Fara beint í efnið

Prentað þann 5. nóv. 2024

Stofnreglugerð

430/2007

Reglugerð um bann við notkun asbests á vinnustöðum.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um alla starfsemi sem fellur undir lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og þar sem asbest og vörur sem hafa asbest að geyma eru notaðar, framleiddar og meðhöndlaðar á einhvern hátt.

Reglugerðin gildir fyrir vörur sem innihalda asbest sem óhreinindi ef hlutur asbests er 1% eða meiri.

Um innflutning, notkun og meðhöndlun asbests að öðru leyti en því sem tilgreint er í þessari reglugerð gildir reglugerð um takmarkanir á innflutningi, notkun og meðhöndlun asbests, nr. 870/2000.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að fyrirbyggja atvinnusjúkdóma sem innöndun asbestryks getur haft í för með sér.

3. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari merkir hugtakið "asbest" eftirfarandi þráðlaga, kristölluð sílikatsambönd:

CAS nr. (Chemical Abstract Service)
Krýsótíl (hvítt asbest) 12001-29-5
Krókídólít (blátt asbest) 12001-28-4
Asbest - grúnerít (amósít) (brúnt asbest) 12172-73-5
Asbest - antófyllít 77536-67-5
Asbest - tremólít 77536-68-6
Asbest - aktínólít 77536-66-4

4. gr. Bann við notkun asbests.

Notkun asbests á vinnustöðum er óheimil.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur Vinnueftirlit ríkisins veitt heimild til niðurrifs á byggingum, byggingarhlutum, vélum eða öðrum búnaði sem inniheldur asbest, sbr. einnig 1. mgr. 7. gr.

Leiki vafi á hvort asbest sé til staðar við niðurrif eða aðra vinnu skal fara fram greining á viðkomandi efni eða búnaði svo gera megi viðeigandi ráðstafanir sé um asbest að ræða.

5. gr. Umbúðir, merkingar og viðvaranir.

Asbest og asbestvörur til viðhalds eða viðgerða á vélum eða öðrum búnaði skulu vera hreinar og í umbúðum eða meðhöndlaðar þannig að komið sé í veg fyrir rykmyndun við geymslu, flutning og notkun. Slíkar vörur skulu afgreiddar tilbúnar til ísetningar eftir því sem kostur er.

Asbest og asbestvörur skulu greinilega merktar af framleiðanda eða innflytjanda í samræmi við reglugerð nr. 870/2000.

Þar sem unnið er með asbest, sbr. 1. mgr. 4. gr., skulu festar upp viðvaranir um hættu af völdum asbestryks og leiðbeiningar um starfshætti sem samræmast reglugerð þessari. Starfsmenn sem vinna við asbest skulu fræddir um þær hættur sem innöndun asbestryks hefur í för með sér.

6. gr. Varnir gegn asbestmengun.

Öll vinna við asbest og vörur sem innihalda asbest skal fara þannig fram að rykmengun frá þeim sé svo lítil sem kostur er. Fjarlægja skal ryk frá þeim stað sem það myndast með vélknúinni loftræstingu.

Gæta skal þess að asbestmengað loft frá vélknúinni loftræstingu sé ekki endurnýtt. Asbestmengað loft skal hreinsað áður en því er blásið út í andrúmsloftið með þar til gerðum búnaði sem Umhverfisstofnun viðurkennir. Reglulegt eftirlit skal vera með loftræstikerfum og þau hreinsuð eftir þörfum.

Vinnueftirlit ríkisins getur gefið nánari fyrirmæli um varnir gegn asbestmengun í einstökum tilvikum.

Asbestryk og úrgangur sem inniheldur asbest skal geymdur í þéttum, merktum lokuðum ílátum og fluttur þannig til förgunar.

Eigi má farga asbesti nema að fengnu leyfi heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags.

Nauðsynlegar notkunar- og öryggisleiðbeiningar skulu vera til staðar þar sem unnið er með asbest eða asbestvörur.

Við alla vinnu þar sem hætta er á asbestmengun skulu starfsmenn nota öndunargrímur af viðurkenndri gerð. Við undirbúning fyrir vinnu við asbest og við vinnu með asbest þegar lítil hætta er á að asbestþræðir losni út í andrúmsloftið skal nota heilgrímu með síu af gerðinni P3. Við aðra asbestvinnu skal nota heilgrímu með rafmagnsdælu sem dregur loft í gegnum síu (P3) og dælir því inn í grímuna eða heilgrímu sem tengd er við ferskloftsbúnað.

Taka skal tillit til aukins álags sem notkun öndunargrímu hefur í för með sér fyrir starfsmann þannig að hæfileg hlé séu gerð á vinnunni þegar þörf er á notkun þeirra.

Í vinnu með asbest og vörur sem innihalda asbest skulu starfsmenn vera klæddir sérstökum vinnufatnaði sem tekur ekki í sig ryk.

