Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 22. nóv. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 13. apríl 2024
Sýnir breytingar gerðar 5. maí 2022 af rg.nr. 523/2022

431/2022

Reglugerð um talningu atkvæða.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að atkvæði í kosningum séu talin með nákvæmum, öruggum og rekjanlegum hætti í samræmi við ákvæði kosningalaga.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um talningu atkvæða í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, forsetakjöri og þjóðaratkvæðagreiðslum.

3. gr. Ábyrgð yfirkjörstjórna.

Talning atkvæða í alþingiskosningum, forsetakjöri og þjóðaratkvæðagreiðslu fer fram á ábyrgð yfirkjörstjórnar kjördæmis. Yfirkjörstjórn kjördæmis getur ákveðið að auk talningar hjá henni geti talning farið fram hjá umdæmiskjörstjórn, á öðrum stað í kjördæminu, til að auðvelda og flýta fyrir talningu í stórum kjördæmum. Ákvæði reglugerðar þessarar gilda að breyttu breytanda um talningu atkvæða á vegum umdæmiskjörstjórnar.

Talning atkvæða í sveitarstjórnarkosningum fer fram á ábyrgð yfirkjörstjórnar sveitarfélags.

Í framangreindu felst að yfirkjörstjórn kjördæmis og yfirkjörstjórn sveitarfélags skulu tryggja að atkvæði í kosningum séu talin af nákvæmni í samræmi við ákvæði kosningalaga og reglugerðar þessarar, þ.m.t. að talning sé unnin af starfsfólki sem hefur fengið fræðslu og þjálfun, á stað þar sem hægt er að tryggja öryggi og hnökralausa framkvæmd talningar, að nauðsynleg aðföng séu til staðar, talning sé unnin með fagleg vinnubrögð að leiðarljósi, framvinda talningar og ákvarðanir sem tengdar eru henni séu skráðar í gerðabók og mögulegt sé að sannreyna niðurstöður og vinnubrögð talningar eftir á.

4. gr. Orðskýringar.

Ágreiningsatkvæði: Vafaatkvæði sem yfirkjörstjórn hefur tekið til úrskurðar og ágreiningur er á milli yfirkjörstjórnar og umboðsmanna um hvort teljist gilt eða ógilt.

Breyttur atkvæðaseðill: Atkvæðaseðill þar sem kjósandi hefur breytt nafnaröð á þeim framboðslista sem hann kýs eða hafnað frambjóðanda með því að strika yfir nafn hans á listanum.

Óbundnar kosningar: Kosning sem ekki er bundin við framboð en allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því.

Umdæmiskjörstjórn: Kjörstjórn skipuð af yfirkjörstjórn kjördæmis við alþingiskosningar, forsetakjör eða þjóðaratkvæðagreiðslu til að taka á móti atkvæðakössum og annast talningu atkvæða fyrir afmarkaðan hluta kjördæmisins á öðrum stað en aðsetri yfirkjörstjórnar.

Vafaatkvæði: Atkvæði með öðrum merkingum en greinilegri merkingu við framboðslista, frambjóðanda eða svarkost. Vafaatkvæði skal taka til hliðar við talningu og eru tekin til úrskurðar yfirkjörstjórnar að viðstöddum umboðsmönnum.

II. KAFLI Aðdragandi atkvæðatalningar.

5. gr. Auglýsing talningar.

Yfirkjörstjórn skal auglýsa a.m.k. sjö dögum fyrir kjördag hvar og hvenær talning atkvæða í kosningum fari fram. Auglýsingin skal birt á vef landskjörstjórnar og í þeim dagblöðum sem gefin eru út á landsvísu og koma út að lágmarki fjórum sinnum í viku. Jafnframt er heimilt að auglýsa hana víðar, svo sem í staðarblöðum eða öðrum fjölmiðlum. Fyrir sveitarstjórnarkosningar er yfirkjörstjórn þó heimilt að auglýsa talninguna eingöngu á vef sveitarfélags.

Yfirkjörstjórn skal með sama fyrirvara tilkynna umboðsmönnum framboðslista, t.d. með tölvupósti, um hvar og hvenær flokkun og undirbúningur talningar fari fram, sbr. 10. gr., og atkvæðatalning, sbr. 11. gr.

