Fara beint í efnið

Prentað þann 7. nóv. 2024

Stofnreglugerð

533/2015

Reglugerð um afplánun sakhæfra barna.

I. KAFLI Almenn ákvæði og gildissvið.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fullnustu óskilorðsbundinna fangelsisdóma sakhæfra barna á aldrinum 15-18 ára þegar þau eru vistuð á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda.

Reglugerð þessi gildir eftir því sem við á einnig um fullnustu óskilorðsbundinna fangelsisdóma barna á aldrinum 15-18 ára í fangelsi á vegum Fangelsismálastofnunar ríkisins.

Reglugerðin gildir einnig þegar um er að ræða börn á aldrinum 15-18 ára sem úrskurðuð hafa verið í gæsluvarðhald en slík vistun skal framkvæmd í samráði við rannsóknaraðila máls.

2. gr. Skýringar.

Með barni er í reglugerð þessari átt við einstakling á aldrinum 15-18 ára sem er hæft að lögum til að bera refsiábyrgð.

Með heimili barnaverndaryfirvalda er í reglugerð þessari átt við sérhæft meðferðarheimili sem rekið er á ábyrgð Barnaverndarstofu.

Með sérstökum ástæðum er í reglugerð þessari átt við ástæður er lúta að hagsmunum barnsins.

II. KAFLI Fullnusta óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga.

3. gr. Almennt.

Fangelsismálastofnun ríkisins tekur við refsidómum barna til fullnustu frá ríkissaksóknara. Barnaverndarstofu er skylt að hafa tiltækt sérhæft meðferðarúrræði sem getur veitt börnum skv. reglugerð þessari, sem hlotið hafa refsidóma, fullnægjandi meðferð á sama tíma og tryggt er öryggi þeirra og annarra vistmanna á heimilinu.

Barnaverndarstofu skal þá þegar tilkynnt um framkominn refsidóm. Fangelsismálastofnun tekur ákvörðun um upphaf afplánunar í samráði við Barnaverndarstofu.

Barnið er á ábyrgð barnaverndaryfirvalda meðan það dvelur á heimili á vegum Barnaverndarstofu.

4. gr. Vistun í fangelsi.

Nú er það mat fagaðila að það sé barninu fyrir bestu að það sé vistað í fangelsi með vísan til sérstakra ástæðna er lúta að því í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og skal barnið þá vistað í fangelsi. Um vistun þess í fangelsi gilda almennar reglur.

Leitast skal við að vista barn í opnu fangelsi. Það skal njóta forgangs til meðferðar af hálfu fangelsisyfirvalda. Fangelsimálastofnun upplýsir barnaverndarnefnd sem fer með málefni barnsins um afplánun barnsins í fangelsi. Barnaverndarnefnd fylgist með líðan barnsins meðan á afplánun stendur.

III. KAFLI Vistun á vegum Barnaverndarstofu.

5. gr. Meðferð.

Barnaverndarstofa ákveður meðferðarstað fyrir barnið á grundvelli sérstaks mats þar sem meðal annars skal líta til meðferðarþarfar, öryggissjónarmiða, lengdar og eðlis refsingarinnar.

Nú er barn í afplánun óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar hjá Barnaverndarstofu og skal það þá njóta sömu meðferðar og aðrir vistmenn sem á heimilinu dvelja. Ávallt skal vera í gildi sérstök áætlun um meðferð þess á meðan afplánun stendur sem meðferðarheimili setur í samvinnu við þá barnaverndarnefnd sem fer með mál barnsins og skal hún endurskoðuð eftir þörfum þess hverju sinni og stöðu þess í meðferð.

6. gr. Vistun í afmörkuðum hluta meðferðarheimilis.

Nú sýnir barn í afplánun ógnandi hegðun eða er talið hættulegt sjálfu sér eða öðrum, hefur verulega truflandi áhrif á meðferð annarra vistmanna á heimilinu eða aðrar þarfir barnsins krefjast þess, og skal þá meðferðarheimilið leitast við að vista það á öðrum stað en aðra vistmenn á heimilinu, hafi önnur vægari úrræði samkvæmt þeim reglum sem gilda um starfsemi meðferðarheimila ekki komið að gagni.

