Fara beint í efnið

Prentað þann 26. des. 2024

Stofnreglugerð

441/2023

Reglugerð um eignarskráningu í verðbréfamiðstöð.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Gildissvið og orðskýringar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skráningu réttinda yfir rafbréfum í innlendum og erlendum verðbréfamiðstöðvum hér á landi sem kveðið er á um í lögum nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga. Með henni er kveðið nánar á um grundvöll og framkvæmd eignarskráningar í skilningi laga nr. 7/2020, réttindi og skyldur þátttakenda í verðbréfamiðstöðvum, svo sem varðandi stofnun reikninga í verðbréfamiðstöð.

Reglugerðin gildir einnig um innköllun í því skyni að ljúka eða afmá réttindi yfir rafbréfum í verðbréfamiðstöð eða ógilda áþreifanlega fjármálagerninga vegna rafrænnar útgáfu þeirra í verðbréfamiðstöð.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari merkir:

  1. Reikningur: Skrá í kerfi verðbréfamiðstöðvar auðkennd reikningseiganda, sem bein og óbein réttindi yfir rafbréfum eru færð í samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/2020 og reglugerðar þessarar.

Að öðru leyti gilda orðskýringar í lögum nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

II. KAFLI Réttindi og skyldur þátttakenda í verðbréfamiðstöðvum.

1. Verðbréfamiðstöðvar.

3. gr. Framkvæmd og réttaráhrif eignarskráningar.

Skráning eignarréttinda yfir rafbréfum með þeim réttaráhrifum sem kveðið er á um í lögum nr. 7/2020 og reglugerð þessari er einungis heimil verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt lögunum.

Verðbréfamiðstöð heldur reikninga fyrir eigendur rafbréfa þar sem stofnun, breytingar eða niðurfellingar á réttindum yfir rafbréfum skulu eignarskráðar.

Eignarskráning rafbréfs í verðbréfamiðstöð veitir skráðum rétthafa lögformlega heimild fyrir þeim réttindum sem hann er skráður eigandi að og skal jafngilda skilríkjum um eignarrétt að rafbréfinu gagnvart útgefanda.

Réttaráhrif eignarskráningar teljast vera frá þeirri stundu sem skráning hefur átt sér stað hjá verðbréfamiðstöð. Í eignarskráningu í verðbréfamiðstöð skal koma fram nákvæm tilgreining þeirrar stundar sem eignarskráning nýtur réttarverndar, sbr. 18. gr., og skal rétthafa veitt staðfesting á henni, óski hann eftir því.

4. gr. Gagnsæi gjaldtöku.

Um gagnsæi gjaldtöku verðbréfamiðstöðvar fyrir umsýslu með rafbréf og eignarskráningu fer eftir fyrirmælum í 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 frá 23. júlí 2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 7/2020, eftir því sem við á.

2. Reikningsstofnanir.

5. gr. Milliganga reikningsstofnunar um eignarskráningu.

Aðili sem getur verið þátttakandi í verðbréfamiðstöð hefur heimild til milligöngu um eignarskráningu í verðbréfamiðstöðinni, enda liggi fyrir fullgildur aðildarsamningur við hana.

Um skilyrði fyrir aðild reikningsstofnunar að verðbréfamiðstöð og um réttindi hennar og skyldur við milligöngu um eignarskráningu í verðbréfamiðstöð fer eftir aðildarsamningi hennar og verðbréfamiðstöðvar, sé ekki annað ákveðið í lögum, reglugerðum eða reglum settum samkvæmt þeim.

6. gr. Beiðni um eignarskráningu eða niðurfellingu réttinda.

Beiðni um eignarskráningu skal beint til reikningsstofnunar. Reikningsstofnun tekur við beiðni um eignarskráningu eða niðurfellingu réttinda að rafbréfi.

Við móttöku á beiðni skv. 1. mgr. ber reikningsstofnun að kanna rækilega hvort hin tilkynntu réttindi stafi örugglega frá þeim sem réttindin á og að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir um eignarskráninguna með því að krefjast þeirra skilríkja sem nefnd eru í 10. gr. og annarra upplýsinga og gagna í samræmi við III. kafla, eftir því sem við á.

7. gr. Leiðrétting á eignarskráningu.

