Prentað þann 30. des. 2024
527/2017
Reglugerð um velferð dýra í flutningi.
I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Markmið.
Reglugerð þessi hefur það markmið að tryggja velferð og aðbúnað dýra við flutninga og koma í veg fyrir útbreiðslu dýrasjúkdóma við flutninga á dýrum.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um alla flutninga á dýrum. Um flutning umráðamanns á dýrum sínum á eigin flutningatæki, sé um að ræða hefðbundna árlega flutninga til eða frá beitilandi, í sláturhús og flutning á 15 dýrum eða færri skulu gilda ákvæði I. og II. kafla og skilyrði í II. kafla I. viðauka og II. viðauka reglugerðarinnar.
3. gr. Orðskýringar.
Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:
- Áfangastaður: Staður þar sem dýr er tekið úr flutningatæki.
- Dýr: Öll hryggdýr önnur en eldisfiskur og gæludýr.
- Brottfararstaður: Staður þar sem dýr er fyrst sett á flutningatæki.
- Flutningur: Ferli dýraflutninga frá brottfararstað til áfangastaðar, þ.m.t. hleðsla, umferming og afferming, hvort sem um er að ræða flutninga í lofti, á láði eða legi.
- Flutningatæki: Tæki til dýraflutninga, t.d. flutningatæki á hjólum sem annaðhvort gengur fyrir eigin vélarafli eða er dregið, skip og flugvélar.
- Stjórnandi flutningatækis: Einstaklingur sem stýrir flutningatæki.
- Flutningabúr: Búr sem notað er við flutning á dýrum.
- Flutningsaðili: Sá aðili, fyrirtæki eða einstaklingur, sem hefur flutning á dýrum sem atvinnustarfsemi að öllu leyti eða að hluta til, óháð því hvort flutningur er á eigin vegum eða að flutningatæki sé leigt eða lánað öðrum.
- Flutningstími: Heildarflutningstími frá hleðslu á fyrsta dýri, tíma milli staða, hlés á akstri, umfermingar og til affermingar síðasta dýrs.
- Gámur: Vistarvera sem notuð er við flutninga dýra en er ekki flutningatæki eða flutningabúr.
- Skipuleggjandi ferðar: Einstaklingur eða lögaðili sem skipuleggur flutninga á dýrum og lætur flytja, eða flytur sjálfur, dýr á eigin kostnað eða á kostnað þriðja aðila.
- Umráðamaður dýrs í flutningi: Eigandi dýrs eða annar aðili sem er ábyrgur fyrir umsjá dýrs meðan á flutningi stendur.
4. gr. Yfirstjórn.
Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt þessari reglugerð. Matvælastofnun fer með framkvæmd þessarar reglugerðar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt.
II. KAFLI Skilyrði fyrir flutningi á dýrum.
5. gr. Almenn skilyrði.
Við flutninga dýra skal þess gætt að valda dýrunum ekki ónauðsynlegum ótta, meiðslum eða þjáningu. Flutningatækiog útbúnaður þeirra skal vera hannaður, smíðaður, honum viðhaldið og stjórnað með það í huga.
Eftirfarandi skilyrðum skal ávallt fylgt við flutninga á dýrum:
- Óheimilt er að flytja dýr lengur en 8 klukkustundir í landflutningum. Að ferð lokinni skulu dýrin tekin af flutningatæki. Þeim skal gefið fóður og brynnt og tryggt skjól og hvíld í minnst 12 klukkustundir áður en ferð er framhaldið. Þó er heimilt að flytja alifugla í landflutningum í að hámarki 12 klukkustundir að meðtalinni tínslu. Einnig er heimilt að flutningur gripa í sláturhúsrétt taki allt að 10 klukkustundir. Landflutningur á hrossum má að hámarki taka 12 klukkustundir. Hrossum skal tryggð fóðrun og brynning á 8 klukkustunda fresti í eina klukkustund í senn. Mjólkandi hryssum skal boðið vatn og fóður á tveggja tíma fresti. Loðdýrum skal brynnt á minnst á 4 klukkustunda fresti meðan á flutningi stendur.