Vistun í afmörkuðum hluta meðferðarheimilis kemur eingöngu til álita á grundvelli mats sérfræðings sem unnið er samkvæmt skilgreindu matstæki frá Barnaverndarstofu og skal aldrei standa lengur en nauðsyn krefur. Á meðan þeirri vistun stendur skal fara fram símat á þörf fyrir vistun afsíðis á grundvelli ástands barnsins og áhættuþátta auk getu og vilja barns til að taka þátt í almennu meðferðarstarfi heimilisins.

Dvöl barns í afmörkuðum hluta heimilisins má ekki vera í refsingarskyni og hefur ekki áhrif á önnur réttindi þess, s.s. útivist, umgengni, skólasókn eða vinnu, eða stöðu þess í hvatningarkerfi meðferðarheimilisins.

Barnaverndarstofu skal án tafar tilkynnt um ákvörðun um að vista barn í afmörkuðum hluta meðferðarheimilis og hvaða ástæður liggja að baki þeirri ákvörðun.

7. gr. Almennar reglur.

Um vistun barns á meðferðarheimili gilda sömu reglur og almennt gilda um vistun annarra barna á meðferðarheimilum undir yfirumsjón Barnaverndarstofu, að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í lögum eða reglugerð þessari.

Um meðferð barna í afplánun á heimili á vegum barnaverndarstofu og þjónustu við þau gilda að öðru leyti allar almennar reglur um vistun barna á meðferðarheimilum, samkvæmt barnaverndarlögum, reglugerðum og reglum settum samkvæmt þeim. Um ágreining sem upp kann að koma um inntak meðferðar eða aðra slíka þætti meðan vistun varir fer samkvæmt barnaverndarlögum.

8. gr. Strok.

Strjúki barn af heimili Barnaverndarstofu skal það tilkynnt Fangelsismálastofnun ríkisins. Í tilkynningu til fangelsismálastofnunar skal koma fram hver strauk, hvenær, auk almennrar lýsingar á fatnaði barns.

Fangelsismálastofnun hefur samband við lögreglu og gefur út handtökuskipun á barnið.

Lögreglan skal færa barnið að nýju til heimilis á vegum Barnverndarstofu.

IV. KAFLI Ýmis ákvæði.

9. gr. Reynslulausn.

Fangelsismálastofnun tekur ákvörðun um reynslulausn barns í samráði við Barnaverndarstofu. Um reynslulausn gilda almennar reglur laga um fullnustu refsinga.

10. gr. Lok vistunar hjá Barnaverndarstofu.

Nú verður barn 18 ára gamalt meðan það er í vistun á heimili á vegum Barnaverndarstofu án þess að afplánun sé lokið og skal þá bjóða því áframhaldandi afplánun á heimili Barnaverndarstofu ellegar verður það flutt í fangelsi ríkisins. Einstaklingur getur þó ekki afplánað í úrræði á vegum Barnaverndarstofu lengur en til tvítugs.

Nú lýkur fullnustu refsingar áður en barn verður 18 ára og skal þá barnaverndarnefnd sem fer með mál barnsins meta í samráði við Barnaverndarstofu og meðferðarheimilið sem barnið er vistað á hvort rétt sé að vista það áfram á grundvelli barnaverndarlaga.

12. gr. Eftirlit Barnaverndarstofu.

Um starfsemi meðferðarheimilisins gilda ákvæði barnaverndarlaga hvað varðar starfsemi heimilisins og þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar.

Barnaverndarstofa skal hafa sama eftirlit með afplánun barns á meðferðarheimili á vegum stofnunarinnar og með öðrum börnum sem eru í meðferð á slíku heimili.

Reglur Barnaverndarstofu gilda um eftirlit með starfsemi heimila og meðferð mála sem kunna að koma upp, þar á meðal vegna kvartana vistmanna sem dveljast á heimilinu.

13. gr. Þjálfun starfsmanna.

Starfsmenn meðferðarheimilis, sem sinnir verkefnum samkvæmt reglugerð þessari, skulu hafa hlotið sérstaka grunnþjálfun áður en börn hefja afplánun á meðferðarheimilinu. Einnig skal stefnt að því að einn starfsmaður meðferðarheimilisins hafi lokið grunnnámi í fangavarðaskólanum. Rekstraraðilar meðferðarheimilisins skulu að sama skapi leggja sig fram um að veita starfsmönnun tækifæri til að efla þekkingu sína og þjálfun með endurmenntun þar sem slíku verður við komið.

14. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 14. gr. og 80. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005, sbr. lög nr. 19/2013, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 21. maí 2015.

Ólöf Nordal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.