Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 5. des. 2008 – 14. maí 2015 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 5. des. 2008 af rg.nr. 1102/2008

490/1997

Reglugerð um Lögregluskóla ríkisins.

I. KAFLI Hlutverk lögregluskólans, stjórn og starfslið.

1. gr. Hlutverk lögregluskólans.

Lögregluskóli ríkisins er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir dómsmálaráðherra og er í sömu tengslum við embætti ríkislögreglustjóra og lögregluembættin í landinu.

Grunnnámsdeild skólans veitir lögreglunemum menntun í almennum lögreglufræðum. Til að fá skipun sem lögreglumaður verður nemi að standast próf frá grunnnámsdeild.

Framhaldsdeild skólans veitir starfandi lögreglumönnum símenntun, framhaldsmenntun og sérmenntun.

Skólanum er heimilt, í samráði við ríkislögreglustjóra, að halda námskeið fyrir aðra handhafa lögregluvalds en lögreglumenn og aðra starfsmenn lögreglu og hliðstæðra embætta eða stofnana.

Skólinn skal vera vettvangur rannsókna í lögreglufræðum og stjórnvöldum til ráðgjafar um lögreglumálefni.

2. gr. Stjórn lögregluskólans og starfslið.

Skólastjóri, sem dómsmálaráðherra skipar, annast daglega stjórn og rekstur skólans og ber ábyrgð á faglegu starfi innan hans. Skólastjóri skal fullnægja sömu skilyrðum til skipunar í embætti og lögreglustjórar og hafa staðgóða þekkingu á lögreglumálefnum.

Skólastjóra til aðstoðar við stjórn skólans eru yfirlögregluþjónn og aðstoðaryfirlögregluþjónn, sem dómsmálaráðherra skipar. Dómsmálaráðherra skipar lögreglumenn í fastar stöður við skólann að fenginni umsögn skólastjóra. Skólastjóri ræður aðra starfsmenn.

Skólanefnd skal skipuð ríkislögreglustjóra eða fulltrúa hans, lögreglustjóranum í Reykjavík eða fulltrúa hans, fulltrúa Sýslumannafélags Íslands, fulltrúa Landssambands lögreglumanna, fulltrúa Félags íslenskra rannsóknarlögreglumanna og fulltrúa Lögreglufélags Reykjavíkur. Ríkislögreglustjóri, eða fulltrúi hans, skal vera formaður skólanefndar. Skólastjóri situr fundi skólanefndar og er honum heimilt að tilnefna yfirmann við skólann sem ritara nefndarinnar.

Skólanefnd skal vera ráðgefandi um starfsemi skólans og vettvangur skoðanaskipta um námsefni, þörf á að fella niður eða bæta við námsgreinum og skyld efni.

II. KAFLI Grunnnámsdeild.

3. gr. Inntökuskilyrði.

Til þess að fá inngöngu í skólann skal umsækjandi uppfylla almenn skilyrði samkvæmt 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga. Jafnframt verður umsækjandi að uppfylla önnur þau skilyrði sem sett verða og standast læknisskoðun og frekari inntökupróf, sbr. 2. mgr. 4. gr.

Ríkislögreglustjóri auglýsir eftir nemum í skólann. Sótt skal um skólavist á þar til gerðum eyðublöðum sem skila ber til lögregluskólans.

4. gr. Valnefnd.

Við skólann starfar sérstök nefnd, valnefnd, sem metur hvort umsækjendur fullnægi inntökuskilyrðum og ákveður hverjir skulu hefja nám við skólann sem lögreglunemar. Nefndina skipa fimm menn, einn tilnefndur af dómsmálaráðherra, einn af ríkislögreglustjóra, einn af Sýslumannafélagi Íslands, einn af Landssambandi lögreglumanna og einn af skólastjóra lögregluskólans er skal vera formaður.

Nefndin skal leitast við að velja til náms þá hæfustu úr hópi umsækjenda á hverjum tíma. Einkum skal þess gætt að velja ekki til lögreglunáms mann, sem ætla má að eigi erfitt með að sinna lögreglustarfi svo að vel fari, svo sem vegna óreglusemi, fjárhagsvanda, eða vegna þess að hann hefur hlotið dóm fyrir brot á sérrefsilöggjöf. Nefndin skal fyrst meta hverjir umsækjenda eru hæfir og uppfylla almenn inntökuskilyrði. Þá skal hún láta hæfa umsækjendur undirgangast inntökupróf og önnur próf sem rétt þykir að framkvæma. Nefndin getur auk þess óskað eftir frekari gögnum frá umsækjendum eða um þá og að þeir sæti sérstakri læknisskoðun. Umsækjandi ber kostnað af umsókn um skólavist, nema þann kostnað sem leiða kann af ákvörðunum skólans og nefndarinnar um sérstaka gagnaöflun.