Yfirkjörstjórn skal bóka auglýsingu talningar og tilkynningu til umboðsmanna skv. 1. og 2. mgr. í gerðabók.

6. gr. Talningarstaður og aðföng.

Yfirkjörstjórn skal velja hentugt húsnæði fyrir talningu atkvæða þar sem er gott aðgengi, nægt rými fyrir alla verkþætti talningar með aðstöðu fyrir yfirkjörstjórn, starfsfólk, umboðsmenn, kosningaeftirlitsmenn, fjölmiðla og almenning sem vill fylgjast með atkvæðatalningu. Húsnæðið skal vera þannig búið að hægt sé að loka, læsa og innsigla talningarsal.

Yfirkjörstjórn skal tryggja að nauðsynleg aðföng séu til staðar áður en talning hefst, þ.m.t. nægur fjöldi borða og stóla, ílát til blöndunar atkvæða fyrir talningu, ílát til geymslu atkvæða eftir talningu og skrifstofuvörur.

7. gr. Starfsfólk.

Yfirkjörstjórn skal ráða starfsfólk til talningar atkvæða. Yfirkjörstjórn er heimilt að fela sveitarstjórn að ráða starfsfólk í atkvæðatalningu.

Yfirkjörstjórn skal tryggja að starfsfólk hafi fengið fræðslu og þjálfun í talningu atkvæða. Áður en flokkun og undirbúningur talningar atkvæða hefst skal yfirkjörstjórn halda upplýsingafund með starfsfólki þar sem farið er yfir fyrirkomulag talningar, verkefni starfsfólks, þær reglur sem gilda á talningarstað, hlutverk umboðsmanna og annað það sem yfirkjörstjórn telur rétt að upplýsa starfsfólk talningar um.

Starfsfólk talningar skal undirrita yfirlýsingu um að halda trúnað um persónuupplýsingar sem það kann að verða áskynja um í störfum sínum.

Yfirkjörstjórn skal tilnefna talningarstjóra. Talningarstjóri skal hafa yfirumsjón með talningarferlinu og vera tengiliður yfirkjörstjórnar við starfsfólk talningar.

8. gr. Upplýsingafundur með umboðsmönnum.

Áður en flokkun og undirbúningur talningar atkvæða hefst skal yfirkjörstjórn halda upplýsingafund með umboðsmönnum þar sem farið er yfir hlutverk yfirkjörstjórnar og hlutverk umboðsmanna, þær reglur sem gilda á talningarstað, heimildir umboðsmanna til að kanna frágang atkvæðakassa og innsigli, gera athugasemdir við framkvæmd talningar og ágreining um úrskurð yfirkjörstjórnar um vafaatkvæði og annað það sem yfirkjörstjórn telur rétt að upplýsa umboðsmenn um.

Yfirkjörstjórn skal tilnefna einn úr sínum röðum til að vera tengiliður við umboðsmenn á talningarstað.

9. gr. Kosningaeftirlit.

Yfirkjörstjórn er skylt að taka á móti kosningaeftirlitsmönnum á talningarstað sem hafa fengið heimild landskjörstjórnar til þess að fylgjast með framkvæmd kosninga skv. 138. gr. kosningalaga.

Kosningaeftirlitsmenn skulu bera skilríki sem landskjörstjórn hefur látið þeim í té við störf sín og sýna sé þess krafist.

Yfirkjörstjórn skal veita kosningaeftirlitsmönnum þær upplýsingar sem óskað er eftir og auðvelda þeim allt eftirlitsstarf.

Kosningaeftirlitsmönnum er skylt að hlíta fyrirmælum og fundarreglum yfirkjörstjórnar.

III. KAFLI Framkvæmd talningar.

10. gr. Flokkun og undirbúningur talningar fyrir luktum dyrum.

Heimilt er að hefja flokkun atkvæða og undirbúa talningu þeirra áður en kjörfundi lýkur.

Flokkun atkvæða og undirbúningur talningar þeirra skal fara fram fyrir luktum dyrum og byrgðum gluggum á talningarstað. Skal rýmið lokað, innsiglað og vaktað af hálfu yfirkjörstjórnar þar til kjörfundi er lokið.

