Prentað þann 10. nóv. 2024
493/2003
Reglugerð um forval og skilgreiningu íslenskra fyrirtækja vegna útboðs á grundvelli sjóflutningasamningsins.
1. gr.
Við forval íslenskra fyrirtækja vegna útboðs fraktflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna, sem boðnir eru út á grundvelli samnings milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku til að auðvelda framkvæmd varnarsamstarfs ríkjanna, frá 24. september 1986 og samkomulags varðandi þann samning, dags. 24. september 1986, skal beita þeim viðmiðum er greinir í reglugerð þessari.
2. gr. Skilgreiningar.
Við forval vegna þessa útboðs skal skilgreina hugtökin "skip sem íslensk skipafélög gera út" með svofelldum hætti:
-
"Íslensk skipafélög" skulu teljast þau félög, sem uppfylla öll eftirfarandi skilyrði, sbr. j - lið 1. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna:
- Eru skráð á Íslandi og starfrækja höfuðstöðvar sínar hér á landi.
- Eru landfræðilega staðsett á Íslandi og lúta íslenskri lögsögu.
- Fyrirsvarsmenn og lykilstarfsfólk fyrirtækjanna eru búsett á Íslandi.
- "Skip sem íslensk skipafélög gera út" skulu teljast skip, sem eru undir yfirstjórn og yfirráðum íslenskra skipafélaga. Í því felst að íslensk skipafélög skulu hafa húsbóndavald yfir áhöfn skipanna og ráðningarsamband við áhöfn þess.
Við forval vegna þessa útboðs skal einvörðungu meta hvort þátttakendur í forvalinu uppfylli skilyrði a. og b. liðar 1. mgr., en ekki þau önnur atriði er lúta að verkreynslu þeirra eða hæfni til að uppfylla samning, sem greind eru í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 82/2000.
3. gr. Lagaheimild.
Reglugerð þessi er sett með heimild í j-lið 1. gr., 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 82/2000 og tekur þegar gildi.
Utanríkisráðuneytinu, 1. júlí 2003.
Halldór Ásgrímsson.
Gunnar Snorri Gunnarsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.