Prentað þann 22. des. 2024
470/2012
Reglugerð um veiðar á lúðu.
1. gr.
Allar beinar veiðar á lúðu (hvítlúðu) í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar, þ.m.t. veiðar með sérútbúnum krókum (haukalóðum).
Leyfi til lúðuveiða skulu gefin út, fyrir hvert fiskveiðiár, þegar talið er, samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar, að lúðustofninn þoli veiðar.
2. gr.
Komi lúða um borð í veiðiskip sem meðafli skal umsvifalaust sleppa lífvænlegri lúðu.
Við línuveiðar skal sleppa allri lúðu með því að skera á taum línunnar. Við handfæra- og sjóstangaveiðar skal losa lúðuna varfærnislega af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúða kemur um borð.
3. gr.
Til að koma í veg fyrir að stórlúða fari í móttöku skips, er skylt við botnvörpuveiðar þar sem móttaka er lægra en aðalþilfar skipsins, að hafa rist þar sem fiski er hleypt í móttöku. Fiskistofu er heimilt að veita undanþágu frá notkun ristar, t.d. vegna smæðar báts. Þá er skipum sem stunda humarveiðar heimil undanþága frá notkun ristar. Rimlabil ristarinnar skal að hámarki vera 40 sm.
Gildir þetta á svæði sem afmarkast af línu sem dregin er austur úr Dalatanga, réttsælis og allt að línu sem dregin er réttvísandi norðvestur úr Horni.
4. gr.
Lúðuafli skal seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir. Lúðuafli sætir álagningu gjalds samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Það skal nema andvirði gjaldskylds afla.
Forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið, eins og þessi kostnaður er markaður í reglugerð um kostnað vegna sölu afla á uppboðsmarkaði. Þá skal útgerð skipsins fá 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.
5. gr.
Skipstjóra er skylt að halda afladagbók, sbr. reglugerð nr. 557/2007, um afladagbækur, með síðari breytingum. Skrá skal í afladagbók upplýsingar s.s. um veiðarfæri, veiðistað og veiðidag, um þá lúðu sem sleppt er í hverju kasti/lögn/togi.
6. gr.
Brot varða viðurlögum samkvæmt 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðar breytingum.
7. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 6. gr., 2. mgr. 7. gr. og 14. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og 14. gr. laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, og öðlast þegar gildi. Reglugerðina skal taka til endurskoðunar þegar skilyrði eru til útgáfu leyfa til lúðuveiða, sbr. 2. mgr. 1. gr.
Við gildistöku þessarar reglugerðar falla úr gildi reglugerð nr. 477/2011 um bann við notkun haukalóða við lúðuveiðar og reglugerð nr. 1164/2011 um bann við veiðum á lúðu, með síðari breytingu.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.