Öllum þeim sem starfa við framkvæmd flokkunar og undirbúning talningar og umboðsmönnum lista er óheimilt að hafa með sér inn í talningarsal síma, tölvu eða annað fjarskiptatæki. Sama á við um hvers konar myndavélar og hljóðupptökutæki. Neiti einhver að afhenda slík tæki er viðkomandi óheimilt að vera viðstaddur flokkun og undirbúning talningar. Sama á við ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi aðili hafi slíkt tæki í fórum sínum.

Talningarstjóra er heimilt að nota tölvu við afstemmingu og til að halda utan um talninguna. Yfirkjörstjórn skal ganga úr skugga um að tölvan sé ekki tengd neti eða öðrum fjarskiptabúnaði.

11. gr. Talning fyrir opnum dyrum.

Talning atkvæða hefst svo fljótt sem verða má að kjörfundi loknum og fyrir opnum dyrum. Skal almenningi veittur kostur á að vera viðstaddur talningu atkvæða, eftir því sem húsrúm leyfir, á skilgreindu áhorfendasvæði á talningarstað. Viðstöddum ber að hlíta fyrirmælum yfirkjörstjórnar og starfsfólks hennar á talningarstað.

Yfirkjörstjórn er heimilt að vísa hverjum þeim af talningarstað sem beitir eða hótar að beita ofbeldi, kemur fram með ógnandi eða ósæmandi hegðun eða hvers konar háttsemi, sem veldur röskun eða truflun á flokkun eða talningu atkvæða.

12. gr. Móttaka atkvæðakassa og kjörgagna.

Um móttöku atkvæðakassa og kjörgagna frá kjördeildum skal bókað í gerðabók. Skrá skal hverjir afhenda gögn og skulu viðkomandi staðfesta afhendinguna með undirritun sinni.

Gengið skal úr skugga um að atkvæðakassar séu heilir og innsigli ósködduð. Umboðsmönnum er heimilt að skoða frágang atkvæðakassa og innsigli.

Hafi yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn verið viðstödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis og á sama stað má kjörstjórn afhenda yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn atkvæðakassa að viðstöddum umboðsmönnum án þess að innsigla atkvæðakassa til viðbótar þeim innsiglum sem greinir í 79. gr. kosningalaga.

13. gr. Afstemming atkvæðakassa.

Atkvæði úr hverjum atkvæðakassa skulu talin og fjöldi þeirra stemmdur af við fjölda kjósenda sem greitt hafa atkvæði samkvæmt upplýsingum úr gerðabókum undirkjörstjórnar og skráðar athugasemdir undirkjörstjórnar. Einnig skal fjöldi atkvæða úr hverjum atkvæðakassa stemmdur af við fjölda afhentra atkvæðaseðla, ónotaðra atkvæðaseðla sem skilað er og þeirra atkvæðaseðla sem hafa ónýst. Bóka skal um afstemmingu atkvæðakassa í gerðabók yfirkjörstjórnar.

Komi fram misræmi í fjölda atkvæða í kassa við upplýsingar og gerðabækur undirkjörstjórnar skulu atkvæði endurtalin. Ef a.m.k. tvær sjálfstæðar viðbótartalningar atkvæða staðfesta fjölda atkvæða í atkvæðakassa er yfirkjörstjórn heimilt að setja atkvæði í flokkun og talningu. Skal yfirkjörstjórn, eftir atvikum í samvinnu við undirkjörstjórn, leita skýringa á misræmi og bóka hana ef talin er þörf á.

14. gr. Blöndun atkvæðaseðla.

Eftir afstemmingu atkvæðakassa skulu þeir tæmdir í hæfilega stórt, tómt ílát og skal þess gætt að atkvæðaseðlar frá einstökum kjörstöðum og kjördeildum blandist vel saman.

15. gr. Flokkun atkvæða.

Eftir blöndun atkvæðaseðla skulu þeir teknir úr ílátinu og flokkaðir af starfsfólki.

Við alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar skal flokka atkvæðaseðla eftir listabókstöfum sem við er merkt á hverjum seðli. Halda skal breyttum atkvæðaseðlum hvers lista fyrir sig aðgreindum. Einnig skal halda auðum atkvæðum, ógildum atkvæðum og vafaatkvæðum aðgreindum.