5. gr. Tilhögun grunnnáms.

Grunnám skal miða að því að veita haldgóða fræðslu í almennu lögreglustarfi. Námið skal vera tvær annir og skulu nemar njóta starfsþjálfunar í lögreglu á milli anna. Nemar sem stunda nám á fyrri önn grunnnáms teljast ekki til lögreglumanna og skal nám þeirra vera ólaunað. Nemar í starfsþjálfun og þeir sem stunda nám á síðari önn teljast til lögreglumanna og skal starf þeirra og nám vera launað. Skólinn getur, í samráði við ríkislögreglustjóra, skipulagt sérstök störf nema á síðari önn, t.d. vegna stórverkefna og þegar þörf er viðbótar lögregluliðs. Skólastjóri og kennarar skólans mega annast stjórn nemanna við slík störf.

Nemar skulu lúta reglum skólans meðan á dvöl þeirra þar stendur. Skólastjóri setur almennar reglur um hegðun nema, mætingar, klæðaburð o.fl. og hvernig með skuli fara ef reglunum er ekki fylgt.

Tvisvar til þrisvar sinnum á hvorri önn skulu nemar eiga viðtal við kennara um hvernig þeir standa í náminu. Markmið viðtalanna er að gefa nemunum stöðuumsögn, fjalla um framkomu þeirra sem verðandi lögreglumanna og jafnframt að gefa þeim kost á að tjá sig um hvernig þeim sækist námið, eða um erfiðleika við námið, ef einhverjir eru. Stöðuumsögn skal byggð á umsögnum allra fastra kennara og eftir atvikum annarra kennara. Nemum skal gefinn kostur á að tjá sig munnlega og/eða skriflega um umsögnina og skal bókun staðfest með undirritun að viðtali loknu. Í viðtali sem fram fer þegar nám á önn er u.þ.b. hálfnað, skal kennari leitast við að leiðbeina nemum um hvernig haga eigi námi það sem eftir er annar, á hvað þurfi sérstaklega að leggja áherslu og hvað hafi verið vel gert. Ef framkomu nema hefur í einhverju verið ábótavant skal það vandlega rætt. Í viðtali sem fram fer í lok annar skulu dregnir saman jákvæðir og neikvæðir þættir í framkomu og námi og skal hver nemi fá lokaumsögn sem fylgir honum til lögreglustarfa. Í lokaumsögn skal koma fram mat skólans á færni, kunnáttu og framkomu hvers nema.

6. gr. Námsgreinar.

Námsgreinar í grunnnámi skulu í höfuðatriðum vera eins og hér segir:

Lögfræði.

Lögð áhersla á að fræða nema um íslenskt réttarkerfi og veita þeim undirstöðuþekkingu í refsirétti og opinberu réttarfari. Farið yfir ákvæði stjórnarskrárinnar, einkum með áherslu á mannréttindaákvæði. Fjallað um lögreglulög og helstu sérlög, reglur og samþykktir, þar sem gert er ráð fyrir afskiptum, eftirliti eða stjórnun af hálfu lögreglu.

Lögreglufræði.

Leitast við að efla færni nema í mannlegum samskiptum og veita þeim innsýn í ýmsa þætti íslensks mannlífs með því að kynna þeim löggjöf sem lýtur að samfélaginu og persónurétti, kynna þeim vímuefni og virkni þeirra o.fl. Fræða nema um sögu, skipulag og uppbyggingu lögreglu hér á landi og um meginatriði sem lúta að framkvæmd lögreglustarfa. Kenna sérstaklega umferðarlög og helstu reglur sem gilda samkvæmt þeim. Þjálfa nema í að rita lögregluskýrslur og kenna þeim höfuðatriði lögreglurannsóknar, með sérstakri áherslu á vettvangsvinnu og verndun vettvangs.

Íslenska, erlend tungumál og sérgreinar.

Leitast við að bæta kunnáttu nema í íslenskri stafsetningu og málfræði, ásamt því að þjálfa þá í að rita lipran texta. Kennsla í erlendum tungumálum beinist einkum að talmáli, sem getur nýst lögreglumönnum í starfi.

