Fara beint í efnið

Prentað þann 26. des. 2024

Stofnreglugerð

499/2024

Reglugerð um réttindi og skyldur umboðsmanna við framkvæmd kosninga.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Markmið og gildissvið.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um réttindi og skyldur umboðsmanna við framkvæmd kosninga og við eftirlit með þeim.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um umboðsmenn við kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, í forsetakjöri og við þjóðaratkvæðagreiðslur.

II. KAFLI Hlutverk, tilnefningar og fleira.

3. gr. Hlutverk umboðsmanna.

Hlutverk umboðsmanna er að fylgjast með að kosningar fari fram í samræmi við kosningalög og reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim. Þeir skulu sinna hlutverki sínu af kostgæfni og ber að hlíta lögum, reglugerðum og öðrum fyrirmælum og fundarreglum sem í gildi eru.

Umboðsmenn bera ábyrgð á að kynna sér lög og reglur sem um kosningar gilda og sækja þá upplýsingafundi og fræðslu sem í boði er svo þeir geti sinnt hlutverki sínu.

4. gr. Tilnefning umboðsmanna.

Í kosningum til Alþingis tilnefna stjórnmálasamtök tvo menn í hverju kjördæmi til þess að vera umboðsmenn tiltekins framboðslista.

Í kosningum til sveitarstjórna tilnefna stjórnmálasamtök tvo menn í hverju sveitarfélagi til þess að vera umboðsmenn tiltekins framboðslista.

Í forsetakjöri skal hver frambjóðandi tilnefna tvo menn í hverju kjördæmi til þess að vera umboðsmenn framboðs hans.

Við þjóðaratkvæðagreiðslu skipar landskjörstjórn umboðsmenn í hverju kjördæmi fyrir sig og hafa þeir það hlutverk að gæta ólíkra sjónarmiða við þjóðaratkvæðagreiðslu, talningu atkvæða og úrlausn ágreiningsmála.

Heimilt er að afturkalla tilnefningu umboðsmanns og tilnefna nýjan í hans stað.

5. gr. Tilkynning um umboðsmenn.

Þegar framboðslisti við kosningar til Alþingis eða sveitarstjórna eða framboð til forsetakjörs, hér eftir nefnd framboð, er tilkynnt til landskjörstjórnar eða yfirkjörstjórnar sveitarfélags, sbr. VII. og VIII. kafla kosningalaga, skal jafnframt tilkynnt um hverjir séu umboðsmenn framboða.

Upplýsingar um nafn, fæðingardag, netfang og símanúmer umboðsmanns skal fylgja tilkynningunni ásamt skriflegu samþykki hans. Samþykkið getur verið undirritað eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift.

Landskjörstjórn birtir á vef sínum sýnishorn af tilkynningu um hverjir séu umboðsmenn.

Sé tilnefning umboðsmanns afturkölluð og nýr tilnefndur í hans stað skal það tilkynnt til landskjörstjórnar eða yfirkjörstjórnar sveitarfélaga eftir því sem við á. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar og samþykki skv. 2. mgr.

Í kosningum til Alþingis, við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur skal landskjörstjórn tilkynna yfirkjörstjórn kjördæma, yfirkjörstjórnum sveitarfélaga og sýslumönnum hverjir séu umboðsmenn framboða. Sýslumaður skal miðla þeim upplýsingum til kjörstjóra sinna.

Í kosningum til sveitarstjórna skal yfirkjörstjórn sveitarfélags tilkynna sýslumanni í sínu umdæmi hverjir séu umboðsmenn framboða. Sýslumaður skal miðla þeim upplýsingum til kjörstjóra sinna.

Ef umboðsmenn framboða eru ekki tilnefndir eða umboðsmenn forfallast eru frambjóðendur í aðalsætum hver um sig réttir umboðsmenn framboðsins.

6. gr. Aðstoðarmenn umboðsmanna.

Umboðsmönnum framboða er heimilt að tilnefna aðstoðarmenn sem koma fram fyrir hönd þeirra við framkvæmd kosninga. Tilnefning skal berast yfirkjörstjórn kjördæmis eða sveitarfélags, eftir því sem við á, tímanlega fyrir kjördag ásamt upplýsingum um umboðsmenn og samþykki þeirra skv. 2. mgr. 5. gr. Réttindi og skyldur aðstoðarmanna umboðsmanna eru hinar sömu og umboðsmanna.

