Prentað þann 26. des. 2024
405/2021
Reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.
1. gr. Ákvörðun og markmið.
Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra, að takmarka skólastarf tímabundið eftir því sem hér greinir.
Markmið með reglugerð þessari er að tryggja að sem minnst röskun verði á skólastarfi vegna COVID-19 sjúkdómsins með ýtrustu sóttvarnarsjónarmið að leiðarljósi.
2. gr. Gildissvið.
Takmörkun á skólastarfi tekur gildi frá og með 15. apríl og gildir til og með 14. maí 2021.
Um fjöldatakmörkun í skólastarfi á hverju skólastigi fer eftir ákvæðum reglugerðar þessarar.
Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkun skólastarfs eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.
Takmörkun á skólastarfi tekur til leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, framhaldsskóla, framhaldsfræðslu og háskóla, hvort sem um er að ræða opinbera eða einkarekna skóla. Þá tekur reglugerðin jafnframt til tengdrar starfsemi, svo sem skólabókasafna, frístundaheimila, skólabúða og félagsmiðstöðva, sem og til æskulýðs- og tómstundastarfs.
Um íþróttastarf utan skólastarfs fer samkvæmt reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.
Um verklegt ökunám og flugnám fer eftir reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.
3. gr. Leikskólar.
Leikskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum með 1 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks. Sé ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks skal það nota andlitsgrímur. Starfsfólki ber ekki skylda til að nota andlitsgrímur í samskiptum við leikskólabörn. Ekki skulu vera fleiri en 20 fullorðnir einstaklingar í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli hópa og rýma. Sömu reglur gilda um starfsfólk skólaþjónustu. Fjölda- og nálægðartakmarkanir taka ekki til barna á leikskólaaldri.
Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi leikskóla, svo sem leiksýningar og tónleikar, eru óheimilir fyrir aðra en nemendur og kennara.
Foreldrar og aðstandendur skulu ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til og skulu þá nota andlitsgrímu. Viðvera foreldra sem dvelja inni á leikskóla vegna aðlögunar skal skipulögð þannig að þeir þurfi ekki að nota hreinlætis- eða mataraðstöðu í byggingunni og skulu þeir gæta að minnst 1 metra nálægðartakmörkun jafnt sín á milli sem og gagnvart starfsfólki. Aðeins eitt foreldri fylgi barni í aðlögun og skal það vera sama foreldrið sem fylgir barninu allt aðlögunartímabilið.
Aðrir sem koma inn á leikskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu gæta 1 metra nálægðartakmörkunar, bera andlitsgrímur og gæta sóttvarnaráðstafana.
Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa og sótthreinsa byggingar eftir hvern dag og milli hópa í sama rými.
Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um skipulagt æskulýðs- og tómstundastarf barna á leikskólaaldri og er einu foreldri leikskólabarns heimilt að fylgja því samkvæmt þeim sóttvarnaráðstöfunum sem gilda hverju sinni.
4. gr. Grunnskólar.
Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi, þ.m.t. íþróttastarfi, í skólabyggingum með 1 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks. Sé starfsfólki ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun sín á milli og gagnvart nemendum skal það nota andlitsgrímur. Ekki skulu vera fleiri en 20 starfsmenn í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli hópa og rýma. Sömu reglur gilda um starfsfólk skólaþjónustu og starfsfólk tónlistarskóla.
Nemendur eru undanþegnir 1 metra nálægðartakmörkun og grímuskyldu. Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í hverju rými. Blöndun milli hópa innan skóla er heimil.
Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, sem og í mötuneytum og skólaakstri, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun að því gefnu að starfsfólk noti andlitsgrímu.
Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi grunnskóla, svo sem fyrirlestrar, upplestrarkeppnir o.fl., eru óheimilir fyrir aðra en nemendur og kennara. Foreldrar og aðstandendur skulu ekki koma inn í skólabyggingar nema nauðsyn beri til og skulu þá nota andlitsgrímu.
Aðrir sem koma inn í grunnskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu halda 1 metra takmörkun, bera andlitsgrímur og gæta sóttvarnaráðstafana.
Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa og sótthreinsa byggingar eftir hvern dag og milli hópa í sama rými.
Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um frístundaheimili, félagsmiðstöðvar skólabúðir og skipulagt æskulýðs- og tómstundastarf barna á grunnskólaaldri.
5. gr. Tónlistarskólar.
Tónlistarskólum er heimilt að sinna kennslu með 1 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks og nemenda. Ekki skulu vera fleiri en 20 einstaklingar fæddir 2004 og fyrr í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli hópa, en þegar þeir geta ekki viðhaldið 1 metra nálægðartakmörkun hver gagnvart öðrum eða gagnvart nemendum sem fæddir eru árið 2004 eða fyrr skulu starfsmenn nota andlitsgrímu. Nemendur fæddir 2004 eða fyrr skulu einnig nota andlitsgrímur ef nálægðartakmörkunum verður ekki við komið, sé þess kostur.
