Prentað þann 21. nóv. 2024
492/2009
Reglugerð um merkingu og aðrar öryggisráðstafanir vegna framkvæmda á og við veg.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðarinnar er að tryggja öryggi starfsmanna og vegfarenda og koma í veg fyrir líkams- og heilsutjón, þegar unnið er að framkvæmdum á og við veg. Ennfremur að stuðla að því að hætta á eignatjóni og umhverfisspjöllum og truflun á umferð verði sem minnst við slíkar framkvæmdir.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um vinnusvæði á og við veg þegar framkvæmdir geta valdið tímabundinni röskun og hættu á því svæði sem unnið er á. Reglugerðin gildir einnig, eftir því sem við á, um vegaskemmdir.
Um öryggi á vinnusvæðum skv. 1. mgr. gilda, auk ákvæða umferðarlaga og vegalaga, ákvæði skipulags- og byggingarlaga og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, ákvæði lögreglusamþykkta eða reglugerðar um lögreglusamþykktir og ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ásamt reglum settum á grundvelli þeirra.
3. gr. Ábyrgð veghaldara.
Veghaldari ber ábyrgð á veghaldi vegar og öllum þeim vegmerkingum og útbúnaði sem er til staðar í því vegakerfi sem hann hefur umsjón með og rekur. Hann getur stjórnað umferð þar sem unnið er við eða á veg, eftir því sem nauðsynlegt er og þar á meðal beint henni fram hjá vinnusvæði.
Veghaldari skal svo fljótt sem við verður komið eftir að hann hefur fengið vitneskju um skemmdir á vegi, sem hættulegar eru umferð, láta gera við þær eða merkja hina hættulegu staði þar til viðgerð hefur farið fram og skulu merkingar vera í samræmi við ákvæði umferðarlaga.
Veghaldari ber ábyrgð á að íbúum og þeim sem hafa starfsstöð eða athafnasvæði nálægt vinnusvæði sé tilkynnt um umferðartafir, sem ætla má að verði vegna framkvæmda, og um fyrirhugaða takmörkun á umferð.
4. gr. Öryggisáætlun.
Áður en framkvæmdir hefjast á og við veg skal verktaki gera ítarlega öryggisáætlun þar sem lýst er nauðsynlegum öryggisráðstöfunum vegna framkvæmdanna. Þar komi m.a. fram hvernig afmarka skuli vinnusvæði, hvernig merkingum á og við svæðið skuli háttað og hvort og hvernig skipuleggja skuli hjáleiðir. Ennfremur skal í öryggisáætlun koma fram hvernig kynningu og auglýsingu vegna lokunar vegar verður háttað.
Öryggisáætlun skal bera undir veghaldara til samþykkis og skal samþykkt eintak öryggisáætlunar vera tiltækt á vinnusvæði og hjá lögreglu í viðkomandi lögsagnarumdæmi.
Veghaldari getur ákveðið að hann, í stað verktaka, geri öryggisáætlun. Skal hann tilkynna verktaka um þá ákvörðun.
Sé verktaki jafnframt veghaldari við verkið, gildir 1. mgr. um hann eftir því sem við á.
5. gr. Eftirlitsmaður.
Í öryggisáætlun fyrir hvert vinnusvæði skal tilgreindur sérstakur eftirlitsmaður sem skal sjá um að allar öryggisráðstafanir á og við veg séu í samræmi við öryggisáætlun. Veghaldari ákveður hverju sinni hvort hann eða verktaki tilnefni eftirlitsmanninn.
Eftirlitsmaðurinn skal vera tiltækur hvenær sem er meðan á verki stendur og skal hann sinna ábendingum veghaldara, lögreglu eða annarra sem fara með eftirlit á vinnusvæði, varðandi hættu vegna verksins með tilliti til umhverfis, umferðaröryggis og öryggis starfsmanna. Í forföllum eftirlitsmanns skal varamaður koma í hans stað. Nafn eftirlitsmanns og varamanns ásamt símanúmeri skal koma fram á upplýsingatöflu við vinnusvæði ef þörf krefur.
6. gr. Merking.
Þar sem framkvæmdir fara fram á og við veg þannig að truflun eða hætta getur stafað af, er þeim, sem stjórnar verki skylt að sjá um að staðurinn sé merktur á fullnægjandi hátt frá upphafi verks.
Umferðarmerki skulu vera að öllu leyti í samræmi við reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra. Þeim skal þannig komið fyrir að þau séu stöðug, vel sýnileg og ekki hættuleg fyrir starfsmenn eða vegfarendur. Umferðarmerkjum skal ávallt haldið hreinum.
Umferðarmerki, þ.m.t. merking á yfirborði vegar, sem fyrir eru á vegsvæði þegar verk hefst, skal fjarlægja eða hylja með yfirbreiðslum eða með öðrum hætti ef notkun þess á ekki við á verktímanum eða það gefur villandi upplýsingar um ástand vegar og umferð um hann.
Við merkingu vegna framkvæmda skal taka sérstakt tillit til varna og útbúnaðar fyrir fatlaða og óvarða vegfarendur.
7. gr. Stöðvun verks.
Lögregla eða veghaldari geta stöðvað verk, teljist það nauðsynlegt vegna hættu fyrir vegfarendur eða þá sem vinna á vinnusvæði. Sama á við ef samþykkt öryggisáætlun liggur ekki fyrir við upphaf verks eða samþykktri áætlun hefur ekki verið fylgt eftir.
8. gr. Umferðartafir.
Þegar veghaldari telur að lokun vegar tímabundið geti valdið verulegum umferðartöfum skal setja upp bráðabirgðatöflu eða hjáleiðarmerki þar sem fram kemur um hvaða veg (vegnúmer) sé að ræða, hve langt sé að vinnusvæðinu og hvaða leið sé heppilegast að velja í staðinn.
9. gr. Hlé gert á verki.
Verði hlé á verki skal fjarlægja merki sem ekki gilda á meðan. Þó er heimilt, sé vinna hafin á ný innan viku, að hylja merki með yfirbreiðslu. Ekki nægir að leggja merki út af eða snúa því.
10. gr. Verklok.
Þegar verki er lokið og öllum takmörkunum á umferð um veg aflétt, skal fjarlægja öll umferðarmerki sem sett voru upp vegna verksins. Sama gildir um aðra merkingu, s.s. yfirborðsmerkingu. Koma skal merkingu í fyrra horf nema veghaldari eða lögregla ákveði annað.
11. gr. Reglur.
Vegagerðin skal gefa út hönnunar-, vinnu- og verklagsreglur vegna vinnu á og við veg þar sem fram koma helstu atriði sem lögð skulu til grundvallar við merkingar vinnusvæða og gerð öryggisáætlunar.
Í reglunum komi einnig fram starfslýsing og reglur um þjálfun, menntun og menntunarkröfur þeirra sem sinna merkingum og eftirliti á vinnusvæði vegna framkvæmda á og við veg.
Reglurnar skulu vera aðgengilegar á heimasíðu Vegagerðarinnar.
12. gr. Refsiákvæði.
Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIV. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 og 59. gr. vegalaga nr. 80/2007.
13. gr. Gildisákvæði.
Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt 77., 79., 80. og 84. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 43. og 58. gr. vegalaga nr. 80/2007 öðlast þegar gildi.
Samgönguráðuneytinu, 15. maí 2009.
Kristján L. Möller.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.