Prentað þann 22. des. 2024
408/2019
Reglugerð um bann við álaveiðum.
1. gr. Bann við veiðum.
Reglugerð þessi gildir um bann við veiðum á öllum tegundum áls á Íslandi.
Allar álaveiðar eru óheimilar í sjó, ám og vötnum á Íslandi nema að fengnu sérstöku leyfi frá Fiskistofu til álaveiða til eigin neyslu.
Ef áll veiðist í lax- eða silungsveiði er skylt að sleppa honum. Öll sala og markaðsfærsla á íslenskum ál og álaafurðum er bönnuð.
2. gr. Leyfi til veiða vegna eigin neyslu.
Fiskistofa getur veitt leyfi til takmarkaðra veiða á áli til eigin neyslu þar sem veiðar hafa verið eða verða stundaðar sem búsílag. Leyfi skulu bundin því skilyrði að allur afli sé skráður og að Fiskistofu verði sendar árlega skýrslur um sókn og afla.
Leyfi til álaveiða til eigin neyslu skulu gefin út fyrir hvert almanaksár.
Bannað er að markaðsfæra veiddan afla.
3. gr. Umsóknir.
Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um leyfi til álaveiða til eigin neyslu eigi síðar en 1. mars ár hvert og skal umsóknarfrestur vera til og með 1. apríl ár hvert.
Í umsóknum skal koma fram á hvaða landsvæði áformað er að veiða, hvaða veiðarfæri verði notuð og það magn sem sótt er um leyfi til að veiða.
Með umsóknum skulu fylgja upplýsingar um veiði umsækjanda síðustu 5 árin.
4. gr. Málsmeðferð og útgáfa leyfa.
Fiskistofa annast útgáfu leyfa til veiða á áli til eigin neyslu.
Við afgreiðslu umsókna getur Fiskistofa leitað umsagna Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi veiðifélags ef það er til staðar.
Fiskistofa metur umfang umsókna þegar allar umsóknir hafa borist og getur takmarkað útgáfu leyfa, magn sem má veiða eða takmarkað veiðar með öðrum hætti ef stofnunin telur ástæðu til.
Heimilt er að binda útgáfu leyfa til veiða ákveðnum skilyrðum, m.a. skýrsluskilum um veiðarnar, að veiðar séu takmarkaðar við tiltekið svæði, stærð fiska og gerð veiðarfæra, magn sem heimilt er að veiða, veiðitímabil o.s.frv.
Í leyfi skal koma fram fyrir hvaða tímabil það gildir, hvort það gildi fyrir tiltekið veiðivatn, að skylt sé að skrá alla veiði, þar með talinn afla annarra tegunda en ála, og skila skýrslum um sókn og afla, hvort tiltekin veiðarfæri skuli eða sé heimilt að nota við veiðarnar og hvort takmarkanir séu á hvað megi veiða mikið í hverri veiðiferð eða á tilteknu veiðitímabili.
5. gr. Framkvæmd og tilhögun veiða.
Að álaveiðum skal jafnan þannig staðið að veiðar og gengd lax og silungs spillist eigi.
Við veiðarnar skal leyfishafi fara eftir lögum og stjórnvaldsreglum sem gilda um veiðarnar og einnig ákvæðum sem sett eru um veiðarnar í leyfisbréfi.
6. gr. Stöðvun veiða.
Fiskistofa getur að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar fellt úr gildi öll leyfi til álaveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.
7. gr. Framsal.
Framsal leyfa til álaveiða samkvæmt þessari reglugerð er óheimilt.
8. gr. Skýrsluskil.
Skil á skýrslum um veiði skulu fara fram á því formi sem Fiskistofa gefur út og með þeim hætti sem stofnunin ákveður og birtir upplýsingar um á vefsíðu sinni.
9. gr. Afturköllun leyfa.
Fiskistofa getur afturkallað leyfi sem veitt hefur verið ef Hafrannsóknastofnun telur að nauðsynlegt sé að takmarka veiðar þar sem leyfið gildir eða ef leyfishafi uppfyllir ekki skilyrði eða ef leyfishafi brýtur af sér. Endurnýjun leyfa skal vera háð því að skilað hafi verið skýrslu um veiði og veiðisókn síðasta árs það ár sem veiði var stunduð.
10. gr. Eftirlit.
Fiskistofa hefur eftirlit með að veiðar samkvæmt þessari reglugerð séu í samræmi við lög og reglur og getur gripið til aðgerða ef hún telur ástæðu til t.d. vegna brota á reglugerðinni eða ef skilyrði eru ekki lengur uppfyllt.
11. gr. Viðurlög.
Um viðurlög við brotum á reglugerð þessari fer samkvæmt lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði.
12. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði og öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Á árinu 2019 skal Fiskistofa auglýsa eftir umsóknum um leyfi til álaveiða til eigin neyslu samkvæmt 3. gr. eigi síðar en 1. maí 2019 og skal umsóknarfrestur vera til og með 31. maí 2019.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. apríl 2019.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jóhann Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.