Prentað þann 4. jan. 2025
514/2010
Reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- 1. gr. Markmið.
- 2. gr. Gildissvið.
- 3. gr. Skilgreiningar.
- 4. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda.
- 5. gr. Meginreglur.
- 6. gr. Mælistöðvar.
- 7. gr. Mælingar og mat á styrk í andrúmslofti.
- 8. gr. Miðlun upplýsinga og tilkynningar til almennings.
- 9. gr. Upplýsingagjöf.
- 10. gr. Aðgerðaráætlanir.
- 11. gr. Aðgangur að upplýsingum.
- 12. gr. Þagnarskylda eftirlitsaðila.
- 13. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.
- 14. gr. Viðurlög.
- 15. gr. Lagastoð, gildistaka o.fl.
- I. Viðauki
- II. Viðauki
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að:
- viðhalda gæðum andrúmslofts þar sem þau eru mikil en bæta þau ella að því er varðar brennisteinsvetni og halda loftmengun af völdum þess í lágmarki;
- setja umhverfismörk fyrir brennisteinsvetni í andrúmslofti sem miða að því að fyrirbyggja eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og umhverfið í heild;
- tryggja nægilegar og samræmdar mælingar á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti og miðla upplýsingum til almennings um styrk þess í andrúmslofti.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um vöktun, eftirlit, mælingar, umhverfismörk, upplýsingaskipti og tilkynningar til almennings vegna brennisteinsvetnis í andrúmslofti.
Reglugerðin gildir um atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands.
Um umhverfismörk á vinnustöðum þar sem brennisteinsvetni myndast eða er haft um hönd gilda ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Reglugerðin gildir ekki á svæðum sem skilgreind eru sem iðnaðarsvæði samkvæmt gildandi skipulagi.
3. gr. Skilgreiningar.
Andrúmsloft er loft í veðrahvolfi.
Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.
Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.
Eftirlit er athugun á vöru, þjónustu, ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.
Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Umhverfisstofnun, svo og faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Heilsuverndarmörk eru mörk sem eiga að tryggja heilsu manna í lengri tíma.
Mat er aðferð til að mæla, reikna út, spá fyrir um eða meta stig mengunar í andrúmslofti.
Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
Mengunarlögsaga Íslands er hafsvæðið sem nær yfir innsævi að meðtalinni strönd að efstu flóðamörkum á stórstraumsflóði, landhelgi og efnahagslögsögu, landgrunn Íslands og efstu jarðlög, sbr. lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.
Mæling á umhverfisgæðum er mæling og skráning á einstökum þáttum í umhverfinu, óháð atvinnurekstri og starfsleyfum, venjulega framkvæmd í stuttan tíma.
Náttúruatburður er eldgos, jarðskjálftavirkni, náttúruleg jarðvarmavirkni, óheftur eldur á opnu landi, stormar eða uppþyrlun eða flutningur náttúrulegra agna frá þurrum svæðum.
Tilkynningarmörk eru viðmið sem notuð eru þegar varað er við hættu á að mengun fari yfir leyfileg mörk.
Umhverfismörk eru leyfilegt hámarksgildi mengunar í tilteknum viðtaka byggt á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess (svo sem heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk til verndunar vistkerfa).
Vöktun merkir kerfisbundna og síendurtekna skráningu einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.
Þynningarsvæði er sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfsleyfis kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum.
4. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda.
Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndum ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.
5. gr. Meginreglur.
Styrkur brennisteinsvetnis, sem mældur er í samræmi við almennt viðurkenndar greiningaraðferðir sem Umhverfisstofnun samþykkir, skal ekki vera yfir þeim umhverfismörkum sem tilgreind eru í I. viðauka.
Í ákvæðum starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem kann að valda mengun af völdum brennisteinsvetnis skulu viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun af völdum þess og skal beita til þess bestu fáanlegu tækni, og viðbótarráðstöfunum þar sem þess er þörf.
Þar sem þynningarsvæði er skilgreint skal þegar stærð þess er ákvörðuð taka mið af landfræðilegum og veðurfræðilegum aðstæðum og hæfni viðtaka til þess að dreifa mengun.
Gæta skal að því að vistkerfi viðtakans í heild raskist ekki þegar þynningarsvæði er ákvarðað.
6. gr. Mælistöðvar.
Umhverfisstofnun skal sjá um að mælistöðvar sem veita nauðsynlegar upplýsingar, séu settar upp svo að fara megi að ákvæðum reglugerðarinnar. Þá skal stofnunin sjá um framkvæmd vöktunar. Umhverfisstofnun er heimilt að gera samninga við eitt eða fleiri sveitarfélög um uppsetningu og rekstur mælistöðvar. Í samningnum skal m.a. kveða á um framkvæmd vöktunar og kostnaðarskiptingu samningsaðila.