Við forsetakjör skal flokka atkvæðaseðla eftir frambjóðendum. Halda skal auðum atkvæðum, ógildum atkvæðum og vafaatkvæðum aðgreindum.

Við þjóðaratkvæðagreiðslur skal flokka atkvæðaseðla eftir svarkostum. Halda skal auðum atkvæðum, ógildum atkvæðum og vafaatkvæðum aðgreindum.

Atkvæði skulu að minnsta kosti flokkuð í tveimur umferðum. Tryggja skal að starfsfólk sem flokkar atkvæði í fyrri umferð komi ekki að flokkun sömu atkvæða í síðari umferð.

Að lokinni flokkun atkvæða skal talningarstjóri ásamt aðstoðarmanni flytja flokkuð atkvæði eftir merkingu framboðslista, frambjóðenda eða svarkosta á fráleggsborð. Breyttir atkvæðaseðlar hvers framboðslista eru lagðir sér með viðkomandi lista. Gæta skal þess að atkvæði mismunandi aðila geti ekki blandast saman eftir flokkun og skilið sé á milli framboðslista, frambjóðenda og svarkosta.

16. gr. Talning atkvæða.

Þegar talning hefst hverju sinni skulu atkvæðaseðlar taldir í hæfilega bunka og settir í teygju með miða þar sem fjöldi atkvæða er tilgreindur. Atkvæðaseðlar sem ekki ná viðmiði heils bunka skulu settir í teygju og merktir með miða þar sem fjöldi atkvæða er tilgreindur. Atkvæðaseðlar skulu því næst endurtaldir af öðrum starfsmanni. Báðir talningarmenn skulu árita miða sem settir eru á bunkann með upphafsstöfum sínum þannig að ljóst sé að bunkinn hafi verið talinn tvívegis af sitthvorum talningarmanninum. Miðar skulu merktir í áframhaldandi töluröð og skráðir undir því númeri í skrá yfirkjörstjórnar þannig að hægt sé að rekja hvern bunka fyrir sig.

Að lokinni talningu skal bunkum með atkvæðaseðlum komið fyrir á borði fyrir talin atkvæði þar sem þeir eru skráðir og fjöldi þeirra lagður saman. Fjöldi talinna atkvæða skal stemmdur við fjölda atkvæða sem komu til talningar hverju sinni.

Niðurstöðu talningar skal skrá í talningarblað sem landskjörstjórn lætur yfirkjörstjórnum í té. Þá skal yfirkjörstjórn skrá hvern atkvæðabunka og niðurstöður talningar í tölvuskrá sem heldur utan um heildarfjölda talinna atkvæða.

17. gr. Meðferð utankjörfundaratkvæða.

Yfirkjörstjórn tekur til úrskurðar atkvæðasendingar utan kjörfundar sem hún hefur móttekið á grundvelli 95. gr. kosningalaga. Umboðsmönnum er heimilt að vera viðstaddir úrskurði yfirkjörstjórnar.

Bóka skal í gerðabók hversu margar atkvæðasendingar utan kjörfundar eru teknar til greina, hversu margar eru ekki teknar til greina og af hvaða ástæðu, sbr. 94. gr. kosningalaga. Landskjörstjórn skal útbúa eyðublað fyrir yfirkjörstjórnir að nota í þessum tilgangi.

Atkvæðasending utan kjörfundar sem yfirkjörstjórn hefur úrskurðað að skuli tekin til greina skal send til talningar þar sem atkvæðið er tekið úr kjörseðilsumslagi og farið með samkvæmt ákvæðum 14.-16. gr.

18. gr. Flokkun og talning atkvæða við óbundnar kosningar.

Um móttöku atkvæðakassa og afstemmingu við óbundnar kosningar skal fara skv. 12. og 13. gr.

Flokkun og talning atkvæða við óbundnar kosningar fer þannig fram að talin eru atkvæði sem hver kjósandi fær. Nöfn á atkvæðaseðli skulu lesin upp og samtímis gætir annar starfsmaður þess að rétt sé lesið. Að minnsta kosti tveir starfsmenn skulu skrá hverjir hafa hlotið atkvæði. Atkvæði greitt einstaklingi sem hefur tilkynnt að hann skorist undan endurkjöri skal teljast ógilt atkvæði en atkvæði á sama atkvæðaseðli greitt öðrum einstaklingi verða ekki ógild af þeirri ástæðu.

