Prentað þann 22. des. 2024
500/2001
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu með síðari breytingum.
1. gr.
2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Greiðslur utan staðgreiðslu.
2. gr.
Eftirtaldar greiðslur falla ekki undir staðgreiðslu:
1. | Ökutækjastyrkir sem greiddir eru samkvæmt sundurliðuðum gögnum, sbr. 3. gr. reglugerðar þessarar. |
2. | Dagpeningar, ferðapeningar og hliðstæður ferða- og dvalarkostnaður sem greiddur er í samræmi við 6. gr. reglugerðar þessarar. |
3. | Útfararstyrkir frá verkalýðsfélögum. |
4. | Einkennisfatnaður sem launagreiðandi lætur launamanni í té. |
5. | Vinningar í happdrætti, veðmáli og keppni. |
6. | Risnufé sem greitt er launamanni samkvæmt reikningi frá þriðja aðila sem endurgreiðsla á risnukostnaði launamanns í þágu launagreiðanda. Séu framangreind skilyrði eigi uppfyllt skal reikna staðgreiðslu af greiddu risnufé. |
7. | Ýmsar launagreiðslur sem eigi tengjast atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi launagreiðanda. Sem dæmi um slíkar greiðslur í einkaþágu greiðanda má nefna greiðslur fyrir hús- og heimilishjálp og svipuð persónubundin störf sem ekki fara fram úr 130.000 kr. samtals á ári. Sama gildir um svipaðar greiðslur óskattskyldra aðila, t.d. húsfélaga, sem ekki fara fram úr 260.000 kr. samtals á ári. |
8. | Endurgjald sem maður skal reikna sér vegna starfs við sjálfstæða starfsemi sína ef starfsemin er svo óveruleg að reiknuð laun manns vegna slíkrar starfsemi verði eigi hærri, miðað við heilt ár, en 215.000 kr. |
9. | Reiknuð laun barna, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. |
10. | Greiðslur höfundarlauna til Íslendinga búsettra hérlendis er fram fara samkvæmt lögum nr. 73/1972, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1987 með síðari breytingum, er ekki fari fram úr 260.000 kr. á ári. |
11. | Greiðslur til fatlaðra vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar samkv. lögum um málefni fatlaðra. |
12. | Styrkir til fræðimanna, listamanna og vísindamanna sem veittir eru úr ríkissjóði, opinberum sjóðum, eða af opinberum stofnunum. |
13. | Verðlaun sem veitt eru í viðurkenningarskyni. |
14. | Starfsmenntunar- og vísindasjóðsstyrkir stéttarfélaga og annarra félagasamtaka til rannsókna, þróunarstarfa, endurmenntunar og sambærilegra verkefna. |
15. | Launatekjur barna hjá sama launagreiðanda að hámarki fjárhæð skv. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. |
2. gr.
Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 8. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum öðlast þegar gildi og kemur fyrst til framkvæmda við ákvörðun staðgreiðslu vegna launatímabilsins frá 1. júlí 2001.
Fjármálaráðuneytinu, 19. júní 2001.
F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.
Ragnheiður Snorradóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.