Prentað þann 4. des. 2024
466/2003
Reglugerð um samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila samkvæmt raforkulögum.
1. gr. Skipan.
Sérstök samráðsnefnd sem skipuð er fulltrúum eftirlitsskyldra aðila skal starfa í tengslum við eftirlit Orkustofnunar samkvæmt raforkulögum.
Iðnaðarráðherra skipar sex menn í samráðsnefndina til þriggja ára í senn eftir tilnefningu Samorku.
Nefndin velur sér formann. Skal nefndin tilkynna iðnaðarráðherra og Orkustofnun um formann nefndarinnar og aðsetur.
2. gr. Hlutverk.
Samráðsnefndin er vettvangur eftirlitsskyldra aðila til þess að geta komið á framfæri viðhorfum til framkvæmdar og þróunar í eftirliti Orkustofnunar samkvæmt raforkulögum, s.s. umfang eftirlitsins, starfshátta og reksturs. Nefndin hefur ekki ákvörðunarvald í málefnum Orkustofnunar.
3. gr. Fundir með Orkustofnun.
Fulltrúar Orkustofnunar skulu eiga reglulega fundi með samráðsnefndinni. Skal Orkustofnun boða til fundar með nefndinni að minnsta kosti tvisvar á ári. Á fundunum skal annars vegar fjalla um stefnu og helstu áhersluþætti í starfsemi Orkustofnunar sem fram fer á grundvelli raforkulaga og hins vegar skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs vegna þeirrar starfsemi skv. 4. gr. Samráðsnefndin getur jafnframt að eigin frumkvæði óskað eftir fundi með Orkustofnun til að fjalla um einstök mál.
4. gr. Álit á áætluðu rekstrarumfangi.
Fyrir 15. september ár hvert skal Orkustofnun gefa iðnaðarráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs vegna eftirlits á grundvelli raforkulaga. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun eftirlitsins undangengin þrjú ár.
Skýrslu Orkustofnunar skal fylgja umsögn samráðsnefndar eftirlitskyldra aðila um áætlað rekstrarumfang vegna eftirlitsins næsta ár ásamt áliti orkumálastjóra á umsögninni. Til að samráðsnefndin geti gefið umsögn skal Orkustofnun eigi síðar en 15. ágúst ár hvert senda henni upplýsingar um framkvæmd eftirlitsins og kostnað vegna þess vegna næst liðins árs og áætlað rekstrarumfang næsta ár ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta gjaldtöku samkvæmt raforkulögum skal iðnaðarráðherra leggja fram frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi. Skýrsla Orkustofnunar ásamt áliti samráðsnefndar skulu fylgja frumvarpinu sem viðaukar.
5. gr. Kostnaður.
Hvorki ráðuneytið né Orkustofnun skulu bera kostnað af starfi samráðsnefndarinnar.
6. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með vísan til 2. mgr. 24. gr. raforkulaga nr. 65/2003 og öðlast hún þegar gildi.
Iðnaðarráðuneytinu, 11. júní 2003.
Kristján Skarphéðinsson.
Kristín Haraldsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.