Prentað þann 23. des. 2024
533/2001
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.
Á eftir IV. kafla kemur nýr kafli V. kafli Verndun neysluvatns. Númer kafla og greina sem eftir koma breytast til samræmis við það.
1. gr.
12. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Verndun neysluvatns.
12. gr.
12.1 Sveitarstjórnir og heilbrigðisnefndir skulu grípa til sérstakra ráðstafana til að koma í veg fyrir að gæði vatns sem tekið er til neyslu og vatns sem kann að verða tekið síðar sem neysluvatn geti hrakað eða spillst. Þessar ráðstafanir felast m.a. í ákvörðun um verndarsvæði og setningu heilbrigðissamþykkta, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem gerðar eru takmarkanir viðvíkjandi umferð, landnýtingu og meðferð og geymslu hættulegra efna innan verndarsvæðanna.
2. gr.
13. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Flokkun verndarsvæða.
13. gr.
13.1 Umhverfis hvert vatnsból skal ákvarða verndarsvæði sem skiptist í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði. Við skilgreiningu vatnsverndarflokkana skal taka mið af vatnafræðilegum, jarðfræðilegum og landfræðilegum aðstæðum á vatnasviði vatnsbólsins, mikilvægi þess og mengunarhættu.
I. flokkur. Brunnsvæði.
Brunnsvæði er næsta nágrenni vatnsbólsins. Það skal vera algjörlega friðað fyrir óviðkomandi umferð og framkvæmdum öðrum en þeim, sem nauðsynlegar eru vegna vatnsveitunnar. Heilbrigðisnefnd getur, þar sem þörf krefur, krafist þess að svæðið skuli girt mannheldri girðingu, sem sé minnst 5 metra frá vatnsbóli.
II. flokkur. Grannsvæði.
Utan við brunnsvæðið skal ákvarða grannsvæði vatnsbólsins og við ákvörðun stærðar þess og lögunar skal taka tillit til jarðvegsþekju svæðisins og grunnvatnsstrauma sem stefna að vatnsbólinu. Á þessu svæði skal banna notkun á hættulegum efnum og birgðageymslu slíkra efna. Hér er m.a. átt við olíu, bensín og skyld efni, salt, eiturefni til útrýmingar á skordýrum eða gróðri og önnur efni sem mengað geta grunnvatn, auk efna sem sérstaklega eru tilgreind í reglugerð um neysluvatn. Ekki skal leyfa nýjar byggingar, sumarbústaði eða þess háttar á svæðinu. Vegalagnir, áburðarnotkun og önnur starfsemi innan svæðisins skal vera undir ströngu eftirliti.
III. flokkur. Fjarsvæði.
Fjarsvæði er á vatnasvæði vatnsbólsins en liggur utan þess lands sem telst til I. og II. flokks verndarsvæðanna. Þar sem vitað er um sprungur eða misgengi á þessu svæði, skal fyllstu varúðar gætt í meðferð efna, sem talin eru upp í II. flokki. Stærri geymslur fyrir slík efni eru bannaðar á svæðinu. Heilbrigðisnefnd getur gefið út frekari fyrirmæli varðandi umferð á þessu svæði, svo og um byggingu sumarhúsa og annarra mannvirkja.
3. gr.
14. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Ráðstafanir vegna verndarsvæða.
14. gr.
14.1 Ráðstafanir á verndarsvæðum til verndar vatnsgæðum skulu ávallt miðast við ströngustu skilyrði sem gilda til viðhalds náttúrulegu ástandi vatns, sbr. 8.-11. gr., sbr. einnig reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi, reglugerð um varnir gegn mengun grunnvatns, reglugerð um fráveitur og skólp og reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri, ásamt síðari breytingum. Sama á við um meðferð úrgangs.
14.2 Heilbrigðisnefnd er enn fremur heimilt að banna framkvæmdir, geymslu efna og úrgangs, geymslu og notkun tækja og búnaðar auk þess olíu-, efna- og úrgangsflutninga innan verndarsvæða vatnsbóla þar sem hætta er á að slíkt geti spillt vatninu. Verði ekki hjá slíkum flutningum komist skulu þeir fara fram á þeim tíma sólarhrings þegar umferð er minnst og þá með samþykki eftirlitsaðila. Í slíkum tilvikum skal liggja fyrir björgunaráætlun við mengunaróhöppum.
4. gr.
15. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Staðsetning og frágangur vatnsbóla.
15. gr.
15.1 Vatnsból skulu vera í öruggri fjarlægð frá mannvirkjum eða hvers konar starfsemi sem ætla má að geti spillt vatninu. Þess skal gætt að slík mannvirki eða starfsemi séu þannig staðsett að grunnvatnsborð halli ætíð frá vatnsbóli. Sama gildir um straumstefnu yfirborðsvatns, sem skal renna frá vatnsbóli.
15.2 Vatnsból skulu yfirbyggð, afgirt og þannig frá þeim gengið að yfirborðsvatn og önnur óhreinindi berist ekki í þau. Gripahús, þar með talin loðdýrabú, alifuglabú, svínabú og áburðargeymslur, mega aldrei standa nær vatnsbóli en 100 metra og ætíð svo að land halli frá vatnsbóli og að ekki sé hætta á mengun grunnvatns. Heimilt er að banna eða takmarka umferð húsdýra á verndarsvæðum vatnsbóla og krefjast gripheldra girðinga ef nauðsyn krefur.
5. gr.
16. gr. orðist svo:
Eftirlit með verndarsvæðum fyrir neysluvatn.
16. gr.
16.1 Um eftirlit með gæðum vatns í vatnsbólum og verndarsvæðum þeirra fer skv. reglugerð um neysluvatn. Heilbrigðisnefnd skal halda skrá yfir allar mælingar og fylgjast með þróun á ástandi vatnsgæða í tíma. Tryggja skal að a.m.k. hluti efnagreininga sé fullnægjandi að gæðum til að meta breytingar á styrk efna í tíma. Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með verndarsvæðum vatnsbóla og að farið sé að ráðstöfunum til verndar á vatnsgæðum. Niðurstöðu eftirlits með vatnsverndarsvæðum skal skrá á eftirlitsskýrslu.
6. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og samkvæmt 9. gr. laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar og öðlast gildi við birtingu.
Umhverfisráðuneytinu, 28. júní 2001.
F. h. r.
Ingimar Sigurðsson.
Sigurbjörg Sæmundsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.