Prentað þann 22. des. 2024
515/2010
Reglugerð um kjölfestuvatn.
Efnisyfirlit
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir að framandi lífverur og meinvaldar, svo sem veirur og sýklar, berist með kjölfestuvatni til hafsvæða og stranda umhverfis Ísland með því að takmarka losun þess.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um skip sem eiga leið um mengunarlögsögu Íslands sem og skip á leið til og frá höfn á Íslandi.
Reglugerðin gildir ekki um fiskiskip sem eru ekki hönnuð eða smíðuð til að nota kjölfestuvatn.
3. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð og orðasambönd þá merkingu sem hér greinir:
BWM-samningur: Alþjóðasamningur um stjórnun og meðhöndlun á kjölfestuvatni skipa og botnfalli í því (International Convention for the Control and Management of Ships' Ballast Water and Sediments).
Framandi lífvera: Lífvera sem hefur borist inn á nýtt búsvæði af mannavöldum, hvort sem er af ásetningi, fyrir tilviljun eða af slysni.
Hafnarsvæði: Umráðasvæði á sjó og landi sem hafnaryfirvöld á hverjum stað annast og skilgreint er í hafnarlögum og hafnarreglugerðum.
IMO-leiðbeiningar: Alþjóðlegar leiðbeiningar um stjórnun og meðhöndlun á kjölfestuvatni skipa til að draga úr líkum á flutningi skaðlegra lagarlífvera og meinvalda, gefnum út af Alþjóðasiglingamálastofnuninni, IMO (Guidelines for the Control And Management of Ships' Ballast Water to Minimize the Transfer of Harmful Aquatic Organisms and Pathogens).
Kjölfestuáætlun: Skrifleg aðferðafræði við losun og/eða töku kjölfestuvatns. Aðferðafræðin getur falið í sér vélræna, efnislega, efnafræðilega og líffræðilega ferla sem koma í veg fyrir eða takmarka áhættu á upptöku og/eða losun framandi lífvera og annarra meinvalda.
Kjölfestudagbók: Dagbók þar sem skráð er dagsetning og landfræðileg staðsetning á upptöku og/eða losun kjölfestuvatns, rúmmál kjölfestugeymis, farmur og magn kjölfestuvatns sem vistað er.
Kjölfestuvatn: Vatn, ásamt uppleysanlegum efnum og gruggi, sem er tekið um borð í skip í því skyni að stjórna stafnhalla, hliðarhalla, djúpristu, stöðugleika skipsins eða álagi á það.
Losun: Þegar vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi er hleypt í sjóinn fljótandi eða föstum efnum sem tengjast eðlilegri starfsemi.
Mengun: Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
Mengunarlögsaga Íslands: Hafsvæðið sem nær yfir innsævi að meðtalinni strönd að efstu flóðmörkum á stórstraumsflóði, landhelgi og efnahagslögsögu, landgrunn Íslands og efstu jarðlög, sbr. lög nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
OSPAR-leiðbeiningar: Alþjóðlegar leiðbeiningar gefnar út af skrifstofu OSPAR-samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins (Convention for the Protection of the Marine Environment of the North-East Atlantic), sem gilda þar til BWM-samningurinn tekur gildi.
Skip: Far af hvaða gerð sem er sem fer um hafið, þ.m.t. skíðaskip, svifskip, kafbátar, fljótandi för og fastir eða fljótandi pallar.
Umhverfi: Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, þ.m.t. hafsbotninn og setlög hans, vatn, þ.m.t. sjór, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.
4. gr. Stjórn og skipan.
Umhverfisstofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar með þeim undantekningum sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr.
Landhelgisgæsla Íslands móttekur tilkynningar um losun og annast eftirlit á hafsvæðum umhverfis Ísland, sbr. lög nr. 52/2006 um Landhelgisgæslu Íslands og lög nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.
Siglingastofnun Íslands ber ábyrgð á eftirliti með búnaði skipa, sbr. lög nr. 47/2003 um eftirlit með skipum.
5. gr. Heimildir eftirlitsaðila.
Eftirlitsaðilum er heimilt, auk annars lögbundins eftirlits, að skoða kjölfestudagbók um borð í sérhverju skipi á hafnarsvæði innan mengunarlögsögu Íslands. Leiki grunur á ólöglegri losun er eftirlitsaðila einnig heimilt að skoða kjölfestudagbók innan mengunarlögsögu Íslands. Eftirlitsaðilum er einnig heimilt að afrita færslur úr kjölfestudagbók og ber þá skipstjóra eða staðgengli hans að staðfesta með undirritun sinni að afritið sé í samræmi við kjölfestudagbókina. Ef ágreiningur um efni kjölfestudagbókar er borinn undir dómstóla skulu stjórnvöld leggja fram staðfest afrit úr kjölfestudagbók ef það liggur fyrir.
Eftirlitsaðilum er ennfremur heimilt að taka sýni af kjölfestuvatni skips.
Eftirlitsaðilar skulu gæta þess að við athugun og afritun á kjölfestudagbók verði ekki ótilhlýðileg röskun á starfsemi viðkomandi eða það valdi ónauðsynlegum útgjöldum.
6. gr. Losun kjölfestuvatns.
Losun kjölfestuvatns er óheimil innan mengunarlögsögu Íslands.
Þrátt fyrir 1. mgr. er losun kjölfestuvatns innan mengunarlögsögu þó heimil eftir að það hefur verið meðhöndlað í samræmi við kröfur í 7. gr. reglugerðarinnar.
