Prentað þann 10. des. 2024
432/2022
Reglugerð um aðstoð við atkvæðagreiðslu.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar eru:
- að tryggja lipra og samræmda framkvæmd þegar kjósanda er veitt aðstoð við atkvæðagreiðslu,
- að tryggja að þeim kjósendum sem óska aðstoðar til þess að nýta sér lýðræðislegan kosningarrétt sinn sé sýnd virðing og nærgætni,
- að tryggja leynilegar og frjálsar kosningar.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir þegar kjósanda er veitt aðstoð við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eða á kjörfundi í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, forsetakjöri og þjóðaratkvæðagreiðslum.
II. KAFLI Almennt um framkvæmd aðstoðar við atkvæðagreiðslu.
3. gr. Réttur til aðstoðar við atkvæðagreiðslu.
Hver kjósandi hefur rétt til þess að njóta aðstoðar við atkvæðagreiðslu í kosningum samkvæmt ákvæðum kosningalaga og reglugerðar þessarar.
Kjósandi skal aldrei þurfa að upplýsa eða greina frá því hvers vegna hann óskar aðstoðar og er kjörstjóra, kjörstjórn eða öðrum þeim sem starfa við framkvæmd kosninga óheimilt að biðja kjósanda að skýra frá því hvers vegna hann óskar slíkrar aðstoðar.
4. gr. Skilyrði fyrir því að aðstoð sé veitt.
Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir frá því hvernig hann vill greiða atkvæði. Ef kjósandi er ófær um að skýra frá vilja sínum skal honum ekki veitt aðstoð við atkvæðagreiðslu.
5. gr. Framkvæmd aðstoðar.
Sá sem veitir aðstoð við atkvæðagreiðslu skal veita hana í samræmi við þarfir og aðstæður kjósandans.
Við alla framkvæmd aðstoðar við atkvæðagreiðslu skal kjósanda sýnd sú nærgætni, lipurð og virðing sem þarfir og aðstæður hans kalla á hverju sinni.
Við framkvæmd aðstoðar skal kjörstjóri eða kjörstjórn tryggja að kosningin sé leynileg svo sem með því að stöðva kosningu eða loka kjörfundarstofu meðan á atkvæðagreiðslu með aðstoð stendur.
6. gr. Fyrirmæli kjósanda og þagnarskylda.
Þeim sem veitir kjósanda aðstoð við atkvæðagreiðslu er skylt að fara eftir fyrirmælum hans um það hvernig greiða eigi atkvæði fyrir hans hönd, sbr. 3. mgr. 74. gr. og 2. mgr. 89. gr. kosningalaga.
Þeim sem veitir aðstoð er með öllu óheimilt að skýra frá því sem honum og kjósanda fer á milli hvort sem er í kjörklefa á kjörfundi eða þar sem atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram, sbr. 3. mgr. 74. gr. og 2. mgr. 89. gr. kosningalaga.
III. KAFLI Aðstoð veitt af kjörstjóra eða kjörstjórn.
7. gr. Veitt aðstoð.
Aðstoð skal veitt af þeim úr kjörstjórn á kjörfundi sem kjósandi tilnefnir en kjörstjóra við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.
Ef kjörstjóri eða kjörstjórn telur ástæðu til skal kjósanda leiðbeint um rétt sinn til þess að njóta aðstoðar við atkvæðagreiðslu en aðstoð verður þó ekki veitt nema vilji kjósanda til að njóta aðstoðar sé skýr.
8. gr. Bókun um aðstoð.
Sé aðstoð veitt við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skal kjörstjóri rita á fylgibréf að aðstoð hafi verið veitt af kjörstjóra og skal þá jafnframt skráð í kjörskrá eða í sérstaka skrá kjörstjóra samkvæmt 77. gr. kosningalaga að kjósandi hafi notið aðstoðar kjörstjóra.
Við atkvæðagreiðslu á kjörfundi skal bóka í gerðabók kjörstjórnar í þeirri kjördeild þar sem kjósandi greiðir atkvæði að honum hafi verið veitt aðstoð af kjörstjórnarmanni.
9. gr. Synjun um aðstoð kjörstjóra eða kjörstjórnar við atkvæðagreiðslu.
Geti kjósandi ekki skýrt fulltrúa kjörstjóra eða kjörstjórnar frá því hvernig hann vill greiða atkvæði skal kjörstjóri eða kjörstjórn synja kjósanda um aðstoð sína við atkvæðagreiðsluna.
Kjörstjóri skal geta um synjunina í skrá sinni skv. 77. gr. kosningalaga eða gerðabók en kjörstjórn skal bóka um synjunina í gerðabók.