Þjálfun í réttri fingrasetningu á leturborði, svo að nemar geti skrifað skýrslur villulaust á tölvu eða ritvél.

Sálarfræði.

Kennd nokkur atriði úr hagnýtri sálarfræði, er snerta lögreglustarfið.

Þjálfun.

Kennd meginatriði slysahjálpar og grunnnámskeiði í þeirri grein lokið. Lögð áhersla á líkamsþjálfun er miði að því að byggja upp þrek og liðleika nema, þ.á m. sundþol. Áhersla lögð á gildi góðrar líkamsþjálfunar til að takast á við lögreglustarfið. Þjálfun í lögreglusiðum, kynnt lögreglutæki og undirstöðuatriði er lúta að sjálfsvarnar- og handtökuaðferðum sem lögregla getur þurft að beita.

7. gr. Reynsluráðning og heitstafur.

Nemar sem standast próf á fyrri önn grunnnáms skulu eiga kost á reynsluráðningu sem lögreglumenn þann tíma sem starfsþjálfun og síðari önn grunnnáms varir. Ef til reynsluráðningar kemur skulu þeir þegar að lokinni fyrri önn vinna heit samkvæmt ákvæðum 29. gr. lögreglulaga.

8. gr. Starfsþjálfun.

Áður en nám á síðari önn hefst skal ríkislögreglustjóri sjá nemum fyrir starfsþjálfun í lögreglu ríkisins í a.m.k. áttafjóra mánuði. Gera skal áætlun um framkvæmd starfsþjálfunar hvers lögreglunema þar sem áhersla verði lögð á sem víðtækasta kynningu og þjálfun í að takast á við hin ýmsu verkefni lögreglu. Áætlun skal gerð í samráði og samstarfi ríkislögreglustjóra, lögregluskólans og lögreglustjóra þar sem starfsþjálfun fer fram.

Vel skal fylgst með frammistöðu nema í starfsþjálfun. Leitast skal við að finna þá þætti sem óæskilegir eru og þarf að lagfæra, svo og þá sem eru til fyrirmyndar eða framúrskarandi, og nýta í því skyni reynslu og kunnáttu eldri lögreglumanna sem þykja hafa staðið sig vel í starfi. Gæta skal þess, eftir því sem við verður komið, að verkefni nema séu við hæfi, miðað við starfsaldur, nám og reynslu.

Tilsjónarmaður skal tilnefndur hverjum nema í starfsþjálfun. Tilsjónarmaður skal, eftir atvikum ásamt viðkomandi yfirmanni, ræða reglulega við nemann um dagleg störf hans, svara fyrirspurnum hans og veita honum ábendingar um það sem betur mætti fara.

Á starfsþjálfunartíma skal yfirmaður gefa lögregluskólanum skýrslu um nám og starf nemans og gera þar m.a. grein fyrir framförum hans og öðru sem máli kann að skipta um starfshæfni.

9. gr. Prófkröfur.

Í lok hvorrar námsannar skulu nemar prófaðir í námsgreinum og þeim gefnar einkunnir í heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Á fyrri önn skal tekið áfangapróf í þeim námsgreinum sem einnig eru kenndar á síðari önn, en lokapróf í þeim námsgreinum sem eingöngu eru kenndar á fyrri önn. Niðurstöður úr lokaprófum skulu færðar í prófskírteini. Til þess að standast próf í námsgrein þarf lágmarkseinkunnina 5,0, en meðaltal einkunna má ekki vera lægra en 6,0 til að nemi standist hvora önn. Frammistöðu nema við verklegar úrlausnir má meta með orðum.

Falli nemi í einni námsgrein skal hann eiga endurtökurétt einu sinni, en falli hann í tveimur námsgreinum eða meðaleinkunn, telst hann hafa fallið á önninni. Nemi sem fellur á fyrri önn getur sótt einu sinni aftur um skólavist á fyrri önn, en nemi sem fellur á síðari önn fær ekki að hefja nám að nýju, nema sérstaklega standi á, s.s. að langvarandi veikindi hafi hrjáð hann á námstímanum, sem talið er að skert hafi getu hans til náms.

Skrifleg próf dæmir hlutaðeigandi kennari einn, nema skólastjóri hafi skipað prófdómara til að dæma með honum. Nemi á rétt á að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar. Vilji nemi, sem ekki hefur staðist próf, ekki una mati kennarans, skal hann snúa sér til skólastjóra. Ef skólastjóri telur útskýringar kennara ekki viðunandi, skipar hann prófdómara.