Um úrslit óbundinna kosninga er fjallað í 118. gr. kosningalaga.

19. gr. Vafaatkvæði og ágreiningsatkvæði.

Yfirkjörstjórn úrskurðar um gildi vafaatkvæða sem berast úr talningu með vísan til 102.-105. gr. kosningalaga í viðurvist umboðsmanna. Úrskurða skal um vafaatkvæði jafnóðum og þau koma fyrir en eigi síðar en við lok hverrar talningar fyrir sig. Yfirkjörstjórn getur ákveðið að fyrstu úrskurðir hennar um vafaatkvæði skapi fordæmi fyrir starfsfólk talningar um hvernig flokka beri atkvæði.

Nú kemur yfirkjörstjórn, eftir atvikum umdæmiskjörstjórn, og umboðsmönnum lista saman um að einhver kjörseðill sé ógildur og skal hann þá talinn ógildur.

Verði ágreiningur um gildi kjörseðils skal úrskurða hann jafnóðum og hann kemur fyrir. Verði ágreiningur innan yfirkjörstjórnar um gildi kjörseðils skal afl atkvæða ráða úrslitum og atkvæðið talið í samræmi við úrskurðinn. Leyst skal úr ágreiningi milli yfirkjörstjórna og umboðsmanna um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur á svofelldan hátt:

  1. Við alþingiskosningar skulu ágreiningsseðlar sendir landskjörstjórn sem leggur þá fyrir Alþingi sem úrskurðar um gildi þeirra. Verði ágreiningur innan umdæmiskjörstjórnar eða á milli umdæmiskjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort kjörseðill er gildur eða ógildur skal umdæmiskjörstjórnin senda hann til yfirkjörstjórnar sem úrskurðar um gildi hans.
  2. Við sveitarstjórnarkosningar sker yfirkjörstjórn úr.
  3. Við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslu skulu ágreiningsseðlar, ásamt atkvæðaseðlum sem ágreiningur hefur orðið um innan yfirkjörstjórnar, sendir landskjörstjórn sem úrskurðar um gildi þeirra.

Ágreiningsseðlar skulu lagðir í tvö sérstök umslög. Í annað skal leggja þá atkvæðaseðla sem yfirkjörstjórn hefur úrskurðað gilda og í hitt þá atkvæðaseðla sem hún hefur úrskurðað ógilda. Með ágreiningsseðlunum skal fylgja skýring á úrskurði yfirkjörstjórnar með vísan til 102.-105. gr. kosningalaga og upplýsingar um þann ágreining sem umboðsmaður gerði um atkvæðaseðilinn. Landskjörstjórn skal útbúa eyðublað fyrir yfirkjörstjórnir að nota í þessum tilgangi. Að talningu lokinni skal umslögum með ágreiningsseðlum lokað með innsigli yfirkjörstjórnar og eiga umboðsmenn lista rétt á að setja einnig fyrir þau sín innsigli.

Ágreiningsseðlum skal haldið aðgreindum frá gildum og ógildum kjörseðlum.

Bóka skal í gerðabók hve margir kjörseðlar, sem teknir eru til úrskurðar, eru gildir og hvaða framboðslista, frambjóðanda eða svarkosti atkvæðið teljist greitt. Einnig skal bóka í gerðabók hve margir kjörseðlar teljist ógildir og af hvaða ástæðu.

Landskjörstjórn skal útvega yfirkjörstjórnum leiðbeiningar um mat á vafaatkvæðum í kosningum.

20. gr. Hlé gert á talningu.

Sé hlé gert á fundi yfirkjörstjórnar eða fundi hennar frestað á meðan talning stendur yfir skal innsigla notaða og ónotaða kjörseðla ásamt öðrum kjörgögnum.

21. gr. Niðurstöður talningar kunngerðar.