Þar sem sýnt hefur verið fram á að þörf sé á mælistöð vegna staðbundinnar uppsprettu getur eftirlitsaðili gert kröfu um uppsetningu mælistöðva og skal sá atvinnurekstur sem valdur er að menguninni kosta uppsetningu og rekstur mælistöðva. Viðkomandi eftirlitsaðili fer með eftirlit með mælingum og sér um birtingu mæliniðurstaðna.
Mælitæki skal safna a.m.k.10 mínútna meðaltölum um styrk brennisteinsvetnis.
Rekstraraðilar mælistöðva skulu skila ársskýrslu til Umhverfisstofnunar um rekstur stöðvanna og niðurstöður mælinga fyrir 1. maí ár hvert. Í þeirri skýrslu skulu m.a. koma fram ársmeðaltal, mánaðarmeðaltöl, öll sólarhringsmeðaltöl ársins og 30 hæstu klukkutímameðaltölin. Heimilt er að skila þessum upplýsingum með grænu bókhaldi, sbr. reglugerð um grænt bókhald. Um staðsetningu mælistöðva er fjallað í II. viðauka.
7. gr. Mælingar og mat á styrk í andrúmslofti.
Við mælingar á styrk brennisteinsvetnis skal nota greiningaraðferðir sem Umhverfisstofnun samþykkir.
Til viðbótar mælingum í mælistöðvum og á svæðum þar sem ekki eru mælistöðvar má nota aðrar aðferðir við mat á loftgæðum, s.s. dreifispár, líkanagerð, leiðbeinandi mælingar og hlutlægar matsaðferðir.
8. gr. Miðlun upplýsinga og tilkynningar til almennings.
Ef styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti fer yfir tilkynningarmörk, sbr. þau gildi sem fram koma í I. viðauka, ber rekstraraðila mælistöðvar að senda þegar í stað tilkynningu til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og Umhverfisstofnunar. Heilbrigðisnefnd skal sjá um að almenningi séu veittar upplýsingar um að styrkur hafi farið yfir tilkynningarmörk, sbr. I. viðauka. Heimilt er að miðla þessum upplýsingum og tilkynningum til almennings með öðrum sambærilegum upplýsingum og viðvörunum sem heilbrigðisnefnd ber að veita, m.a. samkvæmt reglugerð um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings.
Heilbrigðisnefnd skal upplýsa almenning sem og viðeigandi samtök, svo sem umhverfissamtök, neytendasamtök og samtök sem annast hagsmuni viðkvæmra hópa, og aðra viðeigandi aðila á sviði heilsugæslu um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti, til dæmis fyrir tilstilli útvarps- og sjónvarpsstöðva, fréttamiðla, upplýsingaskilta eða netsins. Um upplýsingar til almennings fer nánar samkvæmt 3. lið I. viðauka.
Upplýsingar um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti skulu uppfærðar á klukkutíma fresti hið minnsta ef því verður við komið.
Fari styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti yfir tilkynningarmörk vegna náttúruatburða skal það tilgreint sérstaklega og færð rök fyrir því að svo sé.
9. gr. Upplýsingagjöf.
Heilbrigðisnefndum ber að senda upplýsingar um niðurstöður mengunarvarnaeftirlits og mælinga á umhverfisgæðum til Umhverfisstofnunar í samræmi við leiðbeiningar stofnunarinnar. Á sama hátt ber Umhverfisstofnun að senda upplýsingar til heilbrigðisnefnda um niðurstöður vöktunar.
10. gr. Aðgerðaráætlanir.
Um aðgerðaráætlanir og ráðstafanir sem gilda á svæðum þar sem styrkur er yfir mörkum gilda ákvæði reglugerðar um loftgæði.
11. gr. Aðgangur að upplýsingum.
Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
12. gr. Þagnarskylda eftirlitsaðila.
Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.
13. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.
Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar nr. 785/1999 um mengunarvarnaeftirlit þegar við á. Annars gilda ákvæði VI. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, um valdsvið og þvingunarúrræði.
14. gr. Viðurlög.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.
Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.
15. gr. Lagastoð, gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laganna hvað varðar skyldur sveitarfélaga.
Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.
Umhverfisráðuneytinu, 1. júní 2010.
Svandís Svavarsdóttir.
Magnús Jóhannesson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.