7. gr. Skilríki umboðsmanna og aðstoðarmanna.

Yfirkjörstjórnir kjördæma og sveitarfélaga útbúa sérstök skilríki fyrir umboðsmenn og aðstoðarmenn þeirra samkvæmt nánari fyrirmælum landskjörstjórnar. Skilríkin skulu að jafnaði vera tilbúin áður en atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst. Umboðsmenn og aðstoðarmenn þeirra skulu bera skilríkin við störf sín.

Sé tilnefning umboðsmanns eða aðstoðarmanns afturkölluð skal hann án tafar skila skilríkjum sínum til þess er gaf þau út.

III. KAFLI Upplýsingar og fræðsla til umboðsmanna.

8. gr. Fræðsla og upplýsingar til umboðsmanna.

Landskjörstjórn skal tryggja að í boði sé viðeiganda fræðsla og leiðbeiningar til umboðsmanna svo þeir geti sinnt virku eftirliti með kosningum í samræmi við hlutverk þeirra, svo sem með fræðslufundi í aðdraganda kosninga, útgáfu fræðsluefnis, leiðbeininga eða á annan hentugan hátt. Yfirlitshefti um lög og reglur sem landskjörstjórn gefur út skal vera aðgengilegt öllum umboðsmönnum.

Kjörstjórnir og kjörstjórar skulu tryggja að fundarreglur þeirra séu aðgengilegar umboðsmönnum.

9. gr. Upplýsingafundur yfirkjörstjórna um flokkun og talningu atkvæða.

Yfirkjörstjórn skal með hæfilegum fyrirvara halda upplýsingafund með umboðsmönnum um flokkun og talningu atkvæða. Á fundinum skal m.a. farið yfir hlutverk yfirkjörstjórnar og hlutverk umboðsmanna, þær reglur sem gilda á talningarstað, heimildir umboðsmanna til að kanna frágang atkvæðakassa og innsigli, gera athugasemdir við framkvæmd talningar og ágreining um úrskurð yfirkjörstjórnar um vafaatkvæði, skyldur umboðsmanna til að hlíta fyrirmælum og fundarreglum yfirkjörstjórnar, rétt þeirra til bókunar athugasemda og annað það sem yfirkjörstjórn telur rétt að upplýsa umboðsmenn um.

IV. KAFLI Innsigli og bókanir.

10. gr. Innsigli.

Umboðsmönnum er heimilt að setja innsigli framboða sinna á öll þau kjörgögn, atkvæðakassa og annað sem kjörstjórn og kjörstjóri innsigla samkvæmt kosningalögum og reglum um gerðabækur og innsigli. Við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar er umboðsmönnum heimilt að setja innsigli framboða sinna á atkvæðakassa óháð kjördæmi eða sveitarfélagi.

Innsigli framboða skulu ekki skilja eftir sig far á yfirborði þess sem innsiglað er, mega ekki vera merkt framboðum eða vera í sama eða svipuðum lit og innsigli landskjörstjórnar. Innsigli framboða mega ekki hylja innsigli kjörstjóra eða kjörstjórna.

Kjörstjóri skal tilkynna umboðsmönnum með hæfilegum fyrirvara áður en atkvæðakassar eru innsiglaðir nema óhjákvæmilegt sé að innsigla þá án tafar.

Umboðsmenn eiga rétt á að vera viðstaddir upphaf kjörfundar. Kjörstjórnum er ekki skylt að tilkynna umboðsmönnum sérstaklega þegar atkvæðakassar eru innsiglaðir við upphaf kjörfundar, enda er upphaf kjörfundar auglýst, sbr. 2. mgr. 80. gr. kosningalaga.

Yfirkjörstjórn skal tilkynna umboðsmönnum hvenær áætlað er að skipta um atkvæðakassa á kjördegi og eiga umboðsmenn rétt á að vera þá viðstaddir og innsigla atkvæðakassa.

