Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

510/2017

Reglugerð um réttaraðstoðarvátryggingar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um réttaraðstoðarvátryggingar. Með réttaraðstoðarvátryggingu tekur vátryggingafélag að sér gegn greiðslu iðgjalds að bera kostnað við málarekstur og að veita aðra þjónustu sem fellur innan gildissviðs vátryggingarinnar. Í því felst einkum að stuðla að því að vátryggður fái bætur fyrir bótaskylt tjón með uppgjöri utan dómstóla, í einkamáli eða sakamáli, eða verja hinn vátryggða og koma fram fyrir hans hönd í málarekstri í einkamáli, sakamáli eða öðrum málarekstri eða vegna kröfu sem sett er fram gagnvart honum og fellur innan gildissviðs vátryggingarinnar.

2. gr. Markmið.

Reglugerð þessi hefur að markmiði að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur vátryggðs og vátryggingafélags vegna réttaraðstoðarvátryggingar, einkum þegar vátryggingafélag vátryggir aðila deilumáls sem jafnframt eru vátryggðir hjá sama vátryggingafélagi.

3. gr. Undantekningar frá gildissviði.

Reglugerðin gildir ekki um:

  1. Réttaraðstoðarvátryggingu, sem varðar ágreining eða áhættu vegna notkunar fars sem ætlað er til siglinga á sjó.
  2. Starfsemi vátryggingafélags sem felst í því að veitt er ábyrgðartrygging í því skyni að verja hinn vátryggða eða koma fram fyrir hans hönd við hvers konar málsrannsókn eða mála-rekstur þegar vátryggjandinn hefði jafnframt eigin hagsmuna að gæta samkvæmt slíkri vátryggingu.
  3. Þau tilvik þegar réttaraðstoð er veitt í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins en því sem hinn vátryggði hefur fast aðsetur og réttaraðstoðin er hluti af samningi er aðeins tekur til aðstoðar sem veitt er fólki er lendir í erfiðleikum á ferðalagi, fjarri heimili eða föstu aðsetri. Í slíkum tilvikum skal koma skýrt fram í vátryggingasamningnum að vátryggingin sé takmörkuð við þessar aðstæður.

4. gr. Vátryggingaskilmálar.

Sérstakir vátryggingaskilmálar skulu gilda um réttaraðstoðarvátryggingu. Þeir skulu aðgreindir frá vátryggingaskilmálum annarra vátryggingagreina eða hafðir í sérstökum kafla þegar um samsetta vátryggingu er að ræða.

5. gr. Valkostir.

Vátryggingafélag skal hafa að minnsta kosti einn af eftirfarandi möguleikum sem valkost:

  1. Vátryggingafélag skal sjá til þess að starfsmenn þess sem hafa með höndum uppgjör krafna vegna réttaraðstoðar eða lögfræðilega ráðgjöf sem því tengist hafi ekki samtímis með höndum hliðstæða starfsemi á vegum þess vegna annars greinaflokks vátrygginga sem það hefur með höndum. Hið sama á við ef viðkomandi er starfsmaður annars félags sem er í fjármálalegum, viðskiptalegum eða rekstrarlegum tengslum við fyrrnefnda vátryggingafélagið.
  2. Vátryggingafélag skal fela sjálfstæðum aðila í hendur uppgjör tjónakrafna vegna réttaraðstoðarvátrygginga. Heiti þess aðila skal koma fram í vátryggingasamningi. Hlutleysis skal gætt við val á aðila í þessu efni til samræmis við markmið þessarar reglugerðar.
  3. Í vátryggingasamningi skal vátryggingafélag áskilja vátryggðum þann rétt að fela lögmanni að hans eigin vali að gæta hagsmuna hans gagnvart því eða, að því marki sem lög heimila, annan til þess hæfan einstakling.

Hagsmunir þeirra sem njóta eiga verndar samkvæmt réttaraðstoðarvátryggingu eru jafnvel tryggðir hvaða leið sem valin er samkvæmt 1.-3. tölul. 1. mgr.

6. gr. Vátryggingasamningur.

Í vátryggingasamningi um réttaraðstoð skal skýrt kveðið á um eftirfarandi:

  1. Að þegar leitað er aðstoðar lögmanns eða annars sem hæfur telst samkvæmt lögum að verja vátryggðan, koma fram fyrir hans hönd eða að gæta hagsmuna við málsrannsókn eða málarekstur, skuli vátryggðum frjálst að velja sér lögmann eða þann mann annan sem telst hæfur.
  2. Hafi vátryggjandi valið úrræði skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. er vátryggðum frjálst að velja sér lögmann eða ef hann óskar annan hæfan mann til þess að gæta hagsmuna sinna hvenær sem hagsmunaárekstrar koma upp.

7. gr. Upplýsingaskylda.

Vátryggingafélag skal sjá til þess að vátryggður samkvæmt réttaraðstoðarvátryggingu fái fullnægjandi upplýsingar um réttarstöðu sína vegna ágreinings sem upp hefur komið og rekja má til vátryggingasamnings hjá félaginu. Hinn vátryggði skal upplýstur um hvaða aðilar hafi með höndum þjónustu vegna kvörtunar- eða ágreiningsmála vegna vátryggingasamninga við vátryggingafélög án þess að skerða rétt hlutaðeigandi til þess að skjóta málum til dómstóla.

Ef upp kemur hagsmunaárekstur eða ágreiningur um lausn deilumáls skal vátryggingafélag eða þegar við á sá aðili sem sér um tjónsuppgjör skýra vátryggðum frá því sem kveðið er á um í 5.-6. gr.

8. gr. Innleiðing og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 5. mgr. 20. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016. Með reglugerðinni eru tekin upp ákvæði 198.-205. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/ESB, um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 99/1998, um réttaraðstoðarvátryggingar.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 19. maí 2017.

Benedikt Jóhannesson.

Sóley Ragnarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.