Áður en reikningsstofnun gerir leiðréttingu á eignarskráningu, sbr. 12. gr. laga nr. 7/2020, skal öllum rétthöfum tilkynnt um hvaða leiðréttingar eigi að gera og veita þeim kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum. Þegar leiðréttingin hefur verið gerð skal senda öllum rétthöfum tilkynningu um hana, sbr. 9. gr. laga nr. 7/2020 og 18.-19. gr. reglugerðar þessarar.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er reikningsstofnun heimilt að leiðrétta augljós mistök eða villufærslur enda sé send tilkynning, sbr. 9. gr. laga nr. 7/2020 og 18.-19. gr. reglugerðarinnar, til allra rétthafa eftir að leiðrétting hefur verið gerð.

3. Stofnun reikninga og áreiðanleikakönnun.

8. gr. Val um reikningsstofnun.

Eigandi rafbréfs velur sér reikningsstofnun, sem hefur milligöngu um eignarskráningu á reikningi í verðbréfamiðstöð í hans nafni, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum eða reglum settum samkvæmt þeim.

Eiganda rafbréfs er ávallt heimilt að óska eftir því að rafbréf á reikningi hans hjá verðbréfamiðstöð verði færð á reikning hans í umsjón annarrar reikningsstofnunar, enda standi ákvæði 6. gr. því ekki í vegi.

9. gr. Upplýsingar á reikningi.

Á reikningi í kerfi verðbréfamiðstöðvar skal að minnsta kosti koma fram:

  1. Reikningsstofnun, sem heimild hefur til skráningar á reikninginn.
  2. Auðkenni rafbréfs (ISIN).
  3. Fjöldi eininga (nafnverð).
  4. Nafn og kennitala reikningseiganda.

10. gr. Skilyrði fyrir stofnun reiknings.

Skilyrði þess að stofna reikning hjá verðbréfamiðstöð fyrir einstakling eða lögaðila er að reikningsstofnun framkvæmi áreiðanleikakönnun í samræmi við kröfur III.-IV. kafla laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Stofnun reiknings er óheimil ef ekki reynist mögulegt að framkvæma áreiðanleikakönnun.

III. KAFLI Grundvöllur og framkvæmd eignarskráningar.

1. Beiðni um eignarskráningu og tilkynning.

11. gr. Almenn skilyrði fyrir skráningu réttinda yfir rafbréfum.

Til þess að unnt sé að skrá réttindi yfir rafbréfum í verðbréfamiðstöð er nauðsynlegt að þau staðfesti, stofni, breyti eða felli niður réttindi yfir rafbréfi sem beiðnin tekur til og með þeim réttaráhrifum sem eignarskráningunni fylgja.

12. gr. Skráning óbeinna eignaréttinda að rafbréfum.

Reikningsstofnun skráir veð samkvæmt veðsamningi og önnur óbein réttindi yfir rafbréfi, s.s. vegna gjaldþrots, kyrrsetningar, haldlagningar o.fl., að undangenginni könnun skv. 10. gr. og 1.-2. tölul. 1. mgr. 16. gr.

Við eignarskráningu samkvæmt 1. mgr. ber að skrá á reikning, í samræmi við 17. gr., upplýsingar um:

  1. Tímamark, sem réttaráhrif miðast við, og nafn reikningsstofnunar þar sem grunngögn eignarskráningar eru varðveitt, s.s. veðsamningur eða aðrir löggerningar sem eru grundvöllur eignarskráningar.
  2. Til hvaða rafbréfa réttindi taka.
  3. Nafn rétthafa.

Þegar beiðni um eignarskráningu samkvæmt ákvæði þessu varðar aðeins hluta þeirra rafbréfa sem eru á reikningi skal það koma skýrt fram á reikningnum.

Reikningsstofnun annast varðveislu veðsamninga og annarra gagna er kveða á um réttindi að rafbréfi skv. 1. mgr. og 13. gr. í samræmi við gildandi lög og reglugerð þessa.

Reikningsstofnun er heimilt að setja það sem skilyrði fyrir skráningu samkvæmt 1. mgr. að veðhafi og veðsali geri samning við reikningsstofnun um milligöngu reikningsstofnunarinnar um skráningu veðréttinda, áður en hún framkvæmir slíka skráningu í kerfi verðbréfamiðstöðvar. Í slíkum samningi skal að lágmarki kveðið á um réttindi og skyldur aðila í tengslum við skráninguna og um fyrirkomulag er varðar breytingar á veðréttindum eftir því sem við á.

13. gr. Skráning réttinda í tilefni fjárnáms, kyrrsetningar, lögbanns o.fl.