Starfsmenn skulu skipta reglulega um vinnuföt og fara úr þeim í matarhléum og strax að lokinni vinnu.

Hver starfsmaður skal hafa aðgang að tveimur fataskápum þar sem annar er fyrir gönguföt og hinn fyrir vinnuföt.

Starfsmenn sem vinna við asbest skulu hafa aðgang að steypibaði að lokinni vinnu.

Óheimilt er að einstaklingar yngri en 18 ára vinni við asbest og vörur úr asbesti.

Vinnustaður þar sem notað er asbest eða vörur sem innihalda asbest skal þrifinn svo oft sem þörf krefur. Við þrif skulu notaðar ryksugur af viðurkenndri gerð eða aðrar aðferðir sem takmarka rykmengun. Asbestmenguð vinnuföt skal ekki geyma eða þvo með öðrum fatnaði.

7. gr. Vinna við niðurrif og viðhald.

Áður en vinna hefst við niðurrif eða viðhald á asbesti í byggingum, vélum eða öðrum búnaði, sem veitt hefur verið undanþága fyrir skv. 4. gr., skal leggja verkáætlun fyrir Vinnueftirlit ríkisins til samþykktar. Vinna við niðurrif eða viðhald er ekki heimil nema fyrir liggi samþykkt Vinnueftirlitsins á viðkomandi verkáætlun. Í verkáætluninni skulu koma fram a.m.k. þær upplýsingar sem taldar eru upp í I. viðauka. Verkáætlun getur fylgt umsókn þegar sótt er um undanþágu skv. 4. gr.

Sá sem vinna á verkið skal sækja um undanþágu og leggja fyrir verkáætlun. Ekki er leyfilegt að handsala leyfi til þriðja aðila.

Aðeins þeir sem sótt hafa námskeið á vegum Vinnueftirlits ríkisins eða sem Vinnueftirlitið hefur samþykkt mega vinna við niðurrif eða viðhald á asbesti.

Nota skal vinnuaðferðir og verkfæri sem hafa sem minnsta rykmyndun í för með sér. Verkfæri sem valda rykmengun við notkun skulu útbúin með afkastamiklu innbyggðu afsogi. Ekki er leyfilegt að nota háþrýstisprautun við asbestvinnu.

Starfsmenn skulu klæðast sérstökum vinnufatnaði og þar með töldum höfuðbúnaði sem ekki tekur í sig ryk og nota viðeigandi öndunargrímur.

Starfsmenn skulu skipta reglulega um vinnuföt og fara úr þeim í matarhléum og strax að lokinni vinnu. Asbestmenguð vinnuföt skal ekki geyma eða þvo með öðrum fatnaði.

Sérhver starfsmaður skal fá til afnota eigin öndunargrímu. Við undirbúning fyrir vinnu við asbest og við vinnu með asbest þegar lítil hætta er á að asbestþræðir losni út í andrúmsloftið skal nota heilgrímu með síu af gerðinni P3. Við aðra asbestvinnu skal nota heilgrímu með rafmagnsdælu sem dregur loft í gegnum síu (P3) og dælir því inn í grímuna eða heilgrímu sem tengd er við ferskloftsbúnað.

Taka skal tillit til aukins álags sem notkun öndunargrímu hefur í för með sér fyrir starfsmann þannig að hæfileg hlé séu gerð á vinnunni þegar þörf er á notkun þeirra.

Svæði þar sem unnið er við niðurrif eða viðhald skal lokað af á öruggan hátt fyrir óviðkomandi. Setja skal upp viðvörunarskilti með eftirfarandi texta: "VARÚÐ. Asbestvinna. Óviðkomandi bannaður aðgangur."

Við niðurrif þar sem hætta er á mikilli asbestmengun skal svæðið lokað af með þéttu efni sem hindrar dreifingu á asbestryki út fyrir það. Aðgangur að svæðinu skal vera í gegnum sérstakan loftræstan gang. Loftræsting svæðisins skal vera þannig að undirþrýstingur hindri dreifingu á ryki í annað svæði. Endurnýting á afsogslofti frá svæðinu er ekki heimil.

Við niðurrif inni í byggingum skal í nálægð við niðurrifssvæðið setja upp tvö búningsherbergi, eitt fyrir vinnufatnað og eitt fyrir gönguföt, ásamt þvotta- og baðklefa með steypibaði. Búningsherbergin skulu þannig staðsett að einungis sé hægt að fara á milli þeirra í gegnum þvotta- og baðklefann.

Við aðra niðurrifs- og viðhaldsvinnu skal í nánum tengslum við vinnusvæðið vera aðgangur að búningsherbergjum með aðstöðu til að geyma vinnufatnað aðskilin frá göngufötum. Í búningsherbergjunum skal vera handlaug með heitu og köldu vatni. Aðgangur skal vera að steypibaði með heitu og köldu vatni.