Þegar atkvæði hafa verið talin saman undir eftirliti umboðsmanna og kosningaeftirlitsmanna, ef við á, færir yfirkjörstjórn niðurstöðu kosninganna í gerðabók og kunngerir hana þeim sem viðstaddir eru og landskjörstjórn. Skal þess getið sérstaklega hve margir atkvæðaseðlar eru auðir og hve margir ógildir og hver kjörsókn var.

Yfirkjörstjórn getur ákveðið að tilkynna um niðurstöður talningar eftir því sem henni vindur fram. Bóka skal uppgefnar millitölur talningar í gerðabók.

IV. KAFLI Umboðsmenn.

22. gr. Viðvera umboðsmanna.

Umboðsmönnum er heimilt að vera viðstaddir flokkun og undirbúning talningar áður en kjörfundi lýkur. Umboðsmönnum er jafnframt heimilt að vera viðstaddir flokkun og talningu atkvæða eftir að kjörfundi lýkur.

Umboðsmenn skulu við framkvæmd eftirlits við flokkun og talningu atkvæða fara að fyrirmælum yfirkjörstjórnar, þ.m.t. að vera á tilgreindum svæðum á talningarstað og bera sérstök skilríki eða önnur auðkenni sem yfirkjörstjórn hefur látið þeim í té.

Umboðsmönnum er óheimilt að eiga við atkvæði á talningarstað, koma við þau eða eiga bein samskipti við starfsfólk sem vinnur að flokkun og talningu, nema yfirkjörstjórn heimili annað. Umboðsmenn lista, undir umsjón tengiliðs skv. 8. gr., skulu hafa aðgang að því að sannreyna rétta flokkun atkvæða með þeim hætti sem yfirkjörstjórn ákveður.

Umboðsmönnum er óheimilt að stöðva, tefja eða spilla framkvæmd flokkunar og talningar.

Allar athugasemdir sem umboðsmenn gera við framkvæmd flokkunar og talningar skulu þeir gera við yfirkjörstjórn.

Séu umboðsmenn framboðslista ekki viðstaddir talningu eða undirbúning hennar skal yfirkjörstjórn kalla til fólk úr sama framboði, ef unnt er, til að gæta réttar listans.

23. gr. Bókanir umboðsmanna.

Telji umboðsmaður eitthvað ólöglegt við talningu atkvæða og fær það ekki leiðrétt hjá yfirkjörstjórn á umboðsmaður rétt á að fá ágreiningsefnið bókað þegar í stað í gerðabók, sbr. 57. gr. kosningalaga.

Umboðsmaður skal afhenda yfirkjörstjórn skriflega bókun þar sem glögglega er greint frá því ágreiningsefni sem færa skal í gerðabók. Yfirkjörstjórn getur þó ákveðið að bóka styttri munnlega athugasemd umboðsmanns eða heimilað umboðsmanni sjálfum að bóka ágreiningsefnið í gerðabók.

Neiti yfirkjörstjórn að bóka eitthvað vegna talningarinnar á umboðsmaður rétt á að bóka það sjálfur og undirrita, sbr. 57. gr. kosningalaga.

Allar bókanir umboðsmanna skulu vera á íslensku.

24. gr. Brottvísun umboðsmanns af talningarstað.

Fylgi umboðsmaður ekki lögum og reglugerðum, fundarreglum eða öðrum fyrirmælum yfirkjörstjórnar, eða viðhefur hegðun eða háttsemi, sem veldur röskun eða truflun á framkvæmd kosninganna, eða flokkun og talningu atkvæða, skal yfirkjörstjórn áminna umboðsmanninn. Skal um slíka áminningu og grundvöll hennar bókað í gerðabók.

Láti umboðsmaður ekki af háttsemi skv. 1. mgr., sinni ekki áminningu, beiti eða hóti ofbeldi, sýni af sér ógnandi hegðun, eða viðhafi aðra háttsemi sem veldur stórfelldri röskun eða truflun á flokkun og talningu atkvæða, er yfirkjörstjórn heimilt að vísa umboðsmanni af talningarstað sé kjörfundi lokið. Skal um slíka brottvísun og grundvöll hennar bókað í gerðabók.

Við brottvísun samkvæmt 2. mgr. skal yfirkjörstjórn upplýsa aðra umboðsmenn listans eða oddvita framboðslistans um brottvísun, og mælast til þess að framboðslistinn skipi nýjan umboðsmann í stað þess sem vísað hefur verið brott.

