Fara beint í efnið

Prentað þann 26. des. 2024

Stofnreglugerð

480/2024

Reglugerð um skráningu, móttöku og meðferð utankjörfundaratkvæða.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja öryggi og samræmi við móttöku og meðferð utankjörfundaratkvæða hjá kjörstjórum og kjörstjórnum sveitarfélaga sem og við miðlun kjörstjóra á skráðum upplýsingum til kjörstjórnar.

2. gr. Skrá kjörstjóra.

Þar sem atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram skal kjörstjóri færa sérstaka skrá um kosninguna.

Að jafnaði skal við það miðað að skráin sé færð í rafrænt utankjörfundarkerfi, sem landskjörstjórn tryggir að sé tiltækt en sé þess ekki kostur skal skráin færð í gerðabók.

3. gr. Upplýsingar í skrá kjörstjóra.

Í skrá kjörstjóra um kosninguna skulu eftirfarandi upplýsingar skráðar:

  1. nafn, kennitala og lögheimili kjósanda,
  2. hvar og hvenær kosið var og hjá hvaða kjörstjóra,
  3. hvort kjósandi njóti aðstoðar við atkvæðagreiðsluna og hver aðstoði hann,
  4. hvort atkvæðisbréfið sé sett í atkvæðakassa hjá kjörstjóra, kjósandi taki atkvæðisbréfið með sér eða hvort kjörstjóri taki að sér að koma því til skila,
  5. athugasemdir, bókanir og aðrar nauðsynlegar upplýsingar sem lúta að atkvæðagreiðslu utan kjörfundar ef tilefni er til.

4. gr. Meðferð utankjörfundaratkvæða hjá kjörstjóra.

Kjörstjóri skal hafa tiltæka innsiglaða atkvæðakassa merkta þeim sveitarfélögum sem eru í umdæmi hans. Kjörstjóri getur ákveðið að atkvæðakassa skuli samnýta fyrir tvö eða fleiri sveitarfélög innan umdæmis hans. Atkvæðakassar sem innihalda atkvæðisbréf skulu varðveittir á öruggum stað.

Kjósandi, sem fram að kjördegi greiðir atkvæði hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem hann er á kjörskrá, skal sjálfur setja atkvæðisbréfið í atkvæðakassa.

Þeir kjósendur sem greiða atkvæði utan þess umdæmis sem þeir eru á kjörskrá, skulu sjálfir taka atkvæðisbréf sitt og koma því til kjörstjórnar þess sveitarfélags þar sem þeir eru á kjörskrá. Fram að kjördegi er kjörstjóra þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst og greiða almennt póstburðargjald undir sendinguna. Kjósandi ber að öðru leyti sjálfur kostnað af sendingu atkvæðisbréfsins.

Kjósandi sem kýs hjá kjörstjóra á kjördegi skal sjálfur taka atkvæðisbréf sitt og koma því til skila.

5. gr. Atkvæðisbréf sem berast sveitarfélagi.

Sveitarfélag skal fyrir hönd kjörstjórnar varðveita atkvæðisbréf, sem það tekur á móti fyrir kjördag, frá kjósanda sem er á kjörskrá í sveitarfélaginu, í innsigluðum atkvæðakassa sem varðveittur er á öruggum stað.

Atkvæðisbréfin skulu skráð í sérstaka skrá þar sem þau eru tölusett. Jafnframt skal skrá nafn kjósanda og heimilisfang hans. Heimilt er að skrá upplýsingar um kennitölu kjósanda, kjörstað og kjördeild. Að jafnaði skal við það miðað að skráin sé rafræn en þó er heimilt að halda skrá á pappír.

6. gr. Afhending kjörstjóra á atkvæðakössum og atkvæðisbréfum.

Atkvæðakössum sem kjörstjóri afhendir kjörstjórn sveitarfélags skulu fylgja upplýsingar úr skrá kjörstjóra um þá kjósendur sem settu atkvæðisbréf sitt í atkvæðakassana. Þar skal koma fram nafn, kennitala og lögheimili kjósanda og hvern dag kosningarathöfnin fór fram. Einnig skal þar koma fram frá hvaða kjörstjóra upplýsingarnar koma.

Þegar kjörstjóri afhendir flokkuð atkvæðisbréf úr samnýttum atkvæðakassa, sbr. 5. mgr. 77. gr. kosningalaga, til viðkomandi kjörstjórnar skulu þeim fylgja upplýsingar úr skrá kjörstjóra.

7. gr. Flokkun utankjörfundaratkvæða.

Þegar kjörstjórn sveitarfélags hefur móttekið atkvæðakassa frá kjörstjóra, sbr. 1. mgr. 6. gr., er henni heimilt að rjúfa innsigli hans og flokka atkvæðisbréf eftir kjördeildum. Jafnframt er kjörstjórn heimilt að rjúfa innsigli atkvæðakassa sem innihalda atkvæðisbréf sem henni hafa verið send, sbr. 5. gr., og flokka þau sem og þau atkvæðisbréf sem kjörstjórn hefur móttekið frá kjörstjóra, sbr. 2. mgr. 6. gr. Kjörstjórn skal bjóða umboðsmönnum að vera viðstaddir þegar innsigli er rofið.

Þegar flokkun er lokið skal kjörstjórn varðveita atkvæðisbréfin í innsigluðu rými þar til þau eru afhent viðkomandi kjördeild. Sama gildir ef gert er hlé á flokkun.

8. gr. Meðferð persónuupplýsinga.

Um skráningu, vinnslu og miðlun upplýsinga úr skrá kjörstjóra fer skv. ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 6. mgr. 74. gr. og 3. og 7. mgr. 77. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og tekur þegar gildi.

Dómsmálaráðuneytinu, 19. apríl 2024.

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.