Þrífa skal vinnusvæðið vandlega, bæði meðan á niðurrifi stendur og sérstaklega við verklok. Þrif skulu fara fram með ryksugu með síu fyrir asbestryk. Ef nauðsynlegt þykir skulu gerðar mengunarmælingar í samráði við Vinnueftirlit ríkisins til að leggja mat á hvort þrif hafi verið fullnægjandi.

8. gr. Mengunarmörk og mælingar.

Í reglum um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum eru ákvæði sem segja til um leyfilegan fjölda asbestþráða í andrúmslofti starfsmanna í þeim tilvikum er undanþága hefur verið veitt til notkunar eða meðhöndlunar asbests.

Atvinnurekandi skal í samráði við Vinnueftirlit ríkisins láta fara fram mælingu á asbestryki í andrúmslofti starfsmanna. Ekki er nauðsynlegt að láta fara fram mælingu ef Vinnueftirlitið telur ekki þörf á því vegna lítillar hættu á asbestmengun.

Til að tryggja að viðmiðunarmörkum þeim sem sett eru í reglum um mengunarmörk sé hlítt skal asbest í andrúmslofti á vinnustað mælt með aðferð þeirri sem vísað er til í II. viðauka eða einhverri annarri aðferð er gefur jafngildar niðurstöður.

Við mælingar á asbesti í andrúmslofti, sbr. 3. mgr., skal einungis taka til greina trefjar sem eru meira en fimm míkrómetra langar og þar sem hlutfallið milli lengdar og breiddar er hærra en 3:1.

Starfsmenn eða fulltrúar þeirra innan fyrirtækis eða stofnunar þar sem unnið er með asbest skulu hafa aðgang að niðurstöðum mælinga á asbestmagni í andrúmslofti og þeim skulu standa til boða skýringar á þýðingu niðurstaðnanna.

9. gr. Heilsufarseftirlit.

Í þeim tilvikum sem veitt hefur verið undanþága fyrir vinnu með asbest verður að liggja fyrir mat á heilsufari allra starfsmanna áður en þeir hefja vinnu við asbest, sbr. 4. gr. Í mati þessu skal felast sérstök brjóstholsskoðun. Í III. viðauka er að finna hagnýt ráð sem taka má mið af í tengslum við klínískt eftirlit starfsmanna.

Nýtt mat verður að liggja fyrir að minnsta kosti þriðja hvert ár á meðan starfsmenn vinna með asbest.

Halda skal skýrslur um heilsufar einstaklinga í samræmi við lög og reglur og á það við um alla starfsmenn sem um er getið í 1. mgr.

Í kjölfar þess klíníska eftirlits sem um getur í 1. mgr. ber atvinnurekanda að sjá til þess að læknir eða sá aðili sem annast heilsueftirlit starfsmanna veiti ráð um allar verndar- og forvarnaráðstafanir sem gera ætti með tilliti til hvers einstaklings. Þar sem við á geta þær ráðleggingar til dæmis falist í því að hlutaðeigandi starfsmaður verði færður á annan stað þar sem ekki er unnið með asbest.

Veita skal starfsmönnum upplýsingar og ráð er varða hvers konar mat á heilsufari þeirra eftir að þeir verða ekki lengur fyrir mengun af asbesti.

10. gr. Skráning og varðveisla gagna.

Atvinnurekandi skal halda skrá yfir starfsmenn í viðvarandi asbestvinnu þar sem lýst er eðli vinnu þeirra og lengd vinnutíma og þeirri mengun sem þeir hafa orðið fyrir. Læknir sá eða yfirvald sem ber ábyrgð á heilsueftirliti skal hafa aðgang að skrá þessari. Sérhver starfsmaður skal hafa aðgang að þeim upplýsingum í skránni sem hann varða. Starfsmenn eða fulltrúar þeirra skulu hafa aðgang að sameiginlegum upplýsingum í skránni sem ekki tengjast einstaklingum.

Geyma ber skrána sem um getur í 1. mgr. og heilsufarsskýrslurnar sem um getur í 9. gr. í 40 ár hið minnsta eftir að starfsmaður varð síðast fyrir mengun í samræmi við lög og reglur. Sé starfsemin lögð niður skal koma skránum sem um getur í 1. mgr. til Vinnueftirlits ríkisins til varðveislu.

Vinnueftirlit ríkisins skal halda skrá yfir tilfelli sem greinast af asbestveiki (asbestosis) og iðraþekjuæxli (mesothelioma).

11. gr. Kæruheimild.

Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til félagsmálaráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga, nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

12. gr. Viðurlög.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

13. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 38., 39., 50. og 51. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið með hliðsjón af ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, 4. tölulið, XVIII. viðauka, tilskipun nr. 83/477/EBE eins og henni var breytt með tilskipun nr. 91/382/EBE og 2003/18/EBE um verndun starfsmanna vegna mengunar af asbesti á vinnustöðum.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 379/1996, um asbest.

Félagsmálaráðuneytinu, 30. apríl 2007.

F. h. r.

Ragnhildur Arnljótsdóttir.

Sesselja Árnadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.