- Tryggja skal að dýr séu nægilega vel á sig komin til að þola áætlaða ferð. Fyrirfram skulu allar nauðsynlegar ráðstafanir hafa verið gerðar til að stytta ferðina sem mest og fullnægja þörfum dýra meðan á ferð stendur og til að mæta hugsanlegum ytri óhagstæðum aðstæðum, s.s. veðri og færð er geta haft áhrif á líðan dýra.
- Tryggja skal aðskilnað dýra miðað við stærð eftir því sem nauðsynlegt er til að gæta að velferð dýra.
- Tryggja skal að flutningatæki séu gripaheld og ekki sé hætta á að dýrin geti fallið af þeim við flutning, lestun eða affermingu.
- Flutningatæki skulu vera hönnuð, smíðuð, viðhaldið og þeim stjórnað þannig að ekki sé hætta á að dýr meiðist eða þjáist, að öryggi þeirra sé tryggt og auðvelt sé að hreinsa og sótthreinsa tækin. Tryggja skal að unnt sé að viðhalda hreinu umhverfi og nægri loftræstingu sem hentar dýrum. Tryggt skal aðgengi eða eftirlit með myndavél með dýrunum, þannig að unnt sé að fylgjast með líðan þeirra og sinna þeim.
- Búnaður til umfermingar og affermingar skal vera hindrunarlaus til að tryggja auðveldan rekstur á dýrum með tilliti til eðlishvata þeirra, nema við flutning dýra í flutningabúrum.
- Dýr skulu flutt á áfangastað án óeðlilegra tafa og fylgjast skal reglubundið með líðan þeirra.
- Tryggja þarf að dýr séu varin gegn veðrum og að hitastig í flutningsrými hæfi tegundinni.
- Tryggja skal dýrum nægilegt gólfrými og lofthæð í samræmi við stærð þeirra. Tryggja skal að dýr, önnur en alifuglar, geti staðið, lagst, legið og reist sig eða rétt úr sér með eðlilegum hætti, eftir því sem við á. Um rými fyrir alifugla gilda skilyrði E-liðar II. viðauka.
- Tryggja skal að yfirborð gólfs sé óskreipt. Lýsing við flutning skal hæfa hverri tegund. Tryggja skal góða lýsingu þegar þörf krefur svo að auðvelt sé að hafa eftirlit með og sinna dýrum meðan á flutningi stendur.
- Fyrir flutning skal umráðamaður huga að hæfilegri fóðrun og brynningu ef dýrin þurfa að bíða lengi fram að flutningi. Fóðri skal haldið frá dýrum síðustu tvær klukkustundirnar fyrir flutning en þess gætt að þau hafi ætíð aðgengi að vatni. Að jafnaði skal halda fóðri frá sláturgripum 6 klukkustundum fyrir flutning. Ef sauðfé er slátrað innan tólf klukkustunda frá flutningi frá brottfararstað skal fóðri haldið frá þeim í að minnsta kosti 8 klukkustundir fyrir flutning.
- Ekki má teyma dýr fastbundið við vélknúið ökutæki eða aftanívagna.
- Ekki má lyfta kvendýrum sem gengin eru meira en 2/3 meðgöngunnar með böndum eða öðrum útbúnaði undir kvið.
- Við flutning á hestum á hestakerru skal vera slá á milli hesta sem veitir þeim stuðning, ef þeir standa þversum eða á ská. Folöldum er heimilt að standa með mæðrum sínum í stíu. Ef stefna hestanna er í akstursstefnu eða stefna þeirra er minna en 30 gráður frá akstursstefnu skal vera brjóstslá fyrir framan hestana.
6. gr. Dýrasjúkdómar.
Við flutning dýra skal tryggja að lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum, og stjórnsýslufyrirmæli sett samkvæmt þeim séu virt. Flutningatæki sem fara á milli búa og svæða skulu vera þrifin og sótthreinsuð skipulega til að fyrirbyggja dreifingu smits milli þeirra.
Í tilviki sláturflutninga á sauðfé er skylt að þrífa og sótthreinsa flutningatæki þegar farið er á milli svæða með misjafna sjúkdómastöðu. Flutningatæki sem flytja sauðfé skulu að lágmarki vera þrifin og sótthreinsuð í lok dags en oftar ef tilefni er til. Sauðfjárflutningar skulu einnig skipulagðir með tilliti til svæða og varnarlína þannig að farið sé á hreinum og þurrum tækjum á þau svæði sem hafa betri sjúkdómastöðu en önnur svæði.