Skráning réttinda yfir rafbréfum í verðbréfamiðstöð á grundvelli laga nr. 90/1989 um aðför, og laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., skal gerð á grundvelli staðfests endurrits um fjárnám, kyrrsetningu eða lögbann, eftir því sem við getur átt.

Skráning réttinda yfir rafbréfum í verðbréfamiðstöð vegna setu maka í óskiptu búi svo og vegna einkaskipta skal gerð á grundvelli leyfis sem sýslumaður veitir samkvæmt lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Skráning réttinda yfir rafbréfum í verðbréfamiðstöð vegna opinberra skipta á dánarbúum og gjaldþrotabúum skal gerð á grundvelli úrskurða sem kveðnir eru upp í samræmi við ákvæði laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., svo og úrskurða um gjaldþrot sem kveðnir eru upp á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Skráning upplýsinga um sviptingu lögræðis, takmarkaða lögræðissviptingu eða aðrar takmarkanir á fjárforræði á reikning í verðbréfamiðstöð skal gerð á grundvelli staðfests endurrits frá þeim dómstól er kveðið hefur upp úrskurð um sviptingu þeirra réttinda sem grein þessi tekur til, sbr. að öðru leyti ákvæði lögræðislaga nr. 71/1997, um réttindi og skyldur yfirlögráðanda o.fl.

Við skráningu réttinda yfir rafbréfum í verðbréfamiðstöð á grundvelli úrskurðar dómstóls eða annars konar opinberrar réttargerðar skal beiðandi um eignarskráningu leggja fram yfirlýsingu þess stjórnvalds eða endurrit dóms, eða úrskurðar, sem beiðni um eignarskráningu grundvallast á.

2. Könnun hjá reikningsstofnun og ábyrgð gagnvart verðbréfamiðstöð.

14. gr. Könnun reikningsstofnunar á forsendum til eignarskráningar.

Reikningsstofnun skal, áður en hún skráir réttindi yfir rafbréfum á reikning í verðbréfamiðstöð, ganga úr skugga um að skilyrði eignarskráningar séu fyrir hendi.

15. gr. Beiðni um eignarskráningu vísað frá.

Reikningsstofnun skal vísa frá beiðni um eignarskráningu ef:

  1. Beiðnin varðar fjármálagerning sem ekki hefur verið rafrænt skráður í verðbréfamiðstöð.
  2. Beiðni varðar réttindi yfir rafbréfi sem ekki er skráð á reikning sem reikningsstofnunin hefur umsjón með.
  3. Ekki er unnt að skrá efni þeirra réttinda sem beiðnin fjallar um.
  4. Réttindin hafa þegar verið skráð á reikning.

Reikningsstofnun skal sjá til þess að beiðanda um eignarskráningu sé tilkynnt, án ástæðulauss dráttar, um ástæður þess að ekki er unnt að skrá réttindin.

16. gr. Ábyrgð gagnvart verðbréfamiðstöð.

Reikningsstofnun ábyrgist eftirfarandi gagnvart verðbréfamiðstöð og skal, ef óskað er eftir því, sýna fram á:

  1. Að nauðsynleg könnun á persónuskilríkjum, eða löglegum skilríkjum (vottorðum) um stofnun lögaðila, ef það á við, hafi farið fram við stofnun reiknings, sbr. 10. gr., og veita henni aðgang að þeim gögnum sem þar liggja til grundvallar.
  2. Að lögð hafi verið fram fullnægjandi gögn sem sanna réttindi rétthafa að rafbréfi, í samræmi við ákvæði III. kafla.
  3. Hvenær hún hafi óskað eftir leiðréttingu á eignarskráningu, sbr. 12. gr. laga nr. 7/2020, og að andmælaréttur hafi verið virtur.

Varðveita skal gögn samkvæmt ákvæði þessu í tíu ár frá því að réttindi á viðkomandi reikningi falla niður.

3. Könnun og skráning í verðbréfamiðstöð.

17. gr. Eignarskráning.

Skráning réttinda yfir rafbréfi fer fram á reikning eiganda rafbréfsins með færslu í kerfi verðbréfamiðstöðvar.

Öll réttindi yfir rafbréfi sem skráð hafa verið á reikning í verðbréfamiðstöð skulu skilmerkilega skjalfest og rekjanleg á honum.

4. Tilkynningar til rétthafa.

18. gr. Tilkynningar til rétthafa um eignarskráningu.