V. KAFLI Kosningaskýrslur.

25. gr. Kosningaskýrsla alþingiskosninga.

Að lokinni talningu atkvæða skal yfirkjörstjórn kjördæmis skila skýrslu til landskjörstjórnar með upplýsingum um atkvæðafjölda hvers framboðslista, fjölda greiddra atkvæða og fjölda ógildra og auðra seðla. Landskjörstjórn lætur yfirkjörstjórnum í té rafrænt eyðublað fyrir skýrslugerðina.

Að fengnum fyrri hluta kosningaskýrslna úr öllum kjördæmum, sbr. 1. mgr., færir landskjörstjórn röðunartölur hvers framboðslista inn á eyðublaðið og sendir yfirkjörstjórnum. Því næst skráir yfirkjörstjórn fjölda breyttra atkvæðaseðla og breytingar á þeim inn í skýrsluna og sendir landskjörstjórn að jafnaði daginn eftir kjördag.

Að fengnum seinni hluta kosningaskýrslna úr öllum kjördæmum, sbr. 2. mgr., skal landskjörstjórn útbúa skýrslu um niðurstöður kosninganna, úthlutun þingsæta við alþingiskosningarnar, næmisgreiningu og yfirlit yfir þingmenn og varaþingmenn eftir kjördæmum. Landskjörstjórn skal einnig útbúa skýrslu um úrslit kosninganna í hverju kjördæmi fyrir sig. Skýrslurnar skulu lagðar fyrir landskjörstjórn til samþykktar á úthlutunarfundi skv. 108. gr. kosningalaga og að því loknu birtar á vef landskjörstjórnar.

26. gr. Kosningaskýrsla sveitarstjórnarkosninga.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags skal reikna út kosningaúrslit skv. 116.-118. gr. kosningalaga.

Yfirkjörstjórn skal senda nýkjörinni sveitarstjórn og landskjörstjórn greinargerð um úrslit kosninganna. Landskjörstjórn lætur yfirkjörstjórnum í té eyðublað fyrir skýrslugerðina.

27. gr. Kosningaskýrsla forsetakjörs og þjóðaratkvæðagreiðslna.

Að lokinni talningu atkvæða skal yfirkjörstjórn kjördæmis senda landskjörstjórn skýrslu um niðurstöðu talningar ásamt ágreiningsseðlum.

Landskjörstjórn gefur út skýrslu um niðurstöður forsetakjörs og þjóðaratkvæðagreiðslu þegar kosningaúrslitum hefur verið lýst skv. 120. gr. kosningalaga.

VI. KAFLI Frágangur að lokinni talningu.

28. gr. Trygg varðveisla kjörgagna.

Eftir að niðurstöður talningar hafa verið kunngjörðar skal gengið frá notuðum og ónotuðum atkvæðaseðlum og kjörskrám í hæfileg ílát og þau innsigluð. Gildum og ógildum kjörseðlum skal haldið aðgreindum.

Ílátum með innsigluðum atkvæðaseðlum og kjörskrám skal komið fyrir í öruggri innsiglaðri geymslu og skrá yfirlýsingu þar um í gerðabók.

29. gr. Eyðing kjörgagna.

Atkvæðaseðla og kjörskrár skal geyma þar til kærufrestur kosninga er liðinn eða fullnaðarúrskurður um gildi þeirra hefur verið uppkveðinn enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra.

Eigi síðar en ári eftir kjördag skal yfirkjörstjórn eyða hinum innsigluðu atkvæðaseðlum og kjörskrám enda sé þá ágreiningsmálum um gildi eða framkvæmd kosninganna lokið, og skrá yfirlýsingu þar um í gerðabók.

VII. KAFLI Lokaákvæði.

30. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. 3. mgr. 81. gr., 4. mgr. 99. gr. og 6. mgr. 105. gr. kosningalaga nr. 112/2021, að fengnum tillögum landskjörstjórnar, og tekur þegar gildi.

 Dómsmálaráðuneytinu, 8. apríl 2022. 

 F. h. r.

 Haukur Guðmundsson. 

 Bryndís Helgadóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.