Prentað þann 23. nóv. 2024
460/2021
Reglugerð um Jafnréttisráð – samráðsvettvang um jafnrétti kynjanna.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um störf og verkefni Jafnréttisráðs - samráðsvettvangs um jafnrétti kynjanna, sem kalla skal saman skv. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.
2. gr. Hlutverk.
Hlutverk Jafnréttisráðs - samráðsvettvangs um jafnrétti kynjanna er að vera ráðherra jafnréttismála til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna.
Samráðsvettvangurinn skal standa fyrir markvissri umræðu um jafnrétti kynjanna þannig að stjórnvöldum sé á hverjum tíma ljóst hver þróun málaflokksins er, hver séu helstu nýmæli og hvort þörf sé sérstakra aðgerða á ákveðnum sviðum samfélagsins.
3. gr. Auglýsing og þátttaka.
Ráðuneyti sem fer með jafnréttismál skal auglýsa Jafnréttisráð - samráðsvettvang um jafnrétti kynjanna og gefa aðilum tækifæri á að óska eftir þátttöku. Auglýsing þar að lútandi birtist árlega, eigi síðar en 1. marsdesember ár hvert. Rétt til þátttöku eiga fulltrúar frá samtökum sem vinna að jafnrétti kynjanna samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins og fræðasamfélaginu. Þá eiga fulltrúar sveitarfélaga og samtaka þeirra rétt til þátttöku.
Lögaðilar sem starfa að jafnrétti kynjanna samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, aðrir en þeir sem tilgreindir eru í 1. mgr., geta óskað eftir þátttöku í samráðsvettvangnum samkvæmt auglýsingu þar um. Gerð er sú krafa að um sé að ræða skráða lögaðila með stjórn og skráða kennitölu.
Ráðuneytið staðfestir þátttöku þeirra aðila sem óskað hafa eftir þátttöku á grundvelli auglýsingar og uppfylla kröfur 1.-2. mgr. að mati ráðuneytisins.
4. gr. Starfshættir.
Minnst einu sinni á ári skal kalla saman Jafnréttisráð - samráðsvettvang um jafnrétti kynjanna. Boða skal rafrænt á fundinn þá fulltrúa sem staðfestir hafa verið til þátttöku á grundvelli 3. gr. Fundarboði skal fylgja dagskrá fundar samráðsvettvangs.
Til að tryggja milliliðalaust samráð milli ráðherra og samráðsvettvangsins fundar ráðherra einu sinni á ári með samráðsvettvangnum.
Samráðsvettvangurinn skilar ráðherra fundargerð af fundum sínum. Samantekt af fundargerðum samráðsvettvangsins skal birta sem fylgiskjöl með skýrslu ráðherra sem kemur út einu sinni á kjörtímabili, sbr. 12. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020.
5. gr. Umsýsla.
Ráðuneyti sem fer með jafnréttismál starfar með Jafnréttisráði - samráðsvettvangi um jafnrétti kynjanna. Ráðuneytið annast alla umsýslu vegna samráðsvettvangsins, meðal annars að auglýsa samráðsvettvanginn, gefa aðilum tækifæri á að óska eftir þátttöku og staðfesta þátttöku aðila sem uppfylla tilgreindar kröfur, auk þess að undirbúa fundi.
Kostnaður við starfsemi samráðsvettvangsins greiðist úr ríkissjóði.
6. gr. Verkefni.
Verkefni Jafnréttisráðs - samráðsvettvangs um jafnrétti kynjanna taka mið af því hlutverki að vera ráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna.
Samráðsvettvangurinn skal meðal annars standa fyrir umræðu um:
- stöðu og þróun jafnréttismála,
- kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni, jafnrétti á vinnumarkaði, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, staðalmyndir kynjanna og stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns, fjölþætta mismunun og önnur mál í samræmi við 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna,
- nýjungar í rannsóknum á sviði kynja- og jafnréttisfræða.
Önnur verkefni samráðsvettvangsins ákveður ráðuneytið hverju sinni eftir því sem við á.
7. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 33. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, sbr. 24. gr. sömu laga, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um störf Jafnréttisráðs og skrifstofuhald, nr. 48/2003.
Þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. skal birta auglýsingu skv. 1. mgr. 3. gr. eigi síðar en 1. maí árið 2021.
Forsætisráðuneytinu, 27. apríl 2021.
Katrín Jakobsdóttir.
Bryndís Hlöðversdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.