Reikningsstofnun er skylt, sbr. 9. gr. laga nr. 7/2020, að tilkynna öllum rétthöfum sérhverja skráningu réttinda yfir rafbréfi í verðbréfamiðstöð sem hún hefur haft milligöngu um. Í tilkynningu skal koma fram nafn reikningsstofnunar sem annast hefur milligöngu um eignarskráninguna, nafn verðbréfamiðstöðvar þar sem réttindin eru eignarskráð, efni réttindanna, upplýsingar um önnur gildandi réttindi sem skráð eru á reikning hlutaðeigandi, svo og tilgreining þeirrar stundar sem réttaráhrif eignarskráningarinnar miðast við.

Reikningsstofnun og verðbréfamiðstöð er heimilt að semja nánar um fyrirkomulag við miðlun tilkynninga sem skylt er að senda rétthöfum samkvæmt lögum, reglugerð þessari eða reglum verðbréfamiðstöðvar.

19. gr. Tímafrestur tilkynningar um eignarskráningu.

Tilkynningum samkvæmt 18. gr. skal miðlað til rétthafa þegar í stað og eigi síðar en tveimur dögum eftir að beiðni um eignarskráningu barst reikningsstofnun, sbr. 6. gr., nema eigandi reiknings hafi sérstaklega samið um aðra tilhögun samkvæmt reglum sem verðbréfamiðstöð hefur sett.

IV. KAFLI Lok og afmáning réttinda.

20. gr. Tilkynning til rétthafa um lok eða afmáningu réttinda.

Þegar réttindum sem skráð hafa verið yfir rafbréfi í verðbréfamiðstöð er lokið, þau felld niður og afmáð í kerfi verðbréfamiðstöðvar, ber reikningsstofnun að senda tilkynningar samkvæmt 18.-19. gr. reglugerðarinnar, sbr. 9. gr. laga nr. 7/2020.

21. gr. Afmáning réttinda sem hafa ekki lengur þýðingu eða fallin eru úr gildi.

Verðbréfamiðstöð er heimilt samkvæmt 13. gr. laga nr. 7/2020 að afmá réttindi yfir rafbréfi sem telja má að hafi ekki lengur þýðingu eða um er að ræða réttindi sem eru 20 ára gömul eða eldri og sem telja verður að séu sannanlega úr gildi fallin eða enginn rétthafi hefur fundist að.

Verðbréfamiðstöð skal senda reikningsstofnun tilkynningu um þau réttindi sem fyrirhugað er að afmá og, ef við á, óska eftir upplýsingum um eiganda að reikningi. Verðbréfamiðstöð birtir innköllun í Lögbirtingablaði til þeirra sem telja sig eiga rétt til hinna skráðu réttinda og skal innköllunarfrestur vera þrír mánuðir.

Hafi enginn gefið sig fram áður en innköllunarfrestur er liðinn skal verðbréfamiðstöð afmá réttindin.

Áður en afmáning réttinda fer fram skal verðbréfamiðstöð tilkynna hlutaðeigandi rétthöfum og reikningsstofnun um það fyrirfram og tilgreina það tímamark sem áformað er að lok réttaráhrifa eignarskráningar miðist við.

22. gr. Upplýsingar um afmáningu réttinda til reikningsstofnunar.

Án ástæðulauss dráttar og í síðasta lagi 8 virkum dögum eftir að afmáning réttinda fer fram samkvæmt 21. gr. skal verðbréfamiðstöð senda reikningsstofnun:

  1. Yfirlit um rétthafa afmáðra réttinda yfir rafbréfum.
  2. Reikningsyfirlit fyrir sérhvern reikning í verðbréfamiðstöð þar sem afmáning réttinda hefur farið fram.
  3. Gögn sem varða afmáningu réttinda yfir rafbréfum, á reikningum sem reikningsstofnun hefur milligöngu um eignarskráningu á, og tilmæli til reikningsstofnana um með hvaða hætti þær eigi að afhenda gögn sem varða afmáningu réttindanna, ef við á.

Reikningsstofnun skal, án ástæðulauss dráttar og eigi síðar en 8 virkum dögum frá því að henni berast upplýsingar og gögn samkvæmt 1. mgr., senda þeim rétthöfum sem eiga að fá afhent gögn tilkynningu um hvar afhending þeirra fari fram.

V. KAFLI Innköllun áþreifanlegra fjármálagerninga.

23. gr. Framkvæmd innköllunar.