Ef kjörstjóri hefur samnýtt atkvæðakassa fyrir tvö eða fleiri sveitarfélög innan umdæmis síns, sbr. 1. mgr. 76. gr. kosningalaga, skal hann bjóða viðkomandi umboðsmönnum að vera viðstaddir þegar innsigli eru rofin og atkvæðin flokkuð, skv. 5. mgr. 77. gr. kosningalaga.

11. gr. Bókanir umboðsmanna.

Umboðsmenn eiga rétt á að fá athugasemdir sínar og ágreining milli þeirra og kjörstjórna eða kjörstjóra bókaðan í gerðabók kjörstjórnar eða í skrá kjörstjóra. Umboðsmenn skulu leitast við að hafa bókanir sínar stuttar og skýrar.

Neiti kjörstjórn eða kjörstjóri að bóka athugasemd umboðsmanns á hann rétt á að bóka athugasemdina sjálfur og undirrita, sbr. 57. gr. kosningalaga.

V. KAFLI Framlagning framboðs.

12. gr. Fundur um yfirferð framboðs.

Þegar framboðsfrestur er liðinn skal landskjörstjórn við alþingiskosningar og forsetakjör, en yfirkjörstjórn sveitarfélags við sveitarstjórnarkosningar halda fund um yfirferð framboðs. Gefa skal umboðsmönnum kost á vera viðstaddir þann fund. Finnist gallar á framboðum skal umboðsmönnum gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa, að jafnaði í sólarhring.

13. gr. Gallar enn til staðar.

Gallar á framboði sem landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn sveitarfélags hefur bent á, sbr. 12. gr., en hafa ekki verið lagfærðir innan tilskilins frests, koma til ákvörðunar á fundi skv. 14. gr. Athugasemdir við einstök framboð skulu tilkynntar umboðsmönnum skriflega.

14. gr. Um gildi framboðs.

Umboðsmenn framboða eiga rétt á að sitja fundi landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna sveitarfélaga, þar sem gerð er grein fyrir meðferð á einstökum framboðum og tilkynnt um ákvarðanir skv. 45. og 46. gr. kosningalaga.

Úrskurði landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn sveitarfélags framboð ógilt skal umboðsmönnum, eins fljótt og verða má, afhent afrit úrskurðarins, ásamt afriti af framboðinu og vottorði um afhendingartíma úrskurðarins.

Umboðsmenn eiga kost á að gera athugasemdir varðandi úrskurðinn og fá þær skráðar í gerðabók.

Ákvörðun um gildi framboðs má skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála innan 20 klukkustunda frá uppkvaðningu, sbr. 2. mgr. 45. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 50. gr. kosningalaga.

VI. KAFLI Atkvæðagreiðsla.

15. gr. Miðlun upplýsinga úr kjörfundarstofu.

Meðan á kjörfundi stendur er umboðsmönnum óheimilt að koma með í kjörfundarstofu, eða hafa á brott með sér, gögn er varða kosninguna.

Umboðsmönnum er óheimilt að taka upp, mynda eða miðla með öðrum hætti út úr kjörfundarstofu upplýsingum um það sem þar fer fram. Hafi umboðsmenn athugasemdir við kosningarathöfnina eða telji þeir að hegðun kjörstjórnar, kjörstjóra eða kjósenda sé ekki í samræmi við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli fer um það skv. 57. gr. kosningalaga.

Sama gildir um kosningarathöfn utan kjörfundar.

16. gr. Réttur umboðsmanna til viðveru við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Umboðsmenn eiga rétt á að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Umboðsmönnum er ekki heimilt að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu sem fram fer í heimahúsi.

17. gr. Réttindi og skyldur umboðsmanna við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Þegar umboðsmenn koma á utankjörfundarstað skulu þeir tilkynna kjörstjóra um komu sína. Þeir skulu einnig tilkynna kjörstjóra um brottför sína. Á utankjörfundarstað skal vera aðstaða svo umboðsmenn geti sinnt störfum sínum.

Umboðsmenn skulu hafa aðgang að skrám kjörstjóra sem haldnar eru vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Þeim er óheimilt að taka upp, mynda eða miðla með öðrum hætti upplýsingum úr skránum eða því sem fram fer á utankjörfundarstað. Umboðsmenn eiga rétt á að koma að athugasemdum sínum telji þeir að hegðun kjörstjóra eða kjósenda sé ekki samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum og eiga rétt á að fá ágreiningsefnið bókað í skrá kjörstjóra eða gerðabók.

