Fara beint í efnið

Prentað þann 10. jan. 2025

Breytingareglugerð

383/2024

Reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð, nr. 112/2012.

1. gr.

53. töluliður 1.2.1. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Lífsferilsgreining: Aðferð við að meta umhverfisáhrif mannvirkis yfir allan vistferil þess, frá vinnslu hráefna til reksturs og að endingu til endanlegrar förgunar. Kolefnislosun mannvirkis er reiknuð á grundvelli lífsferilsgreiningar og mæld sem kg CO2-íg/m²/ári.

2. gr.

Við 3. mgr. 2.4.1. gr. reglugerðarinnar bætist nýr stafliður:

  1. Staðfestingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á að lífsferilsgreining hafi verið gerð fyrir mannvirkið, ef framkvæmdin fellur undir umfangsflokka 2 eða 3 skv. b- og c-lið 1. mgr. 1.3.2. gr.

3. gr.

Við 3.9.2. gr. reglugerðarinnar bætist nýr stafliður:

  1. Staðfestingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á að lífsferilsgreining fyrir mannvirkið hafi verið uppfærð, ef framkvæmdin fellur undir umfangsflokka 2 eða 3 skv. b- og c-lið 1. mgr. 1.3.2. gr.

4. gr.

Fyrirsögn 15.2. kafla reglugerðarinnar orðast svo: Lífsferilsgreining, efnisval og úrgangur.

5. gr.

15.2.1. gr. reglugerðarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn:

15.2.1. gr. Almennt.

Mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að tryggð sé fullnægjandi ending þeirra og einstakra hluta þeirra.

Til mannvirkjagerðar skal eftir því sem aðstæður leyfa velja endurunnið og endurnýtanlegt byggingarefni.

Úrgangi og umframefni vegna mannvirkjagerðar skal haldið í lágmarki.

Gera skal lífsferilsgreiningar vegna nýrra byggingarleyfisskyldra mannvirkja sem falla undir umfangsflokka 2 og 3 skv. b- og c-lið 1. mgr. 1.3.2. gr. og skila með rafrænum hætti til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar til að samræma aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga samkvæmt þessu ákvæði, sbr. einnig 15.2.5. gr. Í leiðbeiningunum skal skilgreina m.a. áhrifaflokka og kerfismörk lífsferilsgreininga, þ.m.t. fasa, byggingarhluta og líftíma greininga.

6. gr.

Við 15.2. kafla reglugerðarinnar bætist ný grein, 15.2.5. gr., sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

15.2.5. gr. Forsendur lífsferilsgreininga.

Niðurstaða lífsferilsgreiningar skal vísa í rekjanleg gögn þar sem fram kemur hvaðan þau eru fengin. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun getur óskað skýringa eiganda ef þetta skilyrði er ekki uppfyllt og hafnað móttöku lífsferilsgreiningar ef skýringar eru ófullnægjandi.

Umhverfisyfirlýsingar á byggingarvörum og byggingarefnum sem notaðar eru skulu vera viðeigandi og í gildi.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 60. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010 öðlast gildi 1. september 2025. Fyrir gildistöku hennar skal metið hvort þörf er á breytingum á ákvæðum hennar í ljósi fenginnar reynslu á aðlögunartíma.

Innviðaráðuneytinu, 22. mars 2024.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Hermann Sæmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.