Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Stofnreglugerð

468/2014

Reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra.

1. gr. Hlutverk.

Framkvæmdasjóður aldraðra skal stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt.

2. gr. Stjórn og hlutverk hennar.

Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra annast stjórn sjóðsins, sbr. 2. og 3. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Stjórnin hefur sérstakan ritara. Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra gerir árlega tillögur til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum.

3. gr. Rekstur, varsla og reikningshald.

Framkvæmdasjóður aldraðra skal vera í vörslu velferðarráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 125/1999.

Rekstur sjóðsins skal vera aðskilinn frá öðrum verkefnum velferðarráðuneytisins.

Kostnaður við rekstur, umsjón og stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra skal greiddur úr sjóðnum.

Reikningar Framkvæmdasjóðs aldraðra fyrir nýliðið ár skulu fullgerðir um leið og aðrir reikningar velferðarráðuneytisins. Skulu þeir endurskoðaðir á sama hátt og reikningar ríkisstofnana.

4. gr. Tekjur.

Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra eru:

  1. Tekjur af sérstöku gjaldi sem ríkisskattstjóri leggur á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Fjárhæð gjaldsins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.
  2. Frjáls framlög og aðrar tekjur er til kunna að falla.
  3. Vaxtatekjur, sbr. 10. gr. laga nr. 125/1999.

Í miðmánuði hvers ársfjórðungs skal fjármála- og efnahagsráðuneytið skila Framkvæmdasjóði aldraðra fjórðungi tekna sjóðsins á því ári.

5. gr. Verkefni sem fjármagni skal varið til.

Fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal varið til eftirtalinna verkefna:

  1. Bygginga þjónustumiðstöðva aldraðra, sbr. 2. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999. Framlag til þjónustumiðstöðva aldraðra má nema allt að 20% af heildarkostnaði enda liggi fyrir að um samkeppnishæft verð sé að ræða.
  2. Bygginga dagdvala fyrir aldraða, sbr. 3. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999. Framlag til dagdvala aldraðra má nema allt að 20% af heildarkostnaði enda liggi fyrir að um samkeppnishæft verð sé að ræða.
  3. Bygginga dvalarheimila og sambýla, sbr. 1. tölul. 14. gr. laga nr. 125/1999. Framlag til dvalarheimila og sambýla aldraðra má nema allt að 20% af heildarkostnaði með búnaði enda liggi fyrir að um samkeppnishæft verð sé að ræða.
  4. Bygginga hjúkrunarheimila eða hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum, sbr. 2. tölul. 14. gr. laga nr. 125/1999. Framlag til hjúkrunarheimila eða hjúkrunarrýma aldraðra má nema að 40% af heildarkostnaði með búnaði enda liggi fyrir að um samkeppnishæft verð sé að ræða.
  5. Að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem tilgreint er í a-d-liðum. Framlag vegna breytinga og endurbóta má nema allt að 40% kostnaðar vegna hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma en 20% vegna þjónustumiðstöðva aldraðra, dagdvala, dvalarrýma og sambýla enda sé kostnaður innan eðlilegra marka.
  6. Viðhalds húsnæðis sem tilgreint er í b-d-liðum. Framlög samkvæmt þessum lið greiðast samkvæmt reglugerð ráðherra um daggjöld stofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum.
  7. Annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.

6. gr. Framlag til húsaleigu.

Framkvæmdasjóði aldraðra er heimilt að greiða þann hluta húsaleigu sem telst stofnkostnaður vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða, sbr. 3. mgr. 9. mgr. laga nr. 125/1999.

7. gr. Framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra telst ríkisframlag og tekur ekki verðbreytingum. Sé framlags ekki vitjað innan tveggja ára frá dagsetningu tilkynningar um styrk fellur það niður.

Framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra verður ekki veitt til verka sem þegar eru hafin eða eru fullunnin.

8. gr. Umsóknir um framlög.

Auglýst skal eftir umsóknum um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra að jafnaði einu sinni á ári.

Umsóknir skulu vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin eru af velferðarráðuneytinu og nálgast má á heimasíðu ráðuneytisins. Umsóknareyðublöð ásamt fylgigögnum skulu send velferðarráðuneytinu innan frests sem getið er um í auglýsingu.

Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra er heimilt að óska eftir nánari upplýsingum um verkefni, framkvæmdaaðila og fjármögnum og senda umsóknir til umsagnar sérfræðinga á viðeigandi sviði.

9. gr. Afgreiðsla umsókna.

Tillögur til úthlutunar skulu vera í samræmi við hlutverk sjóðsins, þörf á hverjum stað og áherslur í öldrunarþjónustu á hverjum tíma. Þá skal þess gætt að ekki séu gerðar tillögur um úthlutun vegna stofnana annarra en þeirra sem fengið hafa framkvæmda- og rekstrarleyfi ráðherra, sbr. 16. gr. laga nr. 125/1999.

Endanlegar tillögur stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra skulu lagðar fyrir ráðherra innan þriggja mánaða frá því að umsóknarfrestur rennur út. Tillögunum skal fylgja rökstuðningur.

Þeim sem hlýtur úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra samkvæmt ákvörðun ráðherra skal gerð skriflega grein fyrir úthlutun og til hvaða verkefna hún nær. Hafi umsókn verið hafnað að öllu leyti eða að hluta til getur umsækjandi óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðun ráðherra.

Öllum umsóknum skal svarað skriflega.

10. gr. Skuldbindingar.

Að verkefni loknu skal sá sem hlýtur úthlutun skila stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra lokaskýrslu og verður lokagreiðsla innt af hendi þegar endanlegt fjárhagsuppgjör liggur fyrir. Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra er eftir atvikum heimilt að óska eftir áfangaskýrslu.

Ráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, að krefja þann sem framlag hefur fengið úr Framkvæmdasjóði aldraðra um endurgreiðslu framlagsins ef viðkomandi skilar ekki fullnægjandi skýrslu og uppgjöri.

Sá sem framlag hefur fengið úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal vera í samráði við ráðherra og stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra ef fyrirhugað er að selja húsnæði sem veitt var framlag til eða nota það í þágu annarra en aldraðra. Getur ráðherra þá eftir atvikum krafist þess að framlagið verði endurgreitt nema tryggt sé að andvirði þess renni til sambærilegs úrræðis. Við mat á því hvort krefjast skuli endurgreiðslu skal líta til fjárhæðar framlagsins og hversu langur tími er liðinn síðan það var veitt.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 12. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1/2011, um Framkvæmdasjóð aldraðra með síðari breytingu.

Ákvæði til bráðabirgða.

Framkvæmdasjóði aldraðra er heimilt að verja fé úr sjóðnum til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða rekstrarárið 2014, sbr. ákvæði til bráðabirgða VII í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

Velferðarráðuneytinu, 14. maí 2014.

Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra.

Sveinn Magnússon.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.