Öll tónlistarkennsla barna á leik- og grunnskólaaldri er heimil með sömu takmörkunum og gildir um skólastarf þeirra. Ekki þarf að halda sömu hópaskiptingu og er í grunnskólastarfi.
Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi tónlistarskóla, svo sem tónleikar, þegar um er að ræða nemendur fædda 2005 og síðar eru heimilir og skal framkvæmd vera í samræmi við ákvæði 3. og 4. gr., svo sem hvað varðar aðkomu foreldra eða annarra fullorðinna. Um viðburði tengda starfi eða félagslífi tónlistarskóla þegar um er að ræða eldri nemendur fer eftir ákvæði um sviðslistir í reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.
Foreldrar og aðstandendur skulu ekki koma í tónlistarskóla nema nauðsyn beri til. Þeir skulu gæta að minnst 1 metra nálægðartakmörkun jafnt sín á milli sem og gagnvart starfsfólki og skulu bera andlitsgrímur. Aðrir en starfsmenn sem koma í tónlistarskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu bera andlitsgrímur, gæta að 1 metra nálægðartakmörkunum og gæta sóttvarnaráðstafana.
Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa og sótthreinsa byggingar og búnað eftir hvern dag og milli einstaklinga og hópa í sama rými.
6. gr. Framhaldsskólar.
Skólastarf á framhaldsskólastigi, í lýðskóla, ungmennahúsum og framhaldsfræðslu er heimilt að því tilskildu að nemendur og starfsfólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli og fjöldi nemenda og starfsmanna fari aldrei yfir 50 í hverju rými. Sé ekki unnt að halda 1 metra fjarlægð skulu nemendur og starfsmenn nota andlitsgrímur.
Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum sem og í mötuneytum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun að því gefnu að notuð sé andlitsgríma.
Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nálægðartakmörkun, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu og kennslu nemenda á starfsbrautum, skulu nemendur og kennarar nota andlitsgrímu.
Blöndun nemenda milli hópa er heimil í kennslu og starfsfólki er heimilt að fara á milli rýma. Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu eða náms skulu ekki fara fram í skólabyggingum.
Takmarka skal gestakomur í skólabyggingar. Gestir skulu gæta að minnst 1 metra nálægðartakmörkun jafnt milli sín sem og gagnvart starfsfólki og skulu nota andlitsgrímur.
Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum skulu sótthreinsaðir eftir hverja viðveru nemendahópa. Jafnframt skal sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti a.m.k. einu sinni á dag og leggja áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir.
Um viðburði tengda starfi eða félagslífi í framhaldsskóla fer eftir ákvæði um sviðslistir í reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.
Ákvæði þetta kemur ekki í veg fyrir að nemendur geti dvalið á heimavist.
Mötuneyti er heimilt að starfa samkvæmt þessari grein.
Heimilt er að hafa lestrarrými opin og halda þýðingarmikil próf fyrir allt að 50 einstaklinga í vel loftræstum rýmum, að uppfylltri 1 metra nálægðartakmörkun og ýtrustu sóttvarnaráðstöfunum.
7. gr. Háskólar.
Í öllum byggingum háskóla er skólastarf heimilt að því tilskildu að nemendur og starfsfólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli og fjöldi nemenda og starfsmanna í hverju kennslu- eða lesrými fari ekki yfir 50. Blöndun nemenda milli hópa er heimil. Starfsfólki er heimilt að fara á milli rýma. Sé ekki unnt að halda 1 metra fjarlægð skulu nemendur og starfsmenn nota andlitsgrímur.
Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að notaðar séu andlitsgrímur. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nálægðartakmörkun, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu og klínísku námi, er skólastarf heimilt að gættum sóttvörnum og með því skilyrði að nemendur og kennarar noti andlitsgrímu.
Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu eða náms skulu ekki fara fram í skólabyggingum. Takmarka skal gestakomur í skólabyggingar.
Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum skulu sótthreinsaðir milli nemendahópa og tryggja skal loftun reglulega í rýmum.
Í háskólum skal sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti a.m.k. einu sinni á dag og leggja áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir.
8. gr. Undanþágur.
Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana. Ráðherra getur óskað eftir umsögnum frá sóttvarnalækni og ráðherra sem fer með mennta- og menningarmál um beiðni um undanþágu.
9. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, tekur gildi eftir því sem mælt er fyrir um í 2. gr. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 356/2021, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.