust | 625 | 564 | 61 |
Hrossakjöt, beinlaust | 239 | 110 | 129 |
Í þeim tilfellum þegar afskurður af kjöti er notaður sem hráefni, t.d. í hakk, fars o.þ.h. skal nota margföldunarstuðulinn 0,65 við útreikning verðjöfnunar.
4. gr.
Sækja skal um heimild til verðjöfnunar til landbúnaðarráðuneytisins eigi síðar en ári eftir að útflutningur á sér stað. Sækja skal sérstaklega um verðjöfnun fyrir hverja vörutegund. Umsókn á þar til gerðu eyðublaði skal innihalda upplýsingar um:
a. Umsækjanda/útflytjanda.
b. Tollflokkun vöru.
c. Uppskrift sem gerir grein fyrir hráefnanotkun og samsetningu vöru.
Ráðuneytið getur krafist annarra gagna ef þörf krefur. Ráðuneytið heimilar greiðslu verðjöfnunar fyrir viðkomandi vöru að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar og reiknar út upphæð verðjöfnunar á hvert kíló viðkomandi vörutegundar. Ráðuneytið tilkynnir umsækjanda og tollstjóranum í Reykjavík ákvörðun sína þar sem fram kemur tilvísunarnúmer vegna heimildar til verðjöfnunar. Verðjöfnunarheimild er að hámarki veitt til tveggja ára í senn.
5. gr.
Sé þess óskað skal umsækjandi afhenda ráðuneytinu sýnishorn af vörum sem verðjöfnun nær til. Ennfremur skal framleiðandi viðkomandi vöru halda nákvæmt bókhald yfir magn og verð þeirra hráefna sem notuð eru til framleiðslunnar og láta þær upplýsingar ráðuneytinu í té, sé þess óskað. Umsækjanda ber skylda til að tilkynna breytingar á hráefnisnotkun til ráðuneytisins sem gefur út nýja heimild til verðjöfnunar ef ástæða er til.
6. gr.
Tollstjórinn í Reykjavík annast greiðslu verðjöfnunar. Umsækjandi sækir um greiðslu verðjöfnunar til tollstjórans í Reykjavík eða tollstjóra í umdæmi útflutningshafnar sem framsendir umsókn til tollstjórans í Reykjavík. Tollstjóri skal greiða verðjöfnun á vöru sem flutt hefur verið út í samræmi við verðjöfnunarheimild, sbr. 4. gr., enda sé sýnt fram á með fullnægjandi hætti að mati tollstjóra að útflutningur hafi átt sér stað t.d. með framvísun útflutningsskýrslu eða framvísun á sölureikningi með áritaðri staðfestingu tollgæslu.
Í umsókn skal koma fram tilvísunarnúmer vegna heimildar til verðjöfnunar og farmskrárnúmer vegna útflutnings vörunnar. Tollstjórinn í Reykjavík getur krafist annarra gagna sem hann telur nauðsynleg. Greiðsla verðjöfnunar skal eiga sér stað innan viku frá því að fullnægjandi gögn hafa borist honum, sbr. reglugerð nr. 228/1993 um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra.
Upphæð verðjöfnunar skal reiknuð samkvæmt þeim reglum sem í gildi voru er útflutningur átti sér stað.
7. gr.
Landbúnaðarráðherra sker úr ágreiningi sem upp kann að koma vegna framkvæmdar reglugerðar þessarar.
8. gr.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 82. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.
9. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 85. gr. A. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 259/1996, með síðari breytingum.
Landbúnaðarráðuneytinu, 3. júlí 2003.
Guðni Ágústsson.
Sigríður Norðmann.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.