Við munnleg próf og við mat verklegra þátta, eða þar sem skriflegu prófi verður ekki við komið, skal vera prófdómari sem skólastjóri skipar.

Þegar prófdómari er skipaður, skulu hann og viðkomandi kennari dæma úrlausn og frammistöðu í sameiningu. Hvor um sig gefur sjálfstætt einkunn fyrir úrlausn, eða metur frammistöðu, og vegur einkunn þeirra eða mat jafnt í lokaeinkunnagjöf.

III. KAFLI Framhaldsdeild.

10. gr. Nám í framhaldsdeild.

Í framhaldsdeild skulu haldin stutt námskeið og, þegar því verður við komið, boðið upp á lengra heildstætt nám þar sem starfandi lögreglumönnum er veitt símenntun, framhaldsmenntun og sérmenntun.

11. gr. Símenntun.

Lögreglumenn skulu eiga kost á símenntunarnámskeiði fimm árum eftir að þeir ljúka grunnnámi við skólann og síðan á fimm ára fresti a.m.k. tvívegis eftir það.

Á símenntunarnámskeiðum skulu kynntar helstu lagabreytingar og nýjungar sem snerta störf lögreglunnar, svo að nemar geti tileinkað sér þá þekkingu og færni sem nauðsynleg er til að takast á við lögreglustarfið á hverjum tíma.

12. gr. Framhaldsmenntun.

Framhaldsmenntunarnámskeið skulu miða að því að mennta og þjálfa starfandi lögreglumenn til að annast stjórnun í lögreglunni. Leitast skal við að gera nema hæfa til að annast stjórnun á öllum starfsstigum lögreglunnar.

Ríkislögreglustjóri ákveður fjölda þátttakenda í náminu, eftir atvikum í samráði við lögreglustjóra og lögregluskólann að undangenginni auglýsingu.

13. gr. Sérmenntun.

Haldin skulu námskeið í ýmsum sérgreinum á sviði löggæslu. Á sérmenntunarnámskeiðum skal leitast við að efla hæfni og skilning þátttakenda á sérsviðum þeirra.

Ríkislögreglustjóri ákveður fjölda þátttakenda í náminu, eftir atvikum í samráði við lögreglustjóra og lögregluskólann að undangenginni auglýsingu.

IV. KAFLI Rannsóknir og ráðgjöf.

14. gr. Rannsóknir í lögreglufræðum.

Við lögregluskólann skal unnið að rannsóknum í lögreglufræðum. Miða skal við að rannsóknir nýtist við kennslu og að með þeim sé stuðlað að því að gera lögreglu betur í stakk búna að gegna hlutverki sínu.

15. gr. Ráðgjöf um lögreglumálefni.

Lögregluskólinn skal vera dómsmálaráðuneytinu og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um lögreglumálefni.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

16. gr. Afleysingamenn og héraðslögreglumenn.

Í lögregluskólanum skulu haldin námskeið fyrir afleysingamenn, sem lögreglustjórar hafa heimild til að ráða samkvæmt 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga. Þeir sem þannig eru ráðnir tímabundið til lögreglustarfa skulu, áður en þeir hefja störf, hafa sótt afleysinganámskeið í lögregluskólanum og staðist inntökupróf í skólann.

Á afleysinganámskeiðum skal leitast við að upplýsa þátttakendur nokkuð um almenn lögreglustörf. Námskeið fyrir afleysingamenn skulu skipulögð með hliðsjón af tilhögun grunnnáms.

Gefa skal héraðslögreglumönnum, sem lögreglustjórar fá heimild til að ráða samkvæmt 1. mgr. 10. gr. lögreglulaga, kost á að sækja námskeið sem haldin eru fyrir afleysingamenn eða önnur námskeið sem sérstaklega eru ætluð þeim.

17. gr. Önnur námskeið.

Í samráði við ríkislögreglustjóra getur lögregluskólinn haldið önnur námskeið en hér hefur verið getið um. Getur þar t.d. verið um að ræða námskeið fyrir aðra handhafa lögregluvalds en lögreglumenn, s.s. lögfræðinga við lögregluembættin, en einnig aðra starfsmenn lögreglu og hliðstæðra embætta eða stofnana.

18. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 39. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, öðlast þegar gildi.

Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um veitingu lögreglustarfs, lögregluskóla o.fl., nr. 660 27. nóvember 1981.

 Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 25. júlí 1997.

 Þorsteinn Pálsson. 

 Ragnheiður Harðardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.