18. gr. Móttaka og bráðabirgðarannsókn utankjörfundaratkvæða.

Umboðsmenn skulu boðaðir þegar kjörstjórn opnar atkvæðakassa sem henni berast frá kjörstjórum. Séu umboðsmenn ekki viðstaddir skal yfirkjörstjórn, ef unnt er, boða fólk úr sama framboði til að gæta réttar framboðsins. Gangi það ekki eftir skal yfirkjörstjórn engu að síður tryggja að einhver sé viðstaddur til að gæta hagsmuna framboðsins.

Umboðsmenn skulu boðaðir þegar kjörstjóri flokkar og afhendir viðkomandi kjörstjórn utankjörfundaratkvæði úr samnýttum atkvæðakassa, sbr. 5. mgr. 77. gr. kosningalaga.

19. gr. Réttindi og skyldur umboðsmanna við atkvæðagreiðslu á kjördegi.

Umboðsmenn eiga rétt á að vera viðstaddir undirbúning kjörstjórna að morgni kjördags, áður en atkvæðagreiðsla hefst og þegar atkvæðagreiðslu er slitið. Þeir eiga einnig rétt á að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu á kjördegi og að sitja við borð í kjörfundarstofunni og fá afhentar leiðbeiningar, s.s. yfirlitshefti um lög og reglur sem um kosningar gilda. Umboðsmenn skulu hafa aðgang að kjörskrá í kjörfundarstofu til að sinna eftirliti með því að kosning fari löglega fram. Umboðsmönnum er óheimilt að merkja við kjósendur í kjörskrá á kjördegi.

Umboðsmenn skulu tilkynna kjörstjórn um komu sína og brottför sem kjörstjórn skal bóka í skrá sína.

Heimilt er slíta kjörfundi eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.

Umboðsmenn eiga rétt á að vera viðstaddir þegar kjörstjórn kannar, að lokinni atkvæðagreiðslu, þau utankjörfundaratkvæði sem henni hafa borist.

VII. KAFLI Undirbúningur og talning atkvæða.

20. gr. Tilkynning um flokkun og talningu.

Yfirkjörstjórn skal tilkynna umboðsmönnum framboða a.m.k. sjö dögum fyrir kjördag, hvar og hvenær flokkun og undirbúningur talningar fari fram sem og talning.

Yfirkjörstjórn skal tryggja að umboðsmenn hafi aðstöðu á flokkunar- og talningarstað.

21. gr. Viðvera umboðsmanna.

Umboðsmenn eiga rétt á að vera viðstaddir undirbúning talningar, svo sem þegar tekið er á móti atkvæðakössum og þeir opnaðir, þegar tekið er á móti öðrum kjörgögnum og við flokkun atkvæða. Þá eiga umboðsmenn rétt á að vera viðstaddir talningu atkvæða eftir að kjörfundi lýkur og fylgjast með framkvæmd hennar og uppgjöri og vera viðstaddir úrskurði yfirkjörstjórna um vafaatkvæði.

Séu umboðsmenn framboða ekki viðstaddir undirbúning talningar eða talningu skal yfirkjörstjórn kalla til fólk úr sama framboði, ef unnt er, til að gæta réttar framboðsins. Gangi það ekki eftir skal yfirkjörstjórn engu að síður tryggja að einhver sé viðstaddur til að gæta hagsmuna framboðsins.

22. gr. Samskipti á flokkunar- og talningarstað.

Á talningarstað skulu umboðsmenn vera í samskiptum við tengilið sem yfirkjörstjórn hefur tilnefnt úr sínum röðum eða starfsmanna sinna og skal umboðsmönnum tilkynnt um það. Umboðsmönnum er óheimilt að eiga bein samskipti við starfsfólk sem vinnur að flokkun og talningu nema yfirkjörstjórn heimili.

Allar athugasemdir sem umboðsmenn gera við framkvæmd flokkunar og talningar skulu þeir gera við tengilið yfirkjörstjórnar.