Jafnframt er skipstjóra hlutaðeigandi skips heimilt, ef aðstæður leyfa ekki losun kjölfestuvatns utan mengunarlögsögu vegna siglingaleiða, veðurs eða annarra aðstæðna á sjó, að losa kjölfestuvatn utan 50 sjómílna frá landi, að því tilskyldu að dýpi sé meira en 200 metrar. Skipstjóri hlutaðeigandi skips skal hafa samráð við varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands áður en kjölfestuvatn er losað innan mengunarlögsögu og fá heimild til undanþágu að uppfylltum framangreindum skilyrðum.
Ekki er gerð krafa um að skip víki af leið eða tefji för að nauðsynjalausu til að uppfylla ákvæði 1., 2. eða 3. mgr.
Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. eiga ekki við um eftirfarandi óviðráðanleg ytri atvik (force majeure):
- losun kjölfestuvatns ef losunin er nauðsynleg til að tryggja öryggi skips eða áhafnar eða ef hún er framkvæmd í þeim tilgangi að bjarga lífi þeirra sem eru í sjávarháska,
- losun kjölfestuvatns sem leiðir af skemmdum á skipi eða búnaði þess, enda hafi áður og eftir að skemmdirnar urðu, allar þær varúðarráðstafanir sem með sanngirni má krefjast verið gerðar til þess að koma í veg fyrir eða draga úr losuninni.
Skipstjóri hlutaðeigandi skips ber ábyrgð á því að losun kjölfestuvatns sé í samræmi við gildandi lög og reglur, að réttur búnaður sé fyrir hendi og að áhöfn hafi verið þjálfuð til þess að framkvæmd verði fumlaus. Skipstjóra ber að tilkynna alla losun kjölfestuvatns innan mengunarlögsögu til varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands.
Við losun á kjölfestuvatni skal gætt fyllsta öryggis og hafa til hliðsjónar OSPAR-leiðbeiningar og/eða IMO-leiðbeiningar þar að lútandi.
7. gr. Meðhöndlun kjölfestuvatns.
Kjölfestuvatn skal vera meðhöndlað samkvæmt staðli D1 (útskolun) eða D2 (hreinsun) í OSPAR-leiðbeiningum og/eða BWM-samningi áður en það er losað innan mengunarlögsögu Íslands.
Með útskolun á kjölfestuvatni skal tryggð endurnýjun á að minnsta kosti 95% rúmmáls allra kjölfestutanka í notkun. Ef útskolun á sér stað með gegnumstreymi skal dæla í gegn um hvern kjölfestutank þreföldu rúmmáli hans. Við útskolun skal gætt ákvæða 6. gr.
Eftir hreinsun kjölfestuvatns skulu vera í hverjum rúmmetra minna en 10 lífvænlegar lífverur 50 míkrómetrar og stærri og í hverjum millilítra skulu vera minna en 10 lífvænlegar lífverur undir 50 míkrómetrar en stærri en 10 míkrómetrar. Ennfremur skulu eftirfarandi örverur ekki greinast umfram viðeigandi mörk:
- Vibrio cholerae O1 og O139 (eitraðar kólerubakteríur): minna en ein þyrping í hverjum 100 millilítrum ellegar minna en 1 þyrping í hverju grammi (votvikt) af dýrasvifi í sýni,
- Escherichia coli (E.coli): minna en 250 þyrpingar í hverjum 100 millilítrum og
- Enterkokkar (saurkokkar): minna en 100 þyrpingar í hverjum 1000 millilítrum.
8. gr. Kjölfestudagbók.
Skip skulu halda kjölfestudagbók og skal hún vera aðgengileg eftirlitsaðilum. Kjölfestudagbók skal færð á samskiptamáli áhafnar á því formi sem fram kemur í fylgiskjali. Sé samskiptamál áhafnar annað en enska skal liggja fyrir þýðing yfir á íslensku eða ensku.
Í kjölfestudagbók skal skrá dagsetningu og landfræðilega staðsetningu á upptöku og/eða losun kjölfestuvatns, rúmmál kjölfestugeyma, hita og seltustig kjölfestuvatns sem og magn kjölfestuvatns sem er tekið upp eða losað.
9. gr. Kjölfestuáætlun.
Um borð í skipum skal vera kjölfestuáætlun. Í kjölfestuáætlun skal gera grein fyrir staðsetningu og aðstöðu til að taka sýni úr kjölfestuvatni og/eða botnfalli. Í áætluninni skal kveða á um að skipverjar skuli aðstoða eftirlitsaðila við sýnatökur.
10. gr. Taka kjölfestuvatns.
Hafnarstjórar skulu veita upplýsingar um þá staði þar sem óæskilegt er að taka kjölfestuvatn, svo sem vegna skólps og annarrar mengunar, óæskilegra lífvera, þörungablóma, uppgraftar og vegna óhentugra sjávarfalla.
Miðað skal við að taka kjölfestuvatns verði ekki í eftirfarandi tilvikum:
- Á stöðum þar sem óæskilegt er að taka kjölfestuvatn, sbr. 1. mgr.
- Í myrkri, þar sem botnlægar lífverur gætu stigið upp í vatnsmassann.
- Á grunnsævi, þar sem skrúfa skipsins gæti ýft upp botnfall.
11. gr. Viðurlög.
Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.
Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á reglugerð þessari er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
12. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í m-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda, og að höfðu samráði við dómsmála- og mannréttindaráðherra hvað þátt Landhelgisgæslu Íslands varðar og samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra hvað þátt Siglingastofnunar Íslands varðar.
Reglugerð þessi öðlast gildi 1. júlí 2010.
Umhverfisráðuneytinu, 1. júní 2010
Svandís Svavarsdóttir.
Magnús Jóhannesson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.