Í tilviki sláturflutninga alifugla er skylt að þrífa og sótthreinsa flutningatækið fyrir hvern flutning. Sömu skilyrði gilda um annan útbúnað sem notaður er við flutning svo sem gáma.
7. gr. Undanþáguákvæði.
Matvælastofnun er heimilt að veita undanþágu frá einstökum ákvæðum þessarar reglugerðar til stakra flutninga telji stofnunin að meginmarkmiðum reglugerðarinnar sé náð við flutninginn. Beiðni um undanþágu skal beint til Matvælastofnunar að minnsta kosti viku áður en fyrirhugaður flutningur er framkvæmdur. Í neyðartilvikum skal Matvælastofnun afgreiða beiðnir um undanþágu eins fljótt og auðið er.
Matvælastofnun skal halda skrá yfir veittar undanþágur samkvæmt 1. mgr.
III. KAFLI Flutningar.
8. gr.
Stjórnandi flutningatækis í landflutningum og umráðamaður dýra
í flutningum með skipum og loftförum.
Stjórnandi flutningatækis í landflutningum og umráðamaður dýra í flutningum með skipum og loftförum skal hafa leyfi frá Matvælastofnun til að starfa við flutning á dýrum enda hafi hann staðist námskeið, skv. 12. gr. þessarar reglugerðar. Stjórnandi flutningatækis í landflutningum og umráðamaður dýra í flutningum með skipum eða loftförum skal á hverjum tíma getað framvísað gildu leyfi til flutninga á dýrum.
Stjórnandi flutningatækis í landflutningum og umráðamaður dýra í flutningum með skipum og loftförum er ábyrgur fyrir því að þau dýr sem hann flytur séu flutt í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar. Stjórnandi flutningatækis í landflutningum og umráðamanni dýra í flutningum með skipum og loftförum er óheimilt að taka dýr til flutnings ef skilyrði reglugerðar þessarar eru ekki uppfyllt.
Stjórnandi flutningatækis í landflutningum og umráðamaður dýra í flutningi með skipum og loftförum skal hafa hlotið nægilega þjálfun og hæfni til þess að vinna störf sín á ábyrgan hátt án þess að beita aðferðum sem geta valdið dýrum meiðslum, þjáningum eða óþarfa ótta eða streitu.
Skipuleggjendur eru ábyrgir fyrir skipulagningu flutninga. Fyrir hverja ferð skulu skipuleggjendur tryggja að líðan dýranna sé ekki stefnt í hættu í áföngum ferða og að tillit sé tekið til færðar og veðurskilyrða.
9. gr. Flutningsaðilar og sláturhús.
Flutningsaðilar eru ábyrgir fyrir flutningnum og skulu sjá til þess að ævinlega sé unnt að nálgast upplýsingar um áætlun, framkvæmd og lok ferðar sem þeir bera ábyrgð á. Sé um að ræða flutninga á dýrum til slátrunar ber að veita sláturhúsi fyrrgreindar upplýsingar nema flutningsaðili sé starfsmaður sláturhússins.
Við flutning á dýrum til slátrunar skal sláturhús sjá til þess að ávallt sé unnt að nálgast upplýsingar um flutningsaðila og áætlaða flutninga þeirra.
10. gr. Dagbók um flutninga.
Flutningsaðili skal tryggja að í hverju farartæki sem notað er til að flytja dýr sé haldin dagbók þar sem skráð er:
- Tegund, fjöldi og eignarhald dýra.
- Brottfararstaður.
- Dagsetning og tími brottfarar.
- Viðkomustaðir.
- Áætluð tímalengd væntanlegrar ferðar.
- Áfangastaður.
- Tímasetning þegar affermingu er lokið.
- Dagsetning og staður sótthreinsunar, þegar við á.
Eyðublað fyrir dagbók um flutninga skal vera aðgengilegt á vef Matvælastofnunar.
Gögn þau sem getið er um í 1. mgr. skal flutningsaðili geyma í tvö ár og afhenda Matvælastofnun þegar þess er óskað.
11. gr. Forskoðun og samþykkt á flutningatækjum.
Flutningatæki á landi, gámar eða annað rými í loftförum og skipum sem ætluð eru til að flytja dýr skulu skoðuð og samþykkt af Matvælastofnun sem gefur út leyfi fyrir notkun á viðkomandi tæki fyrir ákveðnar búfjártegundir sem gildir til 5 ára í senn. Fyrir skoðun og eftirlit með flutningatækjum og gámum skal greiða gjald sem nemur kostnaði samkvæmt gjaldskrá Matvælastofnunar.
12. gr. Námskeið og hæfisskírteini.
Stjórnandi flutningatækis í landflutningi, skipuleggjendur ferða og umráðamenn dýra í flutningum með skipum og loftförum, skulu hafa sótt námskeið um flutninga dýra, sem haldið er af aðila sem Matvælastofnun viðurkennir.
Námskeiðið skal halda að minnsta kosti einu sinni á ári. Á námskeiðinu skal fjalla um lög og reglur á viðkomandi sviði svo sem atferli dýra, neyðarlógun, velferð dýra, dýrasjúkdóma, sóttvarnir og þrif. Námskeiðinu skal ljúka með prófi. Einkunnir skal gefa í heilum tölum 1-10 og lágmarkseinkunn til að standast próf er 7.
Matvælastofnun gefur út leyfi/hæfisskírteini til þeirra einstaklinga sem standast námskeið um flutninga á dýrum.
Matvælastofnun er heimilt að veita einstaklingum undanþágu til flutnings dýra þar til næsta námskeið um flutning á dýrum hefur verið haldið.
13. gr. Önnur skilyrði við flutning.
Um flutning á dýrum gildir eftirfarandi:
- Um flutningatæki og meðhöndlun við flutning skal fara eftir ákvæðum viðauka I.
- Um stærð flutningsrýma skal fara eftir ákvæðum viðauka II.
- Við flutning dýra í dýraflutningaskipum, gámaskipum og ferjum skal fara eftir ákvæðum viðauka III.
IV. KAFLI Þvingunarúrræði og viðurlög.
14. gr. Þvingunarúrræði.
Fái Matvælastofnun vitneskju um brot á reglugerð þessari skal stofnunin grípa til, eða krefjast þess að umráðamaður dýra í flutningi grípi til nauðsynlegra aðgerða til að gæta velferðar dýranna samkvæmt X. kafla laga nr. 55/2013 um velferð dýra.
Slíkar aðgerðir skulu ekki valda dýrunum ónauðsynlegum eða frekari þjáningum.
Séu ekki fyrir hendi aðstæður til að tryggja viðunandi velferð dýra skal aflífa þau í samræmi við reglugerð um vernd dýra við aflífun.
Matvælastofnun skal þegar í stað undirbúa nauðsynlegar aðgerðir ef ekki er unnt að ná sambandi við umráðamann dýrs eða ef hann hlítir ekki fyrirmælum.
Tilkynna skal aðila máls svo fljótt sem auðið er um þær ákvarðanir sem teknar eru og ástæður fyrir þeim.
Matvælastofnun er heimilt að svipta flutningabílstjóra eða skipuleggjanda leyfi til flutninga gerist þeir brotlegir við reglugerð þessa, lög nr. 55/2013 um velferð dýra eða lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
15. gr. Viðurlög.
Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt X. kafla laga nr. 55/2013 um velferð dýra og 30. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.
16. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 18. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum og öðlast gildi við birtingu. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 127/1958 um meðferð búfjár við rekstur og flutning með vögnum, skipum og flugvélum, með síðari breytingum.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir 11. gr. er Matvælastofnun heimilt til 31. desember 2020 að veita leyfi til notkunar flutningatækis sem áður hefur verið notað til flutninga dýra, þó að viðkomandi tæki uppfylli ekki skilyrði reglugerðar þessarar, enda sé gætt að velferð og aðbúnaði dýra í hvívetna og kostnaðarsamt væri að breyta viðkomandi flutningatæki. Öll endurnýjun slíkra flutningatækja skal þó standast skilyrði reglugerðar þessarar.
Þrátt fyrir 12. gr. skulu þeir sem starfa við flutning á dýrum við gildistöku reglugerðarinnar hafa lokið við námskeið innan tveggja ára frá gildistöku reglugerðar þessarar.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.