Umboðsmönnum sem viðstaddir eru flokkun atkvæða og undirbúning talningar er óheimilt að hafa með sér síma, tölvu, heyrnartól, snjallúr eða annað fjarskiptatæki, sem og hvers konar myndavélar og hljóðupptökutæki, sbr. reglugerð um talningu atkvæða. Sé grunur um að umboðsmaður hafi slík tæki í fórum sínum og neiti hann að afhenda yfirkjörstjórn tækið er honum óheimilt að vera viðstaddur flokkun atkvæða og talningu. Yfirkjörstjórn skal tilkynna viðkomandi framboði ef umboðsmenn fá ekki aðgang að flokkunarsvæði svo þeim gefist tækifæri til þess að tilnefna nýja í því skyni að gæta réttar framboðsins.

23. gr. Eftirlit á talningarstað.

Umboðsmenn skulu við eftirlit með flokkun og talningu atkvæða fara að fyrirmælum yfirkjörstjórnar, þ.m.t. að vera á tilgreindum svæðum á talningarstað og bera sérstök skilríki, sbr. 7. gr.

Á talningarstað skal tryggt að umboðsmenn geti með góðu móti fylgst með að flokkun og talning atkvæða fari fram samkvæmt lögum og reglum án þess þó að þeim sé heimilt að fara inn á afmarkað flokkunar- og talningarsvæði.

24. gr. Um ágreiningsseðla.

Verði ágreiningur milli yfirkjörstjórna og umboðsmanna um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur fer um það skv. 20. gr. reglugerðar um talningu atkvæða.

VIII. KAFLI Úrslit kosninga.

25. gr. Úthlutun þingsæta við alþingiskosningar.

Heimilt er tveimur umboðsmönnum hvers framboðs að vera viðstaddir úthlutunarfund landskjörstjórnar skv. 108. gr. kosningalaga.

Sé ágreiningur milli umboðsmanna og landskjörstjórnar um úrslit kosninga og úthlutun þingsæta eiga umboðsmenn rétt á að fá ágreininginn bókaðan í gerðabók landskjörstjórnar sem leggur eftirrit úr gerðabók fyrir Alþingi í þingbyrjun.

26. gr. Tilkynning um kæru vegna alþingiskosninga.

Komi fram kæra skv. 2. mgr. 127. gr. kosningalaga skal landskjörstjórn þegar í stað tilkynna það umboðsmanni þess framboðs sem kæra beinist að.

27. gr. Kosningaúrslit í sveitarstjórnarkosningum.

Heimilt er tveimur umboðsmönnum hvers framboðs að vera viðstaddir þegar yfirkjörstjórn staðfestir kosningaúrslit í gerðabók sína og bóka þar athugasemdir sínar ef einhverjar eru.

28. gr. Kosningaúrslit í forsetakjöri og við þjóðaratkvæðagreiðslur.

Umboðsmenn eiga rétt á að vera viðstaddir fundi landskjörstjórnar þegar hún úrskurðar um gildi ágreiningsseðla og lýsir úrslitum kosningarinnar.

Sé ágreiningur milli umboðsmanna og landskjörstjórnar um ágreiningsseðla og úrslit kosninga eiga umboðsmenn rétt á að fá ágreininginn bókaðan í gerðabók landskjörstjórnar.

IX. KAFLI Ýmis ákvæði.

29. gr. Hegðun og háttsemi.

Umboðsmenn skulu fara að tilmælum kjörstjórna eða kjörstjóra og hlíta lögum, reglugerðum og öðrum fyrirmælum og fundarreglum sem í gildi eru. Þeir skulu gæta þess að viðhafa ekki hegðun eða háttsemi sem er til þess fallin að valda röskun eða truflun á framkvæmd kosninga eða flokkun og talningu atkvæða.

Kjörstjórn eða kjörstjóra er heimilt að vísa umboðsmanni frá kjörstað eða talningarstað, láti hann ekki af hegðun sem veldur röskun eða truflun á framkvæmd kosninga.

30. gr. Tilkynningar og boðanir.

Tilkynningar og boðanir samkvæmt reglugerð þessari skulu að jafnaði sendar í tölvupósti nema þar sem tímafrestir eru skammir skal tilkynnt eða boðað með símtali.

31. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 59. gr. a. kosningalaga nr. 112/2021 og tekur þegar gildi.

Dómsmálaráðuneytinu, 22. apríl 2024.

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.