Útgefandi áþreifanlegra fjármálagerninga innkallar þá með birtingu auglýsingar í Lögbirtingablaði um að stjórn félagsins hafi ákveðið að ógilda með innköllun útgefna fjármálagerninga vegna rafrænnar útgáfu þeirra í verðbréfamiðstöð í samræmi við ákvæði laga nr. 7/2020. Innköllunin skal birt ekki síðar en 3 mánuðum áður en rafræn útgáfa fjármálagerninga í verðbréfamiðstöð fer fram.

Jafnframt því að auglýsa innköllun tvisvar í Lögbirtingablaði ber útgefandi ábyrgð á því að birta auglýsingu um innköllun réttinda skv. 1. mgr. í öðrum fjölmiðlum með áberandi hætti, s.s. í einu eða fleiri dagblöðum sem hafa víðtæka útbreiðslu á Íslandi og öðrum miðlum sem ástæða þykir til að nota svo upplýsingar um innköllun komist til eigenda viðkomandi útgefinna fjármálagerninga.

Nú hefur útgefandi áþreifanlegra fjármálagerninga tekið ákvörðun með löglegum hætti um rafræna útgáfu þeirra og skal hann þá í samráði við verðbréfamiðstöð ákveða tímasetningu (dagsetningu og stund) rafrænu útgáfunnar og þar með frá hvaða stundu hinir áþreifanlegu fjármálagerningar eru ógildir.

24. gr. Auglýsing vegna innköllunar.

Í auglýsingu, sbr. 23. gr., skal að lágmarki:

  1. Tilgreina fjármálagerninga sem innköllun tekur til, s.s. hver er útgefandi svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar má telja svo að unnt sé að þekkja og greina réttindi samkvæmt viðkomandi fjármálagerningi og á hvaða ári réttindum er ætlað að ljúka, ef um tímabundin réttindi er að ræða.
  2. Tilgreina hvenær (dagsetning) réttindi samkvæmt hinum áþreifanlega fjármálagerningi verði rafrænt skráð í verðbréfamiðstöð, í samræmi við lög nr. 7/2020 og reglugerð þessa, og hinir áþreifanlegu fjármálagerningar þar með ógildir.
  3. Vísa til þeirrar einingar sem rafbréf skulu gefin út í eftir rafræna skráningu í verðbréfamiðstöð, sbr. 2. tölul.
  4. Koma fram hvort útgefandi hafi, í kjölfar rafrænnar útgáfu fjármálagerninga í verðbréfamiðstöð og að innköllunarfresti liðnum, ákveðið að greiðslur til eigenda réttindanna skuli einungis fara fram í gegnum kerfi verðbréfamiðstöðvarinnar.
  5. Nafn verðbréfamiðstöðvar þar sem útgáfa rafbréfa er áformuð.

25. gr. Réttindi við rafræna útgáfu.

Réttindum samkvæmt áþreifanlegum fjármálagerningum skal breyta í rafbréf í samræmi við samning útgefanda og verðbréfamiðstöðvar um útgáfuna, s.s. nafnverð, auðkenni o.fl.

Nafnverð einingar er ekki unnt að tilgreina í hærri fjárhæð en sem svarar til lægsta nafnverðs á verðbréfi þegar innköllun réttindanna á sér stað.

Nú hefur rafræn útgáfa átt sér stað í verðbréfamiðstöð og falla þá úr gildi öll fyrri einkennisnúmer áþreifanlegs fjármálagernings, svo og önnur einkenni hans.

26. gr. Tímamark réttinda samkvæmt áþreifanlegum fjármálagerningi.

Réttindi samkvæmt áþreifanlegum fjármálagerningi sem hefur verið innkallaður og þau skráð í samræmi við ákvæði laga nr. 7/2020 og reglugerð þessa njóta réttarverndar frá og með þeirri stundu sem færsla hefur farið fram í í kerfi verðbréfamiðstöðvar.

VI. KAFLI Eftirlit og gildistaka.

27. gr. Eftirlit.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að farið sé að lögum nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga og ákvæðum reglugerðar þessarar.

28. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 1.-4. og 6. tölul. 31. gr. laga nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, öðlast gildi frá og með 1. júní 2023.

Við gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi reglugerð nr. 397/2000 um rafræna eignarskráningu verðbréfa í verðbréfamiðstöð, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 258/2015.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 24. apríl 2023.

F. h. r.

Guðrún Þorleifsdóttir.

Sigríður Rafnar Pétursdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.