Ákvörðun kjörstjóra eða kjörstjórnar um að synja um aðstoð er endanleg.
IV. KAFLI Aðstoð veitt af aðstoðarmanni kjósanda.
10. gr. Aðstoð einstaklings sem fylgir kjósanda á kjörstað.
Kjósanda ber réttur til að njóta aðstoðar einstaklings sem fylgir kjósanda á kjörstað. Auk kjósanda getur aðstoðarmaður kjósanda tjáð kjörstjóra eða kjörstjórn að kjósandinn óski eftir aðstoð hans við atkvæðagreiðsluna.
11. gr. Aðstoðarmaður kjósanda.
Aðstoðarmaður kjósanda skal gera kjörstjóra eða kjörstjórn grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa persónuskilríkjum með nafni, kennitölu og mynd, svo sem vegabréfi, ökuskírteini eða nafnskírteini eða gera grein fyrir sér á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra eða kjörstjórnar.
Aðstoðarmaður kjósanda má hvorki vera frambjóðandi í kosningum eða maki, barn, systkini eða foreldri slíks frambjóðanda og þá er honum óheimilt að gerast aðstoðarmaður fleiri en þriggja kjósenda við sömu kosningar, sbr. 3. mgr. 74. gr. og 3. og 4. mgr. 89. gr. kosningalaga.
Aðstoðarmaður kjósanda skal að minnsta kosti vera 18 ára gamall.
12. gr. Leiðbeiningar til aðstoðarmanns kjósanda.
Kjörstjóri eða kjörstjórn skal upplýsa aðstoðarmann kjósanda um að samkvæmt kosningalögum megi hann einungis veita kjósanda aðstoð ef kjósandi getur skýrt frá því hvernig hann vilji greiða atkvæði og þagnarskyldu, sbr. 6. gr. reglugerðar þessarar.
Þá skal kjörstjóri eða kjörstjórn upplýsa aðstoðarmann kjósanda um skilyrði þess að veita aðstoð samkvæmt 11. gr. reglugerðar þessarar.
13. gr. Staðfesting aðstoðarmanns kjósanda.
Aðstoðarmaður kjósanda skal undirrita staðfestingu á sérstöku eyðublaði sem skal hafa að geyma nafn og kennitölu kjósanda, aðstoðarmanns kjósanda og dagsetningu þegar aðstoð er veitt.
Á eyðublaðinu skal aðstoðarmaður kjósanda staðfesta hæfi sitt samkvæmt 11. gr. reglugerðar þessarar og skulu þar vera leiðbeiningar um þau atriði sem getið er í 12. gr. reglugerðarinnar.
Kjörstjóri eða kjörstjórnarmaður skal jafnframt undirrita staðfestingu aðstoðarmanns.
Kjörstjóri eða kjörstjórn skal varðveita staðfestingu aðstoðarmanns. Landskjörstjórn er heimilt að óska eftir upplýsingum um aðstoðarmenn frá kjörstjórum og kjörstjórnum til þess að ganga úr skugga um hæfi þeirri skv. 89. gr. kosningalaga.
14. gr. Bókun um aðstoð.
Sé aðstoð veitt við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skal kjörstjóri varðveita staðfestingu aðstoðarmanns kjósanda og skrá í kjörskrá eða í sérstaka skrá kjörstjóra samkvæmt 77. gr. kosningalaga hvaða kjósandi hafi notið aðstoðar auk nafns og kennitölu aðstoðarmanns kjósanda við atkvæðagreiðslu.
Í gerðabók kjörstjórnar skal jafnframt bóka upplýsingar um þann kjósanda sem naut aðstoðar ásamt nafni og kennitölu aðstoðarmanns kjósandans.
15. gr. Synjun um aðstoð.
Ef aðstoðarmaður kjósanda uppfyllir ekki skilyrði 11. gr. reglugerðar þessarar skal viðkomandi kjörstjóri eða kjörstjórn synja því að viðkomandi aðstoðarmaður veiti kjósandanum aðstoð.
Bóka skal um synjun með þeim hætti sem kveðið er á um í 14. gr. reglugerðar þessarar og að viðkomandi aðstoðarmann kjósanda hafi brostið skilyrði til þess að veita aðstoð.
Ákvörðun kjörstjóra eða kjörstjórnar að synja um aðstoð er endanleg.
V. KAFLI Lokaákvæði.
16. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett skv. 5. mgr. 89. gr. kosningalaga nr. 112/2021, að fengnum tillögum landskjörstjórnar